Þetta sagði Shakespeare líka: "...hann rignir alltaf dag eftir dag."

Gylfi Þór Sigurðsson og Alexandra Helga Ívarsdóttir eru ekki þau fyrstu sem leggja sig fram um að lýsa "skítaveðri" í landi sínu.

Sjálft höfuðskáld Englendinga, William Shakesperare, fann svo mikla þörf hjá sér til þess að lýsa því höfuðatriði enskrar tilveru sem "skítaveðrið" er, að hann endar eitt verka sinna, Þrettándakvöld, á söng um það hvernig enska rigningin litar lífshlaup flytjandans, hirðfíflsins Fjasta. 

Ef Gylfi hefur ekki heyrt þetta, er ég tilbúinn til að gefa honum eintak af þessum söng, sem ég raulaði inn á disk í hitteðfyrra undir heitinu "Hann rignir alltaf." 

Það er ekki á hverjum degi sem tækifæri gefst til að semja lag við texta sjálfs Shakespeares um eitt af höfuðatriðum tilveru Breta. Til þess að hnykkja á því, gerir Shakespeare laglínurnar "Hann rignir alltaf dag eftir dag" og "hæ, hopp, út í veður og vind!" að síbyljustefjum í textanum eins og sést vel í þýðingu Helga Hálfdanarsonar. 

 

HANN RIGNIR ALLTAF. 

 

Ég var lítill angi með ærslu og fjör - 

hæ, hopp, út í veður og vind!

Ég stundaði glens og strákapor

og hann rignir alltaf dag eftir dag.

 

 

Ég óx úr grasi ef einhver spyr, - 

hæ, hopp, út í veður og vind! 

En klækjarefum er kastað á dyr

og hann rignir alltaf dag eftir dag. 

 

Mér varð til gamans að gifta mig, - 

hæ, hopp, út í veður og vind! 

Nú dugar lítið að derra sig

og hann rignir alltaf dag eftir dag! 

 

Ég hoppa prúður í brúðarsæng, - 

hæ, hopp, út í veður og vind! 

Og brennivínsnefi bregð í væng, - 

og hann rignir alltaf dag eftir dag. 

 

Sem veröldin forðum fór á kreik, -

hæ, hopp, út í veður og vind! 

Enn vöðum við reyk, senn er lokið leik

en við látum hann ganga dag eftir dag.

Og hann rignir alltaf, rignir alltaf,

rignir alltaf dag eftir dag!  

 

 

 


mbl.is Alltaf sama skítaveðrið á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Enn einn forsendubresturinn hér á Klakanum.

Þorsteinn Briem, 31.1.2015 kl. 17:40

2 identicon

Ísland er land þitt og aldrei því gleymi!

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 31.1.2015 kl. 23:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband