Ánægjulegt í Árbæjarsafni í dag.

Ég er félagi í Fornbílaklúbbi Íslands og skráður eigandi nokkura ævagamalla smábíla.

Því miður hefur tímaskortur hamlað því að ég geti sinnt sýningum klúbbsins eins mikið og ég óskaði, og á hverju ári missi ég til dæmis af landsmóti klúbbsins, vegna þess að það ber alltaf upp á Jónsmessuhelgina, en meira en aldarfjórðungs hefð er fyrir því að ég sé þá á flugdegi á Akureyri.

Nokkrir örbílanna minna hafa náð "fullorðinsaldri" fornbíla, 25 ára aldri, og ég fór með einn þeirra, Fiat 126 cabrio, minnsta brúðarbíl landins, á sýninguna eftir að hafa farið á honum í morgun opnum austur á Selfossflugvöll þar sem FRÚin er núna. IMG_4539

Á myndinni sést hann fjær í félagi við tvo ameríska glæsikagga næst okkur og er Packard Clipper vinstra megin á myndinni.

Síðustu fjörbrot Packard verksmiðjanna voru árin 1952 til 1958. 1952 kynnti Packard stórglæsilega bíla sem miklar vonir voru bundnar við. En gallinn var sá að enda þótt línu 8 strokka vélarnar í þeim væru vönduð smíð voru þær miklu þyngri en sambærilegar nýjar V-8 vélar hjá GM, Ford og Chrysler.

V-8 vélarnar í Cadillac og Oldsmobile komu fram 1948 og Packard var því orðinn mörgum árum á eftir í þróuninni. Til að selja fleiri eintök féllu Packard verksmiðjurnar í þann pytt að framleiða ódýra bíla undir merkinu Packard og felldu með því ímynd merkisins sem "standard of the world" og Cadillac náði þeirri nafnbót til sín.

1955 var Clipper gerðin gerð að sjálfstæðri gerð undir því nafni einu í stað þess að heita Packard Clipper, en það var of seint.

Stærri átta strokka Packard línuvélin var næstum því hálft tonn að þyngd og orðin úrelt. Packard Clipperinn á myndinni er árgerð 1953 og með línuvél.  IMG_4542

Á leið minni til baka frá Selfossi  hellirigndi á opinn bílinn  en þrátt fyrir það hefur reynslan verið sú að bíllinn er svo stuttur, að á 90 km hraða fer vatnið allt yfir hann svo að hann er þurr að innan.

Vinstra megin á myndinni hér fyrir ofan má sjá Renault 12, sem var einn vinsælasti bíllinn í Frakklandi frá 1969 til 1980, en jafnframt var framleiðsluréttur seldur Ford í Brasilíu og hét hann þar Ford Corcel.

Þar að auki fengu Dacia dótturverksmiðjur Renault bílinn til framleiðslu þar í landi og hann var framleiddur víðar, meðal annars í Ameríku, Ástralíu og Tyrklandi. Renault 12 var ekkert sérstakur bíll og útlitið og hlutföllin í honum urðu fljótt úrelt þótt hann yrði svona langlífur, með langs liggjandi vél frammi í og framhjóladrifi.

En hann var af henturgri stærð og svo einfaldur að gerð að auðvelt var að framleiða hann í mörgum löndum. Vegna þess að vélin var fyrir framan framhjólin var gírskiptining beinni og öruggari en á bílum með vélina fyrir aftan gírkassann eða með vél og gírkassa þversum. IMG_4548

Að þessu sinni var Fiatinn eini smábíllinn á sýningunni innan um alla stóru amerísku kaggana og var ég ánægður með að geta hjálpað örlítið til við það að auka fjölbreytnina.

Fiat 126 var framleiddur í fjórum milljónum eintaka og Fiat 500 með sama undirvagni, vél og driflínu í öðrum fjórum milljónum eintaka, en aðeins um 400 cabrio blæjubílar voru gerðir. Það þýðir að varla eru fleiri en hundrað ökufærir í dag og þessi bíll með einkanúmerinu ÁST því afar sjalfgæft eintak.     

  


mbl.is Glæsilegir kaggar á Árbæjarsafni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband