"Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni."

Ævinlega þegar síðuhafi sér Ásdísi Hjálmsdóttur eða heyrir fréttir af henni minnist hann föður hennar heitins, sem var einstakur afreksmaður. 

Á æsku- og unglingsárum var faðir minn tíður gestur og tók son sinn með sér á nær öll glímumót.

Á þeim árum skipti stærð og styrkleiki miklu máli og gögnuðust mest þeim glímumönnum, sem notuðu helst hábrögð eins og klofbragð eða sniðglímu á loftif og gátu notað kraftana til að lyfta mótherjunum sem hæst og fella þá að sama skapi sem harkalegast í jörðina. 

Það lýtti glímuna oft að til varnar notuðu menn of oft þá aðferð að "bola", það er, að standa gleiðir og halla efri hluta búksins fram, en mjöðmum aftur. 

Það var til bóta þegar mönnum var bannað að leggjast í svona vörn. 

Hinir smærri og máttarminni urðu helst að treysta á lævísleg lágbrögð eins og hælkróka og leggjabragð, tekin á hárnækvæmum augnablikum þegar mótherjinn var ekki í nógu góðu jafnvægi eða gaf á annan hátt færi á því. 

Þótt rumarnir hylltust að vonum helst til þess að nota hábrögðin svo oft, að það var reynt að klína á þá að þá að þeir væru um of takmarkaðir í því sem er aðall góðrar glímu, fjölbreytileg og vel tekin brögð og varnir við þeim. 

Sigtryggur Sigurðsson tók sig eitt sinn til og afsannaði þetta hvað hann snerti, því að í á einu glímumótinu lagði hann ekki aðeins að venju alla keppinauta sína, heldur notaði jafn mörg mismunandi brögð og þeir voru margir; lagði enga tvo þeirra með sama bragðinu. 

En því kemur glíman í hug þegar Ásdís Jónsdóttir er í fréttunum, því að faðir hennar, Hjálmur Sigurðsson, var einhver snjallasti glímumaður í sögu þeirrar íþróttar fyrir sakir einstæðrar fimi, leikni, hraða og mýktar sem vann það upp að hann var alls ekki það stór, að ætla mætti að hann gæti náð að verða sá besti á hátindi ferils hans. 

Í vörninni minnti hann á hnefaleikameistarann Floyd Mayweather, því að þegar stærstu og sterkustu andstæðingarnir hófu hann hátt á loft til að fella hann, gerði hann sig svo slappan og og mjúkan, að það var stundum eins og þeir væru með blautt handklæði í höndunum, sem ómögulegt var að hagga á þann hátt sem þeir vildu. 

Og þegar Hjálmur kom öllum á óvart standandi niður, gerðist það iðulega, að sá stóri steinlá allt í einu fyrir eldsnörpum og snöggum hælkrók, sem enginn átti von á.   

Ef Ásdís er nú að hætta keppni, verður svipaður söknuður í brjósti síðuhafa og þegar faðir hennar hvarf af glímuvellinum á sínum tíma. 

Og um hugann líður svipuð þökk og aðdáun nú og greip svo marga hér um árið. 

 


mbl.is Síðasta keppni Ásdísar á ferlinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband