TÆKNIN LÉTTIR LÍFIÐ.

Tæknin getur breytt mörgu í lífi mannsins, bæði í leik og starfi og einnig í veikindum. Sú var tíðin að þegar fólk var flutt á sjúkrahús, var því að miklu leyti kippt úr sambandi við umheiminn. Ef það var rúmfast og veikt voru heimsóknir nánast eina sambandið við lífið utan spítalans.

Fjarskiptatæknin hefur breytt þessu og ég er einn þeirra sem hef notið góðs af tækniframförum í rúmlega tveggja vikna vist á Borgarspítalanum, sem stefnt er að að ljúki á morgun, þótt lengri tíma taki að ná fullum bata.

Allan tímann á spítalanum hefur mér verið kleift að blogga, vera í sambandi við netið og fylgjast með lífinu utan dyra, þótt þrek til þess hafi ekki verið mikið fyrstu vikuna. Aðstæður til þess arna eru að vísu örlítið misjafnar eftir deildum og sjúkrastofum en lipurt starfsfólk reynir það sem það getur til að létta sjúklingum dvölina á ýmsan hátt.

Fyrir bragðið vissu fæstir að ég væri hér inni fyrr en upp komst á netinu á fimmta degi spítalavistarinnar og ég hafði gaman af því að það dróst svo lengi. Það er engin ástæða til að velta sér upp úr veikindum eða sjúkrahúsdvöl því að það er svo sem í sjálfu sér ekkert merkilegra að fólk fari á spítala til viðgerðar en að bílar fari á verkstæði.

Þetta er eitthvað það eðlilegasta í tilverunni, munurinn hins vegar nokkur þegar tekið er tillit til þess að bílar eru dauðir hlutir en sjúklingar ekki.

Á þessum hálfa mánuði hef ég átt náttstaði á fjórum stöðum á spítalanum og kynnst nokkrum sjúklingum í næstu rúmum sem hafa verið mjög mismunandi veikir. Ég hef fylgst með harðri baráttu sumra þeirra og fórnfúsu starfi hjálparfólksins, þar sem allur sólarhringurinn hefur verið undir.  

Síðustu dagarnir hafa verið mjög gefandi. Með vaxandi þreki hef ég byrjað á að skrifa tvær bækur, sem setið hafa á hakanum í tuttugu ár vegna þess að alltaf var eitthvað annað í daglega lífinu, sem mér fannst ég þurfa að taka fram yfir.

Með hinum snöggu veikindum sem dundu yfir fyrirvaralaust fyrir þremur vikum, var sem gripið í taumana og ráðin tekin af mér. Kannski var það ekki svo slæmt eftir allt.

Önnur bókanna, sem ég hef byrjað að skrifa hér, er þess eðlis að ég held að ég hafi ekki fengið skárri hugmynd um ævina. Samt hef ég vanrækt hana í sautján ár, kannski vegna þess að maður getur alltaf efast um það hvað hugmyndir manns séu góðar.

En spítaladvöl kennir manni samt þörfina á að forgangsraða viðfangefnum upp á nýtt og meta betur þá Guðs gjöf að fá að vera til og eiga nána aðstandendur, ættingja og vini.

Nú, þegar stefnir í brottför mína héðan er mér ljúft að þakka starfsfólkinu hér fyrir frábæra umönnun og störf í þágu sjúklinganna, sem ég hef orðið vitni að. Hér vinna margir hljóðlát hugsjónastörf og veita mörgum ómetanlega aðstoð við að fást við erfiðustu viðfangsefni lífsins.

Ég var svo heppinn að mitt tilfelli var vel viðráðanlegt og í sjálfu sér minniháttar þótt aðstæður krefðust þess að ég væri svo lengi inni þrátt fyrir þrána til þess að komast héðan.

Af fáu getum við Íslendingar verið stoltari en heilbrigðiskerfinu. Eftir veru á smitsjúkdómadeild hefur mér birst betur en áður að lega landsins, langt frá öðrum löndum, kann að vera kostur, sem getur verið ómetanlegur og reynst okkur dýrmæt staðreynd í framtíðinni.

Stefni að því að blogga betur um það síðar.


ENNÞÁ VON UM BÆRILEGA LAUSN.

Vaxandi ósætti NATO og Rússa vekur áhyggjur. Viðbrögð Rússa við uppsetningu á eldflaugum NATO í Póllandi og Tékklandi eru skiljanleg svo og áform að NATO færi út kvíar í fyrrum ríkjum Sovétríkjanna sálugu. NATÓ er einfaldlega hernaðarbandalag þótt yfirlýst sé að það sé varnarbandalag og að á sínum tíma hafi verið til þess full ástæða að stofna NATÓ. Í herförinni inn í Írak á uppdiktuðum forsendum var ekki lengur hægt að segja að eingöngu væri um varnarviðbrögð að ræða, því miður.

En rétt eins og að Rússar segja að ekki sé viðunandi fyrir þá að hafa við landamæri sín lönd og bækistöðvar á vegum hernaðarbandalags sem þeir eru ekki sjálfir í, myndu Bandaríkjamenn væntanlega ekki taka því þegjandi ef Mexíkó væri í hernaðarbandalagi sem Bandaríkin væru ekki í, heldur gamall andstæðingur úr kalda stríðinu.

Þótt margt hafi breyst síðan 1963 ætti okkur að vera í minni lætin sem urðu út af því að Rússar ætluðu að segja upp kjarnorkueldflaugar á Kúbu og þá stóð öll samúð hins vestræna heims með Bandaríkjamönnum en ekki Kúbverjum.

Ásókn fyrrum austantjaldslanda og lýðvelda Sovétríkjanna í búnað sem geti minnkað áhrif hins stóra rússneska nágranna eru líka skiljanleg rétt eins og það var skiljanlegt að Castro vildi fá til sín mótvægi við yfirþyrmandi nálægð hins kjarnorkuvædda risaveldis. Aðeins tveimur árum fyrr höfðu Bandaríkjamenn stutt innrás kúbverskra útlaga í Svínaflóa og Castro var því uggandi um sinn hag.

Castro hafði það upp úr krafsinu að þegjandi samkomulag varð um að ef Rússar flyttu eldflaugarnar burtu myndu Bandaríkjamenn ekki reyna aftur neitt ævintýri í líkingu við Svínaflóainnrásina og að þessu leyti borgaði brölt Castros sig fyrir hann þótt það kostaði næstum því kjarnorkustyrjöld.

Nú er að sjá hvort hægt sé að lægja öldurnar sem hafa risið við bæjardyr Rússa. Eins og oft í deilum er það liður í áætlun beggja að bera fram hinar ítrustu kröfur sem síðan er hægt að slá af til að ná málamiðlun. Svipuð aðferð og hjá aðalhönnuði GM á sinni tíð sem lagði þessar línur: "Go all the way, then back off."

Æskilegast væri að finna lausn sem tryggir sjálfstæði nágrannaríkja Rússlands og afskiptaleysi Rússa af innanlandsmálum þeirra án þess að það þurfi að hnykla mikla eldflaugavöðva við landamæri Rússlands.

Rússar hafa gasið sem þeir selja til vesturs uppi í erminni og vonandi kemur ekki til þess að þeir beiti því vopni í þvingunarskyni.En það gætu þeir gert ef þeim finnst þeim vera niðurlægðir í eldflaugamálinu.

Það er engum í hag að nýtt kalt stríð hefjist. Þótt manni hugnist stjórnarfarið í Rússlandi illa, ekki hvað síst eftir að hafa farið þangað og þefað af grasrót rússnesk samfélags, verður raunsæispólitík sem beinist að friði vonandi látin ráða í samskiptum NATO og Rússa.


mbl.is Bush þáði boð Pútíns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"ÁRÁS" AÐ FARIÐ SÉ AÐ LÖGUM.

Bæjarstjóri Reykjanesbæjar sagði að kæra Landverndar vegna framkvæmdaleyfis við Helguvík væri "árás". Líklega er hann sama sinnis um kæru Náttúruverndarsamtakanna. Í þessum skilningi var það "árás" þegar Hjörleifur Guttormsson kærði framkvæmdir við álver á Reyðarfirði vegna þess að þær byggðust á mati á umhverfisáhrifum verksmiðju, sem mengaði á allt annan hátt en verksmiðjan sem reisa átti. Hjörleifur vann málið en framkvæmdir voru aldrei stöðvaðar.

Sá sem braut af sér hagnaðist á brotinu og þetta er aðferð stóriðjupostulanna.

Þeir virðast setja sig á annan stall en venjulega borgara. Þegar almennnir borgarar hyggjast fara út í framkvæmdir sem eru háðar lögbundnum skilyrðum af ýmsu tagi, bíða þeir með að hefja framkvæmdirnar þangað til öllum skilyrðum hefur verið fullnægt.

Hefji þeir framkvæmdir fyrr eru þær venjulega stöðvaðar strax af þeim sem ber að halda uppi eðlilegum lögum. Hér á landi virðist annað eiga að gilda um virkjanir og stórverksmiðjur og hinir framkvæmdaglöðu treysta því að komast upp með að hefja framkvæmdir og láta þær ganga svo hratt að ekki verði aftur snúið.

Hvorki hefur verið gengið frá orkuöflun, orkuflutningum né losunarkvótum fyrir álverið í Helguvík, en með því að hefja samt framkvæmdir eru sveitarfélögin, sem semja þarf við um línurnar og virkjanirnar, beittar kúgun og það vafalaust skilgreint sem "árásir" ef þessir samningsaðilar mögla.

Kæra Landverndar byggðist á því að samkvæmt eðlilegum og skynsamlegum lagaskilningi væri rétt að álverið og allar framkvæmdir, sem tengjast því, færu í eitt heildarmat á umhverfisáhrifum frekar en að matið færi fram í bútum, lína hér og lína þar, virkjun hér, virkjun þar, leiðsla hér og leiðsla þar o.s.frv. Þess vegna skaut Landvernd málinu til umhverfisráðherra sem er með mat á umhverfisáhrifum á sínu forræði.

Nú hafa jarðýtuvöðlarnir með framkvæmdum sínum sett kúgunarpressu á umhverfisráðherrann sem verður siðan sakaður um "árás" ef hann makkar ekki rétt.

Landsvirkjun tilkynnti með pomp og pragt á Keflavíkurflugvelli á dögunum að búið væri að ganga frá samningum um orkusölu frá Neðri-Þjórsá til netþjónabús á vellinum og þess hvergi getið að ósamið væri enn við landeigendur.

Samt höfðu stjórnarþingmenn á borð við Illuga Gunnarsson og einnig Þorsteinn Pálsson ritstjóri, sagt að ekki dygðu lengur þau rök fyrir þvinguðu eignarnámi að "brýnir þjóðarhagsmunir" krefðust þess.

Landsvirkjun skellir skollaeyrum við slíku og er greinilega búin að afgreiða málið með þeirri hugsun að valta yfir allt og alla eins og venjulega. Hún hefur ekki fallið frá hugmyndum um innrás í Þjórsárver, endanlega uppþurrkun Dynks, flottasta foss landsins, ásamt fleiri stórfossum og eyðileggingu Langasjávar.

Þegar þar að kemur heldur Landsvirkjun því opnu að framkvæma þetta allt gert og andóf gegn því verður vafalaust kallað "árás."

Síðustu daga fyrir kosningar var gengið frá óafturkræfum gerningum sem varða óafturkræfar framkvæmdir, annars vegar um innrás jarðýtna í Gjástykki vegna rannsókna og hins vegar vegna eignaskipta við Þjórsá.

Í nágrannalöndunum eru það óskráð lög, sem farið er eftir, að fráfarandi stjórnvöld forðist að ljúka rétt fyrir kosningar gerningum sem eru óafturkræfir og binda hendur þeirra sem taka við eftir kosningar.

Í Bandaríkjunum líkja menn forsetanum við "lame duck", lamaða önd í þessu tilliti og telja það hluta af eðlilegu lýðræðislegu siðgæði. Þar í landi eru menn líka meðvitaðir um það að yfirgnæfandi meirihluti þeirra kjósenda, sem óafturkræfar ákvarðanir varðar, er ófæddur.

Slíkur hugsunarháttur virðist enn eiga langt í land með að nema hér land. Hér þykir sjálfsagt að teygja og sveigja lög að vild. "Löglegt en siðlaust" kallaði Vilmundur Gylfason slíkt.

Hér á landi er viðleitni þeirra sem vilja að farið sé að lögum og í samræmi við lýðræðislegt siðgæði kölluð "árás."
Í samræmi við það reikna ég með því að vera skilgreindur af þessum aðilum sem "árásarmaður."

Miðað við þann málstað sem þjónað er með slíkum nafngiftum ætla ég hins vegar að bera þetta heiti stoltur ásamt því fólki sem má sæta því að vera kallað "hryðjuverkamenn", "illgresi" og "öfgafólk" vegna skoðana sinna á umhverfismálum.


mbl.is Kæra útgáfu byggingarleyfis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"STAÐINN AÐ VERKI..."

Fréttin af Dunlap, sem átti að fara að taka líffæri úr vegna heiladauða, minnir á Íslendinginn, sem úrskurðaður var látinn eftir að hafa týnst í Bandaríkjunum en dúkkaði síðan sprellifandi upp á Íslandi mörgum árum síðar.

Stærsti "stand-up" draumur minn hefur lengi verið þessi: Ég stend í beinni útsendingu í Leifsstöð þegar tveir menn koma gangandi út úr Flugleiðaþotu, og um leið og alþjóð sér hverjir þeir eru, segi ég í myndavélina: "Við erum stödd hér í Leifsstöð og sjáið þið hverjir koma þarna labbandi sprelllifandi eftir öll þessi ár, - Guðmundur og Geirfinnur! Sælir strákar, hvar hafið þið verið?"

Annars minnir þessi heiladauðasaga mig á eina af eftirlætissögum Boga Ágústssonar hér á árum áður þegar Pólverja-, Álaborgara- og Hafnarfjarðarbrandarar voru hvað vinsælastir. Læt hana flakka hér með og vona að Bogi fyrirgefi mér það:

Í Póllandi lá Pólverji á skurðarborði og færustu heilaskurðlæknar landsins höfðu lyft heilanum úr hauskúpu hans og lagt til hliðar við hana til að komast betur að meini sem þurfti að fjarlægja. Allt í einu leit einhver á klukkuna og hrópaði:"Kaffi!" og allir fóru í kaffi.

Þegar þeir komu úr kaffinu brá þeim í brún því að Pólverjinn var horfinn hafði rankað við sér heilalaus og strokið af spítalanum. Þetta var grafalvarlegt mál og hafin víðtæk leit lögreglu að Pólverjanum heilalausa um allt Pólland.

Þegar sú leit bar ekki árangur var leitað á náðir Interpól, alþjóðalögreglunnar og leitarsvæðið útvíkkað um allan heiminn og leitað árangurslaust í heilt ár, þangað til að lokum að hinn stórhættulegi heilalausi Pólverji
fannst og var handtekinn, STAÐINN AÐ VERKI þar sem hann var að kenna félagsfræði við sænskan háskóla.


mbl.is Maður sem lýstur var látinn segist nokkuð hress
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

GAMALT OG NÝTT.

Skömmu eftir heimstyrjöldina var hannað og smíðað farartæki, sem hét Aerocar og var fljúgandi bíll eins og nafnið bendir til. Hann var knúinn 143ja hestafla flugvélarhreyfli og hægt að fella vængina saman og draga á eftir bílnum á vegum. Á vegum var aflinu beint yfir í drifkerfi sem knúði hjólin. Aldrei fannst markaður fyrir þennan bíl.

RAX ljósmyndari á tveggja sæta léttflugvél af gerðinni Kolb sem hægt er að fella vængina á og setja síðan flugvélina inn í kassa sem hann dregur hana á á bílnum. Hann hefur notað flugvélina á þennan hátt en mjög sjaldan.

Ég hef áratugum saman pælt í draumabíl/flugvélinni og komist að þeirri niðurstöðu að einfaldasta lausnins sé sú eina, það er, að bíllinn jafnt sem flugvélin sé knúinn af lokuðum loftskrúfum. Gallinn við slíkt er bara sá að í umferðinni verður loftknýrinn frá hreyflunum til vandræða fyrir aðra umferð. Vængina þarf að fella á þann hátt að bíllinn verði ekki breiðari en 2,50 metrar sem er hámarksbreidd á rútum.

Þá er eftir að geta einföldustu lausnarinnar sem er sú að kaupa sér vélknúna fallhlíf eða tauvæng, sem hægt er að setja í tösku og hafa í farangursgeymslu bílsins. Þegar maður þarf á því að halda að hoppa yfir torfæru eins og jökulfljót eða að stökkva upp á fjall, er hægt að taka "taufaxa" út úr bílnum, breiða á jörðina og hlaupa í loftið með hjálp af skrúfu hreyfilsins á bakinu.

Gallinn við þetta er sá að það má ekki vera mikill vindur, nokkuð sem er erfitt að eiga við á Íslandi.

Þá er eftir einn möguleiki, en hann er sá að kaupa sér vélhjól, sem ég fann í bók yfir vélhjól heims, og er 80sm langt, 50 sm hátt og 30 sm breitt og kemst því inn í fjögurra sæta flugvél.

Þegar lent er er mikill munur á því að vera kominn á steinaldarstigið á tveimur jafnfljótum eða að taka þetta örvélhjól út úr bílnum og þeysa af stað!

Þessi síðasti möguleiki er sá sem stendur næst hjá mér ef ég eignast einhvern tíma fé.


mbl.is Flogið yfir umferðarhnúta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"SÁUÐ ÞIÐ HVERNIG ÉG TÓK HANN?!

Ofngreinda greinda setningu segir Jón sterki mannalega í Skugga-Sveini að afloknum átökum, þar sem hið þveröfuga á við. Fréttir fjölmiðlanna í morgun hófust svona: "Seðlabankinn hefur stórhækkað stýrivexti, úr 13,75% í 15% og gengi krónunnar og virði hlutabréfa hefur þegar hækkað Þetta tilkynnti Davíð Oddsson Seðlabankastjóri í morgun." Já, mikill er Davíð, - vantaði bara að sagt yrði um vandann og seðlapabba: Sáuð þið hvernig hann tók hann?!

Alveg dásamleg uppákoma: Pabbi kyssti á meiddið eftir að sársaukinn var aðeins að byrja að minnka og mikið er nú seðlapabbi klár og góður. Allir ánægðir, að minnsta kosti ríkisstjórnin, já, já, allt í fína lagi.

Gallinn er bara sá að hlutabréf voru þegar farin að hækka erlendis og þar með hér heima, áður en þetta kom til. Það vildi bara svo heppilega til fyrir seðlapabba, sem sjálfur hratt þenslunni af stað fyrir sex árum, að hér á landi var frídagur, annar páskadagur, og þess vegna komu áhrif erlendu hlutabréfahækkunarinnar ekki fram hér á landi fyrr en í morgun, og þessi áhrif sköpuðu umhverfi fyrir óhjákvæmilega hækkun krónunnar eftir allt of djúpa dýfu.

Seðlapabbi sá sér leik á borði til að eigna sér það og láta líta svo út sem margítrekaðar stýrivaxtahækkanir Seðlabankans skiptu einhverjum sköpum í íslensku efnahagslífi.

Það er ekki einu sinni hægt að líkja þessu við að pissa í skó sinn, því að sá hluti efnahagslífsins sem svona "handaflsaðgerðir" eins og Davíð kallaði svona einu sinni, hafa áhrif á, fer síminnkandi. Hluti erlendra lána hjá fyrirtækjum og einstaklingum mun ekki minnka, heldur vaxa og Davíð getur aðeins pissað í hælinn á skó íslensks efnahagslífs.

Sérfræðingar hafa sýnt fram á að þegar til lengra tíma sé litið borgi sig að taka lán í erlendum myntum, jafnvel þótt krónan sígi tímabundið eða til langframa. Fáránlegar og skaðlegar sveiflur krónunnar munu halda áfram að rýra trú innlendra og erlendra aðila á henni.

Aðgerð Seðlabankans er örþrifaráð til að bjarga óraunhæfum kjarasamningum úr fyrirsjáanlegum ógöngum og reyna að fresta hinum óhjákvæmilega, timburmönnunum eftir lána- þenslu- og neyslufyllerí undanfarinna ára.

Áfram er blásið í blöðru okurvaxtanna, sem sliga efnahagslífið og reyna að fresta því enn um sinn að fjárfestar, sem nýta sér vaxtamuninn hér og erlendis, missi móðinn og hætti að fjárfesta í krónubréfunum og öðru hliðstæðu.

Þreföld stýrivaxtahækkun á undanförnum þensluárum er fyrir löngu komin út fyrir skynsamleg mörk og enginn virðist velta þeirri spurningu fyrir sér hvenær sé komið að endimörkum þess að Davíð geti sagt eina ferðina enn: "Sáuð þið hvernig ég tók hann!"


mbl.is Eðlileg viðbrögð Seðlabanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

TÁKN ÓHUGNAÐAR OG ANDVARA.

Heilinn, vitsmunalíffæri hvers manns, er varinn af hauskúpu. Hauskúpan og höfuðið hefur löngum verið dramatískur hlutur. Þannig eru sagnirnar um höfuð Jóhannesar skírara og Pompeijusar fullar hryllings og óhugnaðar. Stundum er gálgahúmor með í för, samanber frásögn Njálu af þvi þegar Kári hjó höfuðið af einum brennumanna, sem var að telja peninga, "og nefndi höfuðið tíu þá af fauk bolnum" segir í sögunni.

Líklega er verðmætasti hluturinn á heimili mínu listmunur þar sem hauskúpa og krosslagðir leggir leika aðalhlutverkið sem huti af stórum, kringlóttum öskubakka. Gripurinn er áhrifamikil áminning um nauðsyn þess að vera á varðbergi gagnvart grimmd mannsins.

Forsaga þessa stóra og mikla öskubakka er sú að helsti heimilisvinur foreldra minna, Baldur Ásgeirsson heitinn, var annar tveggja Íslendinga, samverkamanna Guðmundar í Miðdal, sem fóru í boði sjálfs Heinrichs Himmlers til Dachau í Þýskalandi 1938 til að nema þar mótasmíði og listmunagerð úr steini.

Himmler var mikill áhugamaður um slíka list og ætlaði henni stóran hlut í menningu hins germanska ríkis hreinna aría, yfirburðakynþáttar. Ég spurði Baldur aldrei nákvæmlega út í aðstæðurnar, sem þeir Íslendingarnir bjuggu við í Dachau, en ímynda mér stundum að þeir gætu hafa dvalið þar í góðu yfirlæti og unnið í steinum, sem hinir hlekkjuðu gyðinglegu handan við múrinn, hjuggu fyrir þriðja ríkið.

Staðurinn hefur sérstakan blæ yfir sér sem fyrstu skipulögðu útrýmingarbúðir nasista og okkar tíma.

1938-1940 voru dýrðarár í Þýskalandi. Hitler innlimaði Austurríki í Þýskaland 1938 við mikinn fögnuð beggja þjóða, vafði ráðamönnum Breta og Frakka um fingur sér í Munchen og var valinn maður ársins af tímaritinu Time.

Hvergi var eins lítið atvinnuleysi og í Þýskalandi, gríðarlegar framkvæmdir í landinu með hraðbrautir þvers og kruss sem tákn þess fyrir umheiminn, að þarna væri að finna lausn þeirra þjóðfélagsvandamála, sem voru að sliga önnur lönd í kreppunni.

Nú nýlega las ég merka bók, "Nazism at war", sem sýnir glögglega, að allt þetta spilverk nasista og friðarhjal þeirra þar með var byggt á blekkingu, því að efnahagslega var óhugsandi að halda þessari uppbyggingu áfram lengur en í mesta lagi tvö ár í viðbót. Þá hlaut að koma að skuldadögunum og eina ráðið gagnvart því var að leggja undir sig önnur lönd í hernaði.

Allir hefðu átt að sjá 1938 að þjóðarframleiðsla og efnahagur Þjóðverja gat ekki staðið undir framkvæmdunum og hervæðingunni án stríðs.

Öllum mátti vera ljós kúgunin og einræðið sem kerfið byggðist á. En fyrst breskir og franskir stjórnmálamenn að Churchill undanskildum voru blindir fyrir blekkingum þess, var skiljanlegt að ungir menn dáðust að uppganginum í Þýskalandi.Ég man að faðir minn og Baldur ræddu þetta stundum á þessum nótum og varð tíðrætt um andvaraleysið gagnvart illskunni í heiminum, sem væri lævís og lipur.

Það var oft glatt á hjalla hjá þeim þegar þeir tefldu og létu mig spila amerískan svertingjadjass fyrir sig og eitt sinn var það í einskonar hálfkæringi sem Baldur kvaðst ætla að gefa föður mínum krassandi afmælisgjöf. Þeir voru rúmlega tvítugir menn og húmorinn var oft svartur og krassandi.

Og það gerði hann. Húskúpa og krosslagðir leggir voru merki SS-sveita Himmlers og þetta merki, stórt og áhrifamikið, prýðir hinn stóra öskubakka sem kom með og gaf honum. Ég efast um að annar gripur af þessu tagi sé til á Íslandi.

Baldur reykti talsvert og síðar, þegar skaðsemi reykinga varð öllum ljós, varð merking SS-merksins, dauðans og óhugnaðarins, tvöföld á öskubakkanum og mjög viðeigandi.

Baldur Ásgeirsson var einhver ljúfasti og besti maður sem ég hef kynnst og fyrir þá sök verða andstæður góðs og ills enn áleitnari í hvert sinn sem ég hugsa um hann og öskubakkann sem hann gerði.

Aldrei mun falla úr gildi þörfin á andvaranum gagnvart illskunni og þeim augum lít ég á þennan grip.

Baldur komst nær óhugnaðinum en flestir aðrir Íslendingar við húsgafl dauðans og pyntinganna í Dachau.

En þegar ég heyri góðs manns getið er nafn hans eitt af þeim sem kemur upp í hugann.


mbl.is Ekki frekari eftirmál af beinfundinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

TÁKNRÆN AÐGERÐ.

Rof kínverska ríkissjónvarpsins á beinni útsendingu frá Olympíu var afar táknræn aðgerð sem sýnir mismuninn á aðstæðum þar í landi og á Vesturlöndum. Útsending á Vesturlöndum hefði ekki verið rofin við samsvararndi aðstæður. Ég held að fólk hefði fengið að sjá hvað gerðist. Minna má hins vegar á það hvernig íslensk stjórnvöld gengu erinda kínverskra stjórnvalda gagnvart Falun Gong-fólkinu á sínum tíma og í gangi og lögregla sá til þess að hinn erlendi gestur þyrfti ekki að sjá að hér á landi væru uppi nein andmæli gegn mannréttindabrotum.

Ég er hins vegar þeirra skoðunar að íþróttaleikvangar og íþróttaviðburðir eigi að vera griðastaðir frá pólitískum deilum og hef áður bloggað um það hvernig það að blanda þessu saman leiðir í ögöngur sem eru engum til góðs, til dæmis í Moskvu 1980 og Los Angeles 1984. Dæmi um Ólympíuleika sem þó tókst að halda án stórfelldrar fjarveru þjóða voru leikarnir í Melbourne 1956 skömmu eftir að sovétmenn bældu niður uppreisn Ungverja í blóði.


mbl.is Útsending rofin frá Ólympíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

LEYNDARMÁL HINNA HORFNU.

Beinafundurinn í Kjósinni leiðir hugann að því hve lengi það getur dregist að horfið fólk finnist þrátt fyrir mikla leit. Sum mannshvörf eru alveg ótrúega dularfull og er skemmst að minnast hvarfs hins heimsfræga flugmanns og loftbelgsfara Steve Fossett í Nevadaeyðimörkinni sem er ekki aðeins sjálfur týndur heldur líka heil flugvél sem hann var á. Maður hélt að með nýjustu geimmyndatækni sem gumar af því að greina smáhluti á jörðinni væri hægt að leysa þetta mál en það er öðru nær.

Ég hef ekið um eyðimerkurnar Mojave, Dauðadal og hluta af Nevadaeyðimörkinni og á erfitt með að skilja hvernig jafn stór hlutur og flugvél skuli geta verið týndur á svæði þar sem sólin skín í heiði mestallt árið, jafnvel þótt þetta svæði sé feikna víðfeðmt.

Við skulum ekki afskrifa að eitthvað tengt Guðmundar- og Geirfinnsmálum finnist þótt síðar verði. Minna má á hinn dularfulla fund vettlings Jóns Austmanns við Blöndugljúfur tugi kílómetra frá Beinhól á Kili eftir að Reynistaðabræður urðu þar úti.

Mér eru ævinlega minnisstæð klaufaleg ummæli talsmanns lögreglunnar í harðri yfirheyrslu Svölu Thorlaciusar í Kastljósi í Sjónvarpi í kringum 1974-75 þegar hún saumaði að honum og sagði sem svo að það væri hart að leitir lögreglu og leitarmanna bæru ekki árangur.

Lögreglufulltrúinn sagði að það væri ekki alveg rétt hjá henni að leitirnar bæru ekki árangur, því að "þær enda oftast með því að finnum að lokum þá týndu steindauða og allt í fína lagi."

Hin óheppilegu ummæli beindust að því að skárra væri að finna eitthvað að lokum en ekki neitt og má út af fyrir sig taka undir það þótt orða hefði mátt það á heppilegri hátt.

Stundum er leitað langt yfir skammt. Mér er minnisstæð hin langa og ítarlega leit að flugvélinni TF-ROM að mig minnir í maí 1973. Nú er ég búinn að fá leiðréttingu í athugasemd og ártalið var 1981. Flugvélin fannst ekki þrátt fyrir margra daga leit á leitarsvæði sem náði allt frá Reykjavík um Arnarvatnsheiði og norðanverðan Kjöl og allan Tröllaskaga allt til Akureyrar.

Ég var á þriðja leitardegi sendur sem leiðsögumaður með stórri þyrlu varnarliðsins sem þaulleitaði allan Tröllaskagann.

Veður var þannig þegar TF-ROM var á leiðinni frá Reykjavík til Akureyrar að það var heiðskírt en svo mikið mistur að skyggni var aðeins nokkrir kílómetrar. Eina svæðið sem þoka var á var á Holtavörðuheiði og vestast áTvídægru á tiltölulega litlu svæði.

Eftir á að hyggja var langlíklegast að flugvélinni hefði verið flogið með þjóðveginum frekar en að fljúga beint þrátt fyrir heiðskírt veður. Ég þekki það vel að flugmenn, sem þekkja landið vel, eru skiljanlega ragir við að fljúga í lélegu skyggni um svæði sem þeir fara sjaldan eða aldrei yfir. Kjölur er gott dæmi um þetta og einnig er öruggara á eins hreyfils vél með tilliti til vélarbilunar að fylgja vegum, túnum og byggð.

Flak flugvélarinnar fannst loks skammt austan við veginn upp á Holtavörðuheiði hjá litlum vötnum, sem með flekkóttri jörð (þetta var snemma vors) gerði illmögulegt að sjá flakið.

Flugmaðurinn hafði fylgt veginum en hrakist inn á heiðina efst í Norðurárdal vegna þokunnar og að lokum lent inni í þokunni og brotlent.

Ef hann hefði hækkað flugið og flogið í mistrinu yfir þokuna hefði hann líklegast komist áfram en honum hefur hugsanlega verið í minni örlög flugvélarinnar TF-REA sem fórst í Snjófjöllum 1973 eftir að flugmaðurinn ætlaði að fljúga upp úr þoku.

TF-ROM var snúið of seint við og því fór sem fór.

Eftir á að hyggja var þetta flugslys af fullkomlega rökréttum orsökum, sem hefðu átt að beina leitinni að mestu að þessu litla svæði austan við Heiðarsporðinn og Biskupsbeygjuna þar sem Holtavörðuheiði tekur við af Norðurárdal.
Þar hafði þokunni létt daginn eftir, mistrið minnkað mikið og komið gott skyggni og gott leitarveður.

Ég hitti nýlega flugmann sem leitaði á þessu svæði og sagði mér frá því að hann hefði haldið að hann hefði flogið yfir flakið, snúið við til að finna það aftur en ekki fundið það og efaðist þá um að þetta hefði verið rétt hjá sér. Hann kvaðst viss um það nú að ef hann hefði haldið áfram að fínkemba betur á þessum stað og fljúga þess vegna aftur og aftur yfir sömu staðina hefði hann fundið flakið.

Þetta skipti svo sem ekki máli hvað varðaði þá týndu að því leyti að þeir höfðu allir látist í þessari harkalegu brotlendingu sem sundraði vélinni í marga hluta. En leitin og óvissan hefðu orðið skammvinnari með markvissari leit.

Síðan má samt deila um það hvort eftir sem áður sé ekki rétt að hafa leitarsvæði sem stærst. Vettlingur Jóns Austmanns sýnir okkur að oft er með ólíkindum hve langt hinir týndu villast.


mbl.is Mannabein fundust á víðavangi í Kjósarhreppi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ÁLFTADALSDYNGJA, - EKKI UPPTYPPINGAR.

Ef eldgos verður á þeim stað þar sem skolfið hefur síðustu mánuði fyrir norðan Vatnajökul, spá jarðfræðingar því að verði dyngjugos, hið fyrsta hér á landi á sögulegum tíma. Gosið yrði þá í gamalli dyngju sem er átta kílómetra fyrir norðaustan Upptyppinga og heitir Álftadalsdyngja og nafn staðarins því vel við hæfi. Gos á þessum stað má ómögulega kenna við Upptyppinga. Eða myndi gos í Stóra-Kóngsfelli í Bláfjöllum verða kynnt sem gos í Vífilsfelli? Eða gos í Mosfelli í Mosfellsbæ sagt vera gos í Esjunni?

Þá á ekki að vefjast fyrir fjölmiðlamönnum og þjóð sem telur sig jafn klára og Íslendingar að læra orðið Álftadalsdyngja, fremur en að segja Mosfell í staðinn fyrir Esja ef eitthvað gerist í Mosfelli.

Elskurnar mínar: Álftadalsdyngja, - plís !


mbl.is Enn jarðskjálftar við Upptyppinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband