Hlýðið, annars skulið þið hafa verra af!

Wilson Bandaríkjaforseti var hvatamaður að stofnun Þjóðabandalagsins svonefnda eftir Fyrri heimsstyrjöldina. Hugsjónin var sú að stofna samtök þjóða til varnar friði í heiminum í tengslum við Versalasamningana, en valdaskipti í Bandaríkjunum þar sem einangrunarsinnum óx ásmegin, komu síðan í veg fyrir að Kanarnir gengju í bandalagið. 

Þegar aðrar valdamestu þjóðir heims, svo sem Þýskaland og Sovétríkin, gengu í og úr Þjóðabandalaginu eins og jójó, -  og þesssu bandalagi mistókst að koma í veg fyrir það með viðskiptaþvingunum að koma í veg fyrir að Ítalir legðu Abbesíníu (Eþíópu) undir sig né heldur kæmu í veg fyrir að Seinni heimsstyrjöldin brytist út, voru dagar þess taldir. 

F.D. Roosevelt Bandaríkjaforseti var mikill áhugamaður um að koma á fót öflugri alþjóðastofnun en Þjóðabandalagið hafði verið, til að vinna að friði í heiminum, og í þetta sinn gengu flestar þjóðir heims, bæði öflugustu ríkin sem hin smæstu, fljótlega í þessi samtök. 

Til að styðja við þessa mikilvægu alþjóðlegu stofnun lögðu Bandaríkin hennni til lóð á besta stað í New York, sem einnig sýndi það táknrænt hvaða ríki væri öflugasta í heimi og í fararbroddi í mannréttindamálum og lýðræði. 

Í tengslum við Sþ var komið á fót víðtæku samstarfi þjóða heims um alþjóðlega sáttmála og stofnanir á ótal sviðum, svo sem mannréttindasáttmála, barnasáttmála, hafréttarsáttmála, þróunaraðstoð, alþjóðabanka, alþjóða gjaldeyrissjóðinn, alþjóða flugmála- og alþjóða siglingamálastofnun, alþjóðadómstol o.s.frv o.s.frv. 

Bandaríkin voru í forystu um stofnun NATO til þess að tryggja varnir Evrópuríkja gegn útþenslu kommúnismans, að vísu með hótun um að beita kjarnorkuvopnum ef með þyrfti, en þá réðu Bandaríkin ein þjóða yfir gereyðingarvopnum. 

Undir fána Sameinuðu þjóðanna var komið á herliði sem Bandaríkjamenn stýrðu til að koma Suður-Kóreu til hjálpar 1950 þegar Norður-Kóremenn gerðu innrás í landið. 

Auk þessa veittu Bandaríkjamenn Evrópuríkjum, sem voru í sárum eftir heimsstyrjöldina, hina svonefndu Marshallaðstoð, sem spornaði við hættunni á því að Sovétríkin færðu áhrifa- eða valdasvæði sitt yfir ríki í Vestur-Evrópu. 

Þar að auki varð þessi aðstoð til þess að margborga sig fyrir báða aðila, veitanda og þiggjanda, í aukningu milliríkjaverslunar og endurreisn eftir stríðið. 

En nú er önnur öldin. 

Kominn er til valda í Bandaríkjunum forseti, sem ætlar að umbylta þessu öllu, rifta samningum eða breyta þeim með hótunum og lama Sameinuðu þjóðirnar í einhliða átaki til þess að "endurreisa mátt og dýrð Ameríku." 

Þar að auki verði hverju því ríki eða stofnun sem ekki hlýði Bandaríkjunum refsað harðlega. 

Kjörorðið er: "Ameríka ofar öllu!" (America first) Sem þýðir raunar ekki Ameríka, heldur aðeins Bandaríkin, því að bæði Kanada og Mexíkó eru farin að finna fyrir þessari stefnu og virðast ekki vera þess verð af hálfu Trump að kallast Ameríkuríki. 

Kjörorð Trumps er raunar ekki ný hugsun, því að mikill valdamamður stórveldis á síðustu öld hóf kjörorðið "Deutschland uber alles!" upp í æðsta veldi með alkunnum afleiðingum. 

Trump segir í jólaboðskap sínum, að tilefni framkvæmdar hótunar hans gagnvart Sameinuðu þjóðunum og einstökum ríkjum þeirra hafi verið kærkomin. 

Sem þýðir að þetta er bara byrjunin, og því fleiri tilfelli óhlýðni, sem hægt verði að finna, því fleiri og kærkomnari verði refsningarnar. 


mbl.is Skerða framlög til Sþ um 258 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Oft ómögulegt að spá fyrirfram um gildi myndefnis.

Sagan ljósmynda- og kvikmyndagerðar geymir ótal dæmi um að að ómetanlegt myndefni hafi glatast, vegna þess hve erfitt var að sjá það fyrir, hvert gildi þess er. 

Dæmi um það er myndbandið sem sýnir Björk Guðmundsdóttur 11 ára lesa söguna um Jesúbarnið. 

Árið 1976 var ómögulegt að sjá fyrir að milljónir manna víða um heim myndu horfa á þetta myndskeið 42 árum síðar. 

Dæmin er mýmörg. Ljósmynd af kornungum dreng á Þingeyri fyrir um tæpum 70 árum með þáverandi bíl forseta Íslands í baksýn. 

Útilokað var að sjá það fyrir að síðar myndi þessi drengur gegna því embætti í 20 ár. 

Þegar sérstakur sjónvarpsþáttur með nafninu Áramótaskaup var sýndur á Gamlárskvöld á fyrsta ári íslensks sjónvarps voru stór og fyrirferðarmikil myndböndin afar dýr. 

Og fjárráðin voru svo þröng, að í ferð minni og Hauks Heiðars Ingólfssonar fyrir hönd Sjónvarpsins til Helsinki til þátttöku i norrænun sjónvarpsþætti var of dýrt að hringja heim, og þess vegna voru jólakort notuð til samskipta. 

Myndbandið með fyrsta Áramótaskaupinu var því notað með því að taka annað efni yfir Áramótaskaupið. 

Enginn gat þá séð fyrir að þessi þáttur yrði langlífasta og vinsælasta árlega sjónvarpsefnið og myndi breyta hátíðarhaldi og hegðun heillar þjóðar á hverju gamlárskvöldi. 

Fyrsta kvölddagskráin, fyrsti fréttatíminn, fyrsti skemmtiþátturinn o. s. frv. eru varðveitt en fyrsta Áramótaskaupið er því ekki til varðveitt eins og hin síðari. En það var aðeins eitt Áramótaskaup sem var fyrst, - ekkert hinna. 

Oft er horft of skammt fram í tímann við val á því hvað eigi að varðveita og hvað ekki. 

Algengast er að varðveita aðeins það efni, sem strax er sýnt, en "henda" því myndefni, sem gengur af. 

En þá gleymist oft að einmitt það sem gekk af, getur orðið merkilegasta efnið löngu síðar. 

Áður hefur verið minnst á útþurrkun frægs sjónvarpsþáttar með Halldóri Laxness og þremur öðrum skáldum, og þegar frá leið, sá ég eftir því að hafa verið sofandi yfir þeim möguleika á þessum tíma, að bjarga prívat og persónulega því ódýra segulbandi, sem geymdi dagskrána í mánuð eftir þáttinn. 

Það er alltaf tekin áhætta með því að varðveita efni, sem ekki lítur út fyrir að vera mikils virði. 

Eftir snjóflóðið á Flateyri ákvað ég að geyma í kjallarakompu undir kjallara Útvarpshússins allar 55 myndbandsspólurnar sem teknar voru fyrr vestan hina skelfilegu daga haustið 1995. 

Aldrei er að vita að eftir hálfa öld muni menn sjá þar myndbrot, sem enginn áttar sig enn á að verði merkilegt, svo sem var um myndina af litlum dreng fyrir framan bíl á Þingeyri fyrir tæpum 70 árum. 

 

 

 

 

 


mbl.is Milljónir horfðu á Björk um jólin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hundruða milljóna hálkuslysakostnaður á ári. Brenglað bókhald.

Það er dýrt fyrir ríki og borg að eyða hálku á gangstéttum á veturna, en sá kostnaður annar, sem lendir á hinum hinir slösuðu og á heilbrigðiskerfinu, sést ekki á reikningum vegna snjómoksturs og hálkueyðingar. 

Um hann gildir stundum svipuð röksemdafærsla og í þjóðsögunni af karlinum sem sat með stóran poka á bakinu á hestbaki og sagði: "Hesturinn ber ekki það sem ég ber."

Allt of mikið er um það að einblínt sé á einstakar "skúffur" í bókhaldinu á mörgum sviðum, bæði hjá einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum.  

Þannig hefur það verið landlægt hér á landi lengi að taka aðeins bensín- eða olíueyðslu með í reikninginn þegar notaður er eigin bíll. 

Meðaleyðsla bíla er nú komin niður fyrir 10 lítra á hundraðið, eða 20 krónur á ekinn kílómetra.

Uppgefnar eyðslutölur framleiðenda eru yfirleitt töluvert lægri en raunhæf eyðsla við íslenskar aðstæður. 

Kuldi og færð spila þar stórt hlutverk, og bíll á grófum snjóhjólbörðum í frosti og snjó getur eytt allt að 70 prósent meira en framleiðandinn gefur upp. 

Þar að auki vilja gleymast aðrir útgjaldaliðir en eyðsla á orkugjöfum, sem eru í réttu hlutfalli við ekna vegalengd eins og slit á hjólbörðum og öðrum slitflötum bilsins, reglubundnar skoðanir, viðhald, fall á endursöluverði vegna kílómetratölunnar og verðfall á bílnum sjálfum vegna aldurs. 

Tryggingar, opinber gjöld, fjármagnskostnaður og annar fastakostnaður verður heldur ekki umflúinn. 

Óhætt er að margfalda orkukostnaðinn með 2,5 til að fá út hlaupandi kostnað, og margfalda heildarkostnaðinn miðað við 15 þúsund kílómetra á ári með 5 til að fá út hlaupandi kostnað , þ.e. það verð sem einkabílar í opinberum ferðum teljast kosta, u.þ.b. 100 krónur á kílómetrann. 

Og hér er aðeins talað um meðalstóran bíl. Þegar gluggað er í erlendar fræðibækur um kostnað við að reka bíla kemur óþyrmilega i ljós hve stærð og þyngd og verð stórhækka eftir því sem innkaupsverð bíla verður hærra. 


mbl.is Mikið um hálkuslys
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. desember 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband