Söngleikur, byggður á Laxdælu, sem gerist núna? "Ævin kemur - ævin fer."?

Þorvaldur Friðriksson hélt fróðlega og líflega kynningu á bók sinni um skyldleika og menningarleg tengsl Kelta og Íslendinga í Borgarbókasafninu í Spönginnni í fyrradag. Kynningin leiddi hugann að hrifningu á Laxdælu við fyrsta lestur hennar, eins og hún birtist í bókinni "Kappar", sem var gefin út í aðgengilegu formi með nútímastafsetningu í kringum 1950 og teiknimyndum eftir Halldór Pétursson. 

Vel má rökstyðja það af hverju Laxdæla gæti verið sú Íslendingasagnanna, sem býður upp á dramatískustu og fjölbreytilegustu mannlegu þættina. Þar munar miklu um Guðrúnu Ósvífursdóttur sem aðalapersónu í margslungnum átökum í kringum ástmenn hennar. Fleygt er svar hennar þegar hún var spurð undir lokin hverjum hún hefði unnað mest, og svaraði: Þeim var ég verst, sem ég unni mest." 

Kjartan Ólafsson náði langt á framabraut erlendis, en sveik vegna framafíknar Guðrúnu heitkonu sína og efndi ekki loforðið við hana að koma aftur heim til Íslands á umsömdum tíma. Velgengnisfíkn, tryggð, ótryggð, ást, afbrýði, heiður, skömm, afdrifarík orð og gjörðir með mannfórnir sem afleiðingum; allt þetta og margt fleira má finna í harmleik Laxdælu, þar sem flest er samt í raun nútímalegt og gefur sígilda lærdóma. 

Hér um árið var íhugaður sá möguleiki að semja í heimasmíðju söngleik, sem byggðist á Laxdælu og gerðist á okkar dögum. Byrjað var á því að semja lög og ljóð til að leggja í munn helstu persónanna. 

Fyrir síðustu jól heyrðist 20 ára gamall kunningi spilaður í útvarpi, lagið Don´t know why", sem Norah Jones syngur og er að finna á Youtube. Það kallaði á tilraun til að gera íslenskan þýðingartexta við þetta lag og síðan í framhaldinu að semja við það lag texta, sem persóna eða persónur í Laxdælu syngju með pælingu í ólgu viðburðanna, texta sem jafnfræmt fæli í sér djúpa skírskotun varðandi misjafnt vægi og afstæði mikilvægra viðburða í tímans rás í svona sögu. Til dæmis þegar mannsævin er mátuð við aldir og eilífð og virðist svo stutt eða líða svo hratt, að hún sýnist sem tár í tímans hafi. Í þessum ljóðatexta væri leitast við að læra af fortíðinni til að verða betri manneskja og bæta úr því sem aflaga fór. 

Iðulega hafa verið birtir nýir söngtextar eða ljóð hér á síðunni og nú er bætt við þetta ljóðasafn ljóðinu "Ævin kemur, ævin fer."

 

ÆVIN KEMUR, ÆVIN FER. 

 

Ævin kemur, ævin fer;

örstutt blik sem fyrir ber;

líkt og tár í tímans haf;

tilveru, sem Drottinn gaf;

með tárum gleði og sorgar gaf. 

 

Til æviloka alloft ná

augnablik, sem virðast smá. 

Misjafnt er hjá hal og hrund

hvernig allt fer á ýmsa lund;

með tómi´og trega á kveðjustund. 

 

Stutt hver andrá er;

en allt fer sem fer 

um síðir.  

 

Horft til baka´á árin er;

ævir koma og fara hér. 

Við vitum ekki vegna hvers

veröldin fer kruss og þvers;

við hrekjumst milli báru´og skers. 

 

Loks er líða ár

lokast hjartasár

um síðir?

 

Gangverk lífsins undur er;

ævir koma og fara hér;

þeirra´á meðal þín og mín, 

í sorg og sælu hjá mér og þér, 

sem tárin  túlka hjá mér og þér

líkt og tár í tímans haf;

tilveru, sem Drottinn gaf. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband