Ólíkt höfumst vér að.

Fréttin um fangavist og háa sekt fyrir að brjóta þjóðgarðsreglur í Yellowstone er eitt af ótal dæmum um mismun á því hvaða augum náttúruperlur í Bandaríkjunum eru litnar og hvernig er staðið að verndun og umgengni við þær. 

Bandarískur sérfræðingur um nýtingu jarðvarma, sem var gestur og fyrirlesari á heils dags málþingi í tilefni af tíu ára afmæli ÍSOR, lýsti því á stóru korti af Norður-Ameríku, hvernig farið yrði í fótspor Íslendinga í nýtingu jarðvarmans vestr, sýndi fjölmarga staði og svæði vestra sem hægt væri að nýta til orkuvinnslu. 

Á kortinu voru þetta litlir deplar, misgulir eða rauðir, en einn nálægt miðju var margfalt stærri og eldrauður. "Þetta er Yellowstone" sagði sérfræðingurinn. "Það er heilög jörð sem verður aldrei farið inn á né nálægt þjóðgarðinum til nýtingar jarðhitans." 

Alls er svæði, sem verndað er gegn borunum í kringum Yellowstone á stærð við allt Ísland. 

Ef þetta er borið saman við viðhorfið hér á landi, er himinhrópandi munur.

Hér stendur til að vaða með gufuaflsvirkjanir inn á öll hliðstæð svæði á Reykjanesskaga nema Brennisteinsfjöll og umgengnin og ástandið á Geysissvæðinu hefur verið og er enn þjóðarskömm.

Ef bandarískum kröfum um vernd væri fylgt hér á landi, hefði Geysissvæðinu verið lokað fyrir langalöngu og búið að ganga tryggilega frá verndun þess.

Ef íslenskri hegðun og viðhorfum hefði verið fylgt í Yellowstone hefðu aldrei verið settar þær ströngu reglur í hvívetna sem þar gilda, heldur ferðafólki leyft að komast upp með að traðka niður svæðin, að ekki sé nú talað um gufuaflsvirkjanirnar, sem búið væri að reisa þar og allir baðstaðirnir, bláu, gulu og rauðu lónin.  


mbl.is Fangavist fyrir að brjóta þjóðgarðsreglur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Um 3,4 milljónir manna heimsóttu Yellowstone-þjóðgarðinn í Bandaríkjunum árið 2012 en garðurinn var stofnaður árið 1872 og ég veit ekki betur en að hann sé í góðu lagi.

Yellowstone National Park


"Hann var það
, Steini, þegar ég kom þangað 2008."

Ómar Ragnarsson
, 20.3.2013

Þorsteinn Briem, 26.1.2017 kl. 00:46

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Yfirleitt er ekki hægt að banna útlendingum að dvelja hér á Íslandi eða Íslendingum að veita þeim hér þjónustu samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, meðal annars um frjálsa för fólks og frjáls þjónustuviðskipti á svæðinu.

Og Kínverjar sem komnir eru inn á Evrópska efnahagssvæðið, til dæmis til Noregs, geta að sjálfsögðu flogið þaðan hingað til Íslands.

Hins vegar er hægt að meina glæpamönnum sem búa á Evrópska efnahagssvæðinu landgöngu hérlendis.

Þorsteinn Briem, 26.1.2017 kl. 00:50

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ísland er eitt strjálbýlasta land í heimi og er þar í 237. sæti:

Röð landa eftir þéttleika byggðar

Hér á Íslandi dvöldu um 1,3 milljónir erlendra ferðamanna árið 2015.

Hver erlendur ferðamaður dvelur hér á Íslandi í eina viku og því voru hér að meðaltali í fyrra um 25 þúsund erlendir ferðamenn á degi hverjum allt árið á öllu landinu.

Um níu af hverjum tíu Íslendingum ferðast hér innanlands á ári hverju og gista að meðaltali tvær vikur á þessum ferðalögum.

Að meðaltali eru því um ellefu þúsund Íslendingar á ferðalögum hér innanlands á degi hverjum, þannig að erlendir ferðamenn eru hér einungis um tvisvar sinnum fleiri en þeir íslensku.

Þorsteinn Briem, 26.1.2017 kl. 00:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband