Styttri hringvegur veikir rökin fyrir hálendisvegi.

Það hefur legið fyrir í áratugi að hægt sé að stytta hringveginn um Norðurland um hátt í tuttugu kílómetra og að þessi stytting sé hagkvæmasta vegaframkvæmd, sem hugsanleg er á Íslandi.

14 kílómetrar vinnast með því að breyta vegarstæðinu um land Blönduósbæjar og 5 kílómetrar með því að breyta vegarstæðinu um Skagafjörð.

Andstaðan við þessar breytingar var skiljanleg þegar viðkomandi sveitarfélög voru það smá, að nýi vegurinn lá ekki lengur í gegnum þau.

Andstaðan er samt rekin áfram þótt sveitarfélögin hafi stækkað og slappir fjölmiðlamenn hafa ekkert gert til þess að sýna hinar breyttu aðstæður, sem tryggja að viðkomandi sveitarfélög geta með opinberri aðstoð fært þjónustufyrirtækin til innan marka sveitarfélaganna. 

Fordæmi er fyrir slíku við styttingu veglínu við Hellu fyrir hálfri öld vegna nýs brúarstæðis, og þá var málið leyst með því að veita Hellubúum fjárhagsaðstoð til að færa til þjónustufyrirtæki sín.

Sama ætti að gera varðandi styttinguna við Blönduós og Varmahlíð, enda er ábatinn af styttingunni svo mikill að þetta yrði auðgert og ætti að verða auðsótt mál að verja hluta ábatans til þess og sýna sanngirni. ´

Ég hef áður í skrifum mínum bent á þá hættu fyrir Blonduósinga að tregðan við að bæta hringveginn gæti leitt til þess að ýta undir lagningu heilsársvegar um Kjöl og myndu þá öll sveitarfélögin á norðuleiðinni missa spón úr aski sínum án þess að fá neitt í staðinn.

Þetta yrði arfaslæm niðurstaða, ekki aðeins vegna þess að fórnað yrði því sem eftir er að ósnortnu víðerni á Kili og aukakostnaðar vegna vegagerðarinnar, heldur líka vegna þess að vegurin myndi liggja upp í tæplega 700 metra hæð og skapa mikinn nýjan kostnað vegna viðhalds og þjónustu við veginn, svo sem snjómoksturs og björgunar og leitar.  

Í vegalögum er skýrt kveðið á um að framkvæmdir séu leyfilegar þegar aukið öryggi og greiðari umferð krefjast þeirra, en yfir þetta er valtað með því að setja skör hærra skipulagsvald sveitarfélaga.

Hvað snertir nýja leið hringvegarins um land Blönduósbæjar myndi hringvegurinn ekki lengur liggja um einn versta kaflann á norðurleiðinni, sem er í utanverðum Langadal þar sem oft verða vandræði og slys vegna óveðurs í norðan- og norðaustan hríðarveðurs.

Á fjórða kílómetra nýs vegar myndu liggja um sveitarfélagið í Langadal og nægt rými þar til uppbyggingar þjónustu við vegfarendur.   


mbl.is Kristján vill veg yfir Kjöl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eigendur Botnsskála í Hvalfirði höfðu uppi sambærilegan málflutning vegna "umferðarmissis" í aðdraganda Hvalfjarðarganga. Auðvitað var ekki hlustað á þessa þröngu hagsmuni sjoppuhaldaransí Hvalfjarðarbotni .

Sjoppuhaldarar í Varmahlíð (N1 og KS) og Blönduósi (N1) virðast hinsvegar hafa vægi til að þvinga vegfarendur sem leið eiga fram og til baku um NV land um 40 Km leið að núvernadi starfstöðvum. Og N1 fær stóran hluta eldsneytisviðskiptanna vegna þessa óæskilega aksturs.

Jón Bjarnason mun hafa minnt á það að oddasæti hans í þingmeirihluta þyrfti að tryggja með því að mylja áfram undir þrönga hagsmuni sem sonur hans gætir á svæðinu.

Þannig er Ísland í dag.

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 13.11.2012 kl. 13:20

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Þetta er reglulega ómálefnalegur málflutningur, Ómar. Það er einfaldlega rangt að tengja saman breytingu á legu þjóðvegarins við Blönduós og heilsársveg yfir Kjöl. Svona hræðsluáróður er einfaldlega ekki samboðinn skynsömum manni.

Óhætt er að fullyrða að baráttan gegn heilsársvegi yfir Kjöl er einstök og byggist á því að halda víðernum hálendisins ósnortnum miðað við það sem nú er.

Krafan um breytingu á þjóðveginum fyrir sunnan Blönduós er einungist til þess fallin að fólk dragist í dilka eftir sveitarfélögum og þeir sem eru fjölmennari fái umsvifalaust leyfi til að berja á hagsmunum þeirra fámennari. Út á það gengur ekki samfélagið. Því til viðbótar hefur styttingin við Blönduós sáralítil áhrif í tíma.

Ómar tekur hér engum sönsum, hlustar ekki á heimamenn sem vilja hafa veginn á þeim stað sem hann er. Og ég bið þess lengstra orða að gera ekki lítið úr hagsmunum heimamanna, þeir byggast ekki á einni sjoppu. Fjölmargir hafa bent á mikilvægari verkefni á þjóðveginum heldur en að fara í svona gæluverkefni. Ómar nennir ekki einu sinni að skoða Holtavörðuheiði og færslu á veginum þar sem eflaust væri meira þjóðþrifamál en allt annað fyrir Norðlendinga.

Ómar er alls ekki áhrifalaus maður. Ef hann ætlar hins vegar að breyta umræðugrundvellinum um heilsársveg yfir Kjöl og draga alls óskyld mál inn í þá baráttu má búast við því að hún verði miklu erfiðari en ella. Það er nefnilega þörf á að hafa Ómar heilan og óskiptan í þessu máli.

Bendi hér með á pistil á bloggsíðu minni um heilsársveg yfir Kjöl, sjá hér.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 13.11.2012 kl. 14:45

3 identicon

Ég fór Kjöl í fyrrasumar, og nóg var traffíkin. Hún er reyndar þéttari en þyrfti, því að afkastageta þessa "svigvegar" er lítil, - rútan sem ég var í var að rigsa þetta á ca 30 km hraða alla leið að Hveravöllum.

Til vinstri var urð, og jökull falinn bak við ský. Sama sagan var með hægri hliðina.
Mér fannst það sjálfsagt að smella þarna vegi beinum, og nota þá hinn gamla sem rallbraut eða hestaveg. Sé engin lýti á beinum vegi yfir urð við hliðina á hlykkjóttum vegi yfir urð.

Svona sjónarmið láglendisbúans.

Jón Logi (IP-tala skráð) 13.11.2012 kl. 16:28

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Allir, sem lesið hafa pistla mína að undanförnu eiga ekki að velkjast í vafa um andstöðu mína við þær fyrirætlanir að búta hálendið niður í snepla með tveimur svokölluðum "mannvirkjabeltum" þvert yfir það. Þar er ég "heill og óskiptur".

Ég tel hins vegar ekkert ómálefnalegt við það að benda á að ef hringvegurinn er styttur um 19-21 kílómetra veikir það mjög rök þeirra sem hamra á styttingartölum vegna lagningar heilsársveg um Kjöl. Í stað 40-60 kílómetra styttingar eftir atvikum, sem þeir flagga nú, minnkar sú tala niður í 20-40 kílómetra.

Styttri og betri hringvegur myndi hjálpa okkur við að andæfa þessum mannvirkjabelta-hugmyndum, sem nú eru komnar inn á aðalskipulag landsins enda setja virkjanafíklar og áltrúarmenn nú vaxandi þrýsting á það fara hamförium á miðhálendinu.

Þessi þrýstingur er af svipuðum toga og sú hótun Landsnets, sem höfð var uppi í útvarpsfréttum nú í hádeginu, þar sem sveitarstjórnum og landeigendum á Norður- og Norðausturlandi var stillt upp andspænis tveimur kostum: 

1. Að búa áfram við lélega byggðalínu ef þeir haldi áfram að andæfa tröllaukinni háspennulínu fyrir stóriðjuna.

2. Að lúffa fyrir Landsneti og samþykkja risalínuna. 

Ómar Ragnarsson, 13.11.2012 kl. 16:39

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég sé mikinn mun á beinum upphækkuðum vegi með 90 km hámarkshraða og hlykkjóttum, lágu vegi við hliðina á honum.

Þeir sem aka frá Þingvöllum um Bolabás og norður í átt að Kaldadal myndu svo sannarlega sjá og heyra muninn, ef í staðinn lægi beinn og upphækkaður heilsársvegur frá þjónustumiðstöðinni norður í Hofmannaflöt austan megin við gamla veginn, sem hefur verið malbikaður.

Ég hvet alla, sem vilja kynna sér jvaða vegir henta best í þjóðgörðum eða fólkvöngum til að aka þessa leið.

Malbikað var ofan á gamla bugðótta veginn og því er þarna ekkert vegaryk, og aðeins brot af þeim hávaða sem fylgir hraðri umferð margra og stórra bíla.

Ómar Ragnarsson, 13.11.2012 kl. 16:54

6 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er vonandi að aldrei verði lagður heilsársvegur um Kjöl. Kostnaður við viðhald og rekstur slíks vegar er meiri en svo að nokkuð geti réttlætt það. Þá er þar fórnað náttúruperlum sem aldrei munu fást til baka.

Sigurður Sunnanvindur, þessi söguskýring þín varðandi Botnskála er ekki alssendis rétt. Eigandi þeirrar sjoppu var ekki að mótmæla Hvalfjarðargöngum, enda skálanum lokað nokkrum árum áður en þau komu til. Það sem hann vara að mótmæla var stytting vegarins yfir Botnsvoginn. Fara átti úr nesinu milli Botns og Brynjudals, beint yfir að Þyrli. Taka Botninn af, en vegurinn fyrir hann var hættulegur og snjóþungur og því mikil bót að losna við hann.

Skemmst er frá að segja að eiganda skálans tókst að stöðva þá framkvæmd og hún verður ekki gerð héðan af. Hins vegar var örlítil stytting gerð við Botn, þegar gömlu brúnni var ekki lengur treystandi og vegurinn færður út fyrir Hlaðhamar, í fjöruborð Botnsvogsins. Það var þá fyrst sem Vegagerðin færði veginn, í ósátt við eigenda Botnsskálans.

Þjóðvegurinn er fyrir þjóðina, ekki bara Akureyringa. Því á hann að liggja þannig að sem flestir geti nýtt sér hann, ekki bara Akureyringar. Það má víða stytta veginn, en sennilega fengist mesta styttingin ef verkfræðingum Vegagerðarinnar yrði kennt að nota reglustiku.

Sú árátta að ekki megi leggja beinan veg nokkursstaðar, veldur því að leiðir verða lengri en þarf. Með því einu að fækka beygjum mættu stytta vegi landsins verulega. Sem dæmi þá er um 17 km loftlína frá veginum um Mývatnsöræfi norður að Dettifossi. Þarna tókst að leggja 22 km langan veg, með því einu að hafa hann í beygjum alla leið. Engar sjáanlegar ástæður eru þó fyrir þessum beygjum. Þá má nefna veginn frá Hvalfjarðargöngum, að norðan. Hægt hefði verið að leggja nánast beinann veg frá göngunum að Grundartanga og taka þar aflíðandi beygju, síðan hefði verið hægt að far nánast beint allt að Laxá í Leirársveit. Þarna tókst þó að leggja veginn með alls 10 beygjum, þegar ein hefði dugað. Svona dæmi eru mýmörg um allt land.

Það er engin ástæða til að leggja uppbyggða vetrarvegi um víðáttur hálendisins, sérstaklega þegar um mjög þröngan hóp er að ræða, sem notið getur þess vegar.

Gunnar Heiðarsson, 13.11.2012 kl. 17:17

7 identicon

Heilsársvegur klæddur er óraveg frá tiltölulega beinum "sveitavegi" á urð og úr urð.
Kjalvegur eins og hann er á góðum kafla sunnan við Hveravelli er hund-leiðinlegt sikk-sakk á urð og grjóti. Enginn skaði að leggja þarna spotta sem er beinni og betri.
Norðan við Hveravelli er þetta svo allt annað líf, og ekki sjáanlegur skaði af því.

Jón Logi (IP-tala skráð) 13.11.2012 kl. 20:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband