Framtíðarsýn Disneys orðin að meiri allsherjarvá en farsóttarveirur?

Walt Disney var einn hugmyndaríkasti og mikilvirkasti áhrifamaður 20. aldarinnar. 

Auk teiknimyndanna kom hann á fót heimsþekktum skemmtigörðum og lét víða til sín taka. 

Þegar plast fór að ryðja sér til rúms tók hann sérstöku ástfóstri við þetta nýja "töfraefni" sem myndi gerbylta öllu umhverfi mannsins. 

Til þess að leggja áherslu á þetta lét hann gera heilt "Plastþorp" þar sem allt var úr plasti, stórt og smátt, til að sýna fram á að plastið gæti komið í staðinn fyrir nánast hvaða efni sem væri. 

En plastið, var líkt og Frankenstein, með eiginleika, sem nú líkt og rísa gegn skapara sínum. 

Það er að vísu léttara, sterkara og oft sveigjanlegra og ódýrara en önnur efni, en lumar á eiginleikum sem engan óraði fyrir, ekki einu sinni Disney, varðandi það að geta sundrast í öragnir, sem eru jafnvel svo litlar, að þær sjást ekki, en geta smogið inn í vatnsheld efni og frumur manna og dýra. Tazzari og Honda PCX

Sem dæmi um veldi plastsins má nefna, að innan í bílum er oftlega allt úr plasti og hvergi hægt að snerta á neinu nema það sé úr plasti. 

Bílasérfræðingar og bílablaðamenn benda oft á það að það sé merki um að reynt sé aðt sleppa sem billegast frá smíði ódýrustu bílanna að þeir séu nánast "plastaðir" að innan. 

Þetta er til dæmis nefnt í frásögnum af tilraunaakstri á komandi rafbíl frá Dacia, sem á að verða ódýrastur allra.  

Efni hrollvekjandi viðtengdrar fréttar á mbl.is er sláandi og minnir á það, að í Eyjafjallajökulsgosinu 2010 smaug gosaskan um allt og komst eins og hárfínn reykur inn í vatnshelda tölvu svo að hún og allar myndirnar og efnið í því varð eyðileggingu að bráð.

Öragnirnar úr plastinu ku vera enn fíngerðari en fíngerðustu reykagnir og þess vegna eru skaparar plastsins gersamlega varnarlausir gegn þeim.  

Walt Disney var sannspár um ótrúlega eiginleika og útbreiðslu plasts, en á hans tíma óraði engan fyrir þeim Frankensteinsku ógnum, sem þetta galdraefni býr yfir og er vaxandi ógn við allt lífríki jarðar. 

Sá, sem þetta ritar, situr í stól úr plasti, með gleraugu úr plasti og pikkar á tölvu úr plasti, handleikur tölvumús úr plasti, drekkur úr plastglasi drykk úr plastflösku, skrifar með penna úr plasti og stingur usb-lykli úr plasti í tölvuna. 

Rafmagnið kemur í gegnum fjöltengi úr plasti, sem er tengt við innstungu úr plasti í grennd við brauðrist og eldhúsklukku úr plasti.  

Á ganginum utan við eldhúsgluggann stendur rafknúið léttbifhjól úr plasti og trefjaefnum.  

Úti er lítill tveggja sæta rafbíll, sem er að mestu úr plasti, og yfirbyggingin límd við burðarvirki úr áli og koltrefjaefnum. 

Á myndinni stendur l25 cc léttbifhjól fyrir aftan hann, og er líka að mestu leyti úr plasti. 

 


mbl.is Örplast getur valdið frumuskemmdum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Plastið er komið til að vera, en það eyðir sér ekki sjálft. Vandinn er hirðuleysi og viljaskortur til að eyða því, sem er lítill vandi.

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 10.12.2021 kl. 16:36

2 Smámynd: Halldór Jónsson

Plast og co2 eru dýrð og dásemd, við þurfum bara að umgangast þetta rétt

Halldór Jónsson, 10.12.2021 kl. 18:11

3 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Góður pistill. Ég tel plast vera varhugavert. Einn mesti skáldskapur 20. aldarinnar er að mínu mati Disneyrímurnar eftir Þórarin Eldjárn sem ég söng inná spólu 15 ára með lögum eftir sjálfan mig, svo mikið heillaðist ég af þeim kveðskap. Hann reyndar minntist ekki á plastið í þeim rímum, en hann gagnrýndi Walt Disney og sagði hann stefna að heimsyfirráðum, og kapítalismann. 

Gagnrýni Þórarins á enn rétt á sér, því mengunin hefur fylgt kapítalisma, fjölmenningu og plastinu.

Ingólfur Sigurðsson, 10.12.2021 kl. 18:16

4 identicon

Því miður verður ekki bæði sleppt og haldið.

Sumum finnst réttilega að nú þegar sé of mikið gengið á auðlindir náttúrunnr þó að ekki bætist það við að bannað verði að nota plast en farið að nota afurðir úr dýra- og jurtaríkinu í staðinn.

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 10.12.2021 kl. 20:20

5 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Þakka greinarnar þínar Ómar Ragnarsson. 

Þið nefnið að engin vandi sé að eyða plastinu. HÞ 

Einhvers staðar las ég að hægt væri að framleiða umkverfis vænna plast.

Lífsloftið, co2 (mengun, rangt) er undirstaða lífsins á jörðinni. HJ 

Meira lífsloft co2, þá er meiri gróður og þá meiri matvæla framleiðsla, fyrir menn og dýr. 

Meiri gróður þá er meira súrefni fyrir menn og dýr. 

Mér dettur helst í hug að þjóðirnar séu látnar greiða fyrir kolefnis vandræði til að fá skattgreiðslur til Smeinuðu þjóðanna. 

Þjóirnar nenna ekki að greiða meira til "Sameinuðu Þjóðanna" og þá koma stórfyrirtækin og borga og taka þá stjórnina að mér sýnist.

Einnig er komin sala framm og til baka á kolefnis kvóta til að láta framleiðslu fyrirtækin greiða meira til víxlaranna. 

Sama með "orkupakkana."

Egilsstaðir, 12.12.2021   Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 12.12.2021 kl. 03:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband