Færsluflokkur: Bloggar

Hvað um Spánverjamorðin og Drekkingarhyl?

Árið 1615 var eins og morðæði rynni á Ara sýslumann í Ögri og menn á hans vegum, sem murkuðu lífið úr tugum spanskra sjómönnum vestur á fjörðum. 

Þótt langt sé um liðið og sumir telji, að núlifandi Íslendingar geti ekki á neinn hátt aðhafst neitt varðandi það sem löngu dauðir Íslendingar hafi gert, eru þessi dráp blettur á sögu íslensku þjóðarinnar. 

Það að auki þykir rétt að hafa í hávegum og mæra mjög jákvæð verk löngu genginna kynslóða, svo sem kristnitöku og stofnun Alþingis. 

Og vel að merkja: Við umgöngumst Þingvelli eins og helga jörð æ síðan, samanber nýlega athöfn Alkirkjuráðsins þar, en höfum ekki enn gert neitt til að reisa við æru þeirra kvenna sem drekkt var í Drekkingarhyl eða biðjast á neinn hátt afsökunar á því að sá ljóti blettur skyldi vera látinn falla á hinn helga stað. 

Mikill þrýstingur hefur verið á Tyrki að viðurkenna þjóðarmorð þeirra á Armenum í Fyrri heimsstyrjöldinni, og hafa vestrænar kristnar þjóðir hneykslast réttilega á því, þótt þeir sem að því stóðu séu ekki lengur í lífi. 

En þá gæti verið íhugandi að líta í eigin barm. 

 


mbl.is Vill að Bretar biðjist afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þungamiðja tilverunnar í borg sláturhúsanna.

Um ævina hef ég gist og borðað heima hjá mörgu fólki víða um land og víða um heim vegna starfa minna, sem hafa byggst á ferðalögum, til dæmis til skemmtana Íslendingafélaga. 

Eitt heimilið var eftirminnilegast, í Chicago, hjá konu af íslenskum ættum, sem var gift Bandaríkjamanni. 

Það fór ekki aðeins á milli mála að þau byggju í borg, sem var stundum kölluð borg sláturhúsanna, heldur ekki þau miklu áhrif sem mataræðið hafði á fjölskyldulífið. 

Þau voru greinilega vel stæð og það var nánast hátíðamatur í hvert mál sem bar þess merki hvílíkt úrval var af matföngum í þessari borg. 

Umræðuefni fjölskyldunnar var ekki aðeins matur og aftur matur, og ekki aðeins verið að rökræða, hvað ætti að vera í matinn í kvöld, heldur líka marga daga fram í tímann og þar með hvaða mataruppskriftir skyldi nota. 

Fjölskyldufaðirinn bar það utan á sér og í öllu fasi og líferni hve ljúft og "easy" lífið skyldi vera, stór amerískur kaggi, dýrasta gerð af Buick, stóð upp við útidyrnar svo að ekki þyrfti að rogast með líkamsþyngdina mörg skref, og allt miðaðist við að njóta lífsins lystisemda í smáu og stóru.

Mér er sérstaklega minnisstætt hve þáttur maísbauna í alls kyns uppskriftum var. 

Þessi maður og nokkrir aðrir landar hans voru eins "american" og hugsast gat, neyslunautnin var í botni á öllum sviðum. 

Hann varð ekki langlífur, blessaður, og hefði vafalaust getað lifað lengur ef hann hefði hugsað betur um afleiðingar mikils hóglífis og kyrrsetu. 

 

 


mbl.is Drakk bara vatn í heila viku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svipað fyrirbæri og 1980 og 1944.

Þegar Gunnar Thoroddssen fékk fjóra þingmenn Sjálfstæðisflokksins í lið með sér til að mynda stjórn með Framsóknarflokki og Alþýðubandalagi ríkti nokkur spenna varðandi þetta óvenjulega og umdeilda framtak Gunnars. 

Hvað snerti afstöðu almennings kom hins vegar strax í ljós óvenju mikill stuðningur við þessa ríkisstjórn í fyrstu skoðanakönnun og hélst sá stuðningur, ef ég man rétt, vel inn í kjörtímabilið. 

Stuðningurinn var langt út fyrir raðir kjósenda þeirra þingmanna, sem mynduðu stjórnarmeirihlutann. 

Stjórnin fékk hins vegar á sig mikinn andbyr efnahagslega vegna dæmalauss orkuskorts á heimsmarkaði sem olli jafn dæmalausri verðhækkun á eldsneyti. 

Þetta voru afleiðingarnar af klerkabyltningunni í Íran, gíslatöku í sendiráði Bandaríkjamanna og aðgerða Arabaríkjanna í olíusölumálum, sem íslenska ríkisstjórnin gat ekki haft nein áhrif á. 

Viðbrögðin voru þau hér heima að fara út í miklar hitaveituframkvæmdir, en ábatinn vegna þeirra skilaði sér ekki alveg strax. 

Ég man það frá æsku að Nýsköpunarstjórnin 1944 til 1946 naut hylli, en þá voru engar skoðanakannanir til að staðfesta það. 

1944, 1980 og nú voru allar þessar ríkisstjórnir myndaðar eftir óróatímabil í stjórnmálum og stjórnarkreppur. 

Sömuleiðis hafði Steingrímur Hermannsson einstaklega mikið fylgi á þeim tíma sem hann var forsætisráðherra. 


mbl.is Mikill stuðningur við ríkisstjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju! Auðvelt að þyngjast aftur. 2 gr. á dag = 37 kíló á 50 árum

Ekki er aðeins ástæða til að óska Guðmundi Andra Thorssyni til hamingju með tíu kilóa léttingu heldur ekki síður fyrir að skrifa, eins og hans var von og vísa, áhugaverðan pistil. 

Við það sem hann segir má bæta því, að afar mikilvægt að borða ekki nema vita um fjölda hitaeininga og gramma af fitu og kolvetnum, áður en neytt er. 

Offitan er lúmsk. Það sýnist ekki mikið að þyngjast um þrjú örlítil grömm á dag en það þýðir samt 730 grömmm á ári, 7,5 kíló á hverjum tíu árum og 37 kíló á 50 árum. 

Þegar ég var 25 ára árið 1965 var ég um 65 kíló en þyngdist eftir það um eitt kíló á ári og var orðinn 80 kíló árið 1980. 

Þá fór í hönd langt tímabil þar sem þyngdin stóð að mestu leyti í stað, og náðist sá árangur fyrst og fremst með jafnri og stöðugri líkamsrækt og hreyfingu og nægilegu aðhaldi í mataræði. 

Eftir að hnén voru orðin uppslitin 2005 var mér bannað að hlaupa, en ekki bannað að hlaupa í spik. Og það var eins og við manninn mælt að við tók þynging upp í 92 kíló árið 2008. 

Skipti engu þótt ég "læddist hratt" reglulega með því að hlaupa upp 4 hæðir í stiga og stunda hraðgöngur, því að efnaskipti líkamans breytast með aldrinum og fyrra mataræði var of fitandi. 

2008 fékk ég lifrarbrest vegna ofnæmis fyrir sýklalyfinu Augmentin og bresturinn olli ofsakláða með tilheyrandi svefnleysi í þrjá mánuði þar sem lifrin gat ekki unnið úr svo mörgu nauðsynlegu, svo sem fitu. 

En án fitu heldur enginn maður þrótti né heilsu. 

Í lok lifrarbrestsins var ég orðinn 16 kílóum léttari og búinn að missa 40 þrósent af blóðinu. 

Þá tók við alveg nýtt ástand, sem eftir pyntingar ofsakláðans gerðu það að verkum að ein af stærstu "nýju" upplifununum var sú að geta étið hvað sem mig langaði í!

Og hér kem ég að því varasamasta: Það er skelfilegt hvað maður gerur verið fljótur að þyngjast eftir að hafa létt sig. Og þetta hefur gerst allt of oft. 

Á innan við ári hafði ég bætt öllum töpuðu kílóunum á mig aftur, kominn aftur í 92 kíló. 

Síðasta mánuð hef ég orðið að liggja að mestu leyti í rúmi við að vinna á bráðri blóðeitrun í fæti. 

Má ekki hlaupa og verð að takmarka eins og unnt er að ganga eða vera uppréttur. 

Engin stigahlaup, engar hraðgöngur, takk fyrir! 

Það er til formúla varðandi offitu og svonefnda "kjörþyngd".  Ég er 1,81 og ef ég fer yfir 97 kíló telst ég glíma við offitu, en yfir 83 kílóum telst ég yfir kjörþyngd. og færðar hafa verið líkur að því að fyrir gamalt fólk sé kannski ágætt að vera nokkrum kílóum yfir kjörþyngd. 

Nú þykir líklegt eftir rannsóknir að sætuefni stórauki líkurnar á Alzheimer eða elliglöpum. 

Það fór það líka. 

Vegna blóðeitrunarinnar var gerð blóðsykursmæling á mér og blóðið einnig skoðað til að útiloka hættu á sykursýki eða blóðtappa, og hvort tveggja var í lagi, sem betur fór. 

En fáðir minn lést úr sykursýki áttræður eftir langvarandi veikindi og ég þarf því að hafa svipað í huga og Guðmundur Andri og tugþúsundir Íslendinga. 

Í súkkulaði er meirihlutinn hrein fita og kolvetni. Aðeins þremur til fimm grömmum of stór skammtur á dag yfir ævina þýðir offita að lokum. 

80 prósent af smjöri er hrein fita!  40 hitaeingar í 100 grömmum af kóki sýnist lítið, en fíklar drekka á undra skömmum tíma úr hálfs lítra flösku, jafnvel tvisvar til fjórum sinnum á dag, og það samsvarar allt að 400 til 800 hitaeiningum á dag, sem er allt að 40% af orkuþörf manns á sólarhring!  

Gott er þegar ákveðið er að "smakka aðeins örlítið" að hafa í huga, hvort inni í því sem verið sé að borða eða drekka séu einmitt þau fáu grömm, sem geta valdið samfelldri þyngingu upp úr öllu valdi. 

Ég hef haldið í horfinu þennan sýkingarmánuð og það gefur von um að geta sett sér Guðmund Andra sem takmark þegar byrja má á stigahlaupunum og hraðgöngunum á ný: Taka af sér 10 kíló! 

 

 


mbl.is Guðmundur Andri léttist um tíu kíló
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kleyfhuga ( skizofreni) fíll í glervörubúð.

Í kosningabaráttu sinni í fyrra lagði Donald Trump mikla áherslu á það hve röng sú stefna Obama og Hillary Clinton og þar á undan George W. Bush hefði verið að efna með beinni eða óbeinni hernaðaraðstoð til styrjalda í Miðausturlöndum sem hefðu valdið slíku manntjóni og stórskaða, að öldur þess hefðu borist í dæmalausum flóttamannastraumi norður um alla Evrópu og auknum þrýstingi á innflutning frá þessum löndum til Bandaríkjanna. 

Trump hafði að vísu mikið til síns máls varðandi borgarastríðin í Sýrlandi og Líbíu og innrásina í Írak 2003, en gekk að sínum gikkshætti svo langt að stimpla Hillary og Obama sem "stofnendur Íslamska ríksins." 

En nú toppar hann sjálfur flest það sem áður sem Bandaríkjamenn hafa gert í þessum heimshluta með því að ryðjast eins og fíll inn í glervörubúð inn í málefni þjóðanna þar og viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels og hleypa þar með öllu í bál og brand. 

Þótt Gyðingar hafi, illu heilli, verið hraktir frá Jerúsalem fyrir tæplega 2000 árum, réttlætir það ekki ólöglegt hernám þeirra á borginni, sem er líka helgur staður múslima og kristinna manna. 

Ísraelsmenn beita einnig svipuðum aðferðum og Rússar gerðu eftir að þeir hernámu Eystrasaltslöndin 1940 og Franco gerði í Katalóníu 1939, að flytja eins og verða mátti inn Rússa við Eystrasalt og Spánverja í Katalóníu í því skyni að "Rússavæða" Eystrasaltslönd og "Spánarvæða" Katalóníu, búa til æ stærri minnihluta, sem síðar yrðu að meirihluta. 

Í Jerúsalem eru stofnaðar landnemabyggðir í trássi við alþjóðalög og beitt hörðum aðgerðum til þess að Gyðingar komist yfir eins margar fasteignir Araba og mögulegt er, til dæmis við uppgjör dánarbúa eða venjulegar sölur þessara fasteigna. 

Ef 2000 ára gamlir viðburðir eiga að réttlæta innrásir gætum við Íslendingar jafnvel talið okkur eiga rétt á að ráðast inn á vesturstönd Noregs og heimta til baka þær landareignir allar, sem landnámsmenn Íslands flúðu frá undan ofríki Haraldar konungs hárfagra, og ná í tengslum við það yfirráðum yfir olíulindunum undan ströndinni. 

Og gera þá sem nú búa í þessum strandhéruðum að undirokaðri hernundri þjóð. 

Með því að gera Ísraelsmenn að herrum Jerúsalem í einu og öllu í viðbót við hálfrar aldar ólöglegt hernám ætlar Trump að haga sér eins og fíll í glervörubúð. 

Og ef Palestínumenn reyna að rísa til varnar mun hættan stóraukast á þvi að í gang fari  svipuð átök og áður hafa gerst í Intifada, þar sem hlutföll manndrápanna verða 2500 Palestínumenn á móti hverjum 50 Ísraelsmönnum. 

Að ekki sé talað um þann jarðveg sem þetta ofbeldi mun valda fyrir hryðjuverkamenn og öfgahópa Múslima sem munu nærast á reiðinni, sem aukning brota á alþjóðalögum og ályktunum Sameinuðu þjóðanna mun valda.  


mbl.is Trump varaður við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heitið Bráðadeild að verða öfugmæli.

Heitið Bráðadeild á að bera með sér að þar sé fengist við brýn og aðkallandi verkefni. Þegar síðast var umræða um deildina í Sjónvarpinu í hitteðfyrra fullyrti einn þátttakandinn í umræðuþætti að verið væri að setja upp "leikrit" þegar sýnt var fram á að boðlegt rými vantaði fyrir sjúklninga. 

Fyrir skemmstu fékk ég óvænta og bráða blóðeitrun í annan fótinn og var sendur á Bráðadeild þar sem ljóst var að ég þyrfti spítalameðferð og innlögn að minnsta kosti til næsta dags með tilheyrandi dælingu sýklalyfs í æð. 

Ég hef áður orðið vitni að gríðarlegu álagi á þessari deild, sem veldur því oft á tíðum, að starfsfólkið þar er í kapphlaupi heilu dagana við að hafa undan og sjúklingar þurfa að dvelja á göngunum. 

Mér sárnaði við að heyra gert lítið úr þrotlausri baráttu starfsfólksins við að líkna sjúklingum við allt of þröngar og lélegar aðstæður og meira segja dróttað að leikaraskap af því tilefni. 

16 klukkustunda meðal biðtími er auðvitað hróplega á skjön við heitið Bráðadeild og ekki er hægt að una við slíkt, hvorki starfsaðstöðu hins góða starfsfólks né aðstöðu sjúklinga. 

Ef upp kemur slæmt hálkuástand á gangstéttum borgarinnar, að ekki sé talað um hópslys, er augljóst að á fyrirfram ofsetinni Bráðadeild geti myndast neyðarástand.   

Það blasir meira að segja við utan frá á yfirfullu bílastæði við spítalann að hér verður að taka til hendi.  


mbl.is 16 tíma bið á bráðadeild „óviðunandi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meiri kröfur vegna óvandvirkni fyrirtækja og stofnana.

Úrskurður Hæstaréttar í umferðarlagabrotsmáli er athyglisverður. Lögregluembættið, sem stóð að því að sekta mann um 100 þúsund krónur á staðnum og ljúka málinu þannig. 

Maðurinn hélt að málinu væri þar með lokið, en þá kom til hans tilkynning um að málalokin væru "fjarstæðukennd" hvað snerti það að hann væri ekki sviptur ökuréttindum, og skyldi það nú verða gert. 

Maðurinn fór með þessi nýju málalok fyrir dóm og vann það á endanum fyrir Hæstarétti, sem féllst ekki á það að greiðsla hinnar háu sektar án sviptingar ökuréttinda hefðu verið fjarstæðukennd málalok. 

Málið er að ýmsu leyti merkilegt, því að allt of oft gerist það að "mistök" hjá fyrirtækjum og stofnunum eru keyrð til baka eftir að viðskiptavinurinn, í þessu tilfelli bíl ökumaðurinn telur sig í góðri trú geta treyst málalokunum. 

Ekki er til dæmis langt síðan, að lífeyrisþegar fengu bakreikning frá hinu opinbera þess efnis að þeir hefðu fengið of hátt greitt og væru því skyldir til að borga það til baka. 

Þessi ögn hærri lífeyrir var þó það lágur samt, að ef eitthvað var fjarstæðukennt var það þvert á móti hve lágur hann var samt. 

Ég flutti fyrir áratug inn minnsta Mini í heimi í gám með öðrum litlum bíl og fékk hann fyrir slikk vegna tilbúins ofurgengis krónunnar. 

Bíllinn stóð lengi óafgreiddur inni í gáminum hjá Atlantsskipum vegna blankheita. 

Skipafélagið fór síðan á hausinn og var auglýst, að þegar sá dagur rynni, yrði allt sem væri óafgreitt hjá Tollinum á svæðinu við Hafnarfjarðarhöfn, gert upptækt. 

Ég skrapaði fyrir gjöldum og fór niður í Toll til að sjá hvort ég gæti bjargað bílnum, sem annars yrði jafnvel fargað. 

Þegar niðureftir kom, kom í ljós að ég átti nákvæmlega nógu mikið til þess að leysa málið, greiddi það, fékk pappíra upp á fullkomin skil og þeysti suðureftir. 

Náði bílnum út og var kominn langleiðina til Reykjavíkur þegar ég fékk upphringingu frá Tollinum þar sem sagt var, að útreikningurinn á gjöldunum hefði verið rangur, og að mér yrði bannað að taka bílinn, sem yrði í staðinn tekinn traustataki og gerður upptækur. 

Ég sagðist vera með kvittun fyrir því að greiðslu gjaldanna, og að þeir gætu ekki kyrrsettt bílinn, því að ég væri búinn að fá hann afgreiddan suðurfrá og kominn með hann til Reykjavíkur. Ekki kæmi til greina að fara með bílinn aftur suðureftir og eða að hann yrði gerður upptækur. 

Mig munaði mikið um það hvort ég fengi að halda bílnum eða ekki og sömuleiðis um þær nokkrar tugþúsundir króna sem nú var krafist að ég borgaði tafarlaust en ég væri ekki í bili aflögufær uma að greiða. 

Ekki fékkst lausn í málinu fyrr en yfirmaður kvað upp úr með það, að ég yrði að borga alla fjárhæðina, annað væri "fjartæðukennt". Hins vegar gæti ég fengið ríflegan greiðslufrest og skiptingu greiðslunnar. 

Málalyktirnar urðu því þær að ég "greiddi keisaranum það sem keisarans var" þótt "keisarinn" slyppi við það að taka afleiðingunum af eigin mistökum. 

En hefði kannski verið hægt að fara í hart út af þessum málalokum?

 

 

 

 


mbl.is Ekki fjarstæðukennt að greiða bara sekt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins "fyrirbyggjandi" kjarnorkustríð? Pappírstígrisdýr?

Donald Trump hafði mikið til síns máls þegar hann gagnrýndi fyrrverandi forseta, Obama og George W. Bush fyrir beinan og óbeinan stríðsrekstur í Miðausturlöndum. 

Ætlunin var hjá báðum að velta úr sessi spilltum einvöldum, sem kúguðu þjóðir sínar, Íraka, Líbíumenn og Sýrlendinga og koma á vestrænu lýðræðisþjóðfélagi í staðin. 

Að vísu tókst að velta Saddam Hussein 2003, en uppskera í staðinn óöld í landinu, sem kostaði milljónir lífið þegar upp var staðið, fóstraði Íslamska ríkið og stóraukna hryðjuverkastarfsemi. 

Bein og óbein hernaðarafskipti Bandaríkjanna og NATO af "Arabíska vorinu" veltu að vísu Gaddafi, og Hillary Clinton var hlátur í hug við að horfa á myndir af því hvernig honum misþyrmt og hann drepinn , en síðan hefur verið óöld og ringulreið í landinu. 

Enn verr tókst til í Sýrlandi, þar sem Assad situr enn sem fastast, en þjóðin hefur sundrast í skelfilegum hörmungum og flóttamannastarumurinn þaðan valdið uppnámi norður um alla Evrópu. 

En nú sýnist Trump standa frammi fyrir svipuðu fyrirbæri í Norður-Kóreu og tala digurbarkalega um að "gereyða" þar landi og lýð. 

Svo virðist sem haukarnir, sem Trump fær sér helst til ráðgjafar, gæli helst við algera valdbeitingu með fyrirbæri, sem að vísu var oft nefnt í Kalda stríðinu, "fyrirbyggjandi kjarnorkustríði." 

Það þýðir fyrirvaralausa og takmarkalausa kjarnorkuárás til að koma í veg fyrir að andstæðingurinn geti beitt sínum kjarnorkuvopnum. 

Í Kalda stríðinu varð svona árás aldrei að veruleika, því að engin trygging var fyrir því að Rússar gætu ekki svarað fyrir sig, og þar með MAD (Mutual Assured Destructin) eða GAGA (Gagnger Altryggð Gereyðing Allra) orðin að veruleika. 

Kúbudeilan var leyst með samningum, þar sem Kennedy lofaði Krustjoff því að beita ekki aftur hervaldi gegn Castro. (Innrásin i Svínaflóa 1961 hafði misheppnast gersamlega). 

En núna eru ekki menn á borð við Kennedybræður og varkára ráðgjafa þeirra við völd í Hvíta húsinu.  Haukarnir vildu vildu beita hervaldi strax, en í staðinn fannst lausn, sem gaf Krustjoff kost á útgönguleið án algerrar uppgjafar fyrir flotaveli Bandaríkjamanna. 

Nú eru aðstæður aðrar. Trump virðist trúa á þann möguleika að geta með sem allra harðastri fyrirbyggjandi árás komið í veg fyrir að Norður-Kóreumenn geti skotið kjarnorkusprengjum á bandarískt land. 

Og kjörorðið "Bandaríkin fyrst og fremst" rímar vel við "fyrirbyggjandi kjarnorkuárás" þótt það muni hugsanlega kosta milljónir mannslifa hið minnsta á Kóreuskaganum og jafnvel líka í Japan að ráðast af ítrasta alefli á Norður-Kóreu, svo að mannfall Bandaríkjamanna verði lítið sem ekkert. 

Ekkert virðist vera í gangi varðandi það að semja við Norður-Kóreumenn á þann veg að valdhafar þar geti haldið andlitinu og völdunum, líkt og gert var í Kúbudeilunni. 

Stríð á Kóreuskaga mun valda óheyrilegu tjóni og manndrápum, en Trump gælir geinilega við svipað og Obama og Bush, að trúa á beitingu hervalds, - einmitt það sem Trump gagnrýndi þá fyrir. 

Maó sagði á sínum tíma að kjarnorkuveldið Bandaríkin væru "pappírstígrisdýr" og varð að því leyti til sannspár, að í stað þess að beita kjarnorkuvopnum Bandaríkjanna gegn Kínverjum, fór Nixon forseti í fræga samningaför til Kína.  


mbl.is Auknar líkur á að Bandaríkin beiti hervaldi gegn N-Kóreu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svandís gæti orðið til taks.

Það hefur komið fyrir að umhverfisráðherra hafi vikið sæti þegar kveða þurfti upp úrskurð í erfiðu og umdeildu virkjanamáli. 

Það var þegar kveða þurfti upp úrskurð um svonefnda Norðlingaölduveitu, en sú virkjun hafði áhrif á Þjórsárve og hefði átt að heita Þjórsárfossavirkjun vegna þess að í raun átti að taka vatn af þremur stórfossum ofarlega í Þjórsá og veita Þjórsá austur í Þórisvatn. 

Siv Friðleifsdóttir taldi sig vanhæfa til að kveða upp úrskurðinn vegna ummæla um Þjórsárver, sem hún hefði látið falla, að manni skildist. 

Jón Kristjánsson tók lokameðferð málsins að sér og reyndi eins og hann gat að milda áætlanir Landsvirkjunar, sem var í raun ekki hægt. 

Nú heitir sams konar hugmynd Kjalölduveita og er jafn misvísandi og Norðlingaölduveita var. 

Ef virkjanasinnar reyna að bregða fæti fyrir Guðmund Inga Guðbrandsson á þeim forsendum að vegna mikillar þekkingar sinnar á málum, sem koma á borð hans, kunni hann að vera vanhæfur í einhverju tilteknu máli, þarf ekki að fara langt til að finna annan ráðherra til að fara í það mál, sem var umhverfisráðherra á árunum 2009 til 2013. 

Það er Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra. 


mbl.is Pólitískur ráðherra, ekki fagráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einokun er ávallt varasöm.

Í fyrirsjáanlegri framtíð verða Keflavíkurflugvöllur og Leifsstöð með algerlega ráðandi aðstöðu varðandi flugflutninga til og frá landinu, á þriðju milljón farþega árlega. 

Þessi staða er og verður svo yfirþyrmandi, að hún verður ígildi einokunar. 

Einokun er ávallt varasöm, því að í slíku ástandi felst tilhneiging til geðþóttaákvarðana. 

Dæmi um langvarandi einokun á einu sviði þjónustu voru árin 1930-1986, þegar RÚV hafði algera einokun á markaði ljósvakamiðla. 

Ein rökin fyrir því að stórhækka stæðisgjöld við Leifsstöð eru þau, að vegna stóraukinnar umferðar og fjölgunar bílastæða þurfi að hækka gjöldin. 

Þetta eru fáránleg rök, því að stórfjölgun bíla ein og sér veldur veldur jafnharðan stórauknum leigutekjum.  Og hagkvæmni stærðarinnar ætti að greiða fyrir lækkun gjalda en ekki hækkun. 

Frægt var í hitteðfyrra þegar eytt var 30 milljónum króna í myndband til að sýna á árshátíð Isavia. Ef fleira er í þeim dúr í rekstrinum er ekki furða þótt það verði að hafa allar klær úti til að herja á pyngjur viðskiptavinanna. 

Þegar ég fór síðast til útlanda, á ráðstefnu í Hollandi, í október, var leigan fyrir stæði bíls okkar hjóna við Leifsstöð sem nam meira en helmingi af leigunni á hótelinu sem við gistum á í Hollandi. 


mbl.is 440 þúsund á dag fyrir bílastæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband