Færsluflokkur: Bloggar
28.3.2013 | 18:03
"Aðrir flokkar" eru þriðji stærsti hópurinn.
Þau framboð, sem falla undir samheitið "aðrir flokkar" hafa samtals 13,2% fylgi sem er þriðji stærsti stjórnmálalegi hópur kjósenda, stærri en Sf, Björt framtíð og Vg.
En svo er að sjá að fólk láti sér það vel líka að 13,2% kjósenda þurfi að sæta því að vera í raun svipt rétti til að hafa áhrif á stjórn landsins með atkvæðum sínum, sem samanlagt myndi skila 8 - 9 mönnum´á þing.
Þetta þýðir í raun að Sjöllum og Framsókn myndi duga um fylgi um 44% kjósenda til að fá meirihluta þingmanna. Mikið lýðræði það !
![]() |
Framsókn með 28,5% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
28.3.2013 | 17:52
Tvær af fyrirmyndum mínum: Dagfinnur og Magnús Norðdal.
Tvær af fyrirmyndum mínum síðustu árin eru gömlu flugstjórarnir Dagfinnur Stefánsson og Magnús Nordal. Mér finnst langt síðan ég hóf flugnám fyrir réttum 47 árum, hinn 29. mars 1966, en Dagfinnur Stefánsson hóf sitt nám 21 ári fyrr og er enn í fullu fjöri.
Dagfinnur fékk frá mér Dornier Do 27 flugvél fyrir 22 árum þegar ég gafst upp á að reka hana vegna stórviðgerðar, sem hún stefndi í, en hún bar einkennisstafina TF-FRÚ í fjögur ár. Hann notaði hluti úr mínum Dornier til að fullgera aðra vél af sömu gerð.
Á tímabili átti ég vél af gerðinni Piper PA 12 Super Cruiser, TF-GIN; sem góðir menn á Selfossi keyptu af mér 1991 og hafa gert glæsilega upp eins og sést á meðfylgjandi mynd. Þá var ég búinn að kaupa í hana kraftmeiri hreyfil og flapa á vængina og nú er hún alger draumaflugvél.
Vélin, sem Dagfinnur er nú að byrja að fljúga á er mjög svipuð en með enn aflmeiri hreyfil og fullkomnari búnaði á vængjum auk stórra hjólbarða. Hún er mun einfaldari og miklu ódýrari í rekstri en Dornier vél, liprari í snúningum og auðveldari í stjórn.
Sé Dagfinnur enn með ólíkindum hress er Magnús Norðdal það ekki síður, því að jafnvel þótt hann sé kominn vel á níræðisaldur er hann líkast til enn besti listflugmaður landsins!
Hann er viðundur að þessu leyti, því að mjög mikla líkamlega og andlega færni þar til að fljúga eins og Magnús gerir.
Bestu listflugmenn heims eru ungir og fara í harðar líkamsrækt oft í viku, jafnvel daglega.
Dagfinnur og Magnús eru stórkostlegar fyrirmyndir fyrir fólk á öllum aldri sem vill nýta líf sitt sem lengst og best.
![]() |
Nálgast nírætt á nýrri flugvél |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.3.2013 | 23:46
Stórar stundir hjá vinum mínum þessa dagana.
Gamalgróinn vinur minn og snillingur, Laddi, á stórar stundir þessa dagana.
Síðdegis var frumsýnd kvikmyndin Ófeigur snýr aftur við mikla ánægju frumsýningargesta, en í þeirri mynd leikur Laddi eitt aðalhlutverkið sem myndin er kennd við. Síðan taka við sýningarnar hans næstu daga, sem ekki er að efa að verða frábærar eins og við má búast hjá þessum hæfileikaríka leikara og spunameistara af Guðs náð.
Fleiri sneru aftur en Ófeigur í kvöld. Ágúst Guðmundsson sneri líka aftur í góðri og eftirminnilegri endurkomu sem kvikmyndagerðarmaður og í þetta sinn með mynd þar sem hann er allt í öllu, handritshöfundur, framleiðandi o. s. frv. og mér finnst ástæða til að óska honum til hamingju með það.
Þegar litið var yfir hóp tæknifólksins, sem vann við myndina, fékk maður eins konar dejavu-tillfinningu frá gömlu dögunum mínum á Stöð tvö, þar sem bræðurnir snjöllu Bergsteinn og Þorvarður Björgúlfssynir, Anna Katrín Guðmundsdóttir og fleira snjallt fólk, sem ólst upp á Stöðinni voru í framvarðasveit.
Einnig átti stóran hlut í þessari skemmtilegu og húmanisku mynd fólk, sem síðar kom við sögu á Stöð 2 svo sem Ingi R. Ingason, tengdasonur minn.
Af því sést, að enda þótt mörgum fyndist Stöð 2 vera algerlega ofaukið í íslensku þjóðlífi í byrjun og sóun á peningum í hallarekstri sínum, hefur hún skilað því öllu til baka og miklu meira til í öllum þeim mannauði og afurðum sem nú skapar milljarðatekjur í kvikmyndagerð hér á landi.
Karl Olgeirsson stimplaði sig inn með mjög vel heppnaðri tónlist myndarinnar og helstu leikararnir stóðu sig afar vel.
![]() |
Ítrekað uppselt á Ladda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.3.2013 | 12:50
Ólíkt því sem gerðist á sama tíma 2009.
Vorið 2009 sat Alþingi að störfum þar til viku fyrir kosningar. Brýn mál voru til meðferðar og þingmenn tóku það fram yfir eigin hagsmuni og flokka sinna. Sjálfstæðismenn héldu uppi málþófi gegn tillögu Framsóknarmanna um stjórnlagaþing og stjórnarskrármálið og tókst að eyðileggja það mál en þáverandi meirihluti reyndi hvað hann gat til að koma því máli í gegn.
Lagði þó ekki í það að beita 71. grein þingskaparlaga, því miður, en full ástæða hefði verið til þess.
Nú endurtekur sig svipað en í raun enn verra. Fjögurra ára andóf Sjálfstæðismanna gegn nýrri stjórnarskrá hefur skilað þeim svipuðum árangri og 2009, þótt vel hefði verið hægt að beita 71. grein þingskaparlaga núna, láta þingið sitja jafn lengi og 2009 og afgreiða stjórnarskrárfrumvarpið.
Sjálfstæðismönnum er fært upp í hendur það sem þeim kemur best, sem er versta mögulega útfærslan á breytingu varðandi samþykki stjórnarskrár eins og ég lýsi í bloggpistlinum á undan þessum.
Í útvarpsfréttum í hádeginu er sagt frá gerðum hlut frá því í gærkvöldi sem hefði komið fyrst fram nú ef Birgitta Jónsdóttir hefði ekki ákveðið að gerast "skúrkur" með því að kjafta frá.
Ég fór í gang í nótt og reyndi að hafa áhrif á málin, sem að sjálfsögðu var samt alltof seint, enda aldrei ætlast til annars hjá þeim sem ráða ferðinni hjá þinginu en að láta alla standa frammi fyrir gerðum hlut, sem sé því að þingmenn geti farið í tvöfalt páskafrí til þess að sinna kosningabaráttunni og hagsmunum sínum og flokka sinna.
![]() |
Mál sem varða almannahag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.3.2013 | 01:20
Ísland áfram hvorki frjálst né fullvalda ríki 1918 ?
Þegar gerð er krafa um að meirihluti kosningabærra manna verði að samþykkja lög til að þau hljóti gildi skapast drjúgur aðstöðumunur á milli stuðningsmanna og andstæðinga þeirra.
Stuðningsmennirnir verða að hafa fyrir því að fara á kjörstað til þess að atkvæði þeirra gildi en andstæðingunum nægir að gera ekki neitt eða sitja heima, og í ofanálag er reiknaður inn í þeirra hóp þeir sem eru hlutlausir.
Í yfirgnæfandi meirihluta kosninga í lýðræðisríkjum myndar minnihluti kosningabærra manna þann meirihluta kjósenda á kjörstað, sem ræður úrslitum kosninga.
Þannig greiddu aðeins 39,8 % kosningabærra manna á Íslandi atkvæði með því 1918 að Ísland yrði frjálst og fullvalda ríki og ef krafa um að 40% lágmark kosningabærra manna hefði gilt þá, hefðu Sambandslögin verið felld og Ísland orðið áfram hvorki frjálst né fullvalda ríki! Væri kannski enn bara með heimastjórn?
1933 var þjóðaratkvæðagreiðsla um afnám áfengisbanns. Aðeins 26% kosningabærra manna samþykkti bannið, þannig að afnám áfengisbannsins hefði kolfallið ef krafan um 40% kosningabærra manna hefði verið í gildi.
Þá hefðu þau 55% sem ekki tóku þátt í kosningunum í raun virkað sem andstæðingar þess að afnema við misheppnaða bann. Kannski væri hér enn áfengisbann ef 40% krafan hefði gilt um þessar kosningar!
Ef menn vilja aukinn meirihluta í allra stærstu málum er skárra að krefjast til dæmis 60% gildra atkvæða vegna þess að það virkar hvetjandi á þátttöku en ekki letjandi eins og aðferðin sem lýst er hér að ofan.
Í báðum fyrrnefndum dæmum, 1918 og 1933, hefðu málin verið samþykkt með auknum meirihluta ef krafist hefði verið 60% meirihluta.
Það á ekki að koma á óvart að þeir, sem andæfa auknu beinu lýðræði vilji frekar viðhafa þá aðferð sem er letjandi og ósanngjörn gagnvart málsaðilum hverju sinni og getur með tímanum lemstrað það höfuðatriði lýðræðisins, að meirihluti gildra atkvæða ráði.
Alla tíð hafa aðeins um 25 - 30% Bandaríkjamanna á kosningaaldri kosið forsetann þar í landi.
Sjálfstæðismenn fengu meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur í meira en hálfa öld fram að árinu 1978 með atkvæðum minnihluta kosningabærra manna, langoftast í kringum 41-43%, ef undan eru skildar kosningarnar 1958.
Ólafur Ragnar Grímsson vann góðan og viðurkenndan sigur í síðustu forsetakosningum með því að fá 57% greiddra atkvæða, en ef miðað er við alla kosningabæra menn greiddi minnihluti þeirra honum atkvæði. Fráleitt er að tala sigur hans niður með því að miða fylgi hans við heildarfjölda kosningabærra manna.
![]() |
Birgitta segir samkomulagi náð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
26.3.2013 | 17:28
Tíu ára afmæli fyrirbærisins "því meira lofað, því meira fylgi."
Framsóknarflokkurinn bætti við sig fylgi og komst upp í 18,8% í kosningunum 2003 en fylgi Sjálfstæðisflokksins minnkaði. Fyrir bragðið náði Halldór Ásgrímsson því fram að verða forsætisráðherra á síðari hluta kjörtímabilsins.
Sigurinn byggðist á loforðum um mestu sápukúlu og seðlaspilaborg Íslandssögunnar,sem fyrirsjáanlegt var að myndi springa og hrynja.
Ríkisstjórn Sjalla og Framsóknar stóð fyrir stærstu framkvæmd Íslandssögunar með tilheyrandi ofþenslu en bætti á sama tíma við mjög þensluhvetjandi framkvæmdum á Suðvesturlandi og þandi út ríkisbáknið á methraða.
Stjórnarflokkarnir voru nýbúnir að afhenda í helmdingaskiptum einkavinum sínum ríkisbankana á gjafverði og að sjálfsögðu stukku þessir bankar á græðgisbóluna og spóluðu allt upp.
Ekki skemmdi fyrir möguleikum bankanna að ofan á allt framangreint lofuðu Framsóknarmenn 90% íbúðalánum, sem urðu auðvitað 100% þegar bankarnir fóru í samkeppni á lánamarkaðnum.
Glöggir menn spáðu því og vöruðu við því að þetta myndi gerast en ekki var tekið mark á þeim.
Sömuleiðis spáðu þessir menn því óhjákvæmilega, að húsnæðislánabólan með háu íbúðaverði myndi springa og fólk sitja uppi með eignir, sem nægðu ekki fyrir skuldum.
En auðvitað var ekki hlustað á þá og jafnvel þegar spár þeirra gengu eftir, sem og þær spár þeirra, að uppspennt gengi krónunnar gæti ekki annað en farið aftur niður með geigvænlegum afleiðingur fyrir skuldar voru þeir áfram afgreiddir sem úrtölumenn og sérvitringar, og einn hinna erlendu í þeirra hópi talinn þurfa að fara í endurhæfingu!
Eini flokkurinn sem ekki lét freistast til svona galdraloforða 2003 var Vg enda fór sá flokkur illa út úr kosningunum með álíka fylgi og þeir eru með nú í skoðanakönnum, einnar tölu fylgi.
Á tíu ára afmæli fyrirbærisins "því meira lofað, því meira fylgi" er það endurtekið af sama hæstbjóðanda og 2003 og einnig með sama lægstbjóðanda að því er séð verður.
Og útkoman er borðleggjandi, enda trixið með tíu ára "reynslu": Framsóknarflokkurinn er í frjálsri uppstigningu og Sjallarnir og aðrir í frjálsu falli og þær í hröðustu falli sem lofa minnst.
Hvílík dýrð, hvílík dásemd!
![]() |
Framsóknarflokkurinn stærstur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (56)
26.3.2013 | 09:57
Leiðin liggur í bili um endurbætta bíla. .
Leiðin í áttina að því að mengunarlausir bilar líði um vegi og götur er greinilega áfangaskipt.
Ástæðan er fyrst og fremst sú, að ennþá skilar ný og betri tækni því sæmilega áfram að minnka mengun frá bensín- og dísilknúnum bílum minnki jafnt og þétt.
Þannig er sú ívilnun að bílar sem skili minna en 120 grömmum af koltvísýringi út í andrúmsloftið fái frítt í bílastæði þegar orðin hressilega úrelt, því að nær allur floti hinna minni bíla er kominn undir það mark og margir langt niður fyrir.
Þeir eru líka komnir niður fyrir 5 lítra meðaleyðslu á hundraðið eftir staðli Evrópusambandsins, sem er þó óraunhæf viðmiðun í okkar svala loftslagi.
En minnkun á eyðslu og mengun er þó ótvíræð og það seinkar tilkomu rafbíla, sem menga ekkert sjálfir þótt orkuverin sem gefi þeim raforku mengi flest.
Því að það er rétt að geta þess að erlendis menga rafbílar þó óbeint, því að orkugjafarnir, sem skapa rafmagnið, koma aðallega frá orkuverkum, sem menga, en þó að sjálfsögðu ekki nema hluta af því sem bílarnir myndu menga samanlagt ef þeir væru hver og einn knúnir beint af jarðefnaeldsneyti.
![]() |
Rafmagnsbílar heillum horfnir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
25.3.2013 | 20:37
"Öfugt þjóðarmorð". Íslendingar setja met að endemum.
Nú hefur komið betur fram en nokkru sinni fyrr, já, meira að segja í fyrsta skipti í meira en 30 ára sögu eftirmála Guðmundar- og Geirfinnsmálsins, að lengd gæsluvarðhalds, einangrunar og yfirheyrslna í þessu máli var "glæsilegt" heimsmet í borgaralegu réttarfari, að minnsta kosti meðal siðaðra þjóða.
Munurinn á þessum þáttum í þessu máli og í þeim málum erlendum, sem næst koma, er svo margfaldur að við Íslendingar munum getað "yljað" okkur við það að enginn muni geta slegið þessu meti við.
Ekki ónýtt fyrir okkur að eiga slíkt met, slíkt endemi, eða hvað?
Þessi frægð hefði getað orðið enn meiri ef þeir, sem sátu saklausir í varðhaldi í 105 daga, einn fimmtánda hluta af því sem Sævar Ciesielski sat, hefðu setið þar lengur, vegna þess að þeir sögðu frá því síðar, að litlu hefði mátt munað að þeir játuðu á sig allar þær sakir, sem á þá voru bornar, vegna þess að þeir voru að brotna niður.
Annar þeirra var kominn á þá skoðun, að hann gæti ekki hafa verið settur í fangelsi og einangrun í svona langan tíma nema vegna þess að hann hlyti að hafa tekið þátt í þessum glæpum.
Hinn var kominn á fremsta hlunn með að játa, vegna þess að ef hann gerði það, þá yrði hann laus úr prísundinni og að þá hlyti að koma í ljós við réttarhöld að hann væri saklaus.
Stundum er talað um þjóðarmorð þegar reynt er að útrýma þjóðflokkum eða þjóðum. Allt frá upphafi Guðmundar- og Geirfinnsmálsins hef ég verið þeirrar skoðunar að það hafi verið nokkurs konar "öfugt þjóðarmorð", þ. e. þjóðin krafðist þess að þetta fólk yrði neglt, enda væru þetta "engir kórdrengir" eins og sumir orðuðu það.
Nornaveiðar í anda galdraofsókna 18. aldar.
Enda sagði dómsmálaráðherrann, þegar dómurinn var kveðinn upp: "Það er þungu fargi létt af þjóðinni". Sem sagt, þjóðinni létti ósegjanlega þegar dómsmorðið var komið í höfn.
Hugsanlega er líka um að ræða "glæsilegt" met í því að ganga gegn einu af grundvallaratriðum réttarfars, sem felst í latnesku orðunum "in dubio pro reo", þ. e. allan vafa skal meta sakborningi í vil.
Fyrir tíu árum skrifaði ég heilt handrit að bók, sem byggð á Geirfinnsmálinu. Kannski er kominn tími til að blása rykið af handritinu og gefa það út? Hefði kannski átt að gera eitthvað í því fyrr?
![]() |
Ekkert hjarta í Sævari |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
25.3.2013 | 13:01
Sjálfsprottin aðgerð hjá öllum, sem ég þekki.
Allt frá því að Búsáhaldabyltingin var í gangi hefur verið í gangi samfelld viðleitni til að tala hana niður og búa til samsæriskenningar um það að henni hefði verið stjórnað og hún skipulögð, og þar með að það fólk, sem hópaðist þúsundum saman niður á Austurvöll hafi verið strengjabrúður annarlegra afla.
Svo langt hefur verið gengið að halda því fram að innan úr þinghúsinu hafi Álfheiður Ingadóttir stjórnað því hvernig og hvert fólkið utanhúss hreyfði sig og fór.
Ég fór á alla nær alla fundina og hitti hundruð fólks sem ég þekki og flest af því var fólk sem ég hefði aldrei átt von á að hitta þarna, en var þangað komið af því að því blöskraði hvernig komið var hjá þjóð okkar og vildi láta óánægju sína í ljósi.
Allt í einu var líkt og þetta fólk sprytti upp úr jörðinni.
Ekki einn einasti meðal þessa fundarfólks sem ég hitti var þarna af því að einhver hefði stjórnað því eða skipað því til verka.
Ástæða þess að margir fóru vestan megin við þinghúsið og inn að því bakatil kom af sjálfu sér, til dæmis hvað mig varðar.
Ég fór einfaldlega í kringum húsið og valdi eftir það sjálfur, hvert ég færi og tæki myndir.
Alveg hefur gleymst hvernig fundirnir byrjuðu. Til hins fyrsta boðaði Hörður Torfason og það var ekki fjölmennur fundur. Bubbi Morthens var með fund líka, og næstu helgi var líka annar fundur við Ráðherrabústaðinn þar sem ég frumflutti lagið "Styðjum hvert annað" með undirleik Halla Reynis.
Síðar sungum við það inn á disk með öðru tónlistarfólki sem síðar var seldur á þann óvenjulega hátt, að hver einasta króna, sem kom inn rann til Mæðrastyrksnefndar, ekki bara nettóágóði, enda gáfu allir sitt.
Af minni hálfu var þetta verk sjálfsprottið en ekki undir annarra stjórn.
Smám saman urðu fundirnir á Austurvelli undir forystu Harðar Torfasonar fjölmennari og fjölmennari og áfram hitti maður þar hið ólíklegasta fólk, sem vildi láta í sér heyra með pottum og pönnum og stuðningi við málflutning ræðumanna.
Mér finnst fráleitt að halda því fram að þúsundir fólks hafi komið vikulega niður á Austurvöll út af einhverju öðru en sjálfsprottnum áhuga. Og satt að segja þarf mikið til að hinn venjulegi Íslendingur hafi sig í slíkt.
Sjálfur átti ég ekki von á nema 5-700 manns í Jökulsárgöngunni 26. september 2006. Göngumenn urðu samt 13 - 15 þúsund og mér finnst langsótt og lélegt þegar látið er að því liggja að fólk sem tekur þátt í aðgerðum á borð við mótmælafundi og mótmælagöngur séu viljalaus verkfæri.
![]() |
Haldið upp á Búsáhaldabyltinguna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.3.2013 | 23:13
Skrýtið að þurfa að fara til Íslands í sólbað.
Í lok mars er venjulega komið veður í Evrópu sem er svipað sumarveðri á Íslandi. Sólin í Brussel er í svipaðri hæð um hádaginn og í lok júlí á Íslandi. Þess varð lítt vart í viku dvöl þar.
Það var því svolítið skrýtið í gær að fara úr snjókomu í Brussel, þar sem varð að afísa flugvélarnar á flugvellinum og koma heim til Íslands í 7 stiga hita og sólskini til að fara í sólbað í hádeginu í dag!
![]() |
Allt á kafi í snjó næstu daga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)