"Er þetta ekki rétt lisið?"

Ef miðað er við lestrarprófin, sem viðhöfð voru í yngstu bekkjum grunnskólans á árunum í kringum 1950, er ekki að sjá að aðferðirnar hafi skánað mikið síðan. 

Í átta, níu og tíu ára bekk notaði kennarinn þá óvenjulegu aðferð að halda reglulega lestrarpróf og raða nemendum síðan í bekkinn eftir einkununum!  

Bekkjum árgangsins var raðað eftir einkunum í bekki, sem fengu heiti fyrstu stafanna í stafrófinu, A, B, C.. og var A bekkurinn með "bestu" nemendurna.

Í Á-bekknum leiddi þessi aðferð til þess, að sá nemandi, sem fékk lægstu einkunina, sat aftast til hægri, séð aftan frá, og þótti ekkert athugavert við það að það sæti væri kallað tossasætið! 

Síðan gerðist það iðulega eftir próf, að þessi tossi bekksins var færður niður í B-bekkinn, og í hans stað kom nemandi úr B-bekknum í sæti hans!

Fróðlegt væri, ef einhver góður fræðimaður með góða þekkingu á kennslusálfræði gerði könnun á þeim kennsluaðferðum, sem beitt hefur verið í skólakerfinu síðustu 80 ár og fylgdi því úttekt á gildi sætisbreytingaraðferðarinnar sem lýst var hér að ofan. 

Fleira var skrýtið við einkunnagjöfina. 

Fyrirfram var það eitt vitað, þegar gengið var til prófs, að einkunnaskalinn í prófum skólands var byggt á einkunum frá 0 upp í 10. Sá skali var almennt notaður í öllum námsgreinum skólans 

Einnig var vitað, að próftextinn væri miðaður við það, að aðeins bestu lesararnir gæti lesið hann á 2 mínútum, en að venjulega kæmist enginn nemandi svo langt. 

Mikil dramatík bærðist í hjarta síðuhafa í fyrsta prófinu þrungin spennu og óvissu. 

Ánægjan var mikil að komast alveg klakklaust í gegnum textann á sléttum tveimur mínútum, en þeim mun meiri urðu vonbrigðin þegar niðurstaðan var fengin: Aðeins 7,6!

Engin skýring var gefin og vonbrigðin voru sár hjá litla músarhjartanu.

í næstu lestrarprófum var ekki hægt að lesa neina framför úr einkununum en síðar fóru þær hægt skánandi. 

Það var ekki fyrr en löngu síðar sem skýringin fékkst. Hún var sú, að vegna þess að það væri ómögulegt fyrir sjð ára barn að fá 10 í lestrareinkunn, var notaður skalinn 0-8 í yngstu bekkjunum!

Öll þessi framkvæmd á kennslu sýnist vekja margar spurningar á okkar tímum.

Og vissulega var þarna að hluta til útfærsla á hraðaprófunum.  

Á þessum árum var talsvert gert í því að útrýma þeirri mállýsku, einkum á Austfjörðum, sem nefndist flámælska og birtist í því að nota aðra sérhljóða í stórum hlutum orðaforðans. 

Langt fram eftir síðustu öld eimdi enn eftir þessu tali. 

Ein kostuleg saga gerðist til dæmis hjá fundarstjóra hjá ASÍ á einu ársþingi þess. 

Fundarstjórinn, þrautreyndur félagsmálamaður, þurfti að bera upp tillögu frá einni af nefndum þingsins og ákvað að gera það fyrir hönd nefndarinnar með þessum orðum:

"Ég ber þá þessa tillugu upp fyrir hund nefndarinnar." 

Þegar allsherjar hlátur gall við í salnum, spurði forviða fundarstjórinn:

"Hva, er þetta ekki rétt lisið?"

 

 


mbl.is Ilmur reif blaðið frá skólanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sævar Helgason

Ég var í Laugarnesskólanum árin 1947-1953 fæddur 1938.
Ég var alltaf í C bekk og kunni því ágætlega- nokkrir bekkjafélagar urðu með tímanum þjóðþekktir hæfileikamenn í ýmsu.
Ekki minnist ég metnaðar hjá mér við hraðlestur-fór mér hægar við lestur og upplifði innihaldið. Var að prófa áðan að lesa á ofurhraða-jú ég gat það- en upplifið ekkert um innihaldið.
Lesblinda varð síðar þekkt . Þar minnist ég eins góðs bekkjafélaga sem grét í einu lesprófinu undir yfirheyrslu tveggja kennara -greindur piltur-en örugglega lesblindur.
Og hann Eiríkur m.a sundkennari var einnig framburðar kennari.
Ég lenti hjá honum við nákvæmnislögun á framburði nokkurra stafa í tengslum við aðra stafi-sennilega einhver málýska hjá mér að heiman. En ég lagaði það varanlega- góður kennari Eiríkur Stefánsson-einkum í sundi.
Að lesa fréttir nú 2022 um þessi fornaldarvinnubrögð við leskennslu- er bara ömurleg upplifun bernsku skólaáranna

Sævar Helgason, 17.10.2022 kl. 21:45

2 Smámynd: Sigurður Antonsson

Hér liggur hundurinn grafinn, hvar og hvernig er ekki vitað. Leikarar sjá heiminn með öðru augun en hinir hraðlæsu og eru alltaf að uppgötva ný sannindi í mannsálinni. Það er svar þeirra við áreitni og óútskýrðum hlutum. Ásta Sigurðar kom í bæinn frá Snæfellsnesi og fór í listaskóla. Hún kom með nýja sýn á mannlífið með smásögum, upplifun á hermannsárum sem aðrir höfðu ekki komist í kynni við eða viljað opinbera. 

Siggi Sigurjóns og Laddi komu með Hafnarfjarðabrandara í bæinn. Þessir snillingar komu með nýja sýn á mannalífið og glöddu bæjarbúa í Reykjavík og alla landsmenn á skömmum tíma með endalausum uppákomum. Mikill þörf var fyrir að létta á einhverju og komast út úr skápnum. Gamanleikarar á sviði og í bíó gátu gert grín að öllu saman. Nú er öldin önnur og spenningur lítill fyrir stóru skaupum, hlátursþörf minni á hraðferð? 

Sigurður Antonsson, 18.10.2022 kl. 10:18

3 identicon

Sæll Ómar.

Ætli knérunnur hafi stundum ráðið meira um
einkunnir en kvarðar í tölum eða bókstöfum?

Húsari. (IP-tala skráð) 18.10.2022 kl. 14:02

4 Smámynd: Karl Sævar Jónsson

Skemmtilegur endahnúturinn hjá þér Ómar.  Afi og Amma voru bæði Hornafirðingar og þau leiðréttu alltaf hina leiðina.  Talað mál 100% flámælska en þegar þau skrifuðu bréf og jólakort, þá vor oft e skrifað sem i.

Karl Sævar Jónsson, 18.10.2022 kl. 18:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband