Þingvellir og Skálholt, helgistaðir að öllu leyti ?

Í þjóðarvitund Íslendinga hafa Þingvellir og Skálholt haft á sér ímynd, sem lýst er með orðunum "heilög vé" eða "helgur staður." Tvær helstu stofnanir og örlagavaldar Íslendinga um aldir, Alþingi og Þjóðkirkjan, eiga þar hlut að máli.

Á Þingvöllum var Alþingi stofnað og kristni lögtekin og í kjölfarið komu biskupsstólar í Skálholti og á Hólum, allt staðir, sem sveipaðir eru mikilli helgi.

Edvard bróðir minn orðaði það við mig nýlega, að það sem truflaði þessa helgi, þegar komið væri á Þingvelli, væru þær misgerðir, ranglæti og illvirki sem viðgengist hefðu þar um aldir, og nefndi Drekkingarhyl sem dæmi um það.

Skömmin vegna þessara misgerða hefði ekki verið afmáð heldur henni vikið til hliðar og þeim mun meira lyft undir helgiljómann einn og ótruflaðan og haldnar miklar hátíðir í því skyni.

Það væri út af fyrir sig ágætt, en hins vegar væri ekki hægt að njóta staðarins til fulls fyrr en gerðar hefðu verið ráðstafnir til þess að rétta hlut þeirra sem misgert var við í eitt skipti fyrir öll.

Þessar misgerðir og illvirki myndu myndu setja ljótan svartan blett á Þingvelli þangað til slíkt hefði verið gert.

Þegar ég sat í gærkvöldi og naut Ragnheiðar, óperu Gunnars Þórðarsonar og Friðriks Erlingssonar í dómkirkjunni í Skálholti á sjálfum vettvangi einhvers mesta mannlega harmleiks íslenskrar sögu, gerði ég mér grein fyrir því að svipað á við um þann helgistað og Þingvelli.

Það má kannski segja að flutningur þessarar mögnuðu óperu, sem dregur svo vel fram hörmuleg örlög þeirra, sem þar urðu leiksoppar í harmleiknum, sé athöfn af þessu tagi, hvað Skálholt varðar.

En hún er verk einstaklinga en ekki þeirrar stofnunar, Þjóðkirkjunnar, sem þarf að gæta að sögu sinni og huga að kröfum kenningar Krists um réttlæti og fyrirgefningu.

Þetta 17. aldar fólk varð að fórnarlömbum þeirra reglna, sem látnar voru gilda í íslensku samfélagi í nafni kristinnar trúar, sem í anda meistararns frá Nazaret metur skilning, umburðarlyndi og fyrirgefningu mikils, en snerist að mörgu leyti upp í andhverfu sína í meðförum valdhafa og kirkju.

Víða erlendis hafa verið haldnar athafnir á stöðum þar sem illvirki voru framin, misgert við fólk og harmleikir hafa gerst. Slíkar minningarathafnir eru haldnar jafnvel með reglulegu millibili.

Um fáa staði á Íslandi á slíkt betur við en Drekkingarhyl þar sem misrétti, ranglæti, ofbeldi og kúgun var beitt gegn varnarlausu fólki í nafni trúar, laga og réttar.

Svartur blettur þess staðar æpir á stórbrotið umhverfið og tign Þingvalla sem helsta helgistaðar þjóðarinnar. 

Er ekki kominn tími til að helstu stofnanir íslensks samfélags í gegnum aldirnar, Alþingi og Þjóðkirkjan, standi að slíkum athöfnum á Þingvöllum, Skálholti og jafnvel Hólum, þar sem  réttur er hlutur þeirra, sem misgert var við, beðið fyrir þeim, sem áttu í hlut og beðist fyrirgefningar fyrir hönd þjóðar, þings og kirkju á því illa, sem þar fór fram, ekki síður en að hampa því sem vel var gert ?     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Í sólskininu á Þingvöllum er æ drungi og dökkir skuggar yfir: Brennugjá, Drekkingarhyl, Höggstokksnesi, Gálgaklettum og Kagahólma (kaga=hýða).

Örnólfur Hall (IP-tala skráð) 18.8.2013 kl. 17:23

2 identicon

"Myndlistarkonan Rúrí framdi í gærkvöldi gjörninginn „Tileinkun" í Drekkingarhyl á Þingvöllum, til að heiðra minningu kvenna sem teknar voru af lífi þar á 17. öld." (Mbl. 6.9.2006)

Gunnlaugur Þorleifsson (IP-tala skráð) 18.8.2013 kl. 22:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband