"Eru þeir fyndnir?" "Já, þeir eru það."

Í eitt skiptið sem ég skemmti á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum kom Hrafn Gunnlaugsson með mér og hafði með sér erlendan gest sem var forvitinn um skemmtanahald Íslendinga.  

Hrafn fór með gest sinn upp í brekkuna gegnt sviðinu inni í  hópi manna sem sat þar að sumbli og virtist við fyrstu sýn skemmta sér afar vel og njóta stemningarinnar í botn.

Á meðan Hrafn sat þarna skemmtu nokkrir skemmtikraftar, þeirra á meðal Spaugstofumenn og ég.

Hrafn sagði mér eftir á að þetta hefði verið einhverjar skemmtilegustu stundir sem hann hefði upplifað, ekki vegna efnisins sem ég eða Spaugstofan fluttu, heldur hefðu viðbrögð brekkugestanna slompuðu í kringum hann verið óborganleg.

Þeir samkjöftuðu varla á meðan á skemmtiatriðnum stóðu, heldur ræddu saman í góðum gír, skáluðu og mösuðu: "Svona, fáðu þér annan!" "Láttu mig hafa flöskuna!"  "Kláraðu þetta ekki alveg, leyfðu mér að smakka!" og fleira í þeim dúr. 

Inn á milli pældu þeir lítillega í því sem fram fór uppi á sviði og fannst Hrafni þau orðaskipti einkar spaugileg.

GESTUR 1:    Heyrðu, eru þeir fyndnir?"

GESTUR 2:    "Já, ég held þeir séu fyndnir."

GESTUR 3:    "Hvað voru þeir að segja núna? Var það fyndið?"

GESTUR 2:    "Já, það var fyndið. Réttu mér flöskuna." 

GESTUR 4:    "Er þetta fyndið, sem hann er að syngja?"

GESTUR 5:    "Já, mér heyrist það vera fyndið. Hvar er blandið sem ég var með ?"

GESTUR 6.     "Ég er með það. Okkur vantar meira." 

Þegar hlátur heyrist einhvers staðar í brekkunni héldu vangavelturnar áfram. 

GESTUR 1.  "Þetta hefur ábyggilega verið fyndið hjá honum, fyndnara en áðan. Þetta er frábær                                   skemmtun. Skál!"

Það sem Hrafni og gesti hans fannst spaugilegast var að þeim, sem þarna sátu,  stökk ekki bros á meðan þeir voru að ræða um það hvað það væri fyndið sem fram fór á sviðinu.

Útlendingurinn, sem var með Hrafni, kvaðst aldrei hafa verið viðstaddur neitt viðlíka samkomu og þakkaði Hrafni mikið fyrir að fá að upplifa þetta.  

Á sínum tíma gerði ég tvö lög með textum um Þjóðhátíðina sem voru bara flutt þar í eitt skipti hvort.

Voru þau fyndin?  Ég er ekki viss.   

 


mbl.is „Stærsta föstudagsbrekkan“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Emilsson

Sjáanlegar breytingar á 60 ára ´þjóðhátíðarstemmningu´ í sjónvarpsfréttum eru áberandi að unglingarnir eru að þamba dósabjór fyrir allra augum. Bæði um borð í ferjunni og í ´dalnum´ Það er greinilega leyfilegt að hafa áfengi um hönd á almannafæri, öfugt við önnur lönd.

Björn Emilsson, 31.7.2010 kl. 16:10

2 identicon

Hvað segja foreldrarnir um þetta?

Heiðar (IP-tala skráð) 31.7.2010 kl. 16:42

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hvað sögðu foreldrarnir fyrir 30 árum, 40 árum, 50 árum?

Ómar Ragnarsson, 1.8.2010 kl. 11:46

4 identicon

Mér finnst bara eins og þú sért að gera grín að þjóðhátíðargestum Ómar.  Kannski einhver þeirra hafi einhvern tímann gefið einhverjum pening um ævina........? 

HM.....hver veit?

Ari (IP-tala skráð) 1.8.2010 kl. 15:27

5 Smámynd: Davíð Oddsson

Haha, þetta er svo góð lýsing á stemmingunni að manni finnst maður vera mættur í brekkuna á nýjan leik :)

Ari minn, ég held að þú ættir að hugsa aðeins það sem þú vilt segja áður en þú segir það. Þá hugsanlega verður þú minna að athlægi en ella (en bara hugsanlega - og já nú var ég að gera grín að þér... en það hlýtur að vera í lagi þar sem þú hefur aldrei gefið mér neinn pening).

Davíð Oddsson, 3.8.2010 kl. 10:01

6 Smámynd: Davíð Oddsson

Björn. Það hefur ekkert breyst frá því fyrir 25 árum allavega (þegar ég var einn af þessum unglingum). Munurinn þá og nú er helst sá að þá voru fréttamenn ekki eins mikið með myndavélarnar ofan í fólkinu eins og núna þannig að fólk heima í stofu varð kannski minna vart við þetta.

Davíð Oddsson, 3.8.2010 kl. 10:05

7 identicon

......hm... það eru nú ekki margir að hlæja hérna nema þú (kannski og bara hugsanlega?)

Mér fannst bara slæmt af Ómari að gera grín að unglingum (þjóðhátíðargestum útlendingsins hans HrafnsG) og ég veit að það voru "gamlir, heimskir" þjóðhátíðargestir sem að settu í púkkið til að hjálpa Ómari..... en gerðu svo vel haltu áfram að hlægja að því......:)

Ari (IP-tala skráð) 3.8.2010 kl. 21:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband