Í þá gömlu, góðu daga.

Á miðjum sjötta áratugnum komu nokkrir Danir í eftirminnilegar heimsóknir til Íslands.

Friðrik konungur, faðir Margrétar Þórhildar, varð fyrstu Danakonunga til þess að koma í heimsókn til Íslands eftir að landið fékk fullveldi og heilluðu konungshjónin alla í þessari eftirminnilegu heimsókn sem var upphaf þess að fullar sættir tækjust með þjóðunum tveim.

Glæsilegur og einstæður viðburður á heimsvísu, afhending handritanna 1971, var síðan lokahnykkurinn á þessu. 

Heimsókn Bent Larsens til Íslands til einvígis við Friðrik Ólafsson var einn af helstu íþróttaviðburðum þessara ára og er öllum, sem fylgdust með einvíginu í fersku minni. 

Friðrik var þá á góðri siglingu sem fyrsti stórmeistari Íslendingina og Larsen var á svipaðri uppleið. 

Þeir tefldu í sal Sjómannaskólans í Reykjavík og var troðið út úr dyrum þegar þeir áttust við og andrúmsloftið þrungið gríðarlegri spennu, ekki síður en þegar Fisher og Spasskí tefldu í Laugardalshöll 1972.

Larsen náði síðar svo langt að lenda í því að tefla í áskorendaeinvígi við Fisher og tapaði 0:6. 

Það gerði líka Taimanoff á undan Larsen og er þessi 12-0 sigur án hliðstæðu í nútímasögu skákarinnar.

Sjálfur fyrrverendi heimsmeistari, Tigran Petrosjan, fór herfilegar hrakfarir á móti Fisher, 6 1/2 á móti

2 1/2 og þá hafði Fisher unnnið 20 skákir í röð á móti sterkustu skákmönnum heims. 

Á þessum tíma var Fisher meiri afburðamaður í skák miðað við aðra bestu skákmenn heims, en dæmi eru um. 

Segja má að Friðrik hafi verið heppinn að lenda ekki í sömu mulningsvélinni og Taimanoff, Larsen, Petrosjan og Spasskí, heldur getað haft það á afrekaskrá sinni að hafa unnið Fisher á áskorendamótinu í Portoroz ef ég man rétt. 

En nöfn Friðriks og Larsens koma oftast samtímis upp í hugann og Íslendingar minnast þessa hugljúfa Dana með þakklæti og virðingu. 

 


mbl.is Bent Larsen látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skákinni er lokið. Lok, lok og læs.

Ein helstu mannréttindi hverrar manneskju er að vita um uppruna sinn. Ég hef því ævinlega verið fylgjandi DNA-rannsóknum þegar vafi hefur komið upp á faðerni og ég var þess vegna fylgjandi DNA-rannsókn í faðernismáli Fishers. 

Hins vegar er með kröfu um enduruppgröft á líki Fishers í raun verið að draga það í efa að lík hans sé í kistunni í gröf hans í kirkjugarði Laugardæla. 

Ef eitthvað ætti að vera hæft í slíkum áburði yrði að benda á ástæður þess að farið hefði verið út í jafn fráleitar aðgerðir og að grafa líkið upp í leyni og setja annað lík í staðinn. 

Ekki er hægt að sjá að neinir Íslendingar eða menn, staddir hér á landi, hefðu haft hag af því að reyna svo áhættusamt verkefni, enda eru aðilar erfðamálsins erlendir.

Það er svo sem ekki nýtt að fráleitar ásakanir komist á kreik þegar Fisher er annars vegar.

Ýmsar ásakanir voru á sveimi í tengslum við einvígið fræga í Laugardalshöllinni, meðal annars þær að rafeindatækjum hefði verið komið fyrir í húsgögnum til að senda bylgjur sem trufluðu einbeitingu Spasskís. 

Orðið var við óskum Sovétmanna um að rífa viðkomandi hluti í sundur og ekkert fannst. Málinu var þá talið lokið hið sama á að gilda um þetta mál nú.  

Í deilu málsaðila í laginu "Lok, lok og læs" var mjög óskyldum aðilum eins og Tarzan og Bítlunum blandað inn í deilu tveggja drengja í Vesturbænum. Segja má að svipað gildi um þessa deilu sem rígfullorðið fólk stendur í.

Siðustu Fisher-skákinni er lokið og klukkan stöðvuð. Lok, lok og læs og allt í stáli, lokið þessu máli. 

 


mbl.is Vill frekari DNA-rannsóknir vegna deilu um arf Fischers
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Algert lágmark.

Björgunarþyrlur á Íslandi hafa ekki verið eins fáar síðan fyrir tæpum 40 árum og að óbreyttu yrði það ekki spurning um hvort heldur hvenær það muni kosta mannslíf, eitt eða fleiri, að hafa aðeins tvær þyrlur til taks.

Ég hef áður lýst því hér á blogginu af hverju helst þurfi að vera fjórar þyrlur tll taks eins og var hér á síðustu áratugum liðinnar aldar og vísa til þess. Menn geta fundið þær færslur með því að smella leitarorði inn hér til vinstri við pistilinn. 

Það er fagnaðarefni að ríkisstjórnin skuli nú hafa brugðist við þessu og þarf að vinda að því bráðan bug að fá þriðju þyrluna því að slys gera ekki boð á undan sér. 

Þótt þrjár þyrlur séu algert lágmark og hugsanlega ekki nóg að gert er himinhrópandi munur á því að hafa þrjár þyrlur í stað tveggja. 


mbl.is Staðfesti dóm héraðsdóms
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég er og ég verð...

Svona má koma fyrir í stuttu formi því helsta sem borgarstjórinn segir í viðtalinu, sem þessi bloggpistill er tengdur við.

Vísa í næsta blogg mitt á undan þessu um aðdraganda þessa máls. 

 

Eg er af gerð sem er athyglisverð, 

elska það mest sem sumum finnst verst,  

Ég er og ég verð eins og þú sérð:

Með athyglisbrest eins og vel sést. 


mbl.is „Ég er og verð óviðeigandi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarstjórans bersöglismál...

 

Borgarstjórans bersöglismál

blossa nú upp eins og hamfarir, 

sem límdur við netið af lífi og sál

í losta að horfa á ....heimildarmyndir.

 

P. S.  Ég heyri í útvarpsfréttum núna klukkan fjögur að borgarstjórinn segir að blaðamaðurinn hafi fellt út framhaldið af setningunni um netnotkunina.

Ég verð því að breyta ferskeytlunni í sexskeytlu, bragarform sem á afar vel við í þessu tilfelli ( vísa með sex línum)  og er þetta gert til þess að vísan sé í sama dúr og viðtalið var samkvæmt lýsingu borgarstjórans.

 

Borgarstjórans bersöglismál 

blossa nú upp sem hamfarir

með strók. 

Sem límdur við netið af lífi og sál 

í losta hann horfir á - heimildarmyndir,  -

nei, djók !

 


mbl.is Ætlar aldrei aftur til Brussel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dýrmætur listamaður.

Ragnar Axelsson er einhver dýrmætasti listamaður sem þessi þjóð á og það á eftir að koma æ betur í ljós.

Hann varð þess aðnjótandi, eins og svo margir af eldri kynslóðinni, að eiga þess kost að vera ungur úti á landsbyggðinni og komast í snertingu við hina einstæðu náttúru Íslands. p1010011.jpg

RAXi er á heimavelli við Jökulsárlón. 

Hans draumaland frá æsku er bærinn Kvísker og þar kynntist hann hinum einstæðu sjálfmenntuðu bændum og vísindamönnum, Kviskerjabræðrum. 

Við RAXi höfum þekkst og unnið saman um áratugaskeið. 

Við eigum sameiginleg áhugamál þar sem er flugið og íslensk náttúra.  p1010013.jpg

Myndirnar, sem ég ætla að tína smám saman inn í þennan bloggpistil, tók ég þegar við vorum saman við myndatökur í fyrrasumar. 

Þarna erum við að undirbúa verk dagsins á túninu á Kvískerjum. 

Á einni þeirra eru þeir RAXi og Halldór Kolbeins að koma fyrir myndavél í nefi léttflugvélar RAXa áður en hann byrjar að fljúga á henni við lónið og taka myndir. 

Auk þess að hafa unnið stórkostlegt starf við ljósmyndun á Íslandi á RAXi að baki ekki síðra snilldarstarf á Grænlandi. p1010010.jpg

Mönnum að byrja að verða ljóst mikilvægi þess í tengslum við áhrif hlýnunar loftlags á lífnaðarhætti og menningu Grænlendinga. 

Það verk RAXa er stórmerkilegt á heimsvísu og verður áreiðanlega snar þáttur í vandaðri heimildarkvikmynd um hann sem Saga film er að gera. 


mbl.is Ísmyndir Raxa í Kína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mætti vera skylda fyrir unga og jafnvel aldna.

Fallhlífarstökk er ekki aðeins skemmtilegt og stórkostleg lífsreynsla fyrir hvern þann, sem reynir það, heldur líka uppbyggjandi og þroskandi. 

Hið síðastnefnda byggist á því að íhuga hvaða áhætta er tekin með því að stökkva í fallhlíf.  Tölurnar sýna að mun meiri áhætta á óförum er tekin þegar unglingurinn ákveður að hefja neyslu nikótíns, áfengis eða annarra fíkniefna en þótt hann ákveði að læra og stökkva fallhlífarstökk. 

Með þessu móti myndi unga fólkið fá dýrmæta fræðslu og reynslu hvað varðar hina útreiknuðu áhættu sem allir þurfa að taka í lífinu og vita þá sem mest um það hve mikil hún er. Mætti jafnvel vera skylduatriði í grunnskóla. 

Á sama hátt er það áreiðanlega uppörvun fyrir fólk á gamals aldri, sem er með nógu vel farna fætur og beinabyggingu að gera þetta til að viðhalda bjartsýni og lífsgleði. 

Það hefur lengi verið draumur minn að eiga og læra á vélknúna fallhlíf, sem hægt er að geyma í skottinu á bíl, taka upp og breiða á jörðina, og láta síðan lítinn hreyfil á bakinu þrýsta sér áfram á hlaupum til þess að komast í loftið. 

Vinur minn, Jón Atli Jónasson sem á heima í Póllandi, er snillingur í þessu og gæti kennt mér. 

Ekki ónýtt að geta lyft sér þannig yfir á eða upp á fjall. 

En núna eru hnén mín orðin það léleg að mistök í lendingu gætu orðið dýrkeypt. 

Ef lendingarbúnaður flugvélar brestur í harðri lendingu er það að vísu bagalegt en hann er þó dauður hlutur. Öðru máli gegnir ef lendingarbúnaðurinn er manns eigin lifandi fætur. 


mbl.is Níræð og sátt við fallhlífarstökkið sitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virðing fyrir rétti til lífshamingju.

Ein af grunnforsendum lífshamingjunnar er að eignast lífsförunaut, afkomendur og vináttu við skyldmenni og vini. 

Val lífsförunautar er hluti af mannréttindum og frelsi hverrar manneskju og rétti hennar við virðingar og reisnar.

Hegðun þeirra stjórnmálamanna færeyskra, sem gerðu sitt til að stofna til deilna varðandi heimsókn fulltrúa okkar Ísxlendinga og varpa með því skugga á hana, er því dapurleg og í litlu samræmi við það umburðarlyndi og kristilegan kærleika sem trú þessara manna boðar. 

Þessi hegðun mun þó vonandi í engu breyta vinarþeli okkar Íslendinga til Færeyinga sem hafa alla tíð verið okkar besta og tryggasta vinarþjóð.  


mbl.is Þrír af sex flokksleiðtogum sátu kvöldverðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mistök að senda ekki Gunnar í Krossinum með henni.

Líklega hefði einn Íslendingur öðrum fremur getað talið þeim Færeyingum hughvarf sem hafa nú komið öllu í bál og brand þar í landi vegna heimsóknar Jöhönnu Sigurðardóttur. Það er Gunnar Þorsteinsson í Krossinum sem hefði getað talað við þá á þeim trúarlegu nótum, sem þeir hefðu skilið og útskýrt þetta fyrir þeim á grundvelli eigin reynslu. 

En auðvitað sá þetta enginn fyrir, því miður. 


mbl.is Danir blása Jenis-málið út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einstæð samskipti tveggja knattspyrnuþjóða.

Íslendingar hafa ekki skorað mark á útvielli  í knattspyrnulandsleikjum við Dani í 43 ár, eða síðan í hinum fræga leik 1967.

Samkvæmt þessu virðist engin leið að skora mark gegn Dönum ytra nema að fá á sig 14 mörk á móti ! 

Í öllum leikjunum frá 1946 til 1959 skoruðu Íslendingar ekkert mark, en Sveinn Teitsson, sem var miðjumaður, skoraði eitt mark gegn þeim í jafnteflisleik 1959 og held ég að það hafi verið eina markið sem þessi leikmaður skoraði í landsleik! 

Þetta einmanalega mark hans er hið eina sem Íslendingar hafa skorað utan 14:2 leiksins í landsleikjasögu sem tekur yfir 64 ár !   Þetta hlýtur að fara að komast í heimsmetabók Guinness ! 

 

P. S.  Ég breyti yfirleitt aldrei bloggfærslum mínum í neinum meginatriðum eftir á og sætti mig við það ef ég hef treyst á svikult minni eða gert hliðstæð mistök.  

Færslan var gerð í hita leiksins i gærkvöldi og féllu niður orðin "á útivelli" og "ytra" hjá mér og þar með riðlaðist öll færslan. 

Fleira er missagt hjá mér og  ofangreind færsla mín er ekki rétt hvað varðar það að við höfum staðið okkur svona hræðilega illa gagnvart Dönum á knattspyrnusviðnu.  Hið rétta er hins vegar að við höfum ekki getað skorað mark á móti Dönum í neinum landsleikjum við þá í Danmörku síðan 1974, eða í 36 ár ! 

Og við höfum heldur ekki unnið einn einasta af 21 landsleik við þá, hvorki hér heima né ytra í 64 ár ! Hlýtur slíkt að teljast óvenjulegt. 

Biðst ég velvirðingar á þessum mistökum í hita leiksins og sýnist raunar líklegt að þau sýni, að ég sé haldinn sama "Danakomplexinum" og íslenska landsliðið virðist hafa verið haldið í leikjunum ytra í meira en 60 ár.

Nú er bara að eyða þessum komplex í eitt skipti fyrir öll og vinna þá í fyrsta skipti í 64 ár og helst á útivelli! 


mbl.is Grátlegt tap gegn Dönum á Parken
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband