Næsta spurning: Hvernig ?

Jósef Stalín átti auðvelt með að taka ákvarðanir sem kostuðu allt frá einu mannslífi upp í milljónatugi.

Kenningin um að Stalín hafi eitrað fyrir Lenin er þess vegna ekkert ósennileg. Hins vegar vantar síðari hluta skýringarinnar: Hvernig kom Stalín þessu í kring? Hvernig eitraði hann fyrir Lenin? Hafði hann einhverja skósveina til að gera það?  Og hversu oft og mikið þurfti að eitra fyrir Lenin til að ljúka verkinu?

Stalín margsýndi það að hann vílaði ekkert fyrir sér, svo framarlega sem það þjónaði valdafíkn hans sjálfs.

Dæmin eru fjölmörg og eitt þeirra hefur verið áhugavert álitamál, vegna þess að í því tilfelli voru það tveir einstaklingar, Eisenhower, yfirhershöfðingi og Stalín, sem þurftu að taka ákvarðanir, hvor á sínum vígstöðvum, sem gátu haft mikið mannfall í för með sér.

Margir hafa talið að Eisenhower og hans menn hafi tvívegis tekið ákvarðanir, sem hafi þjónað Rússum.

Hinn fyrri var þegar Eisenhower hafnaði tillögu Montgomerys og fleiri síðsumars 1944 um að sækja hratt fram gegn sundruðum og ráðvilltum hersveitum Þjóðverja í gegnum Belgíu og Holland allt inn í hjarta Þýskalands og linna ekki fyrr en í Berlín.

Á þessum tíma var ekki búið að geirnegla skipan mála í Evrópu í smærri atriðum eftir fall Þýskalands og svona hraðsókn inn í Þýskaland töldu margir styrkja stöðu Vesturveldanna við komandi samninga um skiptingu Þýskalands, sem fóru ekki endanlega fram fyrr en á Yaltaráðstefnunni 4. febrúar 1945.

Eisenhower vildi hins vegar ekki taka neina áhættu með svo djarfri áætlun.

Hann óttaðist að hún gæti kostað meira mannfall í herjum Bandamanna heldur en ef sótt væri af fyllsta mögulega öryggi án hættu á að ofþenja herinn svo að flutningsleiðir yrðu of langar og ótryggar og hætta á gagnsókn Þjóðverja frá hlið til að inniloka sóknarherinn með því að klippa hann frá meginhernum að baki.

Svonefnd "Stalínssókn" í ársbyrjun 1942 gegn Þjóðverjum hafði verið dæmi um slíka ofkeyrslu, þegar Stalín ofþandi rússneska herinn í sókn sem var alltof viðamikil og uppskar mun meira mannfall en þörf hefði verið á.

Bandamenn fengu þrátt fyrir alla varkárni Eisenhowers yfir sig Ardennasókn Þjóðverja í desember 1944 og í janúarbyrjun sendi Churchill ákall til Stalíns um að létta þrýstingi af afar erfiðri stöðu Bandamanna á vesturvígstöðvunum með því að Rússar ykju þrýstinginn á austurvígstöðvunum.

Stalín svaraði um hæl og sagði að þetta yrði gert, þrátt fyrir að vegna slæms flugveðurs yrði að hefja sókn án nægilegs stuðnings úr lofti.

Þetta hafði á sér svip mikils örlætis en líklegast hefði sóknin hafist hvort eð var um þetta leyti með tilheyrandi mannfalli, enda Yaltaráðstefnan að skella á og mikils virði fyrir Stalín að hafa sterka stöðu stöðu þar.

Staða Stalíns var sterk á ráðstefnunni og línan milli hernáms Vesturveldanna og Rússa var þar dregin talsvert fyrir vestan Berlín, þannig að höfuðborgin lenti á hernámssvæði Rússa sem seinna varð Austur-Þýskaland.

Þegar herir Vesturveldanna brutust síðan til sóknar í febrúar kom upp sú staða, að fara í kapphlaup við Rússa um að komast til Berlínar. Það yrði mikill akkur fyrir Vesturveldin og styrkur fyrir stöðuna eftir stríð, þótt draga yrði herinn aftur til baka við stríðslok til að standa við Yalta-samningana.

Enn hafnaði Eisenhower slíku og á sömu forsendum og fyrr, að lágmarka mannfall sinna manna.

Stalín hikaði hins vegar ekki við að setja allt á fullt og atti meira að segja saman hershöfðingjum sínum, Konev og Zhukoff, í kapphlaup til Berlínar.

Þetta kostaði Rússa vafalaust tugi þúsunda mannslífa en Stalín var slétt sama í anda frægra ummæla sinna: "Dráp á einum manni er morð en dráp milljón mann er bara tala."

Hafi hann drepið Lenin eins og hann lét síðar drepa Trotsky vílaði hann greinilega ekki fyrir sér að fremja morð samkvæmt eigin skilgreiningu.

Patton var ekkert feiminn við að sækja langt inn í Tékkóslóvakíu í stríðslok þótt hann vissi að búið væri að semja um að það land yrði á áhrifasvæði Rússa. Hann taldi sig sjá fyrir komandi átök milli Rússa og Vesturveldanna og þess vegna eins gott að klára það mál strax og virkja gömlu nasistana við það verkefni.

Því fékk hann ekki ráðið.

Ákvörðun Trumans um að varpa kjarnorkusprengjum á Japan markaðist af því að lágmarka mannfall eigin manna þótt það kynni að kosta meira mannfall hjá andstæðingunum auk þess að beiting vopnsins yrði styrkleikamerki gagnvart Rússum.

Deilt hefur verið um þessa ákvörðun, - allar helstu borgir Japans stóðu þá í ljósum logum og uppgjöf hefði hvort eð er verið nærri því að keisarinn var að því kominn að stöðva eyðileggginguna og blóðbaðið.  En erfitt verður að sanna neitt endanlega til eða frá í þessu efni.   

  


mbl.is Eitraði Stalín fyrir Lenín?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Skemmtileg og fróðleg grein Ómar. Þegar Óli kommi var spurður að því hvort honum hafi ekki þótt það villimennska að Stalín skyldi hafa drepið 50 milljónir af sínum eigin löndum, þá varaði hann að það hafi lítið gert til því þetta fólk hefði dáið hvort sem er.

Jón Steinar Ragnarsson, 14.5.2012 kl. 20:06

2 identicon

Smá punktar við þetta Ómar.

- Kannski varð Ardennasóknin eingöngu möguleg vegna varkárni IKE, hann beitti ekki leiftursókn þar sem það var hægt.

- Þjóðverjar tóku reyndar niðurlöndin með bíræfinni herferð í gegn um flöskuhálsa Ardennafjalla 1940, - þeir þekktu þau þá vel 1944.

-  "Operation Market Garden" 1944, hvar Bandamenn ætluðu sér að ná fótfestu yfir Rín að haustlagi miðaði algerlega að því að klára stríðið fyrir Jól 1944. Það var sama flöskuhálsa-áhættan og Þjóðverjar tóku fyrr, - bara öðruvísi hindranir.

Gæti reyndar haldið áfram endalaust. Magnað viðfangsefni.....

Jón Logi (IP-tala skráð) 14.5.2012 kl. 23:11

3 identicon

Auðvelt verður að sanna hvort eitrað var fyrir Lenín ef Rússar fást einhverntíma til þess að afhenda múmíuna af honum til eiturefnarannsóknar: Eftir að eitrað hefur verið fyrir einhverjum, sama hvort það var með arseniki, blýi, kvikasilfri eða álika efnum, þá er nánast óhugsandi að fjarlægja efnið eftirá þannig að leyfar af eitrinu finnist ekki við rannsókn, t.d. safnast arsenik saman í hári viðkomandi og það nægir að rannsaka eitt einasta hár af fórnarlambinu til þess að sú eitrun komi í ljós. 

En slíkt gerist ekki meðan núverandi stjórnvöld sitja að völdum í Moskvu.

Björn Jónsson (IP-tala skráð) 15.5.2012 kl. 14:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband