Hvarf malasísku þotunnar er að verða einsdæmi.

Þau hvörf fólks, flugvéla, skipa og annarra farartækja verða fréttnæmust og mest umrædd, jafnvel áratugum og öldum saman, þar sem ekki finnst tangur né tetur af neinu og slysstaðurinn getur verið á afar stóru svæði.

Ef ekkert finnst, sem getur leyst gátuna um hvarf malasísku vélarinnar, stefnir hvarf hennar í það að verða hið magnaðasta í sögu flugsins.

Það hafa orðið stór hvörf þar sem ekkert hefur fundist þegar flugvélar eða skip farast, svo sem hvarf togarans Júlí með 30 mönnum á Nýfundnalandsmiðu, í febrúar 1959, en frásagnir skipverja á öðrum skipum þar í grennd í lífshættulegu ofsaveðri útskýrir hvarf Júlís sem og síðustu fjarskiptin við hinn dauðadæmda togara.

Þótt beinar orsakir fyndust ekki fyrir hvarfi sovéskrar flugvélar á leið frá Keflavík 1970, er nokkurn veginn vitað hvar hún hvarf, af því að brak fannst úr vélinni.

Svipað gerðist 2009 þegar AF 447 týndist á Suður-Atlantshafi í þrumuveðri og tveimur árum síðar voru orsakir þess slyss upplýstar að fullu.

Hvarf Amalíu Erhardt á flugi yfir Kyrrahafið 1937 hefur lengi trónað á toppi listans yfir stærstu hvörf flugsögunnar, en það er fyrst og fremst vegna frægðar þessarar frægustu flugkonu allra tíma.

Vitað var fyrirfram að svo langt flug yfir stærsta úthaf jarðar væri áhættuspil og langlíklegast er að því hafi valdið einhvers konar bilun í vélinni eða þá "elsta bilun í heimi", eldsneytisleysi.

Nú má telja alla von úti um að malasíska þotan sé einhvers staðar í felum eða heil og óskemmd vegna þess að um er að ræða stærstu tveggja hreyfla farþegaþotu heims, sem er tvisvar sinnum stærri vél en Boeing 757 þotur Icelandair og þyrfti því stóran flugvöll til þess að fela hana á.

Það er alltaf óþægilegast þegar engin minnstu merki finnast um hvarf fólks eða farartækja. Þess vegna lifa sagnir um slíkt áratugum og öldum saman svo sem hvarf séra Odds á Miklabæ og hvörf Guðmundar og Geirfinns.

Stórkostlegt öryggi í flugsamgöngum okkar tíma byggist á rannsóknum á slysum, sem hafa leitt til umbóta í öryggisátt. Meðal annars þess vegna er svo erfitt að sætta sig við það að ekkert liggi fyrir um afdrif malasísku þotunnar með hátt á þriðja hundrað manns um borð.

Svo mörg atriði, ein og sér eða mörg saman í óvenju fjölbreytilegu samhengi, koma til greina í leit að útskýringum, að einstakt er, og á okkar tímum er líka einstakt hvað svæðið er stórt sem kemur til greina varðandi það, hvar flak vélarinnar er að finna.  

Af hverju barst ekkert neyðarkall?

Margar ástæður geta legið til þess.

Forgangsröð í flugi er að flugstjórinn hverju sinni sé með það númer eitt í forgangi að fljúga vélinni, þ. e. að sjá til þess að vængirnir haldi lyftikrafti og hafa stjórn á henni eftir því sem unnt er, sama á hverju gengur, til dæmis ef vélin hefur misst afl og hæð.

Það gæti verið ástæðan til þess að flugmennirnir sendu aldrei út neyðarkall.

Ef aðdragandinn var sá flugræningjar létu fljúga vélinni í lítilli hæð eða flygju henni þannig sjálfir til að felast, gátu möguleikar á að ná sambandi verið litlir sem engir.

Og það hefði líka átt við um farsímasamband ef farþegarnir reyndu að ná sambandi eins og gerðist 11. september 2001 í aðdraganda þess að ein af rændu þotunum fórst án þess að komast í færi við Hvíta húsið. Þar að auki er vélin í langflugi að nóttu til þegar farþegar vilja helst sofa, en 11. september 2001 var vélin á flugi um hábjartan dag yfir byggðu landi.

Ekki liggja fyrir upplýsingar um sjólag, ef vélin hefur lent í sjónum, en þess má geta að í eina skiptið sem ég sigldi, þá aðeins 14 ára, til Kaupmannahafnar, var sjórinn spegilsléttur frá Færeyjum til Hafnar.  

Og fræg nauðlending á Hudsonánni í New York fyrir nokkrum árum sýnir, að vél getur nauðlent á vatni eða sjó, án þess að brotna.

Sé svo, er veik von að hægt verði að finna flakið með sónar.

Hafi hún splundrast er líka veik von að brak finnist.

En hafi hún lent með vængenda fyrst í sjónum, kann hún að hafa brotnað þannig að lítið sem ekkert brak finnist úr henni og að erfitt verði að finna einstaka hluta hennar á hafsbotni.

Ég tel ekki ólíklegt að hvernig sem fer, verði í framtíðinni búið svo um hnúta að ratsjársvarinn í flugvélum, sem er alveg óháður öðrum fjarskipta- og siglingatækjum, fari sjálfkrafa í gang við flugtak í farþegaflugi og slökkvi ekki á sér fyrr en flugvélin hefur lent.

Reynist það vera til bóta fórst malasíska vélin ekki alveg til einskis jafnvel þótt málið verði stærsta gátan af sínu tagi.   

 

   


mbl.is Vél á leið frá Keflavík hvarf 1970
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sævar Helgason

Var að lesa grein eftir kanadískan reynsl umikinn flugstjóra . Hann telur líklegast að í vélinni hafi komið upp eldur í rafköplum og rekur það hugsanlega til flugtaks á mjög þunglestaðri vél í miklum hita um miðnætti við sjávarhæð. Og íkveikjuhitinn frá lendigarbúnaði borist í rafbúnaðinn. Við það hafi allt fjarskiptasamband verið ókleift. Vélinni er þá snúið aftur til Malasíu og stefna sett á næsta flugvöll þar- ratsjárgögn sýna það. En eldurinn og reykjarkófið hafi tekið yfir og áhöfn misst meðvitund- þá flaug vélin á sjálfstýringu uns eldsneyti þraut og eða eldurinn brenndi vélina upp. Þetta hafði komið fyrir með flugvél í Nígeríu fyrrum. Alla vega í upphafi leitar komu upplýsingar frá olíuborpalla- starfsmanni um logandi farþegavél á þessum tíma- sem síðan hvarf.

Þetta gæti staðist.

Sævar Helgason, 19.3.2014 kl. 11:59

2 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

það er talið að lithium batteries hafi m.a. verið flutt með vélinni.

Að öðru leiti eru kenningar nánast +oteljandi. M.a. að vélin hafi getað lent á samdströnd á einhverra eyjana útaf Malaysíu. Það er ótrúlegt hvað fólki dettur í hug.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 19.3.2014 kl. 12:42

3 identicon

Í fréttinni kemur enn og aftur fram sú algenga rangfærsla að flugvél Air France 447, sem fórst á leið frá Rio til Parísar, hafi ekki fundist fyrr en fimm dögum eftir að hún brotlenti. Þessu er sí og æ haldið fram en er rangt. Vélin lagði af stað 31. júní skömmu fyrir miðnætti. Fórst 1. júní og brak úr henni sást úr lofti 2. júní eða um einum og hálfum sólarhring eftir að hún fórst. Það liðu síðan nokkrir dagar þar til fyrstu líkin fundust o.s.frv. enda var nokkur sigling að staðnum þar sem vélin fórst.

Andri Valur (IP-tala skráð) 19.3.2014 kl. 12:57

4 identicon

Swissair Flight 111, 2. september 1998.

Eldur kom upp í leiðslum rafkerfisins í cockpit. Flugmennirnir voru allan tíma í sambandi við controle, auðvitað.

01:14:15 Pan-pan

01:24:42 Emergency Call

01:31:18 skellur MD-11 í sjóinn. 

http://de.wikipedia.org/wiki/Swissair-Flug_111

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 19.3.2014 kl. 14:17

5 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Edit: ,,sandströnd".

Meðan að það koma ekki frekari upplýsingar (en manni skilst á sumum fjölmiðlum að til séu frekari radar upplýsingar sem eftir eigi að reyna betur og greina) Þá er slys líklegasta skýringin, að mínu mati.

Jú jú, það eru alveg lausir endar á þeirri kenningu td. varðandi eld eða reyk, að skuli ekkert mayday hafa komið o.s.frv. Það er margt við þá skýringu sem erfitt er að láta alveg falla saman.

En td. kenningin, sem er talsvert algeng, um að vélin hafi flogið yfir mörg lönd og lent á leyndum stað - það eru svo veigamiklir gallar við þá kenningu, að hún fær varla staðist lágmarksgagrýni.

Td. hefur verið bent á BNA menn hafi flogið til Afgan í Afganstríðinu og þá einhvernveginn með það í huga að forðast radar - og flugu þeir á stórri farþegaotu? Nei.

Jafnframt var algengt fyrst í stað að segja að vélinni hefði hugsanlega verið flogið núna til Afgan og lent þar - já og án þess að BNA menn tækju eftir því? BNA menn eru í Afgan og það er efasamt að fugl fljúgi þar án þess að BNA menn taki eftir því.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 19.3.2014 kl. 14:20

6 identicon

Sæll Ómar.

Athyglisverður pistill semog það sem Sævar Helgason
tilfærir.

Menn hafa því ef til vill leitað langt yfir skammt og útslagið
kann því að vera það að flugvél þessi hafi steypst í
sjóinn útaf Andaman eyjum eða enn vestar þar sem
dýpið er meira.

Húsari. (IP-tala skráð) 19.3.2014 kl. 14:53

7 identicon

Tja, eða hvorki steypst í sjó eða land.
Setti þetta inn í annað innlegg Ómars um sama málefni:

Á gríðarlegu hafsvæði er auðveldara að leynast í flugi vegna hnattlögunarinnar. Og því lægra, eftir því á stærra svæði.
Hvað ætli áætlað eldsneyti hefði dugað í langt flug þegar hún hvarf? Og klukkan hvað (GMT) voru síðustu samskipti?

Þetta er bara til að auka leti mína í pælingum....sem eru áhugaverðar.....

Jón Logi (IP-tala skráð) 19.3.2014 kl. 17:50

8 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Eldsneyti dugði sirka í 6-8 tíma. Það er u.þ.b. sami tími og vélin er á flugi. þ.e.a.s. að ef maður tekur signalið frá gerfihnetti (svokallað ,,electronic ping") sem vísbendingu um að vélin hafi verið á flugi. Fræðilega gæti hún hafa lent í restina - en engu líkara er en vélin hafi þá flogið þar til hún varð eldsneytislaus.

Miðað við upplýsingar sem liggja fyrir er margt harla skrítið við þetta - eins og margoft hefur komið fram. Erfitt að fullyrða af eða á hvað hafi gerst. Einungis leiða líkur að atburðarás - sem hingað til hafa allar einhverja vankanta.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 19.3.2014 kl. 18:13

9 identicon

Svo virðast að engar lexíur hafa verið lærðar af 9/11 og Air France flugslysinu yfir suður Atlantshafi. Það er ótrúlegt að flugmálayfirvöld hafi ekki séð hættuna í því að einhver með einbeittan brotavilja gæti slökkt á radarsvara flugvéla og þá hverfi sé þar með mjög flókið að vita eða fylgjast með vélinni eftir það. Það væri einfalt mál að setja upp kerfi sem sendi skilaboð til gervitungla í þannig að ef slökkt væri viljandi á radarsvaranum þá gætu flugmálastjórar komist inn í ákveðið kerfi sem gæti fengið nákvæmar upplýsingar um ástand vélarinnar. Við þetta kerfi væri hægt að bæta low-res ljósmyndum sem væru teknar úr cockpittinum og einnig víðsvegar úr vélinni. Ég get ekki ímyndað mér að þvílíkt kerfi sé flókið eða dýrt í rekstri. Tæknin er í höndum flestra sem eiga snjallsíma. Að lokum finnst mér það undarlegt eftir flugslys Airbus 340 flugvélar Air France yfir suður Atlantshafi, að mönnum hafi dottið í hug að setja einhverskonar blöðrur í kringum svarta "appelsínugula" kassann sem fengi hann til að fljóta upp á yfirborðið.

Ástvaldur (IP-tala skráð) 19.3.2014 kl. 19:20

10 Smámynd: Sigurgeir Þór Hreggviðsson

Það sem ég er hræddur um er að það næsta sem við fréttum af þessari vél verði þegar hún skellur á einhverri fjölmennri byggingu. Það er alveg mögulegt að hún sé núna á einhverjum yfirgefnum velli í mið Asíu einhverstaðar.

Sigurgeir Þór Hreggviðsson, 19.3.2014 kl. 23:17

11 identicon

VHugsanleg skýring og vel framsett,  http://www.wired.com/autopia/2014/03/mh370-electrical-fire/ , sérstaklega í ljósi nýjustu frétta frá Ástralíu.

Kjartan (IP-tala skráð) 20.3.2014 kl. 10:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband