Einstæð tekjuskattfríðindi nægja sem sagt ekki?

Nú er það í fréttum, að íslenska ríkið mun þegar upp verður staðið borga fimm milljarða króna með kísilverksmiðjunni á Bakka við Húsavík í formi sértækra framlaga til samgöngumannvirkja og fleira. 

Sú verksmiðja mun þó ekki fá nema lítið brot af þeim fríðindum sem Alcoa nýtur vegna álversins í Reyðarfirði, en slík fríðindi eru aldeilis dæmalaus. 

Í orkusamningnum við Alcoa fékk fyrirtækið því framgengt að sett yrði ákvæði, sem bannar íslenska ríkinu að setja þak á tilfærslur taps eða gróða á milli dótturfyrirtækjanna og móðurfélagsins. 

Með þessu sérstaka fríðindaákvæði var fjárveitingavald Alþingis í raun tekið af þvi hvað þetta varðar í heil 40 ár. 

Af þessu leiðir að með bókhaldstilfærslum og bókhaldsbrellum er Alcoa gert mögulegt að verða tekjuskattlaust og getur sú upphæð numið meira en tíu milljörðum á ári. 

Fimm milljarðarnir á Bakka fela í sér eingreiðslu, sem er aðeins lítið brot af þeim tugum eða jafnvel hundruðum milljarða sem Alcoa getur fengið á 40 ára gildistíma samingsins við Landsvirkjun og íslenska ríkið. 

Tveir Bakkar á ári ef svo ber undir. 


mbl.is Sex sagt upp hjá Fjarðaáli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árangur Reykjavíkurfundarins að fjara út?

Höfði er merkur sögustaður sem við Íslendingar erum stoltir af, því að sagnfræðingar hafa varpað ljósi á að þar hófst sú þíða í samskiptum risaveldanna sem endaði með samningnum 1987, endalokum Kalda stríðsins og trausti á milli NATO og Rússlands sem entist fram undir aldamót. 

En síðan hefur hallað undan fæti eftir að fjaraði undan heiðursmannasamkomulagi Bakers og Bush eldri við Gorbatsjof um hemil á útþenslu NATO upp í hlaðvarpa Rússlands. 

Nú er að hefjast nýr kafli í samskiptum kjarnorkuveldanna, sem getur keyrt fáránlegt og glæpsamlegt eldflaugakapphlaup af stað af nýju. 

Úr ákveðnum orðum Pútíns má að vísu lesa, að hann vonist til að hægt verði að fresta stjórnlausu kapphlaupi fram yfir næstu forsetakosningar í Bandaríkjunum, en þar er ekki á vísan að róa. 

MAD (GAGA) er svo gríðarleg ógn við tilvist mannkynsins og allt líf á jörðinni, að allt bliknar í samanburði við það. 

Nú fer um mann gamalkunnur hrollur frá árinu 1949 þegar Sovétríkin sprengdu fyrstu kjarnorkusprengju sína. 

Síðuhafi man vel eftir þeim ótta sem læstist um heimsbyggðina á því ári stofnunar NATO og loka loftbrúarinnar til Berlínar. 

Æ síðan hefur draumurinn um tryggan frið verið efst í huga. Nú er spurning hvort kynslóðin sem man atburðina í upphafi Kalda stríðsins mun lifa þann dag sem unninn verður bugur á þessari óþolandi ógn. 


mbl.is Rússar rifta kjarnorkuvopnasamkomulagi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vigdísi við Hús Vigdísar, Helga við Þjóðleikhúsið og Björk við Hörpuna?

Þessi pistill er nokkurs konar framhald af þeim næsta á undan vegna neikvæðrar umræðu um listaverk á almannafæri, úti seam inni, og margir nöldra yfir sem óþarfa og bruðli. 

Gegn slíku sjónarmiði má tefla öðru sjónarmiði, sem sé því, að í svölu veðurlagi með löngu skammdegi á hala veraldar sé sérstök þörf á einhverju, sem léttir lund og er hluti í þeirri nauðsyn að kunna að gera sér dagamun. 

Perlan er gott dæmi um slikt þótt mikið væri nöldrað yfir kostnaðinum við hana og framúrkeyrslu í kostnaði. 

Stærsti jólasveinn í heimi í smáþorpi á Finnmörku í Noregi er dæmi um sérviskulegt en skemmtilegt mannvirki, sem léttir lund vegfarenda og verður þeim minnisstætt. 

Áður en lagt verður í að reisa pálmatré í stækkuðu Vogahverfi hlýtur það að verða aðalatriðið hvort þetta uppátæki sé framkvæmanlegt úr því að í ljós hefur komið að hliðstæð hugmynd mistókst í Perlunni. 

Hér á síðunni hefur áður verið minnst á skemmtilega og eftirminnilega styttu í Þrándheimi, sem stendur á gangstétt við eina af aðalgötum borgarinnar. 

Hún er af Hjalmari Andersen, "Hjallis", sem var besti skautahlaupari heims í kringum 1950 og skærasta stjarnan á Vetrarólympíuleikunum í Oslá 1952. 

Þarna er hann frambeygður í hlaupastellingunni með aðra hönd límda við bakið en hina i sveiflu, og bæði staðurinn og stellingin gera þessa styttu ógleymanlega. 

Hér heima má nefna þrjú nöfn Íslendinga, sem hafa hlotið heimsfrægð og gæti verið skemmtilegt að gera myndastyttur af á viðeigandi stöðum. 

Stytta af Helga Tómassyni ballettdansara og ballettmeistara í dansarastellingu mætti heilsa leikhúsgestum við anddyri Þjóðleikhússins, og Björk gæti verið í svansbúningi sínum við Tjörnina. 

Stytta af Vigdísi Finnbogadóttur með íslenska orðabók í hönd gæti verið nálægt Húsi Vigdísar. 


mbl.is Raunverulegt draumalandslag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. febrúar 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband