Stanslaus síbylja rangrar notkunar hugtaka.

Varla er búið að fjalla hér á síðunni um íslenskar gufuaflsvirkjanir og andæfa síbyljunni um endurnýjanlega orkugjafa með gildum rökum og staðreyndum, sem sýna hreina rányrkju, en að það birtist ný frétt um að við séum með hæsta hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa sem þekkist meðal ríkja heims. 

Fyrsti pistillinn á þessari bloggsíðu árið 2007 af um það bil 10 þúsund, sem síðan hafa birst hér á síðunni, fjallaði nákvæmlega um þennan áróður, en það er eins og að skvetta vatni á gæs að varpa ljósi á hið sanna í málinu. 

Ef einhverjum finnst þessi skrif hér verða síbyljukennd, er því til að svara, að síbyljan var ekki hafin hér á þessari bloggsíðu, heldur með stanslausum áróðri á heimsvísu, sem ekki er hægt að láta ómótmælt. 

Því verður enn og aftur að taka fram eftirfarandi: 

Stærsta viðfangsefni jarðarbúa á 21. öld er ofið úr tveimur þáttum: Að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda og takast á við orkuskort af völdum rányrkju á orkugjöfum. 

Við Íslendingar stöndum nokkuð vel varðandi það fyrrnefnda hvað snertir framleiðslu á raforku, sem ekki veldur umtalsverðum útblæstri gróðurhúsalofttegunda, og þess vegna ætti fyrirsögnin og umræðan um þessa ágætu stöðu að túlka það. 

En orkugjafi, sem ekki felur í sér útblástur gróðurhúsalofttegunda, er ekki alltaf það sama og endurnýjanlegur orkugjafi. 

Þannig er útblástur gufuaflsvirkjana að vísu með lítið hlutfall gróðurhúsalofttegunda en orkuöflunin byggist hins vegar á rányrkju á borð við þá sem nú á sér stað í langstærstu gufuaflsvirkjun landsins, Hellisheiðarvirkjun og orkuvinnsluna á Nesjavalla-Hellisheiðarsvæðinu. 

Í forsendum gufuaflsvirkjananna er aðeins gert ráð fyrir 50 ára endingartíma, sem er langt fyrir  neðan endingartíma kolanámu, svo dæmi sé tekið, og víðsfjarri því að geta talist endurnýjanleg orka. Enda fer orkan þegar dvínandi eftir aðeins rúman áratug vinnslu.  

Hvað á maður að þurfa að birta þetta með stóru letri?

Vísa að öðru leyti í fyrri pistil og pistla um þetta mál. 

 


mbl.is Á toppnum í endurnýjanlegri orku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

19.3.2012:

"Stefán Arnórsson, prófessor við jarðfræðideild Háskóla Íslands, segir fullyrðingar sem stjórnmálamenn vilji gjarnan ýta undir um að jarðvarmi sé endurnýjanleg auðlind ekki standast og í raun sé rennt blint í sjóinn með stærð sumra svæða sem til standi að nýta, svo sem á Hellisheiði."

"Í þessu togast á þrennt, pólitík, hagsmunir og fagmennska," segir Stefán og kveður allt faglegt mat segja að auðlindin sé ekki endurnýjanleg."

Þorsteinn Briem, 1.12.2016 kl. 01:44

2 identicon

Ég er sammála, fréttaflutningur af raforkumálum er mjög villandi.

Nágrannaþjóðirnar framleiða mun meira af rafmagni úr endurnýjanlegum orkugjöfum en íslendingar.

Nefna má að ársnotkun Breta er yfir 330TWh, um 20% þar af er raforka framleidd úr endurnýjanlegum orkugjöfum, eða nálægt 65TWh.

Ársnotkun Dana nemur um 33TWh, þar af 15TWh úr endurnýjanlegum orkugjöfum.

Heildar raforkunotkun á Íslandi er svo um 20TWh, ef mér skjátlast ekki.

Sigurður Breiðfjörð Jónsson (IP-tala skráð) 1.12.2016 kl. 13:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband