Guð láti gott á vita. Þarf að hreinsa fleira.

Sigurður Ingi Jóhannsson sagði á Byggðaráðstefnu í Stykkishólmi í haust að tími risavirkjana og mengandi stóriðju væri liðinn. En bætti því við að leggja út í miklar háspennulínuframkvæmdir. 

Frá þessu var greint hér á síðunni, en yfirlýsing hans nú er afdráttarlausari og ber að fagna henni. 

"Guð láti gott á vita" sagði gamla fólkið stundum í ungdæmi síðuhafa. 

Sigurður Ingi líkir verkefninu í þessum málum við það þegar byrjað er að moka ofan í skurði sem grafnir voru áratugum saman um allt land á síðari hluta aldarinnar sem leið.

Athygli vekur að hér talar formaður Framsóknarflokksins, en hins vegar sést ekkert samsvarandi koma úr herbúðum Miðflokksins, sem fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra stýrir. 

Að því leyti til hefur ekkert verið dregið til baka varðandi áherslu hans og beina þátttöku í byggingu álvers milli Blönduóss og Skagastranda.

Það sést vel hvað yfirlýsing Sigurðar Inga er stór, að fyrir áratug voru sex af helstu ráðamönnum landsins nýbúnir að taka fyrstu skóflustunguna að 120 þúsund tonna álveri í Helguvík, sem átti að verða alls 360 þúsund tonn. 

Hafin var bygging kerskála, og standa uppistöður þess mannvirkis áfram sem tákn um það offors og brjálæði, sem menn vildu þá ana út í með því að reisa alls sex (síðar líka það sjöunda) risaálver, sem myndu kosta eyðileggingu allra helstu náttúruverðmæta landsins, sem eru það lang dýrmætasta, sem þessari þjóð hefur verið falið að varðveita fyrir komandi kynslóðir og mannkyn allt. 

En enda þótt nú sé verið að hreinsa upp eftir stóriðju- og stórvirkjanaæðið, má ekki gleyma því að næstu áratugi er framundan gríðarleg hreinsun varðandi margar af þeim stórvirkjanir sem þegar eru komnar. 

Það á einkum við gufuaflsvirkjanirnar á Reykjanesskaganum, allt frá Þingvöllum til Reykjanestáar, sem fela í sér stófelldustu rányrkju í sögu þjóðarinnar, og þarf að bregðast við. 

Því að þegar meira en 600 megavatta afl þessara virkjana fer dvínandi og klárast að mestu mun það kosta mikið átak að vinda ofan af þessu brjálæði, sem lýsir sér meðal annars í því að HS orka seilist alla leið vestur á hálendið á Ströndum til þess að kreista út raforku í staðinn fyrir þá, sem fer dvínandi á Svartsengis- Reykjanessvæðinu. 

Um þetta gildir nýyrðið skómigustefna, líkingin við það að pissa í skó sinn til þess að hita hann aðeins upp örskamma stund en gera vandamálið verra til frambúða, ekki síst þá fyrirætlan og einbeittan vilja að virkja í Eldvörpum til þess að seinka aðeins hinu óhjákvæmilega endanlegu hruni orkunnar. 

Ef af þessu verður, mun tjónið af völdum rányrkjunnar verða ennþá verra en ella.  

 

Í 


mbl.is Tími risavirkjana liðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Gott og vel, en þetta er aðeins önnur hlið málsins og hálfsögð saga, því að með þessu yrðu bráðnauðsynleg verkefni ríkisins eins og heilbrigðismál, velferðarmál, mennta- og menningarmál o. s. frv. svipt tugum milljarða króna.      Þeir, sem setja fram ofangreindar tillögur, verða að upplýsa, hvaðan eigi að fá þá miklu peninga, - tilgreina, hvaða nýja skattheimtu eigi þá að taka upp."

Sagði einn bloggari þegar mótmælt var fyrirhuguðum aðgerðum sem fært hefðu ríkinu tekjur.

Hann var einnig á því að ekki ætti að hrófla við neinu, nema þeir sem það vilja komi fram með útfærða lausn á tekjutapi ríkisins, vegna þess að ".. þetta gerðu stjórnmálamenn hér fyrir meira en þrjátíu árum og komust þá upp með það, og ekki aðeins það, þeir voru kosnir aftur og aftur af þeim sömu sem nú koma seint og um síðir, .."

Hábeinn (IP-tala skráð) 31.12.2018 kl. 17:23

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Afsakaðu, Hábeinn, eða hver sem þú nú ert, ég sé ekki hvernig skiptar skoðanir um veggjöld koma risavirkjunum og stóriðjustefnu við. 

Ómar Ragnarsson, 31.12.2018 kl. 23:39

3 Smámynd: Hallgrímur Hrafn Gíslason

Þegar þóríum orkuverin  komast í gagnið á næstu árum , verður engin stóriðja á Íslandi samkeppnishæf, stóriðjar verður þá reist við námur og hráefnið unnið þar á staðnum.  Hvað við gerum við alla umframorkuna verður höfuðverkur,við höfum ekkert að gera við alla þessa orku, Stór orkuver verða verkefnislaus og almenningur þurf að greiða hætta orkuverð meðan það er verið að greiða niður lán orkuveranna.

Hallgrímur Hrafn Gíslason, 1.1.2019 kl. 00:24

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður nafni. 

Það er ljótt að láta sem þú sért ekki til.

Í fyrsta lagi þá hefði sá Vættur Íslands, sem ekki bara varði einstaka landshluta, heldur landið sjálft, og hét Ómar Ragnarsson (P.S. Ég kaus þig út á þetta), aldrei trúað Sigurði Inga, þegar hann taldi þessar lygar gætu skilað honum einhver atkvæði. 

Arfleið Sigurðar Inga eru jú að ljúga.

En nafni minn??, af hverju lætur þú svona???

ICESave skuldbindingar Jóhönnu og Steingríms fólust jú í 22 virkjunum.

Og láttu ekki eins og ég sé hálfviti sem geti ekki rökstutt mitt mál.

Ég nefnilega kaus þig vegna þess að ég trúði, en í því atkvæði var ekki fólgin afneitun á staðreyndum.

Samt rífst þú við þær í dag.

Eins og Sigurður Ingi sé eitthvað Issjú.

Þó skal ég segja þér eitt, ég er á þeim aldri, þó ég sé miklu yngri en þú, að elliglöp geta alveg á mig sótt.

Og trúðu mér, Náttúruvættur Íslands, verður eitt af því síðasta sem ég mun gleyma.

Því í raun á ég ekkert sem ég get skilað til barna minna sem sannarlega munu landið erfa.

Mér finnst stundum að þú gleymir því nafni minn.

Og munir eftir 22 virkjunum sem þú studdir út í þræladauða ICEsave. 

En ég veit að þesari spurningu munt þú svara, en ekki hér á Moggablogginu.

En svara engu að síður.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 1.1.2019 kl. 02:02

5 identicon

Veggjöld koma risavirkjunum og stóriðjustefnu ekkert við. Nema hvað sömu rökfærslu má nota fyrir stóriðjustefnunni og veggjöldunum. Bæði skapa ríkinu tekjur og því er ætlast til þess að þeir sem ekki koma með aðra tekjustofna þegi. Það er lélegur málflutningur og ber vott um rökþrot, sama hvort það er notað gegn þeim sem eru á móti veggjöldum eða stóriðju.

Og Hallgrímur, stóriðjan er búin að skila því að við eigum orkuverin skuldlaust. Þóríum orkuver hafa verið til síðan 1965, og orkan frá þeim er ekki ódýr. Indverjar áætla að fullnægja 30% af raforkuþörf sinni 2050 með þóríum. Kosturinn við þóríum orkuver er lítil mengun miðað við önnur kjarnorkuver.

Hábeinn (IP-tala skráð) 1.1.2019 kl. 02:03

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er rangt, nafni, að ég hafi stutt Icesave og órækast vitni um það er að finna á bloggsíðum á þeim tíma þar sem ég lýsti yfir andstöðu minni við Icesave-samningana. 

Hábeinn, þegar stóriðjuæðibunugangurinn helltist yfir þjóðina, var ítrekað bent á aðra möguleika, eins og til dæmis ferðaþjónustu, hugvits- og frumkvöðlastarfsemi á borð við CCP og fyrirbæri eins og tónlistarbyltinguna, sem skapar milljarðatekjur. 

Allt þetta afgreiddu stóriðjufíklar út af borðinu í hæðnistón þar sem orð eins og "eitthvað annað", "fjallagrasatínsla, lopapeysuprjón" o.fl voru notuð sem skammararyrði um einskis nýtar hugmyndir. 

Eftir 2011 kom í ljós að það varð einmitt "eitthvað annað" sem skóp mestu peningauppgrip í sögu þjóðarinnar. 

Ómar Ragnarsson, 1.1.2019 kl. 03:02

7 identicon

Það nægði ekki, og var ekki sannfærandi, að benda á eitthvað sem ekki var öruggt. Heppni réði því að ferðaþjónustan blómstraði, og það gerði hún þrátt fyrir virkjanir og stóriðju sem áttu að eyðileggja alla möguleika á blómstrandi ferðaþjónustu. En hún gerði það mörgum árum eftir að við þurftum tekjurnar og atvinnuna sem framkvæmdirnar fyrir austan sköpuðu. Þið gátuð ekki bent á neitt öruggt sem skapað hefði tekjurnar á þeim stað og þeim tímapunkti sem þeirra var mest þörf. Vettlingaprjón og fjallagrasatínsla var það eina sem hefði skilað smá tekjum strax, það eina sem ekki voru algerir draumórar.

Andstæðingar veggjalda hafa einnig bent á aðrar sparnaðar og tekjuleiðir fyrir ríkið. Til dæmis hækkanir á ýmsum sköttum og gjöldum, lækkanir á bótum og styrkjum. Það mætti einnig nota draumóra aðferðir umhverfisverndarsinna og benda á gull eða olíuleit. Hver veit nema eitthvað þannig finnist á næstu áratugum.

Hábeinn (IP-tala skráð) 1.1.2019 kl. 04:39

8 Smámynd: Hallgrímur Hrafn Gíslason

Hábeinn, kostnaður kwh með kjarnorku er 6,7 cents kolum 4,2 cents náttúrugasi 4,1 cents og thoríum 1,4 cents.

Tölur frá 2002

Hallgrímur Hrafn Gíslason, 1.1.2019 kl. 11:40

9 identicon

Nú vill svo til að þórín er geislavirkt efni og þórínorkuver yrði því kjarnorkuver.

Þorvaldur Sigurdsson (IP-tala skráð) 2.1.2019 kl. 20:32

10 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður nafni minn.

Við áttum þó orðaskipti um annað, orðaskipti vandlega geymd á harðadisk mínum.

Ég spurði þig kurteislega 2009 hvernig þú gætir fengið það út að faðir minn og tengdafaðir væru bæði sekir um óráðssíu, sem og að vera í ábyrgð fyrir skuldir auðkýfinga, hvorutveggja menn sem máttu aldrei vamm sitt vita, og stóðu alltaf við allar skuldbindingar við guð og menn.  Þú mátt reyndar eiga að þú brást við, en ekki á þann hátt að sjá rangindin við ICEsave. 

Svo er ICEsave 2 önnur ella, allavega vættir þessa lands studdu ekki þá samninga, enda kolfelldir.

En það breytir því ekki að ríkisstjórnin sem þú studdir nafni minn, hún stóð fyrir þessum 22 virkjunum, ´meintar nýjar fjárfestingar sem áttu að vera til þess að þjóðarbúið gæti staðið við samningana við AGS auk ICEsave, voru uppá rúmar 300 milljarða 2 ár í röð.  Það er miðað við orð annars vegar Steingríms, og hinsvegar Jóhönnu.

Það var seinna árið sem ágætur jarðfræðingur benti á hvað fælist í þessum fjárfestinum, það er að hinar 22 virkjanir væru sumar hverjar aðeins hugarfóstur.

Þó þjóðin sæi svikin, og refsaði Samfylkingunni harðlega, sem og VinstriGrænum, þó kommúnistar elítunnar héldu tryggð við flokkinn, þá var enginn flótti í stuðningnum hjá þekktu nafngreindu fólki.

Og það styður enn.

En mikið má falsið vera ef menn kenna sig við umhverfisvernd á eftir.

Þess vegna er núverandi umhverfisráðherra til dæmis brandarakarl.  Að ekki sé minnst á Arna Finnsson, sem kaus vini sína í Samfylkingunni fram yfir hugsjónir sínar.

En hvað með þig nafni, ég man ekki til þess að þú hafir endurreist flokk þinn.

Eða þú hafir fordæmt svikarana.

En það er aldrei of seint að vera sjálfum sér samkvæmur.

Fortíðin er aðeins lærdómur ef útí það er farið, þó forsenda þess lærdóms sé að sætta sig við hana, afneitun hennar er hins vegar lítt til lærdóms fólginn.

Það er vá fyrir dyrum, og varla hægt að segja að mannkynið sé að upplifa sína Ögurstund, váin er stærri en það.

En það er lítil liðveisla í þeim sem hoppa alltaf uppá vagn auðsins, í hvert skipti sem þeim er boðið völd og áhrif.

Þess vegna má saga hinna 22 virkjana ekki gleymast.

Það er engin taka 2 í þessu dæmi.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 3.1.2019 kl. 18:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband