Hitti Maggi Pé ekki naglann á höfuðið?

Magnús Pétursson var einn allra besti knattspyrnudómari okkar hér í gamla daga og var oft litskrúðugur á vellinum. Síðar gerðist hann brautryðjandi þegar hann stofnaði verslunina Jóa útherja. 

Hemmi Gunn var einn þeirra sem kunni ýmsar sögur af Magnúsi og sagði eina þeirra sem skemmtisögu, sem ég hef kannski áður sett einhvers staðar inn á vefinn en kemur óneitanlega upp í hugann þegar sagt frá því að Neymar hafi lotið í gras í alls 14 mínútur á HM, en það samsvarar tæpum hálfleik í framlengingu. 

Saga Hemma var nokkurn veginn svona: 

Hann var að keppa á Akureyrarvelli gegn KR þegar hann fékk boltann og brunaði í átt að marki. 

Varnarmaður renndi sér á hann og felldi hann gróflega þannig að Hemmi missti boltann frá sér og færið fór forgörðum. 

Hemmi stóð á fætur, hljóp til Magga og sagði: "Af hverju dæmirðu ekkert á þetta? Þetta var augljóst brot og það mjög harkalegt." 

"Ekki var hægt að sjá það á viðbrögðum þínum að þetta væri annað en eðlileg tækling" svaraði Magnús. 

Sársvekktur hafði Hemmi þessi ummæli í huga þegar hann brunaði skömmu síðar með boltann á sama hátt upp völlinn, sami varnarmaður hjólaði í hann og endurtók sinn grófa leik. 

Aftur missti Hemmi boltann og í þetta skipti var Hemmi ekkert að leyna afleiðingum brotsins heldur veltist emjandi á vellinum. 

En ekkert var dæmt og leikurinn hélt áfram. 

Nú haltraði Hemmi til Magnúsar, enn sársvekktari en fyrr, og kvartaði enn sárar: "Af hverju dæmdirðu ekkert á þetta? Þú hlýtur að hafa séð hvað þetta var gróft brot."

"Svona Hemmi minn," svaraði Magnús. "Ekkert skuespil hér!"

Skemmtileg saga en kannski dæmigerð fyrir fyrirbærið og það sem menn standa frammi fyrir á HM. 

Kannski hefur enginn lýst því betur en Magnús Pétursson. 


mbl.is Neymar hefur eytt 14 mínútum í grasinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband