Gengdarlaus steinbákn, hákassar og hávaði.

Margar borgir Evrópu urðu fyrir búsifjum af völdum loftárása í Seinni heimsstyrjöldinni. 

Í ákafanum við að byggja þær upp að nýju fengu stórkarlar stein- og glerbákna að leika lausum hala og eyðileggja þá þægilegu og aðlaðandi borgarstemningu sem gömlu borgarhlutarnir höfðu haft. 

Hefur það verið harmað víða síðar meir, og þær borgir, sem þykja vinalegastar og mest aðlaðandi eru borgir á borð við Prag, sem slapp við loftárásirnar. 

Hér á landi sluppum við við eyðileggingu stríðsins, en því miður ekki við ágang þeirra, sem vildu elta steinsteypu- og glerjahalaæðið, sem rann á borgaryfirvöld, arkitekta og byggingarfíkla erlendis. 

Litlu mátti muna að Bernhöftstorfan yrði rifin og reist þar mikið steinbákn og rutt burtu húsum til að rýma fyrir stórum hraðbrautum um Reykjavík fyrirstríðsáranna auk þess að leggja margfalda hraðbraut eftir endilöngum Fossvogsdalnum. 

Heldur slaknaði á þessum ofstopa um sinn, en á síðustu árum hefur keyrt um þverbak samfara stórfjölgun ferðamanna. 

Það er bókstaflega verið að drekkja borginni okkar í svo stórkarlalegum hótelum, sem standa sums staðar næstum því í röðum, að maður þekkir varla borgina lengur. 

Allir möguleikar á að búa til friðsælt íslenskt umhverfi í borginni hafa verið eyðilagðir með þessum andskota, - afsakið orðbragðið. 

Stóru steinkassarnir yfirgnæfa og kaffæra allt, loka fyrir útsýni og eru á góðri leið með að fæla innfædda og eðlilega verslun þeirra í burtu. 

Vaðið er yfir einn helgasta reit landsins, Víkurkirkjugarð, sem á sér sögu aftur til landnáms, þrengt að Alþingi og öðrum merkum stöðum.  

Hávaði virðist eiga að verða eitt af táknum Reykjavíkur og Reykvíkingum, jafnt sjúklingum sem nemendum í skólum. 

Græðgin gagnvart ferðamönnum er látin grassera svo mjög, að hún og ferðamannafjöldinn, sem hrúga á inn í öll þessi hótel, fela í sér hættu á sjálfseyðingu. 


mbl.is Vinnuvélar slá taktinn í miðbænum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband