Getur líka verið blíða við Folavatn.

Ég sé á vedur.is að hitinn á svæðinu í kringum Snæfell hefur verið 13-16 stig mestalla síðustu viku og 15-18 stig við Kárahnjúka.  

P1010278

 

 

Eftir að hafa farið þrjár ferðir að Folavatni austan Snæfells og fleiri yfir það get ég ímyndað mér hve þar hefur verið gott veður í hlýindunum og frábært að vera þar og njóta gróinna nesja og tanga og hólmanna þriggja, sem eru í vatninu.

 

 Raunar getur hitinn farið upp í 20 stig á hálendinu þegar vel háttar til. Ég var að leggja inn grein í Morgunblaðið vegna þess óþarfa umhverfisslys sem þarna verður ef allir halda áfram að að vera sofandi yfir því.

P1010391

 

Ég hef áður sýnt myndir af þessu fallegasta og einstæðasta vatni á hálendinu austan við Snæfell með það mikla fjall gnæfandi yfir í vestri en Eyjabakkajökul í suðri.

 

Þegar ég flaug yfir það fyrir nokkrum dögum var vatnið svo tært, að hægt var að sjá til botns í því úr flugvélinni eins og myndirnar sýna.

 

Ég tók líka sérstaklega eftir þessu þegar ég reri um vatnið fyrir tíu dögum. 

P1010528

 

 

Myndirnar hér við hliðina eru teknar af einum hólmanna þriggja, sem eru nú í vatninu, þeim sem er í miðjunni.

Á myndunum sést vel hve vatnið er tært og að það sést til botns, jafnvel þótt það sé bára á því.  

 

Mikill munur er á vötnunum tveimur sem þarna eru núna, Kelduárlóni, sem fer sístækkandi og ætlunin er að gleypi Folavatn í sumar, og hinu tæra ósnortna vatni.

P1010520
 
 
 
 
Hér til hliðar sést til samaburðar hluti af Kelduárlóni.
 
 
Í mati á umhverfisáhrifum er Folavatn talið hafa hátt verndargildi, með lífríki sem er sérstætt, ekki hvað síst með tilliti til þess að leitun er að vatni í slíkri hæð og nálægð við jökla sem er með jafn grónu og fallegu landi á bökkum sínum, nesjum og hólmum sem munu fara á kaf ef Kelduárlón fer upp yfir 663 metra yfir sjó. 
 
 
  
P1010379
 
 
Ætlunin er að Kelduárlón fari upp í 669 metra yfir sjó svo að þarna munar sex metrum, hvort þetta dýrmæta vatn, Folavatn verður eyðilagt eða ekki. 
 
Hið risastóra álftahreiður í Miðhólma mun þá heyra sögunni til.
 
 Fyrir neðan myndina af álftahreiðrinu á Miðhólma er loftmynd af þeim hinna þriggja hólma sem ég kalla Fjærhólma, vegna þess að séð frá suðvesturhorni vatnsins þar sem aðgengilegast er að róa út í hólma liggur hann fjærst þeirra.  
 
 
 
Þrátt fyrir báru á vatninu sést botn þess vel á myndinni.
Talsmaður Landsvirkjunar sagði í frétt Sjónvarpsins um daginn að nauðsynlegt væri að fara með Kelduárlón upp í 669 metra í stað 663ja, vegna þess að 25% af vatnsmagni Kárahnjúkavirkjunar kæmi af þessum slóðum.
 
P1010526
Vatnsmagnið til miðlunar, sem hægt er að fá frá Kelduárlóni fullu nemur samt aðeins 3,5% af heildarmiðlun Kárahnjúkavirkjunar !
 
Þegar ákveðið var að sleppa að sökkva Eyjabökkum var gumað af því að vegna þess að allar árnar sem virkja ætti væru tengdar saman með jarðgöngum væri hægt að nota Hálslón eingöngu til miðlunar í stað þess að upphaflega áttu 1500 gígalítrar, 75% miðlunarinnar, að koma frá Hálslóni, og 500 gígalítrar, 25% miðlunarinnar að koma frá Eyjabakkalóni.
 
Þetta átti upphaflega að vera miðlun í sömu hlutföllum og vatnsrennslið en samtengingartæknin mikla gerði mögulegt að nota Hálslón eitt og sleppa Eyjabakkalóni.
 
P1010284
Landsvirkjun hefur þegar viðurkennt að vegna hlýnandi hausta, vetra og vora, hefur vatnsmagnið aukist svo mikið frá þeim kuldaskeiðum, sem lögð voru til grundvallar í áætlunum um virkjunina, hefur reynst óþarft að virkja austustur árnar sem áttu að gefa Kelduárlóni vatn.
 
En streist er við að viðhalda miðlun í Kelduárlóni, sem nemur 2% af miðluninni ef lónið er hækkað úr 663 metrum í 669. Þessi 2% eru áreiðanlega mun minna magn en nemur auknu vatnsrennsli haust, vetur og vor.
P1010259
 
Með því að lækka yfirfallið á hluta Kelduárstíflu úr 669 í 663 má bjarga Folavatni, koma í veg fyrir óþarft umhverfisslys sem gefur ekki eitt einasta kílóvatt og ekkert starf, og lengja þann tíma, sem rennur af yfirfallinu síðsumars um sérstæða fossaröð Kelduár.  
P1010404
mbl.is Stefnir í heitasta dag sumars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ekki kunni hann sér hóf,
hundrað prósent Frikki Sóf,
uppi á heiði gröf sér gróf,
og grasið allt þar upp hann skóf.

Þorsteinn Briem, 13.7.2009 kl. 01:43

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Lækkun stíflunnar að hluta gæti kannski falist í því að gera þar skarð með hliði sem hægt yrði að hækka eins og loku ef menn teldur óhjákvæmilegt að fara upp í 669 metra, vegna ófyrirséðra aðstæðna.

Ómar Ragnarsson, 13.7.2009 kl. 09:54

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í þetta gæti farið hluti af þeim peningum sem menn græddu við að hætta við að virkja austasta hluta fyrirhugaðrar Sauðárveitu.

Ómar Ragnarsson, 13.7.2009 kl. 09:55

4 identicon

Ertu nú ekki farinn að reyna að bjarga of mikið Ómar minn?? Ég hef nokkrum sinnum komið að Folavatni og verð ég nú að segja að ég sé afskaplega lítið merkilegt við það. Þó svo að þú sýnir eina og eina fallega mynd af vatninu, þá þýðir það ekki að vatnið sé einhver náttúruperla. Ef þú myndir reyna að ná fallegum myndum af sama kappi af t.d. Kelduárlóni eins og þú reynir að ná af Folavatni, þá efast ég ekki um að þú myndir ná þeim.

Vissulega er gaman af vötnum víða um land og geta þau verið falleg og er ég ekki að segja að Folavatn sé einhver forarpyttur sem best sé að farga, en hins vegar er það ekki einhver náttúruperla sem maður þarf að leggja allt í til að bjarga. 

Ég vona bara að þú farir varlega á þessum litla uppblásna bát þínum og gætir þín að sökkva honum ekki og lenda í hrakningum eins og þú lentir í þarna um árið á Hálslóni ;)

Sigurjón (IP-tala skráð) 13.7.2009 kl. 10:22

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Folavatn er tært, Kelduárlón gruggugt. Folavatn er með fallegum, flötum og grónum hólmum.

Ég fæ ekki séð að Kelduárlón muni bjóða upp á slíkt.

Kelduárlón hefur þegar drekkt flatasta og grónasta landinu á Hraununum en það er þér ekki nóg, þú vilt meira þótt þess sé ekki þörf.

Mín lausn færir það með sér að þú og aðrir virkjanamenn geta haft ykkar Kelduárlón og dáðst að því eins og það er nú. Úr því sem komið er hámarkar mín lausn ánægjuna af því sem eftir er á þessum slóðum og lengir þann tíma sem vatn getur verið á fossunum í Kelduá.

Mín lausn er þó kannski mest virði fyrir það að í stað þess að heimildarmyndin um Örkina endi á þann dapurlega hátt að fylgst er með drekkingu hólmanna og nesjanna í Folavatni getir endirinn gefið fólki von um að einhverju sé hægt að þyrma og lokasiglingin í myndinni verði um vatnið sem fékk að vera ósnortið.

Heimildarmyndin um Örkina er að vísu stopp vegna fjárskorts. Ég á fullt í fangi með það eitt að sigla síðustu siglingarnar í sumar, á Hálslóni og Kelduárlóni.

Myndin verður hugsanlega ekki sýnd meðan ég lifi. En verði myndefnið varðveitt mun sá tími koma að hún verði fullgerð og sýnd og okkar vegna allrra er mér hreinlega ekki sama hvernig hún á eftir að enda.

Ómar Ragnarsson, 13.7.2009 kl. 13:54

6 identicon

Það er sorglegt að horfa upp á þetta alltsaman og enn sorglegra að heyra hversu margir íslendingar eru sjáandi blindir á umhverfi sitt. Ég hef á tilfinningunni að sumir öfgafyllstu virkjunarfíklarnir vilji valda sem mestum usla til að særa þá sem unna landinu sínu, svei mér þá. Sá sem ber enga virðingu fyrir umhverfinu er aumkunarverður og fer á mis við mikið.

HStef (IP-tala skráð) 13.7.2009 kl. 17:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband