24.9.2008 | 01:48
Enn eitt dæmið um úrelt mörk.
Ég er nýbúinn að blogga um þá skaðsemi skiptingar höfuðborgarsvæðisins í bæjarfélög sem stafar af því að þau horfa sem mest á eigin hag í skipulagsmálum án tillits til nágrannanna. En nýjar uppákomur í þessum efnum birtast nú með nokkurra daga millibili.
Fimm sveitarfélög liggja að Skerjafirði og því er umræðan um flugvöll á Lönguskerjum og hvers kyns landfyllingar við fjörðinn á miklum villigötum. Ef Kópavogur fyllir fjörðinn upp að landamerkjum sínum getur Reykjavík komið með krók á móti bragði og fyllt upp á sama hátt og þannig lokað firðinum.
Þá verðum við komin með mörk á milli þessara bæjarfélaga í stíl við mörkin á milli Salahverfis í Kópavogi og Seljahverfis í Breiðholti þar sem hvor aðilinn um sig skipulagði sitt land án tillits til eðlilegrar og hagkvæmrar tengingar á milli hverfanna, sem eru í raun eitt og sama íbúðahverfið.
Það vantar nánast ekkert nema múr á milli til þess að fullkomna þetta verk, sem í ofanálag er unnið nálægt nýrri og óhjákvæmilegri þungamiðju verslunar, þjónustu og samgangna við stærstu krossgötur landsins.
![]() |
Reykjavík gagnrýnir áform um landfyllingu á Kársnesi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.9.2008 | 13:29
Erfið einkunnagjöf.
Einkunnagjöf á borð við þá sem Transparency International stundar er í besta falli óljós vísbending því að spilling getur leynst lygilega. Ég hygg til dæmis að þegar tímar líða fram muni sú lúmska kúgunarspilling, sem hér þreifst á síðustu árum valdatíma Davíðs og Halldórs verða talin athyglisverð.
Ægivald Davíðs var orðið slíkt, að hann gat við annan mann slengt Íslandi inn í stríðsátök sem byggðist á fölskum forsendum og var þar að auki mikil áherslubreyting í utanríkisstefnu landsins.
Á tímabili var það svo að foringinn þurfti ekki lengur að láta til sín taka í einstökum málum. Menn hans gerðu það sem þeir héldu að honum myndi hugnast vel og þeir sem fengu að kenna á valdinu voru líka farnir að reyna að haga sér eins og þeir héldu að gæfi þeim skástu útkomuna gagnvart raunverulegum eða ímynduðum vilja valdhafanna.
Raunar efaðist ég um að Ísland gæti trónað í heiðurssæti þjóðanna með góðri samvisku fyrir tveimur árum og sýnist núverandi mat vera nær sanni og að Ísland hafi hækkað í raun á fyrstu árum nýrrar aldar.
![]() |
Spillingareinkunn Íslands lækkar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
23.9.2008 | 12:48
Hvað vill sjónvarpsneytandinn?
Þegar Stöð tvö var sett á stofn sá ég ekki að rými væri fyrir tvær sjónvarpsstöðvar í svo litlu samfélagi sem Ísland er. Þetta reyndst rangt og nú eru tvö atriði efst í huga mér varðandi þjónustu á sjónvarpsmarkaði.
1. Samkeppni. Að því leyti til eru tilvera Stöðvar tvö og Skjás eins nauðsynleg, - einnig tilvist tveggja öflugra fréttastofa á sjónvarpsmarkaðnum.
2. Tilvist RUV. Í sveiflum markaðsþjóðfélagsins er mikilvægt að tryggt sé að til sé sjónvarpsstöð sem ekki verði lögð niður af markaðsástæðum. Það yrði slæmt ef menn sætu allt í einu upp með engan slíkan miðil, sem hefði skyldur við þjóðina um óhlutdræga miðlun upplýsinga og skoðana.
Frá sjónarhóli neytenda er mikilvægt að sjónvarpsstöðvarnar fari ekki á taugum varðandi ýmsa þjónustu sem þarf tíma til að sanna sig. Á tímabili var tæpt að tíufréttir Sjónvarpsins ættu tilverurétt, en það var vegna þess að þær voru í upphafi afskiptar í samanburði við fyrri fréttirnar.
Það var á skjön við reynslu nágrannaþjóða svo sem Breta, þar sem fréttir á þessum tíma kvölds fá góðan hljómgrunn. Ég hef reyndar talið alla tíð að tíufréttirnar eigi að losa sig við það að "helst-fréttir" fyrri fréttatímans komi þar inn eins og einhverir halaklipptir aðskotahlutir aftarlega í fréttatímanum.
Ég held að leitun sé að sjónvarpsfréttatíma erlendis þar sem þetta er gert. Ég tel að ef einhver frétt sé langstærsta frétt dagsins, eigi hún að vera fyrsta frétt klukkan tíu eins og klukkan sjö.
Stöð tvö þarf auðvitað að huga að fjárhagsstöðu sinni og þá kanna að vera freistandi að slá hádegisfréttatímann af. Það teldi ég vera slæmt fyrir neytendur og ég hvet ráðamenn Stöðvar tvö til að fara ekki á taugum því að það tekur tíma fyrir svona fréttatíma að sækja í sig veðrið og sanna sig, jafnvel nokkur ár.
Eins og er er það hið besta mál fyrir neytendur að Stöð tvö veiti sína fréttaþjónustu í hádeginu og Sjónvarpið síðla kvölds.
Dagskrárstjórarnir komust að samkomulagi um tímasetningar á helstu leiknu þáttum sínum og það er til hagsbóta fyrir neytendur, alveg eins og það er í þágu neytenda að báðir aðalfréttatímar stöðvanna séu ekki á sama tíma.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.9.2008 | 12:27
Jón hnyklar vöðvana.
Mér sýnist greinilegt að Jón Magnússon telji stöðu sína orðna mjög sterka í Frjálslynda flokknum. Annars hefði hann ekki gagnrýnt formann flokksins í sjónvarpsfréttum fyrir "einkavinavæðingu", eins og hann orðaði það, sem hann sagði birtast í því að formaðurinn hefði beitt áhrifum sínum til að fela Kristni H. Gunnarssyni og Magnúsi Reyni Guðmundssyni lykilstörf í flokknum.
Þetta kallar maður að hnykla vöðvana svo að notuð sé rússnesk samlíking.
Það verður fróðlegt að fylgjast með þessum átökum um menn og málefni í Frjálslynda flokknum. Það er greinilega ekki bara Kristinn sem sótt er að heldur líka Magnús Reynir.
Mun Guðjón Arnar beygja sig fyrir þessari gagnrýni og víkja þessum báðum "einkavinum" sínum frá? Eða er krafan um að tveir víki sett fram til að fá fram þá málamiðlun að annar þeirra, þ. e. Kristinn, víki en Magnús fái að vera áfram?
Eða endar þetta með því að allir þrír "einkavinirnir", Guðjón Arnar, Kristinn og Magnús Reynir, láti í minni pokann á endanum og Jón Magnússon komist til þeirra áhrifa sem hann virðist hafa stefnt að frá inngöngu sinni í flokkinn?
![]() |
Illvígar deilur Frjálslyndra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.9.2008 | 20:04
Aðferð sem svínvirkar.
Línumálið í Vogunum sýnir hvernig sú aðferð virkjanapostulanna svínvirkar að láta ekkert á sig fá, þótt hvergi nærri sé gengið frá öllum endum í byggingu álvers, heldur byrja framkvæmdir og stilla þeim, sem eftir er að semja við, upp við vegg. Þeir eru gerðir ábyrgir fyrir því tjóni sem það muni valda ef ekki makkað rétt.
Þetta er að sjálfsögðu siðlaus aðferð en hún svínvirkar.
Fyrir bragðið er komið í veg fyrir að málið fái eðlilega lýðræðislega meðferð í samræmi við það sem ætti að vera regla á 21. öldinni.
Synjun á beiðni um kosningu um málið sýnir ótta sveitarstjórnar við tvennt.
Annars vegar við það að íbúarnir verði óssammála meirihluta sveitarstjórnarinnar um lagningu línunnar.
Hins vegar óttinn við hið sterka fjárhagslega þvingunarvald sem hin voldugu fyrirtæki og handbendi þeirra beita til hins ítrasta.
![]() |
Íbúar fá ekki að kjósa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
22.9.2008 | 18:52
Daemoklesarsverð yfir íslensku efnahagslífi.
Eigendur svonefndra krónubréfa halda Íslendingum og íslensku krónunni í heljargreipum og aðdragandinn var þenslustefna stjórnvalda og stýrivaxtahækkanir Seðlabankans, sem lokkuðu efnamenn til að fjárfesta í íslenskum skuldabréfum og nýta sér vaxtamuninn.
Þetta varð til þess að auka enn á þensluna og skapa krónubréfaeigendum á móti þá aðstöðu, sem heldur krónunni niðri vegna óttans um það hvað gerist þegar bréfin verða á gjalddaga í haust og vetur.
Þenslustefnunni var hleypt af stokkunum með væntingum vegna Kárahnjúkavirkjunar sem olli þenslu ári áður en framkvæmdir byrjuðu þar. Sérfræðingur hjá Seðlabankanum fann þá út að þenslan byggðist að mestu leyti á almennri skuldasöfnum með yfirdrætti á kredit- og debetkortum.
Síðan var bætt enn betur í með kosningaloforðum Framsóknarflokksins 2003 um stórauknar lánveitingar íbúðalánasjóðs sem auðvitað kölluðu á samkeppni af hendi bankanna.
Nú vita allir að Íslendingar hafa lifað um efni fram í mörg ár og eru skuldugasta þjóð heims. Þess vegna hangir Daemoklesarverð braskara nú yfir þjóðinni.
![]() |
Fjármálafárviðri nær til Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.9.2008 | 12:02
Hvar liggja rányrkjumörkin?
Össur Skarphéðinsson þarf ekki að furða sig á umsókn landeigenda í Reykjahlíð vegna 50 megavatta jarðvarmavirkjun, sem þeir vilja reisa á eignarlandi sínu. Þeir hafa heyrt það eins og aðrir að Samfylkingin muni ekki efna það kosningaloforð sitt að breyta lögum til að koma í veg fyrir að sveitarstjórnir og fyrirtæki ráðskist með og eyðileggi ef því er að skipta stórfelld náttúruverðmæti á heimsmælikvarða.
Það er yfirlýst stefna stjórnvalda að halda áfram að gefa sveitarstjórnum og fyrirtækjum grænt ljós á að halda áfram á markaðri braut. Fyrirtækin geta þess vegna verið hlutafélög í eigu einstaklinga.
Því síður þarf ráðherrann að undrast það sem hann kallar rányrkju hvað varðar það að orkan, sem um ræðir, sé ekki endurnýjanleg. Þannig er það nefnilega í mörgum jarðvarmavirkjunum á Suðvesturlandi og í stað þess að kalla 40 ára endingartíma virkjana á þessu svæði ósjálfbæra þróun og þessvegna rányrkju, er rekinn stanslaus áróður innan lands og utan fyrir nýtingu svonefndrar hreinnar og endurnýjanlegrar orku hér á landi.
Sultartangalón er á góðri leið með að fyllast upp af auri á fáum áratugum og verða ónothæft til miðlunar. Er það sjálfbær þróun, endurnýjanleg nýting, Össur Skarphéðinsson?
Ég myndi vilja spyrja Össur að því hvar hann vilji draga rányrkjumörk sín. Við 40 ár? 30 ár? 20 ár? Hefur ráðherrann það í höndum hve lengi orkan sem Reykjahlíðarfólkið vill nýta í landi sínu muni endast mörg ár?
Hvað höfðingjarnir hafast að hinir ætla sér leyfist það.
![]() |
Umsókn landeigenda í Reykjahlíð vekur furðu ráðherra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
22.9.2008 | 00:25
Höldum okkur við það besta og tryggasta.
Halldór Laxness var snilldarskáld. Jóna Hallgrímsson var það líka. En það þýðir ekki að allt sem tengist þeim sé þeirra eign eða tær snilld. Vísurnar tvær eru varla eftir tólf ára dreng, - stíllinn bendir ekki til þess. Þar að auki munu þær í engu auka við hróður Nóbelskáldsins.
Ég segi þetta vegna þess að þegar ég las mig í gegnum öll verk Jónasar Hallgrímssonar undraðist ég hve mikið af kveðskap hans var ósköp venjuleg hagmælska, hvorki betri né verri en kom frá venjulegu fólki sem aldrei komst á skáldabekk. Gat nánast verið eftir hvern meðaljón sem var.
Í stórri útttekt tímaritsins Time um 100 mestu snillinga 20. aldarinnar rakst ég á niðurstöðu sem setti þetta í nýtt ljós. Þegar sérfræðingarnir sem gerðu þessa úttekt á snillingunum kom eitt atriði í ljós sem var sameiginlegt hjá þeim næstum því öllum.
Það var það hve gríðarleg framlegð þeirra var, miklu meiri en hjá öðrum. En einnig það að megnið af því var meðalmennskan uppmáluð.
Hin miklu afköst hins frjóa hugarjarðvegs virtust hins vegar leiða til þess að innan um voru hreinar gersemar. Þannig virðist þetta hafa verið hjá Jónasi.
Eini íþróttamaðurinn, sem komst á listann yfir 100 mestu snilinga (genius) aldarinnar var Muhammed Ali, - ekki eingöngu vegna þess að vera einstakur afburðaíþróttamaður, heldur líka vegna þess hvernig hann vann úr sínu í súru og sætu og fyrir það að hafa jafnframt því valdið byltingu í umgjörð, áhrifum og kjörum á vettvangi íþróttanna og hafa verið áhrifamikill stjórnmála- og þjóðmálamaður.
Ég tel mig þekkja nokkuð sæmilega til þess sem þessi maður lét eftir sig í bundnu og óbundnu máli, en það voru raunar ósköpin öll, rétt eins og hjá hinum snillingunum. Megnið af því sem ég hef séð virðist vera er allt að því að blaður og grallaralegur munnsöfnuður, sumt bull og óhróður, sem skilur lítið eftir sig í hverju tilfelli fyrir sig. Kveðskapurinn, rappið, eftir því. Sumt minnisvert en flest ekkert sérstakt.
En inni á milli eru síðan gersemar sem hafa lifað og haft áhrif, jafnvel slík að rapparar, margir hverjir, telja hann forgöngumann þess kveðskaparforms.
Dæmi um hnyttið tilsvar Ali er þegar hann var krafinn um röksemd fyrir því að gegna ekki herþjónustu og neita þar með að vera sendur til Vietnams ef þörf krefði.
Hann svaraði: Hvers vegna ætti ég, svartur maður, að fara til að skjóta gulan mann, fyrir hvítan mann sem rændi landi af rauðum manni?
Það má ekki taka öllu sem tengist Laxness sem snilld og þaðan af síður sem hans eigin snilld.
Frændi minn, Eiríkur Jónsson, dáði Laxness á þeim tíma sem ég var unglingur, og þeir Laxsness og Eiríkur báðir kommúnistar. Laxness var hans maður og næstum því guð að öllu leyti.
Eiríkur virtist kunna verk Laxness utanbókar og þegar tímar liðu fram tók hann eftir minnum og ýmsu í verkum Laxness þar sem hið íslenska Nóbelskáld virtist hafa leitað fanga hjá öðrum skáldum og nýtt sér það.
Eiríki þótti þetta til merkis um fjölbreyttari snilld Laxness en aðeins þeirri að ala af sér snilldarhugsanir sem væru algerlega hans eigin. Og vegna þess að hann var orðinn af áhuga sínum og ástríðu, eins og mörgum af nánustu ættmönnum okkar var eiginlegt, sérfræðingur í verkum Nóbelskáldsins, sökkti hann sér niður í þessa nýju hlið af snillingnum og setti saman lærða og merka ritgerð um það hvernig skáldið hafði sótt sér efni og leitað fanga um víðan völl kollega sinna erlendra.
Eiríkur vildi fá að verja þessa ritgerð sem doktorsritgerð en skemmst er frá því að segja að þeir, sem ríkjum réðu í Háskólanum, fannst þetta svo mikil helgispjöll að Eiríki var neitað um vörn sinnar merku úttektar.
Laxness var snillingur og höfuðskáld en hann var ekki guðlegur. Honum er eignað með réttu og sannanlega alveg nóg af snilldarefni þótt ekki sé verið að bæta þar við eða hefja upp til skýja hvað sem vera skal.
![]() |
Elsti varðveitti kveðskapur Halldórs Laxness í póesíbók á Vegamótastíg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.9.2008 | 23:49
Svipaður örlagavaldur Rómverja?
Fréttin um blýeitrun sem kálað hafi Norðmönnum á Svalbarða leiðir hugann að kenningu, sem ég minnist frá því fyrir allmörgum árum um svipaða eitrun sem hafi valdið Rómverjum vanda og úrkynjun að einhverju leyti og átt þannig þátt í hruni Rómaveldis.
Nú er of langt síðan að ég muni nákvæmlega hvernig þessi kenning var, en hitt er vafalaust rétt að oft veltir lítil þúfa þungu hlassi.
Ég kann eitt dæmi um það úr íslenskri íþróttasögu. Fyrri hluta sumars 1950 var Hörður Haraldsson kominn í hóp bestu spretthlaupara Evrópu og sigraði og setti Íslandsmet í 200 metra hlaupi á 17. júní móti það ár í mesta spretthlaupi íslenskrar íþróttasögu, 200 metra hlaupi mótsins.
Hörður hljóp á 21,5, Haukur Clausen á 21,6, Ásmundur Bjarnason á 21,7 og Guðmundur Lárusson á 21,8, og þeir röðuðust í þessu eina hlaupi í hóp bestu 200 metra hlaupara Evrópu.
Í landskeppni við Dani tognaði Hörður hins vegar illa, kominn með góða forystu í 200 metra hlaupi, og sumarið var ónýtt. Haukur náði síðar um sumarið besta tímanum í Evrópu það árið.
Hörður stóð sig vel í landskeppni við Dani og Norðmennárið eftir en áfram hélt hann síðana að togna og hann gafst upp við að halda áfram. Síðar á sjötta áratugnum uppgötvaði hann að tognanirnar höfðu orsakast af skorti á B-vítamíni, sem er bráðnauðsynlegt fyrir vöðva og sinar. Hann hafði alla tíð verið ónýtur við að borða brauð og mat með þessu mikilvæga vítamíni.
Hörður hafði misst hraða og snerpu eftir þessi mörgu ónýtu ár, bestu ár hvers spretthlaupara , en fór að hlaupa 400 metra og náði öðrum besta tíma Íslendings á þeim tíma í þeirri grein.
Það er víst ekki sama, hvað við setjum ofan í okkur, við erum víst það sem við étum.
![]() |
135 ára gömul ráðgáta leyst |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.9.2008 | 20:21
Dauðastríðið heldur áfram.
Fór af stað í fyrrakvöld og ók um nóttina austur á Hraunin fyrir austan Snæfell. Það dróst að klára að veita Kelduá vestur um og því spáð að það drægist til myrkurs. Ég átti að skemmta í Reykjavík um hádegi í dag og varð því frá að hverfa eystra um hádegi í gær og aka um Eyjabakkasvæðið, Kárahnjúka, Sauðármel, Álftadalsleið og Kverkfjallaleið til að nýta ferðina sem best til myndatöku og aka síðan áfram um Norðurland til Reykjavíkur í gærkvöldi og fram á nótt.
Þessi næstminnsti og ódýrasti bíll landsins stóð sig frábærlega á erfiðri 1500 kílómetra, stór hluti af henni jeppaslóðir á hálendinu .
Í ljós koma að ekki er lokið við að taka tvær litlar ár austan Kelduár, Grjótá og Innri-Sauðá úr sambandi og því munu efstu fossar Kelduár ekki hverfa að fullu fyrr en Grjótá hefur verið tekin. Fossar Kelduár neðan Innri-Sauðár munu síðan ekki hverfa að fullu fyrr en sú á hefur verið tekin burtu.
Dauðastríð fossanna heldur því áfram fram í október og erfitt að vita hvort þeir þorna í myrkri.
Ég hef áður farið í hálendisferðir á minnsta fjórhjóladrifsbíl landsins, Daihatsu Cuore ´88, en þetta er fyrsta slíka ferðin sem farin er á Fiat 126 Maluch. (Maluch er pólska og þýðir "Lilli" eða "litla barnið."
Svona bíla er hægt að fá fyrir nokkra tugi þúsunda í Póllandi eða Bretlandi og árið 2004 kostaði Lilli, sem er árgerð 2000, 60 þúsund krónur í Póllandi, var fluttur frítt með togara til landsins og kostaði um 110 þúsund krónur kominn á götuna í Reykjavík.
Þessi gerð var einfaldasti, ódýrasti og sprarneytnasti bíll í Evrópu í tæpa hálfa öld sem hann og forveri hans, Fiat 500, (sem aðeins var með aðra yfirbyggingu) voru framleiddir.
Vélin er fyrir aftan afturhjólin, sem eru drifhjól bílsins, og vegna 19 sm veghæðar og kubbslegs lags kemst þessi bíll ótrúlegar torfærur. Fór meira að segja erfiða jeppaleið upp á Úlfarsfell 2005, sem sumir nýjustu jepplingarnir komust ekki þá.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)