Reynslan er dýrmæt.

Það er misjafnt hvernig fólk tekur því að hætta ábyrgðarmiklum störfum. Sumir setjast í helgan stein og njóta þess að hafa góðan frítíma.

Fyrir suma virðist þetta vera áfall sem þeir komast ekki yfir. Ég minnist þess til dæmis þegar reglur um störf flugstjóra voru mjög ósveigjanlegar og að sumu leyti ósanngjarnar.

Þegar þeir misstu atvinnuflugmannsréttindi 65 ára gamlir urðu þeir að fara langleiðina aftur á byrjunarreit ef þá langaði til að fljúga flugvélum, jafnvel þótt litlar væru. 

Fyrir einstaka menn virtist þetta vera mikið áfall og þeir urðu fráhverfir flugi, enda var með þessu gefin þau skilaboð að öll þeirra mikla og dýrmæta reynsla væri lítils sem einskis metin.

Fyrir nokkrum árum var þessum reglum breytt og atvinnuflugmönnum auðveldað að fljúga áfram eftir 65 ára aldur, jafnvel í takmörkuðu flugi í atvinnuskyni, öðru en því að fljúga í leiguflugi eða í áætlunarflugi.

Mér finnst það fagnaðarefni þegar þrautreyndir menn eins og Sturla Böðvarsson finna sér góðan starfsvettvang þar sem reynsla þeirra og áunnin hæfni koma að góðum notum á hliðstæðu sviði og þeir náðu að komast í fremstu röð.

Sturla gerði margt gott á ferli sínum í landsmálapólitíkinni og ég verð honum ævinlega þakklátur fyrir það þegar hann reis gegn mjög harðri sókn áhrifamanna til að leggja hraðbrautar-trukkaveg um Arnarvatnsheiði og Stórasand þvert yfir í Norðurárdal í Skagafirði.

Þessi vegur hefði legið upp í 800 metra hæð og sérstaklega illvígt veðravíti, sem varð Birni Pálssyni flugmanni að bana 1973. Í veðri eins og er einmitt í dag þegar þessi pistill er skrifaður, þykist ég vita af margra áratuga reynslu í flugi hvernig væri að vera þarna á ferð, hvort sem væri á landi eða í lofti í hvassri sunnan- eða suðaustanátt, sem er algengasta rok-vindáttin hér á landi.

Hraðbraut þarna yfir hefði auk þess eyðilagt þá dýrmætu stemningu óspilltra víðerna sem er ómetanlegt verðmæti í sjálfu sér.

Hefur þessi hugmynd vonandi verið kveðin niður í eitt skipti fyrir öll.  


mbl.is „Ekki hægt að skorast undan“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sumir háfleygir eru nú teknir að gamlast nokkuð og láta því væntanlega senn af sínum starfa og oddaflugi, enda þótt þeir haldi áfram að gapa enn um sinn þar til dauðinn einn þá aðskilur, Davíð Oddsson og Ögmundur Jónasson nú 66 vetra og Ólafur Ragnar Grímsson 71.

Þorsteinn Briem, 10.3.2014 kl. 15:21

2 identicon

Reynslan er dýrmæt en hefur oft reynst þjóðinni ílla og orðið henni dýrkeypt.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 10.3.2014 kl. 15:39

3 identicon

Ja hérna, segi ég, er allt gamla settið að setjast að aftur? Og tilneyddir.......

Aumt

gummi (IP-tala skráð) 11.3.2014 kl. 12:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband