Beinbrot eru "íþyngjandi".

Beinbrot og önnur veikindi, sem hafa í för með sér hreyfihömlun, eru sérlega varasöm fyrirbæri fyrir þá sem ekki vilja verða of þungir.

Skiptir þá litlu þótt þessi hreyfihömlun er langvinn eða varir aðeins í nokkrar vikur.

Hreyfingarleysið kallar á grimmilegt aðhald í mataræði.

2008 glímdi ég við lifrarbrest í þrjá mánuði sem varð til þess að ég missti 16 kíló.

Mér fannst æðislegt eftir veikindin að geta borðað hvaða sem var, en varaði mig ekki á því hvað ég þyngdist fljótt um þessi 16 kíló.

Lærdómur: Ekki að verðlauna sig!

Um þessa helgi held ég upp á sex vikna afmæli axlarbrots, vegna þess að sex vikur eru talinn meðaltíminn, sem þarf til að bein og svöðusár grói og slæmar tognanir jafni sig.

Gróandinn er hægari hjá gömlu fólki eins og mér, og þegar afleiðingar gamals hnjasks á hálslið bætist við áhrif axlarbrotsins, tekur til dæmis fleiri vikur en sex að ná upp úthaldi í hraðri vélritun.

Axlarbrotin eru verri en flest önnur. Þetta mæli ég af reynslu eftir 60 ára brotaferil, þar sem þrjú af fimm brotum og eitt slys í viðbót sem setti mig hækjur í hálfan mánuð gerðust á hættulegasta staðnum, leiksviði. Leiksviðin eru hættulegri en flug og kappakstur!

Þessi pistill er sá fyrsti í sex vikur þar sem meirihlutinn er skrifaður blindandi með báðum höndum og ég gat í fyrsta sinn í sex vikur hlaupið stigahlaupið mitt á undir 33 sekúndum.  Litlu verður Vöggur feginn!

Við beinbrotið 6. desember blasti við að hreyfingarleysið og hátíðarmaturinn um jól og nýár yrðu varasöm blanda.

Enda urðu viðbótarkílóin þrjú. Hefði samt getað orðið verra. 

Og nú er liggur fyrir að ráðast á þau. Engar afsakanir duga lengur.  

 

60 ÁRA BROTAFERILL

 

Ég eitt sinn braut viðbein, - í annað sinn hné,

þar áður tvö hálsbrot.  Samt er ég glaður,

þótt núna með alveg nýtt axlarbrot sé.

Ég er ekki lengur fábrotinn maður.

 

Sendi öllum brotaþolum og síbrotamönnum bestu kveðjur.

 

 

 

 


mbl.is Byrjaði að þyngjast eftir hálsbrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband