Hvað var "ónákvæmt"? Fallnir í stríðinu?

Undrandi sendiherrar erlendra ríkja segja að forseti Íslands hafi sagt á hádegisverðarfundi með þeim að vegna þess að nágrannar Íslendinga hefðu brugðist þeim, gætu þeir snúið sér annað og boðið Rússum aðstöðu á Keflavíkurflugvelli.

Skrifstofa forsetans upplýsir eð ekkert sé til í því sem einn sendiherrann hafi skráð hjá sér á minnisblað að forsetinn hafi tengt saman hugsanlega lánveitingu Rússa til Íslendinga og fyrrum herstöð Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli. Fréttir erlendra fjölmiðla af þessu séu "ónákvæmar". Síðan klykkt út með því að forsetinn muni ekki tjá sig um efni þeirra umræðna, sem hann átti við hina erlendu sendimenn.

Enn er komið upp mál þar sem almenning skortir upplýsingar. Forsetinn er eini embættismaður þjóðarinnar sem er kosinn beint af henni. Þjóðin á beinan aðgang að forsetanum og milliliðir þurfa því ekki að flækjast fyrir í samskiptum hans við þjóðina.

Þrátt fyri einhverjar venjur um það að upplýsa ekki um það sem fram fer á fundum hans með fulltrúum erlendra ríkja verður forsetinn að mínum dómi að upplýsa okkur, sem kusum hann, um það hvernig hann heldur á málum okkar allra gagnvart nágrannaþjóðum okkar.

Hvað var "ónákvæmt" í frásögnum erlendrar fjölmiðla?

Og fyrst farið er að tala um venjur má nefna að sú hefð hefur myndast að forsetinn verði að taka tillit til ríkisstjórnar hverju sinni þegar um er að ræða t. d. bein viðfangsefni utanríkisráðherrans. Utanríkisráðherrann hlýtur að krefja forsetann um réttar upplýsingar um það sem fór fram á hádegisverðarfundinum.

Nema að forsetinn hafi verið að túlka stefnu ríkisstjórnarinnar. Er þetta stefna hennar, Ingibjörg Sólrún?

Í minnisblaði norska sendiherrans segir að forsetinn hafi sagt að Íslendingar hefðu misst fleiri menn hlutfallslega í stríðinu en Bretar. Það var vegna fiskflutninga Íslendinga til Bretlands. Hverjar eru staðreyndirnar? Bretar misstu 264.443 menn, minnsta kosti fjórum sinnum fleiri hlutfallslega en Íslendingar. Er þetta "ónákvæmnin"?

Eða er það rangt að forsetinn hafi sagt þetta og tengt með því saman fjárhagsleg vandræði þessara tveggja þjóða nú og mannfall í mesta hildarleik sögunnar? Er "ónákvæmni" í þeirri frásögn? Tengdi forsetinn þetta saman í ræðu sinni?

Ég bloggaði um það að í besta falli væri það brandari eða hálfkæringur að tengja aðstoð Rússa við herstöð þeim til handa. En fréttir í fjölmiðlum um ummæli sjálfs forsetans í þessa veru eru ekki brandari. Það mál þarf að hreinsa upp allra okkar vegna. Að minnsta kosti vil ég fá að vita hvað eini embættismaðurinn, sem nú starfar og ég hef kosið, hefur sagt er fyrir mína hönd við nágranna mína.


mbl.is Fréttir af ummælum forseta ónákvæmar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tapað - ekki fundið.

"Tapað - fundið " er kannski nafn sem menn vildu helst að ætti við um þá leit sem nú er hafin að verðmætum sem virðast hafa gufað upp ef þau voru þá nokkurn tíma til. En nú virðist aðeins fyrra orðið, "tapað" eiga við. Ég skal ekki eyða fleiri orðum í þetta því að frétt Þóru Kristínar Ásgeirsdóttur um bankamenn á flótta er best gerða sjónvarpsfrétt sem ég hef séð í mjög langan tíma.

Hún hefur allt sem hægt er að krefjast af sjónvarpsfrétt, frábæra greiningu, knappan, hnitmiðaðan texta, humor og beitt háð. Þóra Kristín talar beint út og segir að skylda ætti alla landsmenn til að horfa á auglýsingamyndir bankanna frá himinskautaárum þeirra.

Ég vil bæta við: Það ætti að skylda alla fjölmiðlamenn til að horfa á þessa frábæru frammistöðu Þóru Kristínar. Helst vildi ég að hún fengi sérstök auka- Edduverðaun næstkomandi sunnudag.


mbl.is Húsleit hjá Stoðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undirliggjandi vantraust?

Þegar okkur gremst hvernig hjálp við okkur dregst er okkur hollt að íhuga hvort eitthvað meira búi að baki, - eitthvað annað en skepnuskapur Breta. Ég verð var hins sama þegar ég tala við vini mína erlendis og ég varð fyrir í Bandaríkjunum þegar viðtalinu fræga með upphrópuninni "Við borgum ekki! " var margspiluð í sjónvarpsfréttum.

Þótt erlendir stjórnmálamenn orði það ekki opinberlega virðist ríkjandi viðhorf annarra útlendinga að vafasamt sé að hjálpa þessum vitleysingum sem hlaupast undan ábyrgð á eigin klúðri og ætla sér til dæmis að mismuna innlánseigendum eftir þjóðerni. Enn skrýtnara finnst mörgum að enginn Íslendingur skuli ætla að axla ábyrgð á hinu augljósa klúðri sem byggðist á óraunsæi og oflátungshætti, - það sé enn ein sönnun þess að ekki sé hægt að skipta við þetta fólk þarna norður í höfum.

Vinur minn í Frakklandi sagði mér til dæmis að þar í landi hefði verið áberandi umfjöllun um íslensku peningablöðruna síðastliðið vor með spá um óumflýjanlegan endi fjármálafyllerísins án þess að það virtist hafa ratað heim til landans. Þess vegna nytu Íslendingar ekki trausts í Frakklandi þegar afleiðingar hroka og kæruleysis kæmu í ljós.

Til eru þeir hér heima sem segja að við eigum að gefa skít í þessar þjóðir sem koma svona fram við okkur og slá skjaldborg um eyjuna okkar. Í mesta lagi að leita til kanans á ný eins og við gerðum í kalda stríðinu. Eða jafnvel bjóða Rússum flotahöfn hér.

Svona lagað finnst mér lykta af miklu óraunsæi þess sem streitist gegn því að horfaast í augu við stöðu sína og taka sig á. Við gátum haldið Bandaríkjamönnum góðum með herstöðinni í kalda stríðinu en nú er ólíklegt að Obama muni draga herlið sitt út úr Írak til að senda það til Íslands.

Hvenær ætlar mönnum að skiljast að kalda stríðinu lauk 1989? Hugmyndin um að bjóða Rússa velkomna er síðan auðvitað óðs manns æði eða í besta falli brandari. Við verðum að meta stöðu okkar og málstað af raunsæi og leita sanngjarnrar lausnar á deilum við aðrar þjóðir.

Sú sanngirni verður að sjálfsögðu að ríkja á báða bóga.

Mér hugnast ekki að hverfa aftur til áranna 1948-60 með skorti sinum, biðröðum og hafta- og spillingarkerfi sem kostaði okkur griðarlega fjármuni. Slíkt mun einfaldlega kosta enn meiri fólksflótta frá landinu en ella yrði.


mbl.is Finnar vilja meiri upplýsingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosið um aðildarumsókn?

ESB-málið virðist kljúfa alla núverandi stjórnmálaflokka hér á landi í herðar niður nema þá helst Samfylkinguna. Meðan þetta ástand varir efnir það til illinda og flækir stjórnmálastöðuna. Valgerður Sverrisdóttir sagði fullum fetum á fundi í Iðnó að við ættum að sækja um aðild að ESB og greinilegt er að Framsóknarflokkurinn er að verða logandi stafnana á milli vegna þessa máls.

Nú er það svo að Framsóknarflokkurinn gegndi mikilvægu hlutverki á síðustu öld sem miðjuflokkur, þótt hann stæði því miður að slíku misrétti í kjördæmamálum lengst af og spillingu hafta- og fyrirgreiðslukerfi að ég gat aðeins fengið mig til að kjósa hann einu sinni, - árið 1974, og þá eingöngu vegna utanríkismála. Ég var að vísu fylgjandi NATÓ-aðild þá en vildi fá mótvægi við of harða herstöðvarstefnu Sjálfstæðisflokksins.

En þetta var útúrdúr, ég hef kosið í tæpa hálfa öld fleiri en einn, fleiri en tvo og fleiri en þrjá flokka en ætlaði bara að segja að tími Framsóknarflokksins er liðinn. Samfylkingin hefur tekið við sem helsti miðjuflokkurinn. Hin dæmalausa frétt um "lekann" sem Bjarni ætlaði að hafa nafnlausan er enn einn naglinn í líkkistu Framsóknarflokksins, sem flokksmenn sjálfir virðast vera á fullu að smíða.

En hinir flokkarnir eru líka klofnir og ef pattstaðan gagnvart ESB lagast ekki held ég að eina ráðið væri í tengslum við Alþingiskosningar næsta vor að kjósa sérstaklega um það hvort leita eigi eftir aðild að ESB. Það myndi auðvelda stjórnarmyndun að kjósendur legðu komandi ríkisstjórn þessa línu.


mbl.is Bréf til Valgerðar fór á alla fjölmiðla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig er plan B Þorgerðar ?

Þegar Bubbi Morthens innti Þorgerði Katrín Gunnarsdóttur eftir því í útvarpsþætti sínum í kvöld hvað henni fyndist um þær tillögur sem komið hafa fram um viðbrögð við gjaldeyriskreppunni, þ. á. m. að skipta umsvifalaust yfir í evru, sagði hún að verið væri að vinna við plan B ef ekki tækist að losna úr pattstöðunni hjá IMF.

Sem flugmanni finnst mér það ætíð af hinu góða þegar ein höfuðregla flugsins er notuð á öðrum sviðum. Í fluginu, einkum í blindflugi, verður að minnsta kosti að vera fyrir hendi plan B og helst fleiri áætlanir. Annars kann illa að fara.
Það sem hefur vantað á fram að þessu er að menn hafi hugað betur að mismunandi leikjum í þessari skák og metið stöðuna fyrirfram nógu vel til að forðast afleiki.

Mér fannst þessi ummæli Þorgerðar Katrínar heilmikil frétt. Forvitnin vaknaði um það í hverju þetta plan B fælist. Kannski má ekki segja okkur frá því fremur en svo mörgu öðru til þess að mótherjinn, Bretar, sjái ekki á spilin okkar.

En er víst að það sé betra að hafa það þannig?. Ef við lumum á sæmilegri leið út úr horninu, sem búið er að króa okkur inni í, kynni kannski að vera betra að Bretar áttuðu sig á því og gengju þar með til sanngjarnrar lausnar á þessari deilu.

Lýk þessu svo með því að þakka Bubba fyrir einstaklega athyglisverðan þátt og viðtal á þeim nótum sem honum er einum lagið að slá.


tonlist.is

Hef verið í dag að ganga frá innsetningu plötunnar/disksins "Birta - styðjum hvert annað" hjá tonlist.is, en allt söluandvirðið rennur óskipt til mæðrastyrksnefndar í Reykjavík, allt frá fyrsta diski sem selst. Oftast er auglýst um svona starfsemi: "Allur ágóði rennur til..." en í þetta skipti er það "allt söluandvirði rennur til..."

Sjá blogg fyrr hjá mér um þetta efni, en ég verð að nefna þetta hér vegna þess að fyrir innsláttarvillu sagði ég að vefurinn héti hljómlist.is

Endurtek því: tonlist.is

Ég sé nú að ég hef gert önnur mistöku í staðinn, að tengja þetta við frétt sem ég ætlaði að skrifa annað blogg um, sem ég þá geri nú þegar.


mbl.is Fáum ekki lán nema Icesave deila leysist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrri fordæmi fyrir endurnýjuðu umboði.

Rök forsætisráðherra fyrir því að efna ekki til kosninga eru þau að það leiði til óþarfa óróa í þjóðfélaginu. Þetta eru dæmigerð viðbrögð þess sem finnst lýðræðið vera til trafala. Þá er nú betra að hafa festu og stöðugleika hins óumbreytanlega valdakerfis.

Þessi rök standast ekki reynslu sögunnar þar sem kosningum hefur verið flýtt til þess að ráðamenn þjóðarinnar fengju nýtt og nauðsynlegt umboð.

1937 var kosið ári fyrr en stóð til vegna heimskreppunnar, ekki vegna stjórnarkreppu heldur í raun til þess að þáverandi stjórnarflokkar fengju nauðsynlegt umboð. Þeir héldu meirihluta sínum en efndu síðan til svonefndrar "þjóðstjórnar" tveimu árum seinna.

1953 var kosningum flýtt um eitt ár án þess að stjórnarkreppa kæmi til. Þáverandi stjórnarflokkar fengu endurnýjað umboð og stjórnuðu áfram.

Í hvorugt þessara skipta voru það neitt viðlíka mikil umskipti á högum þjóðarinnar sem voru ástæða flýttra kosninga og nú. Nú eru allar forsendur breyttar frá þeim sem kjósendur höfðu til að ráðstafa atkvæði sinu 2007.

Ástæða afsvars forsætisráðherra liggur í augum uppi. Hann getur ekki horfst í augu við það að eina leiðin til þess að flokkur hans bíði ekki mikið afhroð er gerbreyting og uppstokkun á flokknum. Og raunar er mjög ólíklegt að það dugi til. Veski kjósenda munu minna þá á hverjum degi á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins.

Forsætisráðherra heldur í þá von að hægt sé að humma slíkt fram af sér í tvö og hálft ár.

Það er sagt að vika sé langur tími í pólitík og atburðir haustsins hafa sýnt að hálfur dagur getur verið langur tími í þeim efnum. Framundan eru ár þar sem hugsanlega mun meira gerast en gerist venjulega á áratug og mér er óskiljanlegt hvernig Geir H. Haarde ímyndar sér að hægt sé að frysta þingfylgið og alla embættismennina sem manni skilst að ekki megi hagga við.

Hann ætlar sér greinilega að sökkva að lokum með foringjanum, Davíð Oddssyni, frekar en að horfast í augu við alvöruna á strandsstað þjóðarskútunnar.


mbl.is Kosningum ekki flýtt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slæmar fréttir.

Margir telja mig og mín skoðanasystkin vera á móti öllum virkjunum. Þetta er fjarri lagi. Þótt ég léti það aldrei í ljósi vegna stöðu minnar sem skemmtikrafts og siðar fréttamanns, var ég fylgjandi öllum núverandi virkjunum í Þjórsá og Tungnaá, síðast fylgjandi Vatnsfellsvirkjun.

Ég veit ekki um andstöðu neinna við Búðarhálsvirkjun og framkvæmdir voru þegar hafnar. Ágætis fyrirtæki erlend eins og netþjónabú sækjast eftir orku hjá okkur og það er þörf fyrir þessa virkjun. Frestun á þessari virkjun eru því slæmar fréttir fyrir mig og nöturlegt að sömu mennirnir og settu af stað mesta efnahagslega fíkniefnapartí Íslandssögunnar skuli nú fá það sjálfir í hausinn varðandi einn af þeim virkjanakostum sem ekkert er deilt um.


mbl.is Búðarhálsvirkjun frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Birta - styðjum hvert annað.

Framundan er vandasamasta verkefni sem íslensk þjóð hefur þurft að glíma við á lýðveldistímanum. Þá er mikilvægt að horfa ekki aðeins yfir það, sem við blasir, utan frá - heldur ekki síður að horfa inn á við, - til okkar sjálfra svo að við náum þeim samhljómi sem er forsenda þess að við leysum þetta verkefni til framtíðar.

Tuttugu manna hópur tónlistarmanna sem hefur valið sér nafnið BIRTA hefur nú útbúið hljómdisk undir heitinu "Birta - styðjum hvert annað ". Þetta eru tíu söngvarar, tíu hljómlistarmenn og einn laga- og textahöfunur sem gefa allir vinnu sína og verk svo og þeir sem hljóðblönduðu lögin og lögðu til stúdíó.

Að auki mun Sena gefa vinnu við að úbúa aðstöðu til að fólk geti keypt þennan disk á netinu á tonlist.is (leiðrétting: fyrir 1500 krónur, og mun hver króna frá upphafi fyrsta selda disks renna óskipt til Mæðrastyrksnefndar sem mun fá féð strax til ráðstöfunar. Sem sagt: Ekki "allur ágóði" heldur "allt söluandvirði."

Zonet-útgáfan, sem á útgáfurétt á þremur laganna lætur hann endurgjaldslaust í té til þessarar útgáfu.

Allir íslensku textarnir, sem eru sungnir, birtast hér í fyrsta sinn á diski svo og lögin, sem eru öll íslensk nema tvö.

Innihald disksins túlkar uppörvun, kjark og bestu eiginleika lands og þjóðar í stóru og smáu, sem þörf er á við ræktum þegar nýtt Ísland tekur við af því gamla.
Upphafslagðið á diskinum, "Styðjum hvert annað" gefur tóninn, og lokalagið er um gömlu jólin þegar fólk undi glatt við þröngan kost.

Hér á eftir fer lagalistinn með nöfnum söngvara og hljóðfæraleikara.

HEITI LAGS. SÖNGVARAR / HLJÓÐFÆRALEIKARAR / HLJÓÐBLÖNDUN

1. STYÐJUM HVERT ANNAÐ: BIRTA, Edgar Smári Atlason, Elísabet Ormslev, Helga Möller, Halli Reynis, Kristjana Stefánsdóttir og Ómar Ragnarsson / Erik Quick, Halli Reynis, Jón Skuggi og Reynir Jónasson / Jón skuggi.

2. LANDIÐ MITT - BYGGÐIN MÍN: .Ari Jónsson og Helga Möller / Pétur Hjaltested

3. ÝKT EÐLILEGT: Kristín Ósk Hjartardóttir. (14 ára) / Jon Kjell Seljeseth

4. VIÐ FJÖRÐINN: Helga Möller / Grétar Örvarsson og Einar Bragi Bragason.

5. UPP SKALTU Á KJÖL KLÍFA: Kristinn Sigmundsson og Ómar Ragnarsson / Gunnar Þórðarson.

6. ERT ÞAÐ ÞÚ? Helga Möller / Grétar Örvarsson.

7. ÓÐUR TIL KÝRINNAR: Ómar Ragnarsson. / (Alfa Laval mjaltavél í torffjósi að Skógsnesi í Flóa)

8. ÍSLAND, ÍSINN OG LANDIÐ: Bergþór Pálssson / Grétar Örvarssson.

9. MANSTU GÖMLU JÓLIN ? Ragnar Bjarnason / Grétar Örvarsson.

Lokahljóðblöndun fór fram í HLJÓÐSMIÐJUNNI hjá Pétri Hjaltested.


"Mótmælin snerust upp í..."

Í fréttum var sagt að mótmælin á Austurvelli hefðu "snúist upp í það að kasta eggjum í Alþingishúsið og að mannfjöldinn hefði veist að lögreglunni, sem var fáliðuð. Sömuleiðis mátti halda af myndum og frásögn að á friðsamlegum fundi við Ráðherrabústaðinn um daginn að liður í mótmælafundinum þar hefði verið að brenna fána.

Fánabruninn hófst á vegum fámenns hóps eftir að fundinum hafði verið slitið og var því alls ekki hluti af fundinum.

Síendurteknar frásagnir af þessu tagi varpa röngu ljósi á hegðun nær allra fundarmanna á mótmælafundunum. Fundurinn á Austurvelli í dag var auglýstur sem friðsamlegur fundur þar sem fluttar yrðu nokkrar ræður og fundi síðan slitið. Við þessa dagskrá var staðið í einu og öllu.

Tiltölulega fámennur hópur lét hins vegar til sín taka upp við Alþingishúsið og nær allir fundarmenn komu þar hvergi nálægt, heldur komu, voru og fóru á eins friðsamlegan hátt og hægt var. Fundurinn "snerist ekki upp í það" að ráðast á Alþingishúsið og mannfjöldinn, 4-5 þúsund manns, veittist ekki að lögreglu.

Enn ríkir frelsi hér á landi til að tjá skoðanir sínar á almannafæri og engir aðstandendur funda hafa til þess vald né aðstöðu til að koma í veg fyrir að einstakir einstaklingar eða örlítill hluti þeirra sem eru á svæðinu kjósi að fylgja ekki dagskrá fundarboðenda, heldur mótmæla á sinn hátt. Það er þeirra mál.

Þegar fundinun hafði verið slitið á Austurvelli í dag gekk ég í áttina að Geir Jóni Þórissyni yfirlögregluþjóni, vini mínum, sem stóð vestan við Alþingishúsið til að forvitnast hvað um væri að vera, heilsaði honum, og hélt þaðan í átt frá húsinu. Ég tel mig ekki hafa "veist að" Geir Jóni, lögreglunni né nokkrum öðrum, hvað þá nær allir fundarmenn sem komu og fóru friðsamlega af vettvangi á sama hátt og ég.


mbl.is Eggjum kastað í Alþingishúsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband