LÍTIÐ MÁ NÚ.

Úrskurður siðanefndar Blaðamannafélags Íslands í dag vekur undrun mína því ég skil ekki hvernig hið mæta fólk í nefndinni getur komist að þeirri niðurstöðu að framið hafi verið alvarlegt brot, ef það er þá yfirleitt um brot að ræða. Miðað við það sem ég veit um málið er í mesta lagi hægt að tala um ónákvæmni í nokkrum atriðum í upphafi sem snertu ekki aðalatriði málsins og kalla að mínum dómi ekki á stóryrtan úrskurð af þessu tagi.

Raunar kallar skeleggt og gott svar Þórhalls Gunnarssonar á ítarlega umfjöllun í fjölmiðlum um öll atriði úrskurðar siðanefndarinnar því að hér er um að ræða grundvallaratriði í blaðamennsku og þarft er að kryfja til mergjar.

Það vill svo til að þetta var ekki eina mál sinnar tegundur rétt fyrir kosningar því um kærumál á hendur mér var fjallað í fjölmiðlum í kosningavikunni og að sjálfsögðu var í engu fjallað um það á annan hátt en ella vegna þessarar tímasetningar.

Það hefði mér þótt óeðlilegt þótt siðanefndin telji að annað gildi rétt fyrir kosningar en á öðrum skeiðum kjörtímabilsins.

Það voru ekki fjölmiðlarnir  sem réðu því að þessu máli mínu var fyrst hreyft í beinni útsendingu svona stuttu fyrir kosningar og þegar formleg kæra lá fyrir daginn eftir var það að sjálfsögðu á valdi fjölmiðla að taka málið fyrir eftir því sem þeim fannst tilefni til og mér hefði aldrei komið í hug að reyna að hafa áhrif á það eða kveinka mér undan því.

Í Morgunblaðinu gafst mér færi á að útskýra þetta mál sem ég kallaði "Stóra flugvallarmálið" og bera af mér sakir en auðvitað hefði ég viljað fá örlítið meira rými en 20 sekúndur til andmæla í fréttum Sjónvarpsins klukkan 22:00 daginn sem kæran kom fram.

Ég hafði þó fullan skilning á því að vegna tæknilegra atriða sem stafaði af tímaskorti gafst ekki betra færi á andmælum þá um kvöldið og mér datt að sjálfsögðu ekki í hug að kvarta yfir þessu.

Í þessari frétt Sjónvarpsins var þess sérstaklega getið að lagabrotið sem ég var sakaður um gæti varðað fangelsisvist og það fannst mér svolítið harkaleg umfjöllun.

En þetta var engu að síður staðreynd og mér fannst fráleitt að kvarta yfir því, og enn síður hefði mér dottið í hug að vegna nálægðar kosninganna ætti að fara um þetta með einhverjum sérstökum silkihönskum.

Þeir sem gefa sig í það að fara út í stjórnmál verða að sæta því að hart sé sótt að þeim og að þeir taki þá líka vel á móti. Ef stjórnmálamaðurinn telur málstað sinn góðan og fær tækifæri til að færa rök fyrir máli sínu er það hið besta mál.

Jónína Bjartmarz og aðrir aðilar ríkisfangsmálsins fengu góðan tíma og aðstöðu til að útskýra sitt mál og ég get ekki betur séð en að miðlun upplýsinga og ólíkra skoðana í málinu hafi verið eins ítarleg og kostur var á.

Það er nauðsynlegt fyrir fjölmiðlafólk að verk þess séu undir smásjá almennings og sæti rökræðu og gagnrýni rétt eins og störf stjórnvalda. Þess vegna er hlutverk siðanefndar mikilvægt.

En nú sýnist mér kominn úrskurður frá henni sem kallar á andsvör og rökræðu. Það er mikilvægt að vel takist til um úrskurði nefndarinnar og að hún kalli það ekki yfir sig að ekki sé mark takandi á úrskurðum hennar.    


DUGÐI EKKI AÐ HAFA KONU EFSTA Á LISTA

Það gefur auga leið að það hlýtur að hafa verið rými fyrir eina konu í hópi níu þingmanna norðvesturkjördæmis. Þess vegna var Íslandshreyfingin eini framboðslistinn með konu í efsta sæti og bauð fram krafta Pálínu Vagnsdóttur, annálaðar dugnaðarkonu úr Bolungarvík. Ég er sannfærður um að Pálína hefði látið að sér kveða á þingi ef hún hefði náð kjöri. Helmingur kjósenda norðvesturkjördæmis eru konur og ég held að þær verði sjálfar að líta í eigin barm, ekki síður en karlarnir.

Helmingur af efstu mönnum á sex listum Íslandshreyfingarinnar voru konur. Ein þeirra, Margrét Sverrisdóttir, sæti nú á þingi ef ekki giltu hér mun ósanngjarnari kosningalög en eru í nágrannalöndum okkar.  

Í Suðurkjördæmi fór efsti maður I-listans, Ásta Þorleifsdóttir, á kostum í kosningabaráttunni og gaf tveimur ráðherrum sem voru í efstu sætum ekkert eftir.

Ég fullyrði að það hefði komið hressandi andblær inn á þing með þessum þremur konum. Þetta er íhugunarefni þennan annars bjarta 19. júní.

Vonandi þarf ekki að bíða eftir næstu eða þarnæstu kynslóð til að breyta þessu, - að það þurfi að bíða eftir barnabörnum okkar (sonarsonur minn er fæddur 19.júní) til að kippa þessu í lag. 


mbl.is Níu þingmenn Norðvesturkjördæmis fengu bleika steina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ÓHEPPILEG LEIÐ.

Á hverju ári úthluta stjórnir, nefndir og ráð viðurkenningum af ýmsum toga. Um síðustu helgi var útdeilt fjölda slíkra viðurkenninga til listafólks. Það er undantekning ef rökræður þeirra og skoðanaskipti,sem veita þessar viðurkenningar, eru bornar á torg, enda á að mínum dómi að forðast slíkt. Ástæðan er sú að enda þótt slíkt val kunni að vera umdeilanlegt á að sýna þeirri persónu sem hlýtur slíka viðurkenningu tillitssemi og taka tillit til tilfinninga hennar.

Ekki á að óþörfu að varpa skugga á veitinguna og gildir einu þótt eftir á sé borið við ástæðum, sem koma verðleikum verðlaunahafans ekki við.

Ef einstakir fulltrúar í þeirri nefnd sem úthlutar viðurkenningunni hafa athugasemdir við málsmeðferð hlýtur að vera hægt að skiptast á skoðunum um hana fyrirfram eða á almennum fundum nefndarinnar án þess að það komi fram í úthlutuninni sjálfri.

Hjáseta fulltrúa Samfylkingarinnar var óheppileg aðferð til þess að koma á framfæri skoðun sem snerta verðleika Ragnars Bjarnasonar að engu leyti. Ég lít á þetta sem slys sem ætti að vera hægt að koma í veg fyrir að gerist aftur.


mbl.is Samfylking sat hjá við útnefningu borgarlistamanns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ALÞINGISHÚS Á ÞINGVÖLLUM.

Sá kafli þjóðhátíðarræðu forsætisráðherra sem fjallaði um Þingvelli féll nokkuð í skuggann af ummælum hans um fiskveiðistjórnunina. Ég hef í áratugi undrast að ekki skuli standa Alþingishús á Þingvöllum og að fleiri athafnir þings og stjórnvalda skuli ekki fara fram þar. Á tímum Fjölnismanna var að sjálfsögðu tómt mál að tala um slíkt en nú er samgöngutæknin önnur. Það ætti ekki að vera neitt vandamál að reisa snoturt, - ekki of stórt hús, sem gæti bæði hýst þingsetningu, þingslit og fleiri slíka viðburði í þinghaldinu.

Væri ekki hugsanlegt að húsið væri jafnframt vígt Guðshús þannig að þingsetningarguðsþjónustan færi þar líka fram og jafnvel setning forseta Íslands í embætti? Þingvellir eru helgasti staður landsins. Eftir þá athöfn gæti forseti ekið í skrúðakstri til Reykjavíkur og komið fram á svölum Alþingishússins eins og verið hefur.

Þótt Þingvellir séu frábær umgjörð um hátíðahöld utandyra er hægt að auka mjög á alhliða not staðarins með því að tryggja húsaskjól við athafnir þar sem ekki er mikill mannfjöldi samankominn.

Aðal rökin fyrir því að eiga í hús að venda eru veðurfarslegs eðlis: Það rignir að meðaltali 20 daga í hverjum mánuði á sunnanverðu landinu.   


GOTT AÐ STURLA VARÐ EKKI RÁÐHERRA.

Ef Sturla Böðvarsson hefði orðið ráðherra hefði hann ekki getað  sagt það sem hann sagði á Ísafirði í gær því að Geir sagði í sinni ræðu:..."ráðherrarnir munu standa þétt að baki sjávarútvegsráðherra við ákvörðun þorskkvótans.".... Davíð hefði ekki þurft að segja þetta til að tryggja að Sturla ekki komist upp með múkk. Þá réði einn vilji, einn foringi. Það er líka gott að gamla stjórnin sat ekki áfram með eins atkvæðis þingmeirihluta, þá hefði enginn stjórnarþingmaður mátt segja neitt.

Sturla ræddi um olíuhreinsistöðvar sem lausn byggðavandans. Á svæðinu frá Snæfellsnesi og hringinn norðurfyrir til Víkur í Mýrdal eru rúmlega þúsund manns á vinnumarkaði. Tvær olíuhreinsistöðvar myndu gefa rúm 2% af vinnuafli þessa svæðis.

Það myndi því augljóslega þurfa miklu fleiri olíuhreinsistöðvar til að leysa vandann og þær myndu keppa við álverksmiðjur um orkuna sem okkur liggur svo mikið á að bruðla með og eyðileggja með því miklu meiri verðmæti sem felast í náttúru landsins.

Enn einu sinni dettur mönnum fyrst og fremst í hug sú "redding" að henda stórverksmiðjum inn í hverja byggð með þeirri orkueyðslu, umhverfisröskun og einhæfni í störfum sem því fylgir og breikkar aðeins menntunargjána milli landsbyggðar og suðvesturhornsins.

Sturla má að vísu eiga það að hann minntist líka á þá lausn sem er ekki eins einföld, að efla samgöngur, fjarskipti, menntun og skapa jarðveg fyrir þau störf sem þurfa á framantöldu að handa í tengslum við ónotaða möguleika í menningu, sögu og náttúru.

Fyrir mig hefðu orð Sturlu um þetta efni alveg dugað fyrir mig til að segja: Sturla, það var gott að þú varðst ekki ráðherra. Haltu svona áfram !


HANN VAR UNGUR OG ÁTTI HEIMA Í BÆNUM...

Já, svona byrjar texti Jóns Sigurðssonar við lag eftir Ragnar Bjarnarson sem hann söng í lok sjötta áratugs síðustu aldar. Ég man hvar ég var staddur þegar ég heyrði fyrsta Bítlalagið, í lúkar í báti í Vestmannaeyjahöfn, - ég man hvar ég var staddur þegar ég heyrði Presley fyrst spilaðan í íslenska útvarpinu, var á þvo upp leirtau fyrir mömmu (konan mín á erfitt með að trúa þessu), - og ég man hvar ég var staddur þegar ég heyrði fyrst spilað lag með Ragga Bjarna, - það var á Melavellinum 1954 og lagið var "Í faðmi dalsins."

Af hverju man ég þetta? Vegna þess að í öll skiptin kvað við nýjan tón sem maður hafði ekki heyrt áður, - það var eitthvað á seyði sem boðaði nýja tíma. Og sú varð raunin í öll skiptin.

Þá var Ragnar "ungur og átti heima í bænum" og framundan var einstakur ferill sem nú hefur náð hámarki.

Það er ekki bara vegna einstaks hlutverks meðal þjóðarinnar í meira en hálfa öld sem Ragnar er einstaklega vel að þessum verðlaunum kominn heldur ekki síður vegna þess að leitun er að listamanni sem hefur risið til nýrra hæða eftir sjötugt eins og Ragnar hefur gerst síðustu árin.

Það þarf svolítið til að til manns komi tíu ára drengur og segi við mann: "hey, þú, - þekkir þú kallinn með hendina?" 

Fyrir aðeins fjórum árum bað Fréttablaðið hóp helstu kunnáttumanna um dægurlagasöng að nefna bestu slíka söngvara hér á landi frá upphafi.

Listinn sem út úr þessu kom var langur, - með Ellý, Hauk, Vilhjálm Vilhjálmsson, Bubba og fleiri efst á listanum. Ótrúlegustu söngvarar voru nefndir á þessum langa lista, - meira að segja Jón Ólafsson á Bíldudal og ég!

En einn söngvari komst ekki inn á listann, - Ragnar Bjarnason. Ég man að það fauk í mig og mig blóðlangaði til að hella mér yfir þetta með blaðagrein en þetta gerðist einmitt þá daga sem mest gekk á vegna gerðar myndarinnar "Á meðan land byggist" og því komst ég aldrei til þess.

Mig langaði til að spyrja: Var það bara misskilningur þjóðarinnar að þeir Haukur Morthens og Ragnar Bjarnason bitust um að vera á toppnum á árunum eftir 1955 og að Ragnar hafði oftast betur?

Getið þið nefnt söngvara sem getur sungið jafnvel jafnólík lög og Vorkvöld í Reykjavík, Kokkur á kútter frá Sandi, Vor við Flóann, Vertu ekki að horfa, Barn?

En það þurfti ekki að fara að rífast í þessu. Ragnar sá um þetta sjálfur á svo glæsilegan hátt að eftir verður munað. Síðustu árin hefur þjóðin fylgst með því hvernig hann hefur hafist í hærri hæðír en nokkru sinni fyrr, kominn á áttræðisaldurinn.

Það voru ákveðin tímamót á sínum tíma þegar Gunnar Þórðarson fékk fyrst listamannaverðlaun, - viðurkenning á því að listsköpun getur blómstrað á mjög ólíkum sviðum.

Viðurkenning á framlagi Ragnars er frábært dæmi um þetta og besta orðið yfir tilfinninguna í tilefni af þessu er sumargleði bæði með litlum og stórum staf.

Ég segi því við Ragnar eins og okkur er tamt að ávarpa hvor annan: Innilega til hamingju, elsku drengurinn!


mbl.is Raggi Bjarna er borgarlistamaður Reykjavíkur 2007
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

17. JÚNI, - RÍFUM HANN UPP !

Þegar ég átti þess kost að fylgjast með hátíðahöldum á Íslendingadegi Vestur-Íslendinga í Gimli, smábæ í Manitoba fyrir nokkrum árum rann það upp fyrir mér hve léleg frammistaða okkar hér heima er 17.júní. Það sem gerir gæfumuninn er skrúðgangan vestra, þetta stórkostalega þróaða fyrirbrigði í Ameríku sem á enn svo langt í land hér heima. Af hverju veita Gay Pride og Menningarnótt 17. júní harða samkeppni? Af því að við vanrækjum þá stórkostlegu möguleika sem þjóðhátíðardagurinn gefur okkur og þá einkum varðandi skrúðgönguna.

Eini aðilinn sem mér sýnist haf bryddað upp á slíku hér heima 17.júní er Fornbílaklúbbur Íslands. En í Ameríku taka allir þátt. Skrúðganan í Gimli virtist endalaus, bæðí að lengd og fjölbreytni og samt er þetta bara smábær og aðeins eitt þjóðarbrot sem stendur að hátíðarhöldunum.

Hvert einasta félag, fyrirtæki, stofnun, leikhópar, hljómsveitir, - nefnu það, - allir tóku þátt í skrúðgöngunni og höfðu greinilega undirbúið þátttökuna lengi og vandlega.

Meira að segja komu bændurnir og fólkið úr nágrannasveitunum á dráttarvélunum með heyvagna og hvers kyns tæki og tól og tóku þátt í skrúðgöngunni.

Fyrir sumum vögnunum voru hestar og jafnvel uxar og uppi á heyvögnunum voru hljómsveitir sveitamanna, sönghópar, dansarar, allir í skrautlegum búningum þar sem þjóðbúningarnir voru fyrirferðarmiklir.

Sjáið þið fyrir ykkur dráttarvélarnar úr Kjósinni og af Vatnsleysuströnd dragandi vagna með karlakórum, kvennakórum, leikhópum og hljómsveitum úr nágrannasveitafélögunum sem fara syngjandi og spilandi niður Laugaveginn, ekki bara frá Hlemmi, heldur alla leið innan frá gatnamótum Kringlumýrarbrautar.

Lúðrasveitir, harmonikkuhljómsveitir, rímnasöngvarar o. s. frv. Fjölbreytning getur verið ótrúleg.

Jafnframt þessu getum við haldið við öðrum hefðum þessa dags, blómsveigurinn, ræða forsætisráðherra og allt það. 

Ég hef tillögu. Sendum nú fulltrúa frá Reykjavík eða frá Sambandi íslenskrar sveitarfélaga, sem dvelst mánuð í Ameríku og kynnir sér á hinum ýmsu hátíðarstöðum hvernig hægt er að rífa upp stemninguna á þjóðhátíðardaginn.

Við þurfum ekkert að skammast okkur fyrir að læra af Ameríkönum um framkvæmdir á skrúðgöngum. Skrúðgöngur eru hvort eð er orðnar að atriði í menningu okkar eins og Gay Pride gangan sýnir ljóslega og auðvitað á skrúðgangan 17. júní að vera lang flottust, því að þjóðhátíðardagurinn á að vera langflottastur.

Til hamingju með daginn !


HJÓNUM STÍAÐ Í SUNDUR Á EINSTÆÐRI SIGURSTUND.

Gríman er uppskeruhátíð leikhúsanna og leikhúsfólksins. Það er stór stund í lífi þessa fólks eftir þrotlaust og fórnfúst starf að fá að njóta þeirrar frábæru uppskeru sem liggur eftir í leikhúsunum eftir veturinn. Þess vegna var það sérkennilegt að standa á sviði í Borgarleikhúsinu i lok leiks á söngleiknum Ást í kvöld að verða vitni að því að Charlotte Böving stæði þar í stað þess að fá að njóta fágætrar sigurstundar með eiginmanni sínum Benedikt Erlingssyni í Íslensku Óperunni, en hann fékk þrenn Grímuverðlaun. Og Ófagra veröld sem Charlotte lék í, fékk þrenn verðlaun!

Og hvers vegna gat Charlotte ekki notið einstæðrar stundar í lífi listamanns í kvöld og hampað með sínum elskaða hvorki meira né minna en fernum verðlaunum og notið þrennra verðlauna með samstarfsfólki sínu í Ófagra veröld? Svona atburður er mjög fágætur og gerist varla nema einu sinni í lífi nokkurs listamanns.  

Jú, hún varð að sjálfsögðu að hlíta listamannsskyldu sinni í söngleiknum Ást og mér var tjáð að Sjónvarpið hefði neitað að uppfylla samningsbundið ákvæði um að sjónvarpað yrði frá Grímunni 16. júní eins og ævinlega og í staðinn krafist þess að vikið yrði frá þessu og hátíðin færð fram um eitt kvöld, - annars yrði ekki sýnt frá athöfninni.

Þessi krafa hefði komið svo seint fram að ekki hefði verið hægt að hætta við sýningu á Ást, en á þá sýningu hefði þá verið búið að selja svo marga miðað að ekki hefði verið hægt að færa hana, enda hefur verið uppselt á allar sýningar. 

Það er komið kvöld og ég hef því ekki hæft tækifæri til að heyra sjónarmið Sjónvarpsins, en það var ekki aðeins Charlotte sem missti af því að upplifa einstæðri sigurstund í kvöld með manni sínum, heldur tengdust tveir aðrir leikarar í Ást Grímuverðlaununum. 

Þau Hanna María Karlsdóttir og Theódór Júlíusson, sem sýnt hafa frábæra frammstöðu í Ást, voru tilnefnd til verðlaunanna , - hún fyrir hlutverk í Degi vonar en Theódór fyrir afburða túlkun sína í hlutverki Tómasar Péturssonar í Ást. Hanna María var rænd þeirri stund að fagna tvennum verðlaunum samstarfsfólks síns í Degi vonar og alls sex tilnefningum.

Í staðinn stóð hún á Nýja sviðinu í Borgarleikhúsinu og gaf af list sinni.

Já, bæði Theódór og Hanna urðu svo sannarlega að vera fjarri góðu gamni í kvöld og uppfylla í staðinn þá höfuðskyldu leikhússsins að "the show must go on."

Þótt tilnefning leiði ekki til alltaf til verðlauna er stemningin á uppskeruhátíð, þar sem slíkt getur gerst, slík, að mér finnst það lágmarkskrafa að þeir sem tilnefndir eru eigi frí í vinnunni til þess að vera á uppskeruhátíðinni með vinum og samstarfsfólki ef þeir óska þess.

Þetta var síðasta sýningin á Ást í vor, en söngleikurinn verður tekinn sýndur áfram í haust. Ég vil senda samstarfsfólki mínu alúðarþakkir fyrir ógleymanlega samveru og samvinnu í vetur.

Þau Charlotte, Theódór og Hanna María hafa ásamt frábæru starfsfólki í sýningunni gefið mikið af sér að mínum dómi og eiga betra skilið en að þurfa að sætta sig við svona klúður.

Ég vona að betri skýringar gefist á þessu og að hægt verði að koma í veg fyrir að maður horfi aftur upp á atvik af þessu tagi.

Þetta snertir mig persónulega. Í sýningu Leikfélags Reykjavíkur steig ég sem barn mín fyrstu, stærstu og afdrifaríkustu spor í því hlutverki leikarans að flytja skilaboð og í framhaldinu færðist þetta hlutverk inn á önnur svið í Sjónvarpi.

Fyrir þetta eru leikhúsið og sjónvarpið og samstarfsfólkið þar mér næstum eins og ástvinir og þess vegna er það svo dapurlegt að nú skuli hafa orðið þessi árekstur. Elskurnar mínar, - ekki láta þetta gerast aftur.  

Á Sjómannadaginn eiga allir sjómenn að eiga frí. Á Grímukvöldinu á allt leikhúsfólk að eiga frí. Punktur. 

 


mbl.is Benedikt Erlingsson var sigurvegari Grímunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ÞAÐ ERU TAKMÖRK.

Undanfarin örfá ár hefur átt sér stað meira hestaflakapphlaup bílaframleiðanda en dæmi eru um síðan á árunum 1954 - 70. Líklega er kapphlaupið meira nú því að hestöflin fyrir 40 árum voru SAE-hestöfl og 425 SAE hestöfl jafngilda líklega ekki nema rúmlega 300 nú. Enginn af helstu bílaframleiðendum heims telur sig geta boðið upp á minna en 500 hestöfl í einhverjum bíla sinna og nokkrar bílategundir fást með 600 og allt upp í 1001 hestafl!

Bugatti Veyron kemst á 2,4 sekúndum úr kyrrstöðu upp í 100, rúmlega tíu sekúndum upp í 200 og rúmlega 20 sekúndum upp í 300 ef ég man rétt. Hámarkshraði: 406 kílómetrar á klukkustund.  

Reynslan úr rallakstri á níunda áratugnum sýnir að það eru takmörk fyrir því hve mörg hestöfl eigi að bjóða í bílum. Þá voru keppnisbílar þeirra bestu komnir upp fyrir 400 hestöfl og mikil slysaalda skall á.

Niðurstaðan varð sú að minnka aflið og getuna með reglum og slysunum fækkaði. Við skulum athuga að í rallinu voru færustu ökumenn heims undir stýri og samt þurfti að takmarka afl og getu bíla þeirra.  

Mikil geta snerpa bíls getur verið öryggisatriði við framúrakstur og í tilvikum þar sem það getur verið gott að vera fljótur að bregðast örugglega við aðstæðum.

En til þess þarf ekki 500 hefstöfl.

Hugmyndir um að takmarka hestaflafjölda bíla sem yngstu ökumennirnir aka er að mínum dómi ekki réttlát. Frekar ætti að miða við getu bílanna t. d. hvort þeir komist úr kyrrstöðu upp í 100 á ákveðnum tíma.

Upplýsingar um það liggja fyrir hjá bílaframleiðendum.

Bendi á blogg mitt hér að neðan um það hvort það að gera ökutæki upptæk standist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.


mbl.is Missti stjórn á 500 hestafla ofursportbíl sem endaði á umferðarskilti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

STENST ÞETTA JAFNRÆÐISREGLUNA?

Á Selfossi er röggsamur sýslumaður sem ætlar að sjálfsögðu að beita tiltækum ráðum gegn þeirri atlögu gegn öryggi almennings sem gerð var með háskaakstri vélhjóla á dögunum og stofnaði lífi og limum fjölda fólks í hættu. Sniglarnir ætla líka að grípa  til harðra ráðstafana og ber brýna nauðsyn til svo að hægt sé að bæta ímynd bifhjólasamtakanna. Um þetta er ekkert nema gott að segja. Hins vegar má velta því fyrir sér hvort upptaka ökutækja í svona tilfellum standist jafnræðisreglu stjórnarskárinnar.

Fyrirmynd upptöku tækjanna, sem notuð eru, má sjá í viðurlögum við landhelgisbrotum, - heimild til að gera afla og veiðarfæri upptæk.

En þetta er ekki alveg sambærilegt. Í landhelgisbrotunum er refsað með aflaupptöku af því að því meira sem hefur aflast, þeim mun meira hefði lögbrjóturinn grætt ef hann hefði komist upp með brotið.

Því stærri og dýrari veiðarfæri sem hann notaði, þeim mun meira hefði hann getað veitt sér til hagnaðar á ólöglegan hátt.

Niðurstaða: Eðli brotsins og ávinningur af því, ef ekki komst upp um það,  er því meiri sem aflinn er meiri og veiðarfærin afkastameiri.

Þessu er ekki alveg svona farið um ökutæki. Allir sem hafa kynnt sér vélhjól vita að það þarf ekki að eiga dýrt vélhjól til að skapa alveg ótrúlega mikla hættu. Vegna léttleika síns hafa vélhjól yfirburði yfir bíla í "spyrnu" miðað við verð, stærð og vélarafl.

Það er líka vitað að hægt er fyrir tiltölulega lítinn pening að kaupa sér mjög öflugan, snarpan og hraðskreiðan bíl, ef hann er kominn til ára sinna.

Það er hægt að kaupa sér nýjan lítinn GTI-bíl sem nær 200 kílómetra hraða fyrir brot af verði stærri bíls sem er hvorki hraðskreiðari né fljótari í spyrnu. 

Það er hægt að valda jafn mikilli hættu með háskaakstri á þröngri götu í Reykjavík og á auðum og beinum vegi úti á landsbyggðinni.

Setjum sem svo að maður valdi slysum og stórfelldri hættu inni í borginni á tiltölulega ódýru ökutæki og annar ökumaður samsvarandi hættu á rándýru ökutæki úti á þjóðvegi? Stenst það jafnræðisreglu að í báðum tilfellum skuli ökutækin vera gerð upptæk?

Tilbúið dæmi: Þrír menn fara í fáránlega hættulegan kappakstur á ólíkum bílum. 

Einn er á Suzuki Swift árgerð 1990 sem hann keypti á 200 þúsund krónur.

Annar er á Cadillac Eldorado fornbíl árgerð 1981,toppeintaki með öllum hugsanlegum þægindum, metinn á margar milljónir króna.

Hinn þriðji er á splunkunýjum Hummer H3 með öllum græjum sem meta má á annan tug milljóna króna.

Swift eigandinn á upptökin, kemur upp að hinum bílunum tveimur sem aka samhliða úr austurátt að Höfðabakkabrúnni á leið til borgarinnar, og egnir þá í spyrnu.

Swift eigandinn veit að ódýri litli bíllinn hans er bæði fljótari í spyrnunni og nær meiri hraða en hinir bílarnir og þegar honum gengur síðan best í spyrnunni, verður það til þess að þetta verður að einvígi hans við Cadillakkinn sem setur alla umferðina í uppnám þegar komið er niður Ártúnsbrekkuna.

Hummerinn dregst strax aðeins aftur, ökumaðurinn missir stjórn á bílnum við akreinaskipti í framúrakstri og klessukeyrir bílinn strax án þess að ná sama hraða og hinir.

Hinir tveir eru mældir á 180 kílómetra hraða fyrir neðan Ártúnsbrekkuna og hlekkist báðum á, en bílarnir eru þó báðir nær óskemmdir.

Ofsaksturinn olli hins vegar árekstri tveggja annarra bíla þar sem bílstjórarnir fipuðust og afleiðingarnar meiðsl á mönnum og skemmdir á ökutækjum.

 Dómsniðurstaða: Swiftinn og Cadillakkinn gerðir upptækir en Hummereigandinn tapar mestu því að hann gjöreyðilagði bíl sinn.

Sanngjörn niðurstaða sem stenst jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar?

Ég er ekki að mæla með vægari refsingum heldur hlýtur að vera hægt að þyngja refsingar fyrir slíka árás á almennt öryggi, sem um rætt, á réttlátari hátt þannig að alvarleiki brotsins ráði en ekki tilviljunarkennd eignarhald.

Menn segja kannski að þeir sem eigi dýrari ökutækin hafi augljóslega frekar efni á að láta þau af hendi en eigendur ódýrari ökutækja en það er ekki einhlítt.

Þannig er alveg til í dæminu að eigandi rándýrs fornbíls sé ekki ríkur af neinu öðru en þessu þurftarfreka áhugamáli sínu en eigandi léttari og ódýrari bíls sé vel stæður.

Gaman væri að heyra álit fólks á þessu.   

 

 


mbl.is Vill að mótorhjólin verði gerð upptæk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband