24.9.2011 | 17:57
Gott framtak og ábendingar.
Í heildina tekið er það gott framtak hjá Ferðaklúbbnum 4x4 að birta allt ferlasafn sitt á vefnum. Um það gildir það sama og um alla kortaútgáfu, að slíkt er nauðsynlegt og þarft og í sjálfu sér erfitt að hafa á móti því, þótt einhverjir gallar kunni að leynast í verkinu.
Erfitt er að gera þá kröfu fyrirfram að alls ekki megi birta kort fyrr en þau séu 100% rétt.
Hins vegar er sjálfsagt að taka því vel, ef gerðar eru réttmætar athugasemdir við kortaupplýsingar og sérkennilegt að sjá því haldið fram í bloggi að Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu komi slíkt ekki við.
Þvert á móti kemur það Landsbjörgu við ef í ljós kemur að villur eða vafasamar upplýsingar leiða til óhappa.
Sjálfur fjallaði ég um það í fréttum á sínum tíma þegar í ljós kom að kort af Landmannaleið, sem jeppamenn notuðu, voru röng á hluta og birti bæði gagnrýni á það sem og viðbrögð Landmælinga.
Vegna þessa galla á kortinu, lentu nokkrir jeppar í miklum vandræðum í krapa skammt norðan við Kirkjufell í Kýlingum, sem kostuðu björgunaraðgerðir í tvo daga og tiltfinnanlegt tjón á jeppunum.
Atvik þetta var að ýmsu leyti lærdómsríkt, því að það sýndi að varasamt geti verið að treysta ferlum í blindni.
Í ferðinni var ég aftarlega í jepparöðinni og vissi að sá sem fór fremst ók eftir bestu mælitækjum. Fyrir bragðið var ég ekkert sérstakleg að pæla í því hvar við vorum nákvæmlega.
Ef ég hefði verið einn á ferð hefði ég hins vegar verið einn á ferð án GPS-ferlis hefði ég átt að geta séð það, að fenginni reynslu af tugum ferða meðfram Kirkjufellinu, að við værum ekki að aka alveg ofan á Fjallabaksveginum við brekkrótina, heldur um það bil 150 metrum norðan við veginn, rétt utan við vatnsbakkann.
Þeir ferðafélagar mínir sem lentu í mestri fesu, skemmdu bíla sína upp á hundruð þúsunda króna.
Ég var hins vegar svo heppinn að jeppinn, sem ég var á, var árgerð 1973 og auðvelt eftir á að tjasla upp á skemmdirnar fyrir sáralítinn pening eða um 30 þúsund krónur alls.
Mér fannst alveg sjálfsagt mál að benda á gallann á kortinu á sínum tíma, og í því fólst engin gagnrýni á það að kortin væru gefin út, heldur einungis á ákveðin atriði í þeim.
Í tengslum við málið benti ég á furðu grófar skekkjur í kortagerð, sem gátu numið allt að 1-2 kílómetrum á kortum, þar sem fullyrt var að nákvæmnin væri upp á 60 sentimetra! Voru bæjaraðir í sumum tilfellum vitlausu megin við ár eða uppi í miðjum hlíðum fjalla.
Nú er svo er að sjá á blogginu,að sumir séu svo hörundsárir vegna ábendinga Jónasar Guðmundssonar, að þeir átelji hann fyrir að vekja máls á umdeilanlegum atriðum í ferlasafni F 4x4.
Eftir sem áður er umfang ferlasafnsins slíkt, að ábendingarnar verða að teljat á afar þröngu sviði og ég tel að opin umræða og ábendingar séu öllum til góðs, lika þeim góðu og framtakssömu mönnum, sem birtu ferlasafnið og eiga þakkir skildar fyrir framtakið.
![]() |
Ferlar 4x4 fara um hættuleg svæði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.9.2011 | 12:56
Sagði Ólafur Ragnar Pútín frá Davíð og Halldóri?
Það var snemma ljóst á stjórnmálaferli Davíðs Oddssonar að honum lét best að vera sem einráðastur.
Í borgarstjórn Reykjavíkur var þetta auðvelt, því að langvarandi meirihluti Sjálfstæðismanna áratugum saman hafði skapað borgarkerfi þar sem öflugur, drífandi og hugmyndaríkur borgarstjóri naut sín.
Og það gerði Davíð svo sannarlega og blómstraði í starfinu við velvild meirihluta borgarbúa á meðan hann fór fram á það.
Þegar hann fór út í landsmálin var veruleikinn annar, en Davíð var fljótur að finna lausn á þeim vanda, sem það skapaði að flokkur hans var ekki í meirihluta.
Hann reyndi fyrst bandalag við Jón Baldvin Hannibalsson, en af ýmsum ástæðum gekk það ekki nema í fjögur ár.
Þá fann hann alveg sérlegan hentugan spilafélaga í Halldóri Ásgrímssyni og gerði við hann sterkasta stjórnmálalega bandalag, sem íslensk stjórnmálasaga síðustuu aldar kann frá að greina.
Undir lok tólf ára valdatímabils þeirra var svo komið að hér á landi ríkti ástand, sem var afar nálægt því sem Sigurður Líndal hefur skilgreint sem "kjörið alræði" og þeir félagar skiptust á embættum undir lokin án þess að séð yrði að það breytti neinu að öðru leyti en því að Halldór átti erfiðara með að halda sessi sínum sem forsætisráðherra en Davíð, enda flokkur hans smærri og viðkvæmari fyrir sveiflum en Sjálfstæðisflokkurinn.
Rétt er að taka fram að að sjálfsögðu er ekki hægt að jafna stjórnmálaástandinu í Rússlandi við ástandið hér, því að alræðisstjórn Vladimirs Pútíns hefur leitt af sér pólitísk morð og annað harðræði, sem við þekkjum sem betur fer ekki.
En aðferðin, sem stjórnmálalegir fóstbræður nota til að halda völdum speglast í bandaríska orðtakinu: "Ég klóra þér á bakinu og þú klórar siðan mér."
Hinn íðilslóttugi Pútín hefur fundið aðferð til að komast fram hjá því að í stjórnarskrá Rússlands eru ákvæði sem áttu að koma í veg fyrir langvarandi slímsetu valdasjúks ráðamanns.
Pútín fann í Medvedev spilafélaga sem nú virðist tilbúinn til þess að makka rétt og skiptast á embættum við hinn alráða Pútín, þannig að Rússar muni ekki sjá fram á nein valdaskipti í landinu í náinni framtíð.
Það er skondin tilviljun að tilkyningin um þessa hrókeringu kemur beint í kjölfar fundar Ólafs Ragnars Grímssonar með Pútín og því engu líkara en Ólafur hafi hvíslað því að Pútín, hvernig Davíð og Halldór báru sig að á sínum tíma.
En auðvitað á þetta plott þeirra Pútíns og Medvedev sér langan aðdraganda í samstarfi, þar sem bandaríska orðtakið um klórið á bakinu hefur verið í gildi, rétt eins og hjá Halldóri og Davíð á sínum tíma.
![]() |
Pútín verði forseti 2012 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
23.9.2011 | 22:49
Hefði getað dáið eftir að hafa sigrað í kappáti.
Fréttin af Úkraínumanninum, sem lést eftir að hafa sigrað í kappáti minnir mig á atvik sem gerðist í ferðalagi með Herranótt M.R. 1958 til Hveragerðis.
Þegar sest var að borðum um kvöldið kom upp sú hugmynd að ég og Lúðvík B. Albertsson skyldum heyja einvígi um það hvor gæti étið meira. Ég hafði þá að baki meira en áratugs reynslu af þessari fráleitu "íþrótt" að éta eins og svín en á móti kom að Lúðvík var ákaflega vel að manni, stór, sterkur og sver.
Svo fór að átið hófst og nokkrir fleiri bættust í hópinn. Úrslitin urðu yfirburðasigur minn, en síðar um kvöldið brá svo við að þeir, sem höfðu setið til borðs, urðu fárveikir svo að kalla þurfti lækni til.
Þetta var það alvarleg matareitrun að hún varð að blaðafrétt. Urðu sumir afar veikir, einkum Lúðvík, en öllum til furðu var ég hinn hressasti. Þótti það yfirgengilegt, því að miðað við yfirburðasigurinn í kappátinu hefði ég átt að verða veikastur og jafnvel að drepast.
Við rannsókn kom í ljós, að eitraðar grænar baunir voru orsök þessarar heiftarlegu eitrunar, en ég var sá eini í hópnum sem hafði ekki borðað grænu baunirnar. Ekki er að vita hvernig hefði farið ef ég hefði góflað í mig miklu meira af eitruðu baununum en Lúðvík og hinir keppendurnir.
![]() |
Dó eftir að hafa sigrað í kappáti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.9.2011 | 13:00
Ísland getur haft áhrif eins og 1948.
Sagt er nú að ekki sé hægt að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt ríki á alþjóðavettvangi af því að slíkt verði að gerast í samningum á milli þeirra og Ísraelsmanna.
Þetta er á skjön við það sem gerðist 1948 þegar ríki heims í gegnum Sameinuðu þjóðirnar ákváðu að skipta Palestínu til helminga á milli Gyðinga og Palestínumanna.
Íslendingar komu þar við sögu, því að Thor Thors, þáverandi sendiherra hjá Sþ, hafði framsögu um málið.
Þetta var ákveðið þótt ekkert samkomulag væri um það á milli Palestínmanna og Gyðinga, enda erfitt að lá Palestínumönnum það þótt þeir tregðuðust við að beygja sig undir það að vera rændir helmingi lands síns á einu bretti.
Síðan þá hafa Ísraelsmenn markvisst lagt alla Palestínu undir sig og hafa notið viðurkenningar sem sjálfstætt ríki með aðild að Sameinuðu þjóðunum, enda þótt þeir hafi þverbrotið samþykktir Sþ um hernumdu svæðin í bráðum 44 ár.
![]() |
Mikið í húfi fyrir Palestínu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
23.9.2011 | 12:51
Bæta við Ketildölum, Drangaskörðum og Teigskógi.
Þrjú stærstu fuglabjörg Evrópu eru á Vestfjörðum, Hornbjarg, Hælavíkurbjarg og Látrabjarg. Auk þeirra má benda á þrjú önnur svæði á Vestfjörðum sem hafa mikla sérstöðu.
Að minnsta kosti hef ég hvergi séð hliðstæðu við Ketildali í Noregi né veit ég um hliðstæðu við þá annars staðar í Evrópu eða á Grænlandi.
Drangaskörð eru líkast til einstæð í Evrópu, þessi röð af sjö Hallgrímskirkjuturnum náttúrunnar, og kæmi vel til greina að stækka Hornstrandafriðland þannig að það nái allt til Dranga.
Teigskógur er þegar á náttúruminjaskrá enda er gildi hans tvöfalt að því leyti, að hann er stærsti birkiskógur á Vestfjörðum og auk þess mikilvægur hluti af lífríki og náttúru Breiðafjarðar.
Menn spyrja hvernig sé hægt að setja byggða sveit inn í friðland, en því er til að svara að þjóðgarðar eru metnir í fimm flokkum eftir því hvert eðli þeirra er.
Byggð og mannvirki sem hlíta lögmálum sjálfbærrar þróunar geta því verið innan þjóðgarðs sem vægasta stig friðunar á sama tíma og að hæsta stig friðunar er viðhaft annars staðar í þjóðgarðinum.
Dæmi um svona þjóðgarð er Banff-Jaspers þjóðgarðurinn í Klettafjöllum Kanada. Á þau svæði, sem hafa hæsta stig friðunar koma aðeins örfáar manneskjur ár hvert, en í umhverfi ferðamannamiðstöðva og afturkræfra ferðamannamannvirkja er friðunin á lægsta stigi.
![]() |
Rætt um friðlýsingu Látrabjargs og Rauðasands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.9.2011 | 22:10
"Hótel jörð" er ekki eign okkar.
Nú er það komið upp að vegna þess að frumbyggjar Ástalíu hafi búið þar miklu lengur en áður var haldið eigi þeir meiri eignarrétt á landinu og þar af leiðandi skaðabótarétt vegna þess að vestrænir landnemar tók það af því.
Þetta leiðir hugann að því að margar svonefndar "frumstæðar þjóðir" svo sem indíánaþjóðflokkar, viðurkenndu ekki eignarrétt á landi. Hann var raunar fjarlægur hugsunarhætti þeirra.
Þeir litu á landið og jörðina sem dvalarstað líkum hóteli, "Hótel jörð" eins og Tómas Guðmundsson orðaði það.
Með Þingvallalögunum 1928 varð til hugtakið "þjóðareign", það er, Þingvellir skyldu vera ævarandi eign íslensku þjóðarinnar sem aldrei má selja né veðsetja."
Þarna var til kominn ný skilgreining á "þjóðareign" sem var önnur en hin hefðbundna "ríkiseign", sem til dæmis felst í fasteignum, húsum og mannvirkjum, sem ríkið getur selt, keypt eða veðsett.
Hugtakið "þjóðareign" var útfært frekar í tillögum stjórnlaganefndar Gunnars Thoroddsens og í stjórnarskrárfrumvarpi Stjórnlagaráðs nú, eru auðlindir, náttúra Íslands og menningarverðmæti skilgreint sem þjóðareign líkt og Þingvellir voru á sínum tíma.
Það liggur í augum uppi að mestu og einstæðustu náttúrudjásn Íslands og menningarverðmæti á borð við fornminjar ættu að falla undir sömu skilgreiningu og Þingvellir.
Ég tel hins vegar að enda þótt með þessu sé stigið stórt skref fram á við, þurfi sýnin að verða víðari þannig að í stað þess að Íslendingar séum "eigendur" náttúruverðmæta og menningarminja séum við vörslumenn þeirra á fyrir afkomendur okkar og mannkyn allt.
Ég get ekki varist þeirri hugsun að viðhorf hinna svonefndu "frumstæðu" þjóðflokka hafi verið réttari en viðhorfin sem við Vesturlandabúar hreykjum okkur svo mjög af.
En ég mun væntanlega ekki lifa það að þessi sýn þeirra og mín verði viðurkennd.
![]() |
Hárlokkur breytir sögunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.9.2011 | 21:45
Óendanlega langt frá hinum endanlega sannleika.
Á hverjum tíma sögunnar telja menn færustu vísindamenn hafa komist að hinum endanlega sannleika.
Þannig var það alveg pottþétt á sínum tíma að jörðin væri flöt og sól og stjörnur snerust í kringum hana.
Ef einhver hefði spáð því fyrir nokkur hundruð árum að hægt yrði að senda hljóð og myndir á ósýnilegan hátt með 300 þúsund kílómetra hraða á sekúndu hefði sá hinn sami verið talinn genginn af göflunum.
Enn verr haldinn hefði menn talið hann ef hann hefði haldið því fram að úti í geimnum væru svarthol.
Afstæðiskenning Einsteins hefur verið talin hinn endanlegi sannleikur okkar tíma. Nú virðist vera kominn brestur í það og hver getur fullyrt að hún standist nokkuð frekar en margt annað sem færustu vísindamenn síns tíma héldu fram?
Ég á erfitt með að sjá annað en tvær samkynja staðreyndir í tilverunni og sköpunarverkinu.
Það eru óendanleikinn og eilífðin.
Það þýðir að mennirnir verða ævinlega óendanlega langt frá því að komast að hinum endanlega sannleika.
Eða, eins og einhver sagði á sínum tíma: "Því meira sem ég veit, því betur rennur það upp fyrir mér hvað ég veit lítið."
Mig grunar að við búum yfir hugarorku en höfum mismikla hæfileika til að senda hana frá okkur eða taka við henni.
Sé hún til getur hún áreiðanlega farið mun hraðar en ljósið.
Nú geta menn brugðist við þessu hjá mér með því að segja að maður sé ekki alveg í lagi að halda svona fram og við því er svo sem ekkert að segja.
Sem betur fer er villt ímyndunarafl eitt það besta sem við mennirnir búum yfir, - að vísu mismunandi mikið og mismunandi villt, því að það gerir okkur kleift að komast út úr spennitreyju þeirrar þekkingar, sem menn telja endanlega á hverjum tíma, en er í raun svo óendanlega langt frá því að vera endanleg.
![]() |
Andstætt afstæðiskenningu? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
22.9.2011 | 09:43
Gerir illt verra.
Verkföll, órói og truflanir á grísku þjóðlífi og efnahagslífi vegna mótmæla gegn efnahagsráðstöfunum mun líklega aðeins gera illt verra.
Gríski vandinn hefur tvær hliðar:
Annars vegar er komið að óhjákvæmilegum skuldadögum vegna lánafyllerís landsins í bland við víðtæka pólitíska spillingu sem sýkt frá sér niður í gegnum þjóðfélagið.
Ef Grikkir líta í eigin barm sjá þeir að fjöldaþátttaka í svindli innan ríkis- og velferðarkerfisins var orðið þjóðarmein, sem gekk svo langt, að fólk tók til dæmis í stórum stíl út lífeyri fyrir dáið fólk.
Ofan á þetta bættist svipuð fjöldaþátttaka í lánasprengingunni og var hér á landi í aðdraganda Hrunsins.
Hins vegar verður að líta á það að enda þótt hægt sé að segja að þjóðir fái þá ráðamenn, sem þær eiga skilið, eiga milljónir Grikkja engan þátt í því hvernig komið er og meðal þeirra ríkir réttlát reiði yfir því hvernig þeir, sem eru ríkir og hafa rétt sambönd, sleppa við að borga það tjón sem þeir ollu.
![]() |
Engar almenningssamgöngur í Grikklandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.9.2011 | 23:09
Það er og verður alltaf til ríkt fólk.
Vegna kvikmyndagerðar er ég talsvert á faraldsfæti um vegi landsins. Á Suðurlandsvegi hefur umferðin minnkað eitthvað eftir Hrunið en það hefur vakið athygli mína að umferð dýrra og stórra lúxusbíla hefur síst minnkað.
Það minnir á að þrátt fyrir áföll af því tagi, sem nú hafa bitnað á almenningi, virðast alltaf þeir vera til, sem slíkt virðist ekki bíta hið minnsta á.
Það kemur mér því ekki á óvart þótt dýrar lúxusíbúðir renni út eins og heitar lummur meðan fasteignamarkaðurinn er í frosti.
Það er ekki aðeins að ævinlega verða þeir til sem eiga nóga peninga heldur líka hitt, að ævinlega verða þeir til sem kunna á það að græða á kreppunni, - eins dauði er annars brauð.
![]() |
50 lúxusíbúðir á einu bretti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.9.2011 | 22:35
Svona er knattspyrnan.
Þetta virtist svo einfalt hjá stelpunum í kvöld, allar tölur, skot á mark, hornspyrnur o. s. frv. sýndu það sama og maður sá á skjánum, að þær íslensku áttu miklu meira í leiknum.
En svona er knattspyrnan; það er markatalan ein sem skiptir máli þegar upp er staðið, hvernig sem allt annað er í pottinn búið.
Í einum leiknum leggst þetta svona, í öðrum á hinn veginn, og aðalatriðið er að halda karakter, jafnvægi og stóiskri ró og gera betur næst.
Gott dæmi um gildi þessa má sjá í úrvalsdeild karla hjá liði Fram. "Lánlausir Framarar" var lýsingin á liðinu langt fram á haust og hjá sumum hefði verið búið að reka þjálfarann og ráða nýjan.
En það hlaut að koma að því að sama hliðin á lukkupeningnum kæmi alltaf upp, þegar honum var kastað og hin hliðin færi að sjást.
Þannig verður það vonandi varðandi íslenska kvennalandsliðið. Áfram, stelpur!
![]() |
Vonbrigði gegn Belgum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)