Færsluflokkur: Bloggar

Bara á Íslandi og á mars? Æ, helst ekki !

Nefnd um skipulag miðhálendisins komst einróma að þeirri niðurstöðu að svæðið Krafla-Leirhnúkur-Gjástykki skyldi vera iðnaðarsvæði, vikjanasvæði. 

Þó er hvergi annars staðar  í heiminum hægt að sjá ósnortin ummerki um "sköpun jarðarinnar" með samtíma vitnisburðum og myndum, þ. e. hvernig Ameríka fer til annarrar handarinnar og Evrópa til hinnar en hið sjóðheita Ísland kemur upp um sprunguna sem myndast á milli meginlandsflekanna.

Og í Gjástykki er svæði sem nefnd alþjóðasamtaka um ferðir til mars valdi fyrir tíu árum sem æfingasvæði fyrir marsfara framtíðarinnar.

Hvorugt af fyrrnefndu hefur þótt nokkurs virði, heldur aðeins það að þekja þetta svæði með mannvirkjum á borð við þau sem blasa við á Hellisheiði.

Menn hafa gert góðlátlegt gys að hugmyndum mínum um friðun svæðisins Leirhnjúkur-Gjástykki til jafns við friðun Öskju, sem þó er enn á borðum virkjunarfíkla og áltrúarmanna.

Og skrifað þriggja greina ritröð í Morgunblaðið um nauðsyn þess að fara þarna inn með borana og leggja vegi, gufuleiðslur og háspennulínur og reisa stöðvarhús og skiljuhús.  

Ef einhver hefði sagt árið 1957 að tunglfarar ættu eftir að koma í Öskju til æfinga eftir tíu ár, hefði það verið hlegið í hel. Og ef virkjanafíklar nútímans hefðu þá verið uppi með svipaða möguleika til umturnunar náttúruverðmætum, hefði Askja að sjálfsögðu einróma verið negld niður sem iðnaðarsvæði, virkjunarsvæði.

Þegar ég flaug með Bob Zubrin, forsvarsmanni marsáhugamanna, norður um Kverkfjöll til Mývatnssveitar og fór síðar með nefnd marsferðasamtakanna inn í Gjástykki, var litið á fréttir um þetta sem broslegar fréttir af bulli í sérvitringum.

Skipti engu þótt tímaritið Time hefði verið með margra blaðsíðna umfjöllun og forsíðumynd um mars og marsferðir og meðal annars rætt við Bob Zubrin.  

Nú sýna tæki bandarísku geimferðarstofnunarinnar fyrirbæri á mars, sem hvergi er að finna í öllu sólkerfinu nema á Íslandi og á mars. Rímar ekki alveg við sérvitringabullið eða hugmyndir um gildi svæðisins ósnortins. 

Æ, þetta má helst ekki vitnast!  Fyrir alla muni að fara nú ekki að skemma fyrir því að gera sem flest, helst öll háhitasvæði Íslands að virkjanasvæðum!    


mbl.is Magnaðar myndir frá Mars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju að spara vélaraflið?

Sérfræðingar hafa reiknað það út að með því að nýr Herjólfur risti mun minna en núverandi skip og taki ölduhreyfingar þar af leiðandi minna á sig, sé hægt að komast af með helmingi aflminni vélar og viðhalda samt stjórngetu skipsins. 

En þrátt fyrir aflmiklar vélar núverandi skips, sem sagt er að bjargað hafi því sem bjargað varð í óhöppum, sem það hefur orðið fyrir, hefur það ekki dugað til að forða því frá að rekast utan í eða taka niðri.

Sú spurning vakna því hvers vegna ekki sé hugað að því að skapa nýju skipi umframgetu hvað vélarafl snerti, þótt það kunni að kosta eitthvað meira í eldsneytiseyðslu, því að hvert óhapp er dýrt og ekki á að slá af kröfum um mesta mögulega öryggi, þegar verðmæti og mannslíf eru annars vegar.  

Sé vélaraflið vel í lagt á venjulegri siglingu ætti að vera hægt að skapa mótvægi við því með því að keyra alla jafna á lægra hlutfalli hámarksafls en á minni vélum. Stærri vélar eru að vísu dýrari og væntanlega þyngri og kalla á einhverja aukastyrkingu skipsins til að það þoli það, en það ætti að vega minna en öryggiskröfurnar. 

Viðfangsefnið er þekkt í flugvélum. Þar getur ákveðin vélarstærð reynst vera nóg í venjulegu flugi frá góðum flugvöllum við venjulegar aðstæður, en síðan geta komið fyrir erfiðari aðstæður fyrir notkun vélarinnar, þar sem aukins vélarafls er þörf, til dæmis í flugtaki og þörf á klifurgetu vegna fjallendis og hindrana.

Þá geta menn brugðist við meiri eyðslu með því að keyra í venjulegu flugi t. d. á 55% afli í stað 65% afls og fengið út svipaðan farflughraða og eyðslu á flogna vegalengd.  


mbl.is Straumar valda Herjólfi erfiðleikum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Alþjóðlegir fjárfestar bíða þangað til sést til sólar."

Ofangreind orð mælti forstjóri Landsvirkjun hvað eftir annað á haustfundi fyrirtækisins, þegar hann lýsti fjárfestingarumhverfinu sem Landsvirkjun er í á alþjóðlegum vettvangi.

Samkvæmt lýsingu hans bíða hugsanlegir fjárfestar ekki aðeins eftir því að gjaldeyrishöftum, verðbólgu og afleiddu aumingjastandi krónunnar linni, heldur líka eftir því að "sjái til sólar" vegna hinnar alþjóðlegu peningakreppu. 

En hér ríkja draumórar um ríka útlendinga sem komi hingað í hrönnum um leið og ný ríkisstjórn taki við völdum sem muni "koma hjólum atvinnulífsins af stað" og skapa stórfellda atvinnuuppbyggingu og nýtt gróðæri a la 2007.

Verkefni nýrrar ríkisstjórnar eigi að verða að standa við loforð sumra framboðanna nú um erlend fjárfesting streymi til landsins um leið og þau nái völdum.

Augljóslega getur það ekki gerst á meðan hér eru gjaldeyrishöft og verðbólga sem gerir krónuna ónýta, nema við förum að eins og fátækustu þjóðir heims, þegar þær falla á kné og bjóða alþjóðlegum fyrirtækjum "lægsta orkuverð í heimi" með mestu hugsanlegum fríðindum og ívilnunum og "sveigjanlegu mati á umhverfisáhrifum" eins og gert var 1995.   

 

 


mbl.is Draumórar um ríku útlendingana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Katalónía, Baskaland, Flæmingjaland, Skotland og Brussel.

Washington District of Colombia er utan við ríki Bandaríkjanna og kannski vill yfirgnæfandi meirihluti Brusselbúa að borgin hljóti svipaða stöðu í Belgíu og Evrópu, ekki síst ef landið skiptist upp í tvö ríki.

Í borginni eru flest skilti með nöfnum bæði á flæmsku og vallónsku, en þó ekki öll, getur skapað misskilning og er stundum býsna fyndið hvernig skiltin geta verið þannig að engu er líkara en að staðurinn sem maður er á leiðinni til, eins og til dæmis Brusselflugvöllur, virðist hafa gufað upp.

Það er hreyfing víðar í Evrópu, svo sem á Spáni þar sem öflug sjálfstæðishreyfing hefur verið lengi í Baskalandi og vaxandi bylgja í Katalóníu.

Á Skotlandi er líka hreyfing sem erfitt er að átta sig á hvort muni ná árangri og hvort muni til dæmis hafa áhrif á veru Skotlands annars vegar og Englands hins vegar í ESB.

Vegna þess að engin sameiginleg þjóðtunga er töluð í Belgíu, var andsvar Gríms Thomsens snjallt og beitt þegar hann var í samkvæmi þar sem hann átti samtal við sendiherra Belgíu, sem spurði hvaðan Grímur væri.

Grímur svaraði honum um það og ljóst var á orðum sendiherrans fína að hann vissi að Ísland væri köld og hrjóstrug eyja með örfáa íbúa lengst úti í rassgati.

"Og hvaða mál talar fólk svo þarna úti á Íslandi?" spurði sendiherrann.

"Það talar belgísku" svaraði Grímur.      


mbl.is Brussel verði sjálfstætt borgríki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var stærsti herflugvöllur í heimi.

Þegar Keflavíkurflugvöllur var tekinn í notkun er talið að hann hafi verið stærsti herflugvöllur í heimi, svo mikla áherslu lögðu Bandaríkjamenn á það að geta notað stærstu flugvélar þess tíma til þess að tryggja eins og frekast var unnt yfirráð í lofti yfir Norður-Atlantshafi.

Í upphafi stríðsins nægðu um 1200 metra langar flugbrautir stærstu flugvélum þess tíma.

Þetta breyttist hratt í stríðinu þegar stærstu flugvélarnar urðu þrefalt þyngri, með nær tvöfalt aflmeiri hreyflum og hleðslan á vængina jókst um helming.

Þetta kallaði á meira en tvöfallt lengri flugbrautir, ekki síst á flugvelli eins og Keflavíkurflugvelli, þar sem flugleiðirnar frá vellinum voru langar.

Keflavíkurflugvöllur var svo mikilvægur hernaðarlega að öll önnur hernaðarmannvirki á Norður-Atlantshafi bliknuðu í samanburðinum.

Upp komu hugmyndir með að byggja annan flugvöll til þess að dreifa áhættunni, og kom Geitasandur á Rangárvöllum einkum til greina. Aldrei varð þó úr því og áhugi Íslendinga á því var enginn.

Ýmislegt bendir til að ef til kjarnorkustyrjaldar hefði komið hefði Keflavíkurflugvöllur orðið eitt af allra fyrstu skotmörkum Sovétmanna og verið þegar í stað varpað á hann kjarnorkusprengju.

Þá hefði það allt verið komið undir vindátt hver afdrif fólks á þéttbýlasta svæði landins hefðu orðið.

Það var ekkert smáræðis mannvirki og mikilvægt sem Íslendingar fengu að gjöf í stríðlok enda kostaði völlurinn sitt.

Er þar ólíku saman að jafna, honum og næst stærsta flugvelli landsins hvað samanlagðar brautarlengdir snertir, en það er Sauðárflugvöllur á Brúaröræfum, sem hugsaður er sem varaflugvöllur fyrir Fokker F50 og sambærilegar flugvélar, ef þær skyldu lenda á vanda á leið yfir norðausturhálendið.


mbl.is Sjötugur flugvöllur slær met
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minnti á Albert 1955.

Maður á varla orð eftir að hafa séð markið, sem Gylfi Þór Sigurðsson skoraði úr aukaspyrnu í landsleiknum við Slóvena í kvöld.  

Þetta mark Gylfa Þórs Sigurðssonar minnti mig þó á það að fyrir 58 árum urðu allir orðlausir, sem urðu vitni að tveimur svipuðum mörkjum sem Albert Guðmundsson skoraði, - þó af miklu lengra færi  í leik Vals gegn firnagóðu erlendu liði, sem ég man ekki lengur nákvæmlega hvert var, sumarið 1955.

Albert var nýkominn heim til Íslands eftir frægðarferil í útlöndum og sem gamall Valsmaður var hann tekinn inn í liðið.

Leikurinn var lengi vel einstefna á mark Vals hjá miklu betri útlendingum, sem skoruðu þrjú mörk í leiknum og hefðu getað skorað fleiri.

Það sem bjargaði leiknum frá því að verða hrútleiðinlegur var frammistaða Alberts. Þá sjaldan sem hann fékk boltann, sýndi hann þvílíka takta við að plata mótherjana upp úr skónum, að þrumukliður og fagnaðarlæti fóru um áhorfendaskarann.

En enginn má við margnum, og þessar listir lék Albert því að mestu á eigin vallarhelmingi.

Það stefndi í öruggan sigur gestanna þegar þessi mikli snillingur tók til sinna ráða í til að bjarga liði sínu frá beiskum ósigri.

Þegar hann fékk boltann í eitt sinn og komst aðeins fram yfir miðju með hann tók hann það til bragðs að spyrna honum af 40 metra færi firnafast hátt í loft svo hann stefndi vel utan við og yfir hægra markhorn gestanna.

Markvörðurinn og aðrir á vellinum voru þess fullvissir að skotið myndi fara út fyrir og yfir markhornið þannig að markvörðurinn var ekkert að skutla sér, heldur hljóp rólega af stað til að sækja boltann aftur fyrir markið.

En viti menn; skyndilega byrjaði boltinn að skrúfast niður og inn að markinu og smaug inn í það af firna afli alveg uppi við vinkilinn, rétt eins og skotið frá Gylfa Þór í landsleiknum við Slóvena !

Ég minnist enn fagnaðarþrumunnar sem dundi úr börkum áhorfenda við að sjá þetta.

Nokkru seinna fékk Albert boltann aftur á svipuðum stað, lék á tvo andstæðinga og þrumaði boltanum aftur með snúningi nákvæmlega eins og í fyrra skiptið. Og aftur virtist boltinn ætla að fara vel fyrir utan og ofan við hægra markhornið.

Í þetta skiptið var markvörðurinn vel á verði, minnugur skotsins sem allir misreiknuðu og rataði í markið, og rétt eins og slóvenski markmaðurinn í kvöld, reyndi hann allt hvað hann gat að skutla sér út og upp í hornið til að verja.

En það var útilokað; boltinn fór á nákvæmlega sama stað aftur inn í markið alveg uppi við vinkilinn !

35-40 metra færi og mark! Annað glæsimark Alberts!

Eftir leikinn létu erlendu gestirnir hafa það eftir sér að ekki væri vafi á því að Albert væri einn af ellefu bestu knattspyrnumönnum Evrópu.   


mbl.is Markið stórkostlega hjá Gylfa (myndskeið)
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Löglegt en siðlaust".

"Löglegt en siðlaust" voru þrjú orð sem Vilmundur Gylfason sagði í sjónvarpsþætti þegar verið var að bera í bætifláka fyrir siðlaust athæfi og því haldið fram að það væri fullkomlega löglegt.

Um það fyrirbæri að Alcoa borgi engan tekjuskatt árum saman þrátt fyrir gróða á bilinu 15-30 milljarða króna á ári er hægt að segja að það sé löglegt, sem og allar ívilnanirnar og fríðindin sem fyrirtækið hefur fengið.

En svo virðist sem allt sé talið leyfilegt, hversu siðlaust sem það er, bara ef hægt er að nota löglegar en siðlausar viðskiptafléttur til þess að gera það. 

Að eitthvað sé siðferðilega rétt eða rangt virðist vera víðsfjarri hugsunarhættinum, sem ræður ríkjum.


mbl.is Nýta sér ekki skattalöggjöf með óeðlilegum hætti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öðruvísi mér áður brá.

Sú var tíð að Vinstri grænir gagnrýndu stórfelldar og víðtækar ívilnanir vegna stóriðju og virkjanaframkvæmda í tenglsum við hana. Nú hefur Steingrímur J. Sigfússon skrifað upp á 3,4 milljarða kósningavíxil vegna framkvæmda á Bakka við Húsavík og eru þær framkvæmdir sérstaklega bundnar við það að um "orkufrekan iðnað" sé að ræða.

Orkubruðlinu sem sagt sérstaklega veitt ívilnanir og fríðindi sem lögin um kosningavíxilinn eiga þá væntanlega aðeins við, en ekki ef einhver orkuvænni iðnaður væri á ferðinni.

Í umræðum á Alþingi bendir síðan Sjálfstæðisþingmaður á að ívilnanirnar séu meiri en veittar voru sambærilegum stóriðjuverkefnum á tímum Sjalla og Framsóknar.

Og Steingrimur nýbúinn að skrifa grein um leyfi til leitar og vinnslu olíu á Drekasvæðinu sem hvaða mjúkmáll ráðherra Sjálfstæðisflokksins hefði getað skrifað um tugmilljarða óafturkræfan gerning sem engin umræða eða umfjöllun hefur farið fram. 

Ja, öðruvísi mér áður brá.


mbl.is Tókust á um ívilnanir til stóriðju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Túrbínutrixið": Já, Stjórnarskráin: Nei.

Kosningar eru yfirvofandi og nú þarf að redda stórum kosningavíxlum með öllum tiltækum ráðum.

Búið er að gera það með 3,4 milljarða kosningavíxli fyrir norðan og "túrbínutrixið", allar finnanlegar leiðir til þess að þvinga fram álver í Helguvík án þess að búið sé að finna orku eða semja við á annan tug sveitarfélaga, er í forgangi fyrir sunnan. ("Túrbínutrixið" kenni ég við það þegar stjórn Laxárvirkjunar hóf ólöglegar virkjanaframkvæmdir 1970 með því að kaupa allt of stórar túrbínur í virkjunina)

"Túrbínutixið" í Helguvík var sett af stað með skófustungu og viljayfirlýsingum fyrir sex árum og áltrúamönnum þykir hægt ganga. Þeir reyna því að keyra málið áfram fyrir þessar kosningar, rétt eins og þeir hafa gert alla tíð svo að hægt sé að binda hendur sem flestra.

Stóru frumvörpin á þingi, sem Sjálfstæðismenn nefna "gælufrumvörp", eru hins vegar komast undir þingsályktunartillögu um þingfrestun, helst í gær.

Einingin um þessa forgangsröðun breiðist hratt út þessa dagana, því að það þarf að redda stuðningi stóriðjusinna og kaupa þingsæti í þeim kjördæmum þar sem lykilþingmenn eru í framboði.


mbl.is Samningar um Helguvík í nánd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefur alltaf blasað við.

"Þrjú tonn af sandi!" var sungið forðum en fyrr má nú rota en dauðrota þegar um er að ræða hálfa milljón tonn af sandi að meðaltali á ári eins og raunin er um Landeyjahöfn.  

Það eru minnst 50 ár síðan það lá ljóst fyrir, að þar sem aurugt vatn berst meðfram árbakka eða fjöru, þarf ekki annað en að byggja grjótgarða út í strauminn til þess að sandur safnast við þá þar sem garðarnir trufla strauminn.

Þetta hefur verið gert viða um land við árbakka og sama lögmál er talið getað stöðvað rof fjörunnar við Vík í Mýrdal.

Garðarnir, sem standa út úr Landeyjahöfn hafa augljóslega sömu áhrif og draga að sér sand þar eins og annars staðar við strendur og árbakka.

Sandburðurinn við Landeyjarfjöru var fyrirsjáanlega gríðarlega mikill. Ég minnist skipsstranda á fjörum þar sem skipið hefur grafist niður í sandinn á nokkrum áratugum. Þetta hefur alltaf blasað við.

Að sandmagnið skuli vera 18 sinnum meira og höfnin lokuð sex sinnum lengur en gert var ráð fyrir getur ekki aðeins skýrst af framburði í Eyjafjallajökulsgosinu, - til þess er þessi munur allt of mikill.

Enda var framburðurinn vegna gossins ekki mikið meira en magnið, sem búið er að moka út úr höfninni, og varla hefur mestallur framburður þess vegna gossins farið inn í höfnina, heldur dreifst víðar. 

En hvað sem um þetta má segja sitjum við uppi með þessa höfn og stóraukinn ferðamannastraumur og samsvarandi tekjur af honum minnka áfallið. Höfnin hefur valdið byltingu í samgöngum við Eyjar og á öllu svæðinu á mesta ferðamannatímanum og væri gaman að reikna út, hve mikill beinn ávinningur er af höfninni í þeim efnum.


mbl.is 20 Laugardalshallir af sandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband