"Fljúgandi furðuhlutur" fyrr á tíð. Af hverju rann bunga flóans ekki út úr flóanum?

Þegar þessi pistill er skrifaður, er horft út um stofuglugga yfir Faxaflóa, spegilsléttan. 

Í tæru veðri sést Snæfellsjökull vel, en þó ekki neðsti hluti fjallsins. DSC08511

Ef farið er niður að sjó við Kollafjörð, munar strax um 65 metra lækkun; minna sést af neðri hluta jökulsins. 

Ef gengið er á Esjuna sést jökullinn hins vegar allur, alveg niður í fjöru við Arnarstapa. 

Við nútímamenn vitum skýringuna: Jörðin er hnöttur og það er bunga á hafinu, bunga á Faxaflóanum.  

Ef einhver hefði fært þetta í orð við þá, sem bjuggu við Kollafjörð á dögum Ingólfs Arnarsonar eða Stjörnu-Odda, og sagt að fyrrnefnt fyrirbrigði hlyti að sýna fram á hnattlögun jarðar, hefði sá hinn sami verið talinn geggjaður. 

Augljóst væri að það gæti ekki verið bunga á Faxaflóa, því að þá myndi vatnið í bungunni renna inn á strendurnar allt í kringum flóann þangað til hann væri orðinn alveg sléttur og flatur. 

En hvers vegna að vera að nefna þetta í kvöld?

Jú, vegna þess að sá sem pikkar niður þennan pistil sá óútskýranlega sjón úr flugvél sinni fyrir um 40 árum, þegar hann var á flugi í myrkri úr norðaustri yfir Hvalfjarðarströnd í aðflugi til Reykjavíkur. 

Birtist þá allt í einu aðeins hærra á lofti til vinstri risastórt hnöttótt og upplýst fyrirbæri, sem helst líktist risastórum framenda B-29 sprengjuflugvélar úr Seinni heimsstyrjöldinni. 

Nema að það, sem líktist risastórum margglerja glugganum á B-29, var margfalt stærra en nokkur framendi jarðneskrar flugvélar, og enginn skrokkur eða vængur sást skaga út úr þessu uppljómaða flykki.

Frá þeim stað, sem þessi sýn sást, sást inn til Reykjavíkur, svo að næsta skref var að kalla upp aðflugsstjórn og flugturn til að grennslast fyrir um það, hvort eitthvað annað fljúgandi fyrirbæri en flugvélin TF-FRÚ sæist á aðflugsratsjá. 

Svarið var neikvætt, og sðspurðir flugumferðarstjórar sáu alls ekki neitt annað fyrirbæri en FRÚna á lofti. 

Í þessum svifum hvarf furðuhluturinn inn í skýjaslæðu og málið varð þar með sjálfdautt. 

Nema, að síðan þetta gerðist, þarf ekki annað við skrif þessa pistils en að lygna augunum og horfa til vinstri til að sjá í minningunni þessa ógleymanlegu sjón. 

Horfa síðan yfir flóann og hugsa til þess, hvort einhver hafi haft orð á því hvernig hægt væri að sjá bunguna á Faxaflóa á öldum áður úr mismunandi hæð, og verið talinn snarklikkaður.  

 


mbl.is „Fljúgandi furðuhlutir“ í myndböndum Pentagon
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er hjarðónæmi eftirsóknarvert? 245 á milljón íbúa látnir í Svíþjóð - 32 hér.

Mikið hefur verið rætt um svokallað hjarðónæmi í umræðunni um COVID-19 veiruna og meðal annars í þá veru, að það sé fyrirbæri, sem sé eftirsóknarvert.

Nú virðast menn bíða spenntir eftir því að hjarðónæmi verði náð í Svíþjóð, en þar hafa nú þegar látist 2400 manns, sem samsvarar 245 á hverja milljón íbúa. 

Til samanburðar hafa 10 látist hér á landi, sem samsvarar 32 á milljón íbúa og er sex sinnum lægri tala en í Svíþjóð. 

Það má velta spurningunni um æskilegt hjarðónæmi upp á þann veg, hvort það hefði verið betra fyrir okkur Íslendinga að nú um 60 manns látnnir hér í staðinn fyrir 10. 

Stóra spurningin í upphafi hefur líka verið sú, hvort heilbrigðiskerfi viðkomandi lands ráði við svona háa dánartíðni án þess að bresta skelfilega, líkt og gerðist í nokkrum löndum í fyrstu eins og Kína, Ítalíu, Spáni og New York. 

Svo virðist sem hið öfluga heilbrigðiskerfi í Svíþjóð hafi ráðið við sex sinnum hærri dánartíðni en við áttum fullt í fangi með. 

Umræðuefnið er flókið. Það er til lítils að hjarðónæmi myndist í einu landi, ef strangar ráðstafanir eru í gildi í nágrannalöndum og viðskiptalöndum. 

Fyrir okkur Íslendinga sem eyþjóð langt úti í hafi með flugtengda ferðaþjónustu sem aðal atvinnuveg, myndi einu gilda hvort hjarðónæmi myndaðist við fórnun tuga mannslífa, en eftir sem áður væri flugbann til og frá landinu af völdum annarra þjóða. 

Sagt hefur verið að þegar hjarðónæmi hafi myndast, hverfi farsóttin, en þó er það tíðara að bent sé á, að önnur bylgja og jafnvel enn fleiri bylgjur geti blossað upp síðar. 

 


mbl.is Telur stutt í hjarðónæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki má gleyma fjölónæmi sýkla.

Bjagaðir lífshættir jarðarbúa koma víðar fram en í tilkomu nýrra drepsótta. Skefjalaus notkun sýklalyfja langt umfram þarfir gerir það að verkum að sýklar fá næði til að þróa með sér fjölónæmi gegn lyfjunum. 

Það kallar á æ sterkari lyf, sem smám saman verða hættuleg svo fyrir hýsilinn sjálfan, manneskjuna, að þau drepa hann jafnvel ásamt sníklinum. 

Í nýlegum pistli hér á síðunni var því lýst hvernig heilbrigt líf í dreifbýlinu í gamla daga þróaði greinilega ákveðið jafnvægi milli manna og dýra á bæjunum, þótt það vantaði baðherbergi, salerni og margt annað, sem nú er talið ómissandi. 


mbl.is Aðeins ein tegund ábyrg fyrir faraldrinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. apríl 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband