Fórnað fyrir leiklistargyðjuna.

Stundum getur leiklistargyðjan Thalía verið kröfuhörð. Þegar Robert De Niro lék í kvikmyndinni "Raging bull" taldi hann nauðsynlegt að fita sig mikið fyrir þau atriði myndarinnar þar sem hnefaleikarinn ruddafengni var orðið spikaður vel.

Fyrirmyndin var Jake LaMotta, sem varð frægastur fyrir það að berjast við hugsanlega besta hnefaleikara allra tíma, miðað við þyngd, Sugar Ray Robinson.

Einkum varð "Valentínusardagsbardagi" þeirra frægur því að þar sýndi LaMotta aldeilis yfirgengilegt hugrekki og þolgæði þegar Sugar Ray barði hann sundur og saman í plokkfisk.  

De Niro varð síðan að létta sig aftur eftir að tökum myndarinnar var lokið, og hefur það áreiðanlega verið miklu erfiðara fyrir hann en að fita sig.

Vesalingarnir geta verið krefjandi á leiksviði, hvort sem um leikrit, söngleik eða kvikmynd er að ræða.

Jean Valjean verður að hafa líkamsburði sem eru sannfærandi fyrir kraftajötun og Fantine verður að vera hörmungin uppmáluð þegar hún er komin að fótum fram.

Ég var aðeins tólf ára þegar ég lék í leikritinu Vesalingunum í Iðnó og leikritið var afar viðamikið, frumsýningin tók næstum því fjórar klukkustundir.

Æfingarnar tóku oft tvöfalt lengri tíma. Með ólíkindum er, þegar litið er til baka, að þetta stórvirki Gunnars Hansen skyldi ganga upp.

Lokaæfingin var þolraun fyrir alla og henni lauk ekki fyrr en klukkan hálf sex að morgni.

Urðu foreldrar mínir að taka ábyrgð á því að slíkt væri lagt á tólf ára snáða.

Ég hefði hins vegar orðið afar svekktur ef ég hefði ekki fengið að upplifa og kynnast þeirri kröfuhörku sem leiklistargyðjan getur lagt á þá, sem hafa gengið henni á hönd, þótt barnungir séu.  

Mér var innprentað af leikstjóranum og Einari Pálssyni, aðstoðarmanni hans og meðleikara, að við værum í raun sendiboðar að flytja mikilvæg þjóðfélagsleg skilaboð.

Því fylgdu skyldur sendiboðans frá örófi alda, sem væru afar göfugar, allt upp í það að láta það yfir sig ganga að vera líflátinn fyrir að flytja skilaboðin.   


mbl.is Ekkert nema skinn og bein
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fantine, ekki Fatime.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 15.5.2012 kl. 15:51

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Takk, Haukur, tók ekki eftir þessu þegar fingurnir skripluðu á stöfunum og breyti þessu þegar í stað.

Ómar Ragnarsson, 16.5.2012 kl. 19:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband