Miðflóttaaflið þeytir fólkinu áfram.

Í eðlisfræðinni er talað um miðflóttaafl. Hliðstætt miðflóttaafl var, er og virðist ætla að verða áfram í þróun byggðar á Suðvesturlandi. 

Hlutfallsleg fjölgun fólks á Suðurnesjum og á Árborgarsvæðinu á sér varla hliðstæðu síðan á tímum gríðarlegra fjölgunar í Kópavogi fyrir 60 árum. 

Í stórfjölskyldu minni eru teiknin skýr. Nú er fjórða kynslóð að koma til skjalanna, langafabörnin, og þau verða Njarðvíkingar. 

Afabörnin eru flest Mosfellingar. 

Um síðustu aldamót var tekin upp ofsafenginn áltrúnaður hér á landi, trúin á stórvirkjana- og stóriðjustefnu. 

Einnig trú á að markaðurinn sæi best um það sjálfur að standa fyrir mettun húsnæðisþarfar. 

Þegar hið "ómögulega", "eitthvað annað", brast á 2011 voru allir óviðbúnir varðandi uppbyggingu innviða og húsnæðismál. 

Æ stórkarlalegri og ævintýralegri kosningaloforð í húsnæðismálum í komandi kosningum eru dæmi um ástandið. 

En unga fólkið og þeir, sem minna mega sín, flytja ekki inn í kosningaloforð og tugi þúsunda íbúða, sem eru á pappírnum, meðal annars meðfram Borgarlínu, sem er líka á pappírnum. 

Ekki heldur inn í miklu dýrara húsnæði miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu. 

Miðflóttaaflið þeytir þessu fólki til Þorlákshafnar, Selfoss, Voga og Reykjanesbæjar. 

Og ef verið er að leita að stjórnmálaflokki, sem beri ábyrgð á því andvaraleysi, sem ríkt hefur, hafa þeir nær allir verið við völd meira og minna síðan 2011 og geta því ekki fríað sig ábyrgð. 

Inn í tómarúm getuleysis flokkanna sækja því ný öfl. 

Það hlýtur að vera ein af ástæðunum fyrir því að nú hrúgast upp ný framboð sem keppast við að yfirbjóða hver annan með húsnæðismálaloforðum. 

Á meðan þau eru ekki orðin að veruleika í tilbúnu húsnæði heldur miðflóttaafl húsnæðisvandaræðanna áfram að svínvirka. 

 


mbl.is Nýju íbúðirnar of dýrar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Þetta er akkúrat lögmálið í dag. Hverjir vilja t.d. íbúðir við flugvöll. Allstaðar í heiminum forðast menn þá staði nema það að verðið er oft best út af lítilli fyrirspurn.

Valdimar Samúelsson, 24.4.2018 kl. 11:48

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Fólkið, sem býr suður í Skerjafirði vill búa við flugvöll. Borgaryfirvöld héldu um síðustu aldamót að íbúar þar vildu að reist yrði há og mikil hljóðmön meðfram austur-vestur brautinni til að dempa hávaðann frá flugvélunum. 

En íbúarnir sendu bænaskrá um að þetta yrði ekki gert, það vildi ekki láta byrgja fyrir útsýnið frá sér yfir flugvöllinn til norðurs og sagðist auðvita ekki búa þarna við flugvöll, sem væri búinn að vera þar í 60 ár, nema vegna þess að því fyndist allt í lagi að eiga heima við flugvöll. 

Einn slíkur er Ögmundur Jónasson, sem á heima skammt frá flugbrautinni, hinum megin við hana, og sagðist komast í vor- og sumarskap við það að heyra í litlu flugvélunum, sem færðust í aukana með vorkomunni. 

Ómar Ragnarsson, 24.4.2018 kl. 15:33

3 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Ómar þú ert nú sigldur. Það vill engin kaupa hús við flugvelli en fólk sem er búið að búa við það í 60 ár fer ekki að breyta. Ég ólst upp og vann við flugvöllinn, það truflaði mig ekkert og þekki líka fólk erlendis sem á heima við flugvelli það getur ekki selt eignir sínar og situr því það þangað til að það hrekkur uppaf.  

Valdimar Samúelsson, 24.4.2018 kl. 16:56

4 identicon

Skipti mér ekki af miðflóttaafli, en finnst skrýtið að stúdent úr MR 1960 sé enn að eignast börn kominn nálægt áttræðu, samt eina skýringin á "langafabarni" og "afabarni". Þetta er "barnamál" sem ekki á að sjást né heyrast hjá fullorðnu fólki, nema auðvitað ef afi/langafi eignast barn!

Jakob

Jakob R. Möller (IP-tala skráð) 24.4.2018 kl. 17:03

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Mér finnst það bara praktískt að nota orðin afastrákur, afastelpa og afabarn. Fann ekki önnur orð í svipinn til að nota í staðinn. 

Ómar Ragnarsson, 24.4.2018 kl. 23:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband