MESTU HETJURNAR.

Mestu hetjur sem ég þekki heyja hljóða baráttu við grimm örlög, flest þeirra á ýmsum stofnunun heilbrigðiskerfisins. Tveir menn, annar tengdur mér og hinn gamall starfsfélagi, berjast nú svipaðri baráttu og Ólöf Pétursdóttir gerði af slíkri reisn og krafti að aðdáun vekur. Hugur minn er hjá þessu fólki á degi upprisunnar, páskadegi.

Í mjög góðri grein um Bjarna Benediktsson í DV er eftirfarandi setning höfð efir Lao Tse: Sá sem sigrast á öðrum er sterkur. Sá sem sigrast á sjálfum sér er mikilmenni. Ólöf Pétursdótti var í þessum síðarnefnda flokki.

Eitt viðurkenndra mikilmenna heims er Muhammad Ali. Í byrjun var hann drýldinn og sjálfhverfur orðhákur sem stundaði sálfræðihernað gagnvart andstæðingunum sem var ekki alltaf til fyrirmyndar.

Nú um stundir telja frægustu rapparar heims hafa verið brautryðjandann mikla á því sviði.

Sem þungavigtarhnefaleikari bar hann af hvað snerti léttleika, hraða, snerpu, fegurð í hreyfingum og tækni. Hann þótti undur sem kemur kannski fram einu sinni á öld. En það var ekki það sem varð til þess að um síðir er upphaflegt gort hans um að vera "hinn mesti" viðurkennt í íþróttaheiminum.

Smám saman sótti aldurinn að honum, hraðinn minnkaði og síðustu keppnisárin sótti að honum dulinn andstæðingur, Parksinsonveiki, sem greindist ekki fyrr en löngu of seint.
En Ali notaði járnvilja sinn, útsjónarsemi, innsæi og aðlögunarhæfileika til að framlengja sigurgöngu sína í hnefaleikahringnum langt umfram það sem venjulegur maður hefði getað gert.

Ali tapaði fimm atvinnumannabardögum á ferli sínum en það var einmitt það hvernig hann tók þessum ósigrum og vann sig út úr þeim sem fullkomnaði myndina um "hinn mesta." Hann er líklega frægasti Parkinson sjúklingur heims en hefur sagt að hann líti á glímuna við þann sjúkdóm sem framhald af glímunni við andstæðingana í hringnum.

"Guð hefur lagt það verkefni fyrir mig að glíma við Parkinson og ég mun reyna mitt besta til að taka þeirri áskorun og ögrun eins og öllum hinum" segir Ali.

Tímaritið Time fékk færa sérfræðinga til að velja fyrir sig 100 mestu snillinga 20. aldarinnar. Eini íþróttamaðurinn í þeim hópi var Muhammad Ali. Snilldina mældu sérfræðingarnir ekki í gáfnavísitölum heldur alhliða framlegð þeirra á andlega sviðinu.

Hetjusnilldin er ekki einskorðuð við ráðamenn og frægt fólk. Þar sem ég sit og blogga þetta við glugga á Borgarspítalanum er ég þess meðvitaður að handan við vegginn kunni að leynast ein af mestu hetjum þessa lands sem berst sinni hljóðu baráttu á aðdáunarverðan hátt.

Slíkri baráttu barðist Ólöf Pétursdóttir síðasta hálfa aðra ár lífs síns inni á sjúkrastofnun. Megi ljós hennar lýsa okkur öllum nú þegar hún hefur kvatt okkur og skilið eftir sig dýrmætan arf.

Gleðilega páska!


mbl.is Ólöf Pétursdóttir látin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VATNIÐ, GLÆRA GULLIÐ.

22. mars í fyrra kom það fram að þá væri alþjóðlegur vatnsverndardagur. Ekki veit ég hvort hann er það árlega þennan mánaðardag en hitt er ljóst að ef hægt hefur verið fram til þessa að kalla olíuna svarta gullið verður hægt að kalla vatnið glæra gullið á 21. öldinni vegna þess að þetta verður mikilvægasti og dýrmætasti vökvi jarðarinnar.

Loftslagsbreytingar vegna hlýnunar jarðar munu færa úrkomusvæði til, sums staðar auka hana, en því miður minnka hana annars staðar og skapa eyðimerkur og vatnsskort sem valda landflótta fólks og styrjöldum um yfirráðin yfir vatninu. Styrjaldir um yfirráð yfir glæra gullinu gætu jafnvel orðið fleiri og harðvítugri en þær styrjaldir sem háðar hafa verið vegna svarta gullsins, nú síðast í Írak þótt yfirvarpi þess stríðs sé stríð gegn hryðjuverkum og gereyðingarvopnum sem aldrei fundust.

Það mun víst leitun að spítölum í heimnum þar sem hægt er að fara í sturtu með ósnortnu vatn, sem kemur beint úr borholunum, á smit- og húðsjúkdómadeild eins og er hér á Borgarspítalanum. Ég hafði ekki hugsað út í þetta fyrr en læknir hér benti mér á þetta þegar ég kom hingað.

Eftir tvö ferðalög til þurrkasvæða í Eþíópíu, í síðara skiptið í þurrkum, sem skildu eftir sig hræ dýra sem dóu úr vatnsskorti og mikla neyð fólksins sem ég heimsótti, verður myndin af verðmæti glæra gullsins skýrari en áður.
Það var ljúf tilviljun að Íslandshreyfingin - lifandi land var stofnuð á vatnverndardaginn fyrir réttu ári.

Alþjóðlegur vatnsverndardagur ætti að vera í hávegum hafður af öllum umhverfissamtökum og umhverfisverndarfólki og þakkargjörðardagur fyrir Íslendinga.


HLIÐSTÆTT FORELDRISHAMINGJUNNI.

Flestum ber saman um það hve miklu það bætti við lífshamingju þeirra þegar þau urðu foreldrar. Það rímar við þá niðurstöðu að meiri hamingja felist í því að gefa peninga en að nota þá fyrir sjálfan sig. Það að geta gefið annarri persónu líf og styðja það síðan til að vaxa upp og þroskast er stórkostleg gjöf sköpunarverksins. Páskarnir eru haldnir til að minnast fórnar Krists og því gaman að því að niðurstaða könnunar um gildi gjafarinnar skuli birtast nú.
mbl.is Peningar veita hamingju - séu þeir gefnir öðrum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

SKYNSEMI HVÍLDARDAGSINS.

"Hvíldardagurinn er til vegna mannsins en ekki maðurinn vegna hvíldardagsins." Enginn orðaði betur en Kristur nauðsyn þess að gera hlé á brauðstiti og streitu og stunda uppbyggjandi íhugun. Vantrúaðir eða þeir sem aðhyllast önnur trúarbrögð en kristni ættu ekki að láta öfund yfir því að hér á landi skuli kerfi hvíldardaga vera til komnir séu vegna kristninna verða til þess að fara stofna til leiðinda.

Borðorðið um að halda hvíldardaginn heilagan er miklu skynsamlegra en svo að það eigi að stofna til togstreitu um þetta. Aldrei hafa hvíldardagar verið mikilvægari en nú, í taumlausu neyslukapphlaupi og streitu okkar tíma.

Ég er í fríkirkjusöfnuði en uni þjóðkirkjunni þess vel að vera í krafti yfirburða stærðar sinnar leiðandi í því hvaða dagar eru mestu hvíldardagarnir. Það er best fyrir alla, því að hvíldardagar ná ekki tilgangi sínum nema sem flestir haldi þá í einu.

Emílíana Torrini var eitt sinn spurð um í útvarpsviðtali það hvað henni fyndist best við jólin og hún svaraði: Það besta við jólin er það að þau eru nokkurn veginn eina helgin á árinu sem maður hefur frí frá "skyldudjamminu." Með "skyldudjamminu" átti hún við þá kvöð sem það er orðið fyrir stóran hlutan þjóðarinnar að fara út "að skemmta sér" með tilheyrandi drykkju um hverja helgi.

Séra Gunnar Björnsson var eitt sinn spurður hvað honum fyndist skemmtilegast að gera og hvað leiðinlegast. Hann svaraði í hálfkæringi sem þó vakti mann til umhugsunar: "Mér finnst skemmtilegast að eiga góða stund heima í faðmi fjölskyldunnar og lesa góða bók og hlusta á góða tónlist." "En hvað finnst þér leiðinlegast?" var spurt. Séra Gunnar svaraði: "Mér finnst leiðinlegast að fara út og "skemmta mér."

Þessa dagana er ég á spítala og sviptur frelsinu að því leyti. En eins og fleiri hafa upplifað fær slík vist mann til að íhuga upp á nýtt hvað það er sem hefur mest gildi í lífinu. Það er heilsan, hinir nánustu og það að kunna að forgangsraða því sem maður vill gera. Stundum þarf spítalavist, veikindi eða bara góða hvíldardaga til þess að átta sig betur á því.

Að gera sér dagamun er eitt hið mikilvægasta í tilveru mannsins. En þá þarf dagamunurinn að standa undir nafni.
Síðan má ævinlega ræða um það hvort færa megi hvíldardaga til, fækka þeim eða fjölga. En rólegustu dagarnir á árinu eru aðeins þrír, jóladagur, páskadagur og föstudagurinn langi.

Miðað við allt lífsgæðastressið held ég að þrír slíkir dagar af 365 séu ekki of mikið. Eða hefur allur hagvöxturinn og kaupmáttaraukningin orðið til þess að við höfum síður efni á þessu en áður? Það held ég varla.

Gleðilega páska!


mbl.is Vantrúaðir spila bingó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

SVONA ER LÍFIÐ.

Svona er lífið, - gengur upp og niður segja Svíar oft og það má segja um leik Barcelona í dag. Raunalegt var að heyra lestur Kristins R. Ólafssonar í Madrid úr umsögnum fjölmiðla um leik Barcelona, einkum umsagnirnar um Eið Smára. Kristinn endaði pistil sinn á því að segja að sumir fjölmiðlarnir hefðu ekki einu sinni haft fyrir því að minnast á Eið, "og kannski eins gott", bætti Kristinn við.

En Eiður hefur sýnt það áður að hann brotnar ekki við mótlæti, það eru ekki alltaf jólin og kemur dagur eftir þennan dag.


mbl.is Valencia í bikarúrslitin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VANMETIN BÍLATEGUND.

Mazda hefur í áraraðir verið eitthver vanmetnasta bílategund á Íslandi ef marka má það hve miklu minna hefur verið selt af þessum bílum hér en í flestum nágrannalöndunum og ef tekið tillit til þess hve verksmiðjurnar eru stórar og öflugar. Aðrir mun minni framleiðendur hafa selt miklu meira af bilum hér. Viðurkenningarnar sem Mazda 2 fær nú víða um lönd eru ekki út í loftið og bíllinn hefur sérstöðu hvað það snertir að hann er 100 kílóum léttari en fyrirrennarinn en samt rúmbetri.

Léttingin skilar sér í meiri sparneytni og snerpu. Þetta er hárrétt þróun hjá Mazda í upphafi eldsneytisskorts á sama tíma sem aðrir bílar þyngjast sífellt og stækka. Sem dæmi má nefna að Volkswagen Golf er nú tæpu hálfu tonni þyngri og hálfum metra lengri en þegar hann kom fyrst fram 1973.

Mazda RX 8 var fyrir nokkrum árum dæmi um framúrstefnulega hugsun þar sem bíll, sem sýndist vera lágur sportbíll rúmaði í raun fjóra fullvaxna menn í fullum þægindum. Galdurinn fólst í því að hafa fjórar hurðir á bílnum og láta afturhurðirnar opnast í "öfuga" átt.

Um árabil hefur Mazda skilað sér erlendis við topp allra lista um bilanaminnstu bílanna. Í kringum 1980 var blómaskeið Mazda á Íslandi en það kom í bakið á þessari tegund hér á landi hvað mikið seldist af henni á skömmum tíma, því að afleiðingin varð offramboð af notuðum Mözdum nokkrum árum síðar sem verðfelldi merkið.

Umboðið færðist á sínum tíma of mikið í fang á tímum samdráttar og eins lengsta skeiðs lítillar bílasölu sem um getur hér á landi. Mazda hefur goldið fyrir þetta síðan en í réttum höndum ætti merkið að geta rétt úr kútnum.

Það er vel hægt. Gott dæmi um það er Skoda, sem í stórri og berorðri fræðibók um bíla er afgreiddur þannig að á árunum 1965-1990 hafi Skoda verið "international joke," þ. e. alþjóðlegur brandari, svo mjög hafði gæðunum hrakað og merkið sett niður frá að vera viðurkennt fyrir vandaða bíla um miðja öldina. (Einnig vandaða skriðdreka sem komu í góðar þarfir fyrir Hitler í innrásinni í Frakkand 1940)

Nú er Skódinn í sumum könnunum kominn upp fyrir móðurmerkið, Volkswagen, í gæðum, og farinn að njóta gæðanna á íslenska bílamarkaðnum.

Þjónusta umboðsmanna vegur þungt í afskekktu og litlu landi eins og Íslandi og reynslan sýnir að jöfn og góð sala er farsælli en miklir toppar. Þannig er það vafalaust stór þáttur í velgengni Toyota á Íslandi að þetta merki selst jafnan langmest allra ár eftir ár. Það skapar stöðuleika fyrir merkið á markaði notaðrar bíla.

Rétt er að geta þess í lokin að titillinn "bíll ársins" þýðir ekki að viðkomandi bíll þyki bestur allrar bíla, heldur er við valið hverju sinni einungis miðað við nýjar bílgerðir sem byrjað var að selja á viðkomandi ári.


mbl.is Mazda 2 kjörinn bíll ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

MUNURINN Á FRÖKKUM OG BANDARÍKJAMÖNNUM.

Þegar Lewinsky-málið var í hámæli dundi fárviðri spurninga fjölmiðanna á forseta Bandaríkjanna sem voru að deyja úr hræsnisfullri hneysklun á einkamáli sem kom ekki öðrum við. Nýgræðingur í blaðamannastétt í Frakklandi hélt á blaðamannafundi Mitterands Frakklandsforseta að hægt væri að fiska eitthvað svipað upp þar og náði því að standa upp og spyrja forsetann: Er það rétt sem hvískrað er um, að þú hafir átt hjákonu í mörg ár? "Já," svaraði Mitterand, - "næsta spurning?" Málið dautt.

Framhjáhald Bandaríkjaforseta hefði aldrei átt að verða neitt mál frekar en einkamál Frakklandsforseta, En Bill bognaði undan hræsnisfullri hnýsni landa sinna og laug að þjóðinni og heiminum. Í því fólst alvarleiki málsins eingöngu að mínum dómi. Ef hann hefði sagt satt eins og hinn franski kollegi hans hefði málið horft öðruvísi við, að minnsta kosti í hugum flestra annarra þjóða en Bandaríkjamanna.

Ég verð að segja það að ef það á nú að fara að rífa og blása þetta mál upp að nýju til þess að gera Hillary Clinton erfitt fyrir er það dæmi um hvernig skinhelgin og hræsnin og það sem "selur" getur brenglað umræðuna og leitt athyglina frá þeim stórmálum sem ræða þarf við val á valdamesta manni heims.

Hillary hefur að mínum dómi komið óaðfinnanlega fram í þessu máli öllu þótt sumir núi henni nú um nasir að fyrirgefa eiginmanni sínum breyskleikann.

Hvar er nú allt kristilega siðgæðið sem hluti Bandaríkjamanna notar sem svipu á landa sína? Hver var það sem boðaði gildi kærleikans og fyrirgefningarinnar?


mbl.is Lewinskymálið skýtur á ný upp kollinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

YFIRLÝSING UM TÓNLISTARVANGETU?

Tónlist er listform. Dans er listform. Myndnotkun líkamans og hreyfinga hans getur verið listform. Listin þarf frelsi. Mercedes Club vill að sjálfsögðu komast á toppinn. Ef tónlistin nægir ekki til að koma þeim á toppinn og hreyfingar, myndbeiting og útfærsla tónlistarinnar fara út á eða út fyrir ystu nöf almennra viðhorfa um þau takmörk sem skynsamleg eru, er yfirlýsing um nektarmyndband í raun opinber viðurkenning Mercedes Club á því að tónlistarhæfileikarnir þurfi alvarlegrar hjálpar við til þess að skila þeim áfram.

Ég hvet Mercedes Club til að grípa ekki til örþrifaráða í framaviðleitni sinni heldur að þroska betur tónlistar- og tjáningarhæfileika innan skynsamlegra marka. Ég hef hins vegar ekkert við það að athuga að sveitin nýti sér líkamlega yfirburði yfir annað tónlistarfólk til að styðja góða tónlist sína.

Ég nefni sem dæmi Pál Óskar Hjálmtýsson sem alla tíð hefur staðið svo mjög framar öðrum tónlistarflytjendum í notkun líkamlegra hæfileika til túlkunar að aðrir flytjendur hafa oft verið eins og spýtudúkkur í samanburði við hann.
Páll Óskar er hins vegar svo góður tónlistarmaður og flytjandi að hann þarf ekki að grípa til örþrifaráða til þess að komast á þann stall sem nýleg tónlistarverlaun báru vitni um.

Það er alltaf hægt að sækjast eftir meira frelsi en að því kemur ævinlega í lokin að farið er yfir strikið.

Takið ykkur Pál Óskar til fyrirmyndar og dýpkið og fágið hæfileika ykkar eins og hann hefur gert við sína hæfileika. Þið eigið ekki að þurfa að gefa yfirlýsingar um nekt til þess að koma tónlist ykkar á framfæri því að það getur litið út eins og yfirlýsing ykkar um vangetu á tónlistarsviðinu. Ég hélt einmitt að þið væruð í svo góðu líkamlegu formi að þið þyrftuð síst allra á nekt að halda.

Sú þróun tónlistar að gera hana æ háðari kynferðislegri útfærslu á myndböndum hefur ekki orðið tónlistinni til góðs að mínu mati heldur afhjúpað stöðnun hennar og skort á hugmyndaauðgi, frumleika og sköpunargetu innan hennar sjálfrar.

Besta tónlistarfólkið þarf ekki á slíkum umbúðum að halda utan um list sína, umbúðum, sem svo margir virðast ekki geta verið án utan um innihaldslitlar og andlausar afurðir.

Raunar er sú staðreynd að æ fleiri þurfi á kynferðislegum umbúðum að halda, þessi kvöð er að svipta tónlistina frelsi og binda hana niður í ákveðið form, sem þrengir viðfangsefni hennar. Það er umhugsunarefni.

Þá getur ákallið um meira frelsi snúist upp í andhverfu sína.


mbl.is Vilja vera nakin í myndbandinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ALBERT GERÐI ÞETTA LÍKA !

Ronaldo er ekki eini knattspyrnumaðurinn í heiminum sem hefur notað þá sparktækni sem hefur gagnast honum svo vel í aukaspyrnum. Albert Guðmundsson sýndi í tveimur frábærum mörkum sínum í leik á Melavellinum fyrir rúmri hálfri öld að þessa tækni hafði hann á sínu valdi.

Í þessu leik lék Valur við frábært erlent gestalið og það var leikur kattarins að músinni sem gestirnir unnu og hefðu getað skorað fleiri mörk en þeir gerðu. En Albert Guðmundsson, sem þá var í fríi hér heima, sá fyrir því að gestirnir urðu að hafa fyrir sínu.

Ekki þýddi fyrir Albert að liggja frammi því að þá fékk hann aldrei boltann. Leikurinn fór að mestu fram á vallarhelmingi Valsmanna og þar var Albert við miðju vallarhelmingsins, plataði nokkra mótherja upp úr skónum í þau skipti sem hann fékk boltann og gaf síðan frábærar sendingar á samherja sem fengu alla vallargesti til að klappa af hrifningu. Þegar hann fékk boltann hópuðust mótherjarnir að honum eins og flugur að haug og engin leið var fyrir Albert að prjóna sig alla leið í gegn, oftast nær endilangan völlinn, hvað þá að finna smugu sem hægt væri að skjóta í gegnum.

Í örfá skipti komst hann þó fram fyrir miðju en sá að of margir voru á leið hans nær markinu, hún var lokið bæði fyrir einleik og skot. Albert hafði fram að þessu gefið boltann til baka í þessari stöðu en tekur nú upp á því alveg upp úr þurru að spyrna firnafast af 35-40 metra færi í átt að markinu en þessi þrumufleygur stefndi þó hátt yfir og framhjá markinu hægra megin. Markvörðurinn var rólegur og rölti af stað til að sækja boltann aftur fyrir.

En þá gerðist það sem ég hef aldrei, fyrr né síðar, séð í knattpyrnuleik. Rétt áður en boltinn var kominn að markinu, hægðist hratt á honum og hann skrúfaðist inn að markinu og "datt" efst ofan í markhornið. Það var mark!

Skömmu síðar gerðist svipað, hann lék snilldarlega á nokkra mótherja og af 35-40 metra færi skaut hann þrumfleyg sem var nákvæmlega eins og hinn fyrri, firnafast skot sem stefndi þráðbeint yfir og fram hjá markinu. Í þetta skiptið var markvörðurinn á varðbergi og skutlaði sér sem elding til þess að tryggja að Albert endurtæki ekki leikinn frá fyrra marki sínu.

En aftur gerðist það sama og fyrr. Þegar allir héldu að boltinn væri á fleygiferð yfir og framhjá markinu, hægði hann skyndilega á sér og skrúfaðist inn fyrir stöngina, efst í markhornið, gersamlega óverjandi fyrir markvörðinn þótt hann skutlaði sér sem óður væri í átt þangað. Albert hafði skorað tvö mörk á þann hátt sem aðeins snillingum er gefið.

Talsmenn gestanna sögðu eftir leikinn að Albert væri tvímælalaust í hópi ellefu bestu knattpsyrnumanna Evrópu og áttu ekki orð yfir því hvernig hann fór að því að skora þessi tvö mörk.

Skýringin liggur líklegast í því að vegna þess hvað skotið er firnafast stefnir það lengi vel yfir markið og jafnvel framhjá því um leið. En mikill snúningur sem er á boltanum og má nefna skásnúning, þ. e. boltinn snýst bæði í láréttu og lóðréttu plani - þessi snúingur fer að virka betur þegar loftmótstaðan hægir á skotinu og þá skrúfast boltinn niður á við og "dettur" undir slána og inn fyrir stöngina.

Ég gæti sagt fleiri sögur af snilli Alberts, allt fram um sjötugsaldur þegar hann var kominn vel á annað hundrað kílóa þyngd en læt þetta nægja.

P.S. Nú hef ég séð í fyrsta sinn aukaspyrnu Ronaldos og sé ekki betur en að spyrnur Alberts hafi verið enn flottari, miklu fastari og af miklu lengra færi !


mbl.is Botna ekkert í aukaspyrnum Ronaldos
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

DÆMIGERT FYRIR ÍSLENDINGA.

Hugsanlegt afnám UNESCO-gæðastimpilsins af Þingvöllum er dæmigert fyrir vítavert skeytingarleysi Íslendinga um mestu verðmæti landins. Fyrir meira en áratug komst til umræðu að nokkrir staðir á Íslandi gætu komist á heimsminjaskrá UNESCO og héldu Íslendingar að Þingvellir og Mývatn ættu þar góða möguleika. Erlendis vakti hugmyndin um Mývatn aðhlátur vegna tilvistar Kísiliðjunnar og kísilnáms í þessu einstæða vatni.

Nú er að koma í ljós óafturkræf og áframhaldandi eyðilegging á stórum hluta lífríkis vatnsins af völdum verksmiðju sem starfaði aðeins í 40 ár með eins ósjálfbæra og skaðlega starfsemi gagnvart einstæðum verðmætum vatnsins og hugsast gat.

Þáverandi sveitarstjóri hafði engan skilning á gildi þess gæðastimpils og þeim tekjumöguleikum sem UNESCO-viðurkenningin hafði þótt ég sýndi honum hvernig UNESCO-stimpill bryggjuhúsanna í Björgvin var nýttur á norskum ferðamannabæklingi til að laða ferðafólk þangað með því að hafa bryggjuhúsin á forsíðu helsta kynningarbæklings um landið.

Þótt Kísiliðjan sé farin munu Mývetningar fjarlægjast UNESCO-viðurkenninguna enn frekar á næstu árum með þeim hrikalegu umhverfsspjöllum sem í ráði eru með skefjalausum virkjunum fyrir austan og norðaustan vatnið.

Ég hef í blaðagreinum lýst því hvernig er í lófa lagið að stytta hraðleið milli uppsveita Árnessýslu og Reykjavíkur fyrir sunnan Þingvallavatn. Á það er ekki hlustað heldur talað um nauðsynlega hraðleið skólabarna um Lyngdalsheiði. Börnunum hefur farið fækkandi og mun nú hægt að telja þau á fingrum annarrar handar. Með lítilsháttar lagfæringum á núverandi Gjábakkavegi og notkun öflugs jeppa í nokkra daga á vetri er auðvelt að leysa þetta mál.

Líka má spyrja hvort skólaumdæmaskipting landsins sé svo heilög að ekki megi láta þessi börn læra í skóla í Mosfellsbæ í aðeins 20 mínútna aksturfjarlægð.

Fastheldni slendinga í úrelt nýtingarsjónarmið og skaðleg skammtímagræðgi er með ólíkindum. Náttúruverndarnýting er okkur fjarlæg hugsun en aðeins hugsað um "skástu leikina í stöðunni" hverju sinni varðandi stanslausar virkjana- stóriðjuframkvæmdir sem byggjast nú að mestum hluta á jafn ósjálfbærri nýtingu og hjá Kísiliðjunni á sinni tíð.


mbl.is Þingvellir af heimsminjaskrá?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband