Færsluflokkur: Bloggar
20.8.2013 | 21:33
"Áfengisbölið verður að hafa sinn gang."
Einu sinni hér um árið, þegar mikil umræða var um áfengismál með tilheyrandi skoðanaskiptum um hin og þessi úrræði og breytingar á því sviði, varð till ofangreind setning: "Áfengisbölið verður að hafa sinn gang".
Miðað við það fyrsta sem komið hefur fram í dag um bókina "Ísland ehf" um það hvernig allt virðist rúlla áfram með litlum breytingum eftir Hrunið, mætti umorða þessa setningu svona: Fésýslubölið verður að hafa sinn gang.
Það er eins og ekkert geti breytt því. Né hugsanlega komið í veg fyrir annað hrun.
![]() |
Allir uppteknir af peningaglæpum og Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.8.2013 | 21:20
Vonandi endast þessi ummæli lengur en þau síðustu.
Fyrir þremur dögum sagði Bjarni Benediktsson að vel mætti segja sem svo að stjórnarflokkarnir væru ekki á einu máli um þjóðaratkvæðismálið og að það væri óútkljáð og óútrætt.
Siðan hafa að minnsta kosti tveir þingmenn Sjallanna lýst sig algerlega ósammála túlkun utanríkisráðherra á stefnunni í málinu.
Nú er svo að sjá að Bjarni segi annað en fyrir þremur dögum.
Vonandi endast þessi nýju ummæli betur en hin fyrri.
En hvort bíta á þau Ragnheiður Ríkarðsdóttir, Vilhjálmur Bjarnason og fleiri Sjálfstæðismenn skal ósagt látið.
![]() |
Stefna flokkanna alltaf verið skýr |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.8.2013 | 20:22
Miðstökkið er lykillinn.
Það er ekki að undra að 17 ár skuli vera síðan síðast var stokkið lengra en 18 metra í þrístökki.
Lengdin samsvarar því að meðallengd hvers stökks sé 6 metrar, en það er ekki neitt áhlaupaverk að stökkva tvö 6 metra stökk á eftir fyrsta stökkinu, enda er það ekki gert.
Fyrsta stökkið hlýtur óhjákvæmlega að verða lengst og allt fram yfir miðja síðustu öld stukku menn eins og Ferreira Da Silva rúmlega 16 metra, en þá var fyrsta stökkið rúmlega 6,50 metrar, miðstökkið tæplega 4,50 og síðasta stökkið um 5,50.
Þegar Vilhjálmur Einarsson var við æfinga í Svíþjóð og stökk 15,83 metra þar, taldi sænski landsliðsþjálfarinn að Vilhjálmur gæti lengt heildarstökkið með því að halda fyrsta og síðasta stökki jafnlengi og fyrr en lengja hins vegar miðstökkið.
Vilhjálmur fór að þessum ráðum, og í stað þess að stökkva firnalangt og hátt fyrsta stökk eins og Da Silva og fylgja eftir með tiltölulega lágu og stuttu miðstökki til að eiga hraða fyrir síðasta stökkið, stökk Vilhjálmur fyrsta stökkið lægra en "flaut" vel áfram til að halda hraðanum og "flotinu" fyrir lengra miðstökk með hárri hnélyftu, sem aftur var nýtt til að fylgja vel eftir í síðasta stökkinu.
Allir bestu þrístökkvarar nútímans stökkva á þennan hátt og forðast að lyfta sér svo hátt til flugs, að hraðinn drepist við að koma niður eftir fyrsta stökkið.
Bretinn Edwards var dæmigerður fyrir þetta þegar hann braut 18 metra múrinn, hraðinn og rytminn í gegnum allt stökkið var jafnvel enn mikilvægara en hrár stökkkraftur.
Það er unun að horfa á góðan þrístökkvara og ég hef alltaf haldið mikið upp á þessa grein.
Það er eins og þeir bestu upphefji þyngdarlögmálið þegar þeir líða áfram eða "fljóta" á ofurhraða í gegnum stökkin.
Vilhjálmur Einarsson nýtti sér vel mikinn hlaupahraða sinn, sem kom vel í ljós þegar hann var eitt sinn fenginn til að hlaupa í skarðið í 4x100 metra boðhlaupi í landskeppni við Dani og lenti á móti fljótasta Dananum, sem öllum til undrunar hafði varla við Vilhjálmi!
Hraðinn nýttist honum hins vegar ekki í þrístökki án atrennu, þar sem stökkkrafturinn sjálfur skiptir mestu.
Þannig átti Jón Pétursson hástökkvari og kúluvarpari, sá ótrúlegi íþróttamaður, Íslandsmetið í þeirri grein og stökk rúmlega 10 metra.
![]() |
Tamgho stökk yfir 18 metra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.8.2013 | 07:09
Vopnin snerust í höndum síðar.
Í fróðlegum frönskum sjónvarpsþáttum sem sýndir voru í Sjónvarpinu í fyrra var dregið skýrt fram hvernig olía og yfirráð yfir henni hefur leikið lykilhlutverk í stjórnmálum heimsins í meira en öld.
Þegar hún var annars vegar urðu hástemmdar yfirlýsingar stórveldanna um frelsi og sjálfsákvörðunarrétt þjóða einskis virði.
Í allmörg skipti virtust afskipti stórveldanna heppnast eins og til dæmis það að steypa Mossadeq í Íran og koma Resa Palevi til valda og að koma Ngo Diem Diem til valda í Suður-Vietnam.
Í bæði skiptin reyndust þetta Phyrrosarsigrar þar sem þeir, sem studdir voru til valda urðu gerspilltir.
Palevi tókst að slá svo mjög ryki í augu Bandaríkjamanna að tímaritið Time var með stóra forsíðugrein um það hvernig Íranskeisari væri að gera land sitt að stórveldi vestræns lýðræðis í þeim heimshluta.
Keisarinn var að lokum kominn með yfirgengilegt stórmennskubrjálæði. Það leiddi til óhjákvæmilegrar byltingar sem kom CIA algerlega á óvart.
Bandaríkjamenn neyddust sjálfir til að steypa Ngo Diem Diem af stóli og töpuðu að lokum Vietnamstyrjöldinni.
Hik Obamastjórnarinnar í málefnum Sýrlands og fleiri ríkja við austanvert Miðjarðarhaf ræðst af því að þrátt fyrir allt hafa menn fyrir framan sig dæmi um misheppnaða íhlutun í málefni fjarlægra landa.
![]() |
|
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.8.2013 | 21:34
Lutz Long ráðlagði Jesse Owens.
Langstökkskeppnin á Ólympíuleikunum í Berlín 1936 var dramatísk og settu tveir bestu stökkvararnir, Lutz Long og Jesse Owens hvað eftir annað Ólympíumet í henni.
Þetta var í ofanálag ekki einasta hörku keppni milli hins hvíta Þjóðverja Lutz Long og hins dökka Bandaríkjamanns Jesse Owens, heldur þurfti Long að bera þann kross að þurfa að sanna yfirburði hins aríska kynstofns undir vökulum augum Adolfs Hitlers.
Owens átti í erfiðleikum í undankeppninni og Long gaf honum ábendingar sem nýttust Owens vel til að omast örugglega í úrslit og stökkva síðan til sigurs 8,06 metra og setja nýtt Ólympíumet, aðeins sjö sentimetrum lakara en heimsmet hans.
Var drengskap Long við brugðið og urðu hann og Owens miklir vinir, rétt eins og þeir Max Schmeling og Joe Louis urðu perluvinir eftir tvö einvígi í hnefaleikahringnum 1936 og 1938, en síðari bardaginn var hápólitískur vegna yfirvofandi heimsstyrjaldar og líkt við einvígi einræðisins og lýðræðisins.
Long og Owens leiddust frá verðlaunapallinum og Owens sagði síðar, að allir verðlaunapeningar hans hefðu verið lítils virði miðað við þá 24ra karata vináttu sem Long sýndi honum.
Long féll í stríðinu og fékk síðar sérstök heiðursverðlaun fyrir drengskap sinn.
Ég þekki ekki reglur í golfi út í hörgul og finnst það sérkennilegt ef fólk má ekki tala um það sem það er að gera við samherja eða keppinauta.
En séu reglurnar svona verður að sjálfsögðu að fara eftir þeim.
![]() |
Svekktar Keiliskonur gengu á dyr |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.8.2013 | 15:45
Völlurinn er á Skildinganesmelum.
30% Reykjavíkurflugvallar er í Vatnsmýri en 70% er á Skildinganesmelum og í Skerjafirði. Þungamiðja vallarins, þar sem brautir hans skerast, er á Skildinganesmelum.
Ef kenna á völlinn við einhvert svæði, eru það Skildinganesmelar.
Þetta er enn eitt dæmið um það hve miklu það skiptir þegar annar aðilinn í deilu getur skekkt vígstöðuna með því að ráða þeim tækjum, í þessu tilfelli orðum, sem notuð eru í deilunni.
Ef ég ætti að fara í keppni við einhvern í íþrótt og viðfangsmaður minn fengi því ráðið að það yrði körfubolti eða sund, væri leikurinn unninn fyrir hann, því að ég er bæði lélegasti körfuboltamaður á Íslandi og lélegasti sundmaður á Íslandi.
Ég ætti miklu meiri möguleika í hlaupum eða knattspyrnu.
Vallarandstæðingum hentar vel að nota orðið Vatnsmýri af því að sá hluti vallarins er næstur miðbænum.
Það hentar líka vallarandstæðingum að notuð sé mynd, sem er tekin þannig að völlurinn sé í forgrunni en borgin í baksýn. Frá því sjónarhorni sýnist völlurinn margfalt stærri í hlutfalli við byggðina en hann raunverulega er.
Völlurinn tekur um aðeins 7% af flatarmáli höfuðborgarsvæðisins VESTAN ELLIÐAÁA (flatarmáli hins gamla Seltjarnarness) eða álíka mikið rými og Reykjavíkurhöfn öll, sem engum dettur í hug að leggja niður og reisa íbúðabyggð í staðinn.
Á tímum flokksblaðanna hér um árið er sagt að ljósmyndarar hafi stundum spurt þegar þeir áttu að taka mynd af fundi eða samkomu: "Á ég að hafa marga eða fáa á fundinum?"
Þetta hefðu vallarvinir átt að hafa í huga þegar þeir völdu mynd af vellinum, en ekki til þess að gera hann of stóran eða of lítinn, heldur séðan frá því sjónarhorni þar sem stærðarhlutföllin eru sem réttust.
![]() |
Þetta gerist hraðar en við þorðum að vona |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
19.8.2013 | 10:11
Getur veikburða fjölmiðlun ráðið við þetta mál ?
Ein af afleiðingum Hrunsins var sú að fjölmiðlun á Íslandi veiktist til muna við það að fækka varð fjölmiðlafólki stórlega og að margir þeirra, sem sagt var upp og fóru af þeim vettvengi voru meðal öflugasta fjölmiðlafólksins.
Í sumum tilfellum var þetta þrautreynda og góða fjölmiðlafólk vel launað og vinnuveitendur þess töldu sig neydda til að ráða mun lakar launað fólk í staðinn, jafnvel tvo fyrir einn, sem þó var hæpið að dygði til að vinna upp þá færni, þekkingu og reynslu sem hinn brottrekni hafði.
Fyrirhuguð sjöföldun laxeldis við Ísland kallar á vandaða og ítarlega rannsóknarblaðamennsku sem leiðir fram öll helstu atriði og álitamál á þessu sviði.
Er það rétt að hundrað laxveiðiám hafi verið lokað í Noregi vegna áhrifa laxeldis? Af hverju var þeim lokað? Hvert er virði hverrar slikrar ár? Hvert er virði laxeldisins? Hvert rennur ágóðinn?
Er höfð í heiðri sú meginregla að ef vafi leikur á um eitthvað á þessu sviði, skuli náttúran látin njóta vafans?
Hingað til hefur því miður reglan hér á landi verið sú að náttúran njóti ekki vafans heldur þveröfugt.
Á tímabili var í ráði að skipta íslenska kúastofninum út fyrir mun afurðameiri norskrar kýr.
Það leit vel út í margra augum en niðurstaðan var sú að gæðin skiptu meira máli en magnið og að íslenska kýrin fengi að vera áfram einráð á þessu landi. Ég er í hópi þeirra sem fannst það góð lausn.
Er sjöföld aukning, tíföld aukning eða þaðan af meiri aukning laxeldis í sjókvíum stórmál eða smámál? Getur veikburða íslensk fjölmiðlun ráðið við að upplýsa þetta allt?
![]() |
Stóraukið laxeldi hér á landi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.8.2013 | 20:17
Hræðslan við þjóðina.
Ef forseti Íslands hefði ekki virkjað 26. grein stjórnarskrárinnar hefði aðeins ein þjóðaratkvæðagreiðsla farið fram á lýðveldistímanum, hinn 20. október 2011.
Í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu var mikill meirihluti fylgjandi nýrri stjórnarskrá í samræmi við tillögur stjórnlagaráðs og líka sérstaklega þeim línum, sem þar voru lagðar um frumkvæði kjósenda, beint lýðræði og þjóðaratkvæðagreiðslur.
Ef slík ákvæði hefðu verið í stjórnarskrá hefði þjóðaratkvæðagreiðsla orðið um aðild að EES og Kárahnjúkavirkjun, auk þjóðaratkvæðagreiðslna um Icesave.
Ég hef oft bent á þá staðreynd að allt frá 1959 hefur einn og sami þverpólitíski meirihluti verið á þingi, það er, sá meirihluti þingmanna sem á kosningakvöldi og kosninganótt geta setið rólegir og horft á kosningasjónvarps, þess fullvissir að vera í svonefndum "öruggum sætum".
Svipaður meirihluti þingmanna úr öllum flokkum hefur komið í veg og kemur enn í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslur aftur og aftur í gegnum tíðina.
Þetta er ríkjandi stjórnarmeirihluti í hvert sinn, þannig að flokkarnir hafa skipst á um að ræna þjóðina rétti sínum til að úrskurða beint um meginmál áratugum saman.
Ríkjandi stjórnarmeirihlutar mismunandi flokka komu í veg fyrir atkvæðagreiðslu um EES, í veg fyrir atkvæðagreiðslu um Kárahnjúkavirkjun, í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort hefja skyldi aðildarviðræður við ESB og nú í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort halda skuli þeim viðræðum áfram.
Sömu flokkar og vildu ekki þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við ESB, vilja nú þjóðaratkvæði um það hvort halda eigi þeim áfram.
Og sömu flokkar og vildu þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við ESB, vilja nú ekki þjóðaratkvæði um það hvort hætta eigi þeim viðræðum.
Hræðslan við þjóðina, sem skín út úr þessari hegðun stjórnmálamanna, fer ekki eftir flokkum, hún virðist þverpólitísk.
Ég er hættur að hafa tölu á þeim atriðum til aukins lýðræðis og réttindabóta á ýmsum sviðum, sem ég hef bent á að stjórnarskrá byggð á tillögum stjórnlagaráðs myndi hafa fært þjóðinni og gæti enn fært henni ef meirihluti þingmanna væri ekki svona logandi hræddur um sitt skinn og sín völd.
Því að það er ekki hægt að finna neina aðra ástæðu en hræðslu við kjósendur hvernig ævinlega tekst að koma í veg fyrir að þjóðin frá að segja sitt álit.
Hræsnin er líka mikil. Á hátíðarstundum er gumað af lýðræði, stéttleysi og góðum stjórnarháttum.
En hið raunverulega ástand er fólgið í samtryggingu stjórnmálamanna um að hleypa fólkinu ekki að.
Í sumum stjórnarskrám er beinlínis tekið fram að allt vald komi og eigi að koma frá þjóðinni.
En hér á landi virðist flest reynt til að koma í veg fyrir að vilji þjóðarinnar komi beint fram.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)
18.8.2013 | 13:47
Þingvellir og Skálholt, helgistaðir að öllu leyti ?
Í þjóðarvitund Íslendinga hafa Þingvellir og Skálholt haft á sér ímynd, sem lýst er með orðunum "heilög vé" eða "helgur staður." Tvær helstu stofnanir og örlagavaldar Íslendinga um aldir, Alþingi og Þjóðkirkjan, eiga þar hlut að máli.
Á Þingvöllum var Alþingi stofnað og kristni lögtekin og í kjölfarið komu biskupsstólar í Skálholti og á Hólum, allt staðir, sem sveipaðir eru mikilli helgi.
Edvard bróðir minn orðaði það við mig nýlega, að það sem truflaði þessa helgi, þegar komið væri á Þingvelli, væru þær misgerðir, ranglæti og illvirki sem viðgengist hefðu þar um aldir, og nefndi Drekkingarhyl sem dæmi um það.
Skömmin vegna þessara misgerða hefði ekki verið afmáð heldur henni vikið til hliðar og þeim mun meira lyft undir helgiljómann einn og ótruflaðan og haldnar miklar hátíðir í því skyni.
Það væri út af fyrir sig ágætt, en hins vegar væri ekki hægt að njóta staðarins til fulls fyrr en gerðar hefðu verið ráðstafnir til þess að rétta hlut þeirra sem misgert var við í eitt skipti fyrir öll.
Þessar misgerðir og illvirki myndu myndu setja ljótan svartan blett á Þingvelli þangað til slíkt hefði verið gert.
Þegar ég sat í gærkvöldi og naut Ragnheiðar, óperu Gunnars Þórðarsonar og Friðriks Erlingssonar í dómkirkjunni í Skálholti á sjálfum vettvangi einhvers mesta mannlega harmleiks íslenskrar sögu, gerði ég mér grein fyrir því að svipað á við um þann helgistað og Þingvelli.
Það má kannski segja að flutningur þessarar mögnuðu óperu, sem dregur svo vel fram hörmuleg örlög þeirra, sem þar urðu leiksoppar í harmleiknum, sé athöfn af þessu tagi, hvað Skálholt varðar.
En hún er verk einstaklinga en ekki þeirrar stofnunar, Þjóðkirkjunnar, sem þarf að gæta að sögu sinni og huga að kröfum kenningar Krists um réttlæti og fyrirgefningu.
Þetta 17. aldar fólk varð að fórnarlömbum þeirra reglna, sem látnar voru gilda í íslensku samfélagi í nafni kristinnar trúar, sem í anda meistararns frá Nazaret metur skilning, umburðarlyndi og fyrirgefningu mikils, en snerist að mörgu leyti upp í andhverfu sína í meðförum valdhafa og kirkju.
Víða erlendis hafa verið haldnar athafnir á stöðum þar sem illvirki voru framin, misgert við fólk og harmleikir hafa gerst. Slíkar minningarathafnir eru haldnar jafnvel með reglulegu millibili.
Um fáa staði á Íslandi á slíkt betur við en Drekkingarhyl þar sem misrétti, ranglæti, ofbeldi og kúgun var beitt gegn varnarlausu fólki í nafni trúar, laga og réttar.
Svartur blettur þess staðar æpir á stórbrotið umhverfið og tign Þingvalla sem helsta helgistaðar þjóðarinnar.
Er ekki kominn tími til að helstu stofnanir íslensks samfélags í gegnum aldirnar, Alþingi og Þjóðkirkjan, standi að slíkum athöfnum á Þingvöllum, Skálholti og jafnvel Hólum, þar sem réttur er hlutur þeirra, sem misgert var við, beðið fyrir þeim, sem áttu í hlut og beðist fyrirgefningar fyrir hönd þjóðar, þings og kirkju á því illa, sem þar fór fram, ekki síður en að hampa því sem vel var gert ?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.8.2013 | 17:20
Fólk fer ekkert inn á hálendið !
Í rökræðu um Fossavirkjun (Norðlingaölduveitu) undanfarin dægur er því haldið fram að aðeins 100 til 200 manns myndu vilja sjá fossasvæðið í Efri-Þjórsá fjóra tíma á dag í nokkrar vikur, af því að það sé svo óaðgengilegt og að vegna þess hve hálendið sé óaðgengilegt og langt í burtu sé sáralítil umferð ferðamanna þar !
Talan 100 til 200 yfir sumarið samsvarar um tveimur ferðamönnum að meðaltali á dag á sama tíma sem þrjú þúsund sinnum fleiri ferðamenn vilja sjá Gullfoss.
Eru þó þrír stórfossar í Efri-Þjórsá og tveir á stærð við Gullfoss, auk smærri fossa í hliðarám. En þetta sýnir mat virkjanamanna á náttúruperlum Íslands. Að þeirra dómi er fossadýrðin í Efri-Þjórsá nokkur þúsund sinnum minna virði en Gullfoss einn.
Nú stefnir í að yfir 100 þúsund manns fari í Landmannalaugar í sumar og eru þær þó lengra frá Reykjavík en Gljúfurleitafoss, sem er í suðurenda Efri-Þjórsár.
Og raunar myndi verða til afar fjölbreytt ferðamannasvæði með því að bæta Fossadýrðinni sem ferðamannaparadís við Friðland að Fjallabaki.
Aðeins þyrfti að leggja um 10 kílómetra langa framlengingu malbikaðs vegar að Búðarhálsvirkjun til þess að opna aðgengi fyrir alla bíla að Gljúfurleitafossi og síðan aðeins 15 kílómetra viðbót að Dynk og Hvanngilja/Kjálkaversfossi.
En faghópur um Fossavirkjun taldi að svæðið væri lítils virði af því að svo fáir hefðu komið þar en virkjunina hins vegar mikils virði, þótt engin virkjun væri komin !
Líklega komu 100 til 200 manns árlega í mesta lagi í Landmannalaugar um miðja síðustu öld og virðast virkjanamenn miða við það að sömu samgönguaðstæður ríki nú og þá.
Og vissulega hefur verið séð til þess að gera nákvæmlega ekkert til að búa til aðgengi að Efri-Þjórsá og beita markvissri þöggun um það.
Á sama tíma sem rætt er um að dreifa þurfi fjölgandi ferðamönnum betur um landið er ákaft er sótt í að eyðileggja með virkjunum þær náttúruperlur, sem til greina koma í því efni.
![]() |
Um 80 þúsund gestir í Landmannalaugar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)