Færsluflokkur: Bloggar
16.2.2014 | 20:36
Einstakt viðtal á löngum og farsælum ferli.
Ég er ekki hissa á því að að Gísil Marteinn Baldursson skrifi "Vá. Þetta var furðulegt," eftir viðtalið sem hann tók við forsætisráðherra í dag. Gísli Marteinn á að baki langan og farsælan feril sem fréttamaður og þáttagerðarmaður og stjórnandi í sjónvarpi og hans stíll hefur verið að laða fram þægilega og upplýsandi stemingu í viðtölum sínum.
Þeir eru ef til vill til, sem hafa gaman af snerrum og hanaslag og finnst hann kannski hafi verið of "kammó" og vinalegur í viðtölum sínum frekar en hitt og kannski ekki alltaf verið með nógu gagnrýnar spurningar, en á móti kemur að stundum fæst meira út úr viðtölum þegar aðferð Gísla er beitt en þégar þau þróast út í karp og nöldur sem litlu skila.
Ekki var að sjá í fyrstu í dag að þetta viðtal yrði öðruvísi en önnur viðtöl sem Gísli hefur tekið en það fór fljótlega að taka aðra stefnu og varð að lokum viðtal að endemum.
Strax í upphafi varð forsætisráðherrann óánægður með það að Gísli Marteinn skyldi vitna í orð hans um óánægju með stefnu og störf Seðlabankastjóra og tengja það við fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar um að skipa tvo bankastjóra við hlið hans, ráða raunar þrjá bankastjóra.
Sigmundur Davíð sakaði Gísla Martein um að "gera sér upp skoðanir" og tönnlaðist á því það sem eftir var viðtalsins. Skipti engu máli, þótt GM þyrfti að lesa tilvitnanirnar og vitna í þær aftur og aftur, SDG var búinn að slá því föstu að Gísli Marteinn og aðrir væru sífellt að gera sér upp skoðanir.
Gísli Marteinn vitnaði réttilega í eyjuna.is til að fá álit forsætisráðherra á frétt þar um ráðningu tveggja nýrra Seðlabankastjóra við hlið Más Guðmundssonar og minnti að sjálfsögðu á það að á eyjunni.is hefðu oft verið réttar fréttir sem hefðu greinilega haft góðar heimildir í framsóknarflokknum, af því að stjórnendur eyjunnar væru framsóknarmenn.
Úr því sprettur karp um eyjuna og þá spyr Sigmundur Davíð Gísla skyndilega: "Hvaða álit hefur þú á Fréttablaðinu?"
Sem sagt, allt í einu hefur viðtalið snúist við og forsætisráðherrann leggur spurningu út í hött fyrir spyrjandann, sem kemur trúverðugleika fréttar á eyjan.is ekkert við !
Þarna varð vendipunktur í viðtalinu þar sem SDG snýr því upp í karp, ekki bara um umræðuefnið, heldur líka um það hvor þeirra sé spyrjandi og stjórnandi viðtalsins og hvor ekki.
Margt mætti nefna, en sem dæmi um það hvernig reynt er að snúa málum á haus er sú fullyrðing að skipan Más Guðmundssonar á sínum tíma hefði markað þáttaskil í skipan Seðlabankastjóra hvað varðaði það að vera gersamlega pólitísk af því að formlega tók Már við af norskum efnahagssérfræðingi.
Þessu var þveröfugt farið, að fram að 2009 hafði pólitískum gæðingum verið raðað hverjum á eftir öðrum í þetta embætti, því að á undan Norðmanninnum voru Davíð Oddsson, Birgir Ísleifur Gunnarsson, Finnur Ingólfsson og Steingrímur Hermannsson Seðlabankastjórar, - enginn þeirra hagfræðimenntaður, en það hafa þó síðustu tveir Seðlabankastjórar verið.
Ráðning norsks manns í starfið var neyðarredding 2009 eins og margt sem þurfti að gera veturinn 2008-2009.
En sem fyrst þurfti að ráða íslenskan mann sem Seðlabankastjóra vegna lagaákvæða um að embættismenn íslenska ríksins séu Íslendingar og þegar Már Guðmundsson var valinn, var ekki dregið í efa að faglega var ekki hægt að efast um hæfni hans, menntun og reynslu. Ja, nema menn vildu fara í gamla farið og fá aftur einhvern úr pólitíkinni á borð við Davíð Oddsson, Finn Ingólfsson eða Birgi Ísleif Gunnarsson.
Það varð jú að ráða eitt stykki Seðlabankastjóra og því út í hött hjá Sigmundi Davíð að leggja það að jöfnu við það að breyta lögunun núna með því að ráða þrjá menn.
Spurning Gísla Marteins um það hvort Seðlabankinn sé ekki að sinna lögbundnu hlutverki sínu með því að skoða áhrif "stærstu skuldaleiðréttingar heims" eins og forsætisráðherra hefur hana, var fyllilega réttmæt og engin ástæða til þess að fara í fýlu út af henni.
Sigmundur Davíð sagði beinum orðum í viðtalinu að Seðlabankinn hefði fyrst átt að skoða önnur umbeðin atriði, og einkennilegt var að Gísli Marteinn skyldi aftur og aftur þurfa að minna forsætisráðherrann á orðið "óumbeðið" í ræðu hans á Viðskiptaþingi.
Út úr þessu kom þó, þótt það væri ekki sagt beinum orðum, að ríkisstjórnin teldi sig eiga að ráða því í hvaða röð Seðlabankinn sinnir viðfangsefnum sínum.
Lokaorð Sigmundar Davíðs og þar með síðustu orðin í þættinum voru alveg dæmalaus í sögu ríkisútvarpsins, þegar hann segirvið Gísla: "Þú stóðst þig ágætlega og sannaðir að þú værir ekki að tala fyrir ríkisstjórnina."
Með þessum orðum er gefið í skyn að Gísli Marteinn hefði í pólitískum forsendum komið beint úr borgarpólitík annars ríkisstjórnarflokkanna og verið ráðinn inn í eigin þátt í sjónvarpi sem fylgismaður ríkisstjórnarinnar, en að hann hefði (greyið) verið að reyna að þvo það af sér í þættinum.
Ég hef áður skrifað um það hér á blogginu að miðað við frammistöðu Gísla Marteins í hátt í hundrað sjónvarpsþáttum og feril hans á fréttastofunni þar á undan hefði ráðning hans nú til baka til sjónvarpsins verið fyllilega eðlileg og réttmæt.
Þess vegna voru þessi lokaorð forsætisráðherra ómakleg og á lágu plani.
Ég var samstarfsmaður bæði Gísla Marteins og Sigmundar Davíðs á fréttastofu RUV á sínum tíma og líkaði mjög vel við þá báða.
Sigmundur Davíð var skemmtilegur og klár vinnufélagi, gerði ýmsar frumlegar og skemmtilegar fréttir og gerði síðar afar góða hluti með brautryðjenda í að miðla upplýsingum um gildi gamalla húsa og borgarhverfa. Því verki hans er vert að halda á lofti.
Hann gerði líka góða hluti í Indefence hópnum og það hefur fylgt honum ferskur blær síðan hann kom inn í íslenska pólitík Hrunveturinn mikla.
En mér finnst leitt hve hann hefur færst upp á síðkastið í þá átt í rökræðum eða öllu heldur karpi, sem við urðum vitni að í dag.
Þessi stíll er byrjaður að verða honum fjötur um fót og hefur skilað eftirminnilegum nýyrðum eins og "óhefðbundinn þingmaður" sem "hugsar upphátt" og fleiri slíkum ummælum sem skaða hann í stað þess að styrkja.
![]() |
Vá. Þetta var furðulegt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 17.2.2014 kl. 12:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (35)
16.2.2014 | 15:17
Norskt vegakerfi er einstakt.
Í níu ferðum mínum um Noreg þveran og endilangan, allt frá Líðandisnesi, syðsta odda landsins, norður til Alta og þaðan austur og suður til Finnlands, hefur blasað við að séum við Íslendingar undrandi á mörgu í okkar vegakerfi, er það hátíð miðað við það sem er í Noregi.
Eina stefnumótunin sem maður hefur getað séð er sú, að malbika fyrst allt vegakerfið eins og það leggur sig áður en farið var í breikkun og bætingu vega.
Fyrir tíu árum, áður en lengstu veggöng veraldar voru opnuð á nyrstu leiðinni milli Oslóar og Björgvinjar, var það því undrunarefni að á þáverandi aðalleið, í gegnum Þelamörk, þurfti á nokkrum stöðum að aka yfir einbreiðar brýr og þræða svo þrönga og krókótta vegi hundruðum kílómetra saman, að varla var hægt að mæta stórum bílum.
Þarna var um að ræða þjóðleið á milli tveggja staða með samtals sjö sinnum fleiri íbúa en alla íbúa Íslands.
Stór hluti af helstu þjóðleiðum landsins er enn með 50 kílómetra hámarkshraða.
Á leiðinni norður til Alta kom í ljós að áætlun um 14 daga akstur kolféll, því að eftir þá daga átti eftir að aka alla leiðina til baka.
Langfjótfarnasta leiðin milli Oslóar og Alta liggur fyrst í öfuga átt til austurs um þvera Svíþjóð, síðan norður eftir því landi endilöngu yfir til Finnlands og þaðan til baka til Alta, miklu fljótkeyrðari leið en að fara eftir Noregi sjálfum.
Nyrsti hluti E6 leiðarinnar frá Osló til Gautaborgar og fram til Skáns og Danmerkur er með aðeins eina akrein fyrir fólksbíla, hin er fyrir rútur.
Íslendingur einn sem ók í fyrsta sinn eftir norskum þjóðvegi, nánar tiltekið frá Osló til Þrándheims, fékk 14 hraðasektir á leiðinni. Boðskapurinn fyrir Íslending í akstri eftir norskum þjóðvegum er einfaldur: Slappaðu af!
Erlendur staðall fyrir því að breikka venjulegan veg upp í 2+1 er 15 þúsund bíla umferð á dag. Til samanburðar er umferð um Álftanesveg 6 þúsund bílar á dag og því hvergi nærri komið að því að brekka þann veg, enda er 21 sambærilegur vegarkafli á höfuðborgarsvæðinu með hærri slysatíðni.
Fróðlegt verður að sjá hvað Reynir Jóhannesson gerir í stefnumótun fyrir samgöngumálum í Noregi. Vonandi felst það ekki í því að rjúka til að breikka alla vegi sem eru með umferð á bilinu 6-15 þúsund bílar á dag, því að verkefnin eru ærin við að laga eindæma torfarnar og miklu meira eknar helstu þjóðleiðir landsins.
Hámarkshraði á bestu vegum Noregs er 90 km/klst eins og hér, en 110 í Svíþjóð. Samt er slysatíðnin lægri í Sviþjóð.
![]() |
Draumurinn að koma að stefnumótun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.2.2014 | 11:36
Nei, hann getur það ekki.
Kosningabarátta Baracks Obama Bandaríkjaforseta 2008 var hrein markaðssnilld þar sem allar nýjustu tækninýungar á sviði auglýsingamennsku, til dæmis á netinu, voru notaðar út í hörgul.
Bandaríkin og hinn vestræni heimur voru í sárum þetta haust efnahagshrunsins og slagorðið "Yes, we can!", - "Já, við getum það!" svínvirkaði, enda flutti Obama innblásnar ræður af stakri snilld og heillaði fólk upp úr skónum.
Fljótlega eftir að Obama tók við völdum fór að halla undan fæti hjá honum og hið spillandi umhverfi bandarískra stjórnmála og það umhverfi sem Bandaríkjaforseti lifir í í Washington að ná meiri og meiri tökum á honum.
Nefna má mörg dæmi um þetta en kannski er nóg að nefna sífellda hækkun skuldaþaks bandaríska ríkisins sem lýsandi dæmi um það hvernig gríðarlegum vanda er velt á undan sér með því að sætta sig við að hann verði sífellt stærri og stærri.
Nú síðast hefur Bandaríkjaforseti orðið uppvís að því að setja nýtt met meðal vestrænna þjóðarleiðtoga varðandi víðfeðma árás á frelsi og friðhelgi einkalífsins og hlerar meira að segja og njósnar um nánustu erlenda vini og bandamenn sína í hópi þjóðarleiðtoga.
Nýjasta metið í að veita sendiherrastöður til að borga fyrir peningaaðstoð auk alls annars, sem á undan er komið, er að snúa kjörorðinu "Já, víð getum það!" varðandi það að uppræta spillingu og ná árangri, upp í andstæðu sína: "Nei, við getum það ekki!"
Obama, hvílík vonbrigði. Nei, hann getur það ekki, því miður.
![]() |
Gerði grín að verðandi sendiherra á Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.2.2014 | 18:57
Þótt fyrr hefði verið.
Egil Ólafsson hefur oft lag á að orða hlutina skemmtilega. Á samkomu fyrir nokkrum dögum sagði hann að líklega værum við Íslendingar enn á sama stigi og við landnám og ekki komnir lengra en það.
Það er talsvert til í þessu. Víkingaöldin ýtti undir dýrkun á því að sölsa undir sig verðmæti með hverju því ofbeldi sem tll þess þurfti, "....Standa uppi í stafni, / stýra dýrum knerri / halda svo til hafnar / og höggva mann og annan."
Rannsóknir hafa leitt í ljós að á fyrstu öldum Íslandsbyggðar var stunduð einhver stórfelldasta rányrkja gagnvart landi sem dæmi eru um í heiminum, þegar skógar og kjarr landsins voru hoggin svo mjög að Ara fróða þótti ástæða til þess að geta þess sérstaklega að land hefði verið viði vaxið milli fjalls og fjöru þegar landið var numið.
Sama hugarfar fór langt með sjávarauðlindina þegar kjörorðið var "togara inn í hvert þorp," og aflakóngstitillinn var eftirsóknarverðasti titill landsins.
Enn meiri græðgi fór í gang með því að skapa nokkurs konar stóriðjutrúarbrögð hér á landi þar sem "orkufrekur iðnaður" varð að skurðgoði og sent bænarbréf til helstu orkubruðlara heims 1995 um að kaupa af okkur "ódýrustu orku í heimi" með "sveigjanlegu á umhverfisárhrifum eftir þörfum."
Þegar fyrsta álverið var reist í Straumsvík var því veifað að rísa myndi stórkostlegur úrvinnsluiðnaður við hlið álversins og þess vegna væri aðalatriðið að hafa orkuverðið eins lágt og þyrfti til að selja orkuna, skítt með það hvort tap yrði á sölunni.
50 árum seinna bólar ekkert á þeim stórbrotnu verksmiðjuhverfum, sem áttu að rísa til að vinna úr álinu, enda er það svo, að erlenda verksmiðjan, sem framleiðir þakplötur úr áli, sem selur okkur mest af slíkum plötum, framleiðir fyrir allar þarfir Íslendinga á hálfum degi og nýtur hagkvæmni stærðarinnar.
Það var því löngu mál til komið að komast út úr græðgisfíkninni og bruðls-hugsunarhættinum sem ráðið hefur ríkjum, og taka upp vinnubrögð verðmætaaukningar eins og Hörður Arnarson stóð fyrir meðan hann stýrði fyrirtækinu Marel.
Ég spurði Egil Ólafsson um einfalt dæmi um þennan hugsunarhátt og hann sagði mér frá því að fyrir skemmstu hefði hann séð mann einn leggja 400 hestafla pallbílsdreka í tvö bílastæði í miðbænum, fara út úr bílnum og reka erindi sín í hálftíma með bílinn í gangi allan tímann.
Ef einhver hefur séð hliðstæðu í erlendri borg er hann beðinn um að gefa sig fram.
![]() |
Trúir á tvöföldun í orkuiðnaði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
15.2.2014 | 13:25
Ný mynd af Íslandi blasir við, því Akureyri er VBS.
Stundum er talað um að Ísland sé orðið borgríki með einni borg og landsbyggð umhverfis. Þetta má draga í efa miðað við nýjustu sýn manna á það hvað sé hægt að skilgreina sem borg.
Alþjóðlega er notað hugtak undir heitinu FUA, sem er skammstöfun fyrir Functional Urban Area, eða VBS á íslensku, Virkt Borgar Samfélag.
Til að falla undir það hugtak verður að uppfylla eftirtalin skilyrði:
Þéttbýli með meira en 15 þúsund íbúa.
Ferðatími frjá jaðri samfélagsins inn til miðju þess innan við 45 mínútur.
Samkvæmt þessu er Ísland borgríki með tveimur borgarsamfélögum og landsbyggð umhverfis.
Annars vegar Reykjavíkursvæðið frá Sandgerði og Borgarnesi í vestri til Þjórsár í austri -
- og hins vegar Akureyrarsvæðið frá Öxnadalsheiði í vestri til Lauga í Reykjadal í austri og frá Ólafsfirði í norðri til botns Eyjafjarðardals í suðri.
Hella og Bifröst eru rétt við jaðar VBS Reykjavíkur, - og Siglufjörður, Húsavík og Mývatn rétt við jaðar VBS Akureyrar.
Og vegna þess að innan við 45 mínútur tekur að fara í flugi á milli miðju Akureyrar og miðju Reykjavíkur eru þessi tvö svæði á mörkum þess að vera eitt Virkt Borgar Svæði. Sem styður það enn frekar að Akureyri sé virkt borgarsamfélag.
Í starfi stjórnlagaráðs lagði ég mikið upp úr því að leggja þessa nýju sýn til grundvallar, því að hún gerir úrelt mörg af ríkjandi viðhorfum til kjördæmaskipanar og fleiri mikilvægra þátta og tefur fyrir því og torveldar að unnið sé á raunhæfan hátt úr viðfangsefnum nýs tíma.
Það er auðvitað út í hött að tala um þorpið Voga á Vatnsleysuströnd sem "landsbyggð" og fráleitt að Vogar eigi sameiginlega landsbyggðarhagsmuni með Höfn í Hornafirði.
![]() |
Akureyri þenst út - MYNDIR |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.2.2014 | 02:33
Það er munur eða hér heima.
Oftast eru janúar og febrúar með flestu og mestu vetrarveðrin hér á landi, stundum nær samfleytt eins og í hitteðfyrra.
En í ár hafa íbúar á austurströnd Bandaríkjanna orðið að taka þetta á sig og ljósmyndir sem birtast í fréttum fjölmiðla sýna ástand sem við erum vönust á þessum árstíma.
Á sama tíma sem hitinn er vel yfir meðallagi hér viku eftir viku og á sunnan og vestaverðu landinu hefur veður verið með eindæmum hagfellt.
Læt flakka með myndir sem teknar voru um miðnæturskeið á við tunglsljós á leiðinni frá Ólafsvík til Reykjavíkur.
Efri myndin er tekin rétt fyrir vestan Borgarnes og Hafnarfjallið er í baksýn, en nær er sá flötur jarðarinnar sem bílljósin lýsa upp.
Neðri myndin er tekin yfir Hvalfjarðarmynnið í átt að Esjunni, Kjalarnesi, Reykjanesfjallgarðinum og austurhluta Reykjavíkur.
Það er ekki ónýtt að aka um fagrar slóðir í dimmasta skammdeginu og njóta landslagsins eins og um bjarta sumarnótt væri að ræða. Ís-land hvað?
![]() |
Miklar vetrarhörkur vestanhafs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.2.2014 | 01:55
Ósnertanlegt forneskjuland.
Sádi-Arabía er land gríðarlegra andstæðna, hvað þjóðlíf og kjör þegnanna snertir. Leitun er að landi þar sem þvílíkt alræði spilltra valdahafa ríkir og þjóðlífið er njörvað niður í forneskjulegar viðjar misréttis og kúgunar kvenna. Við samanburðinn blikna léleg réttindi samkynhneigðra í Rússlandi, sem svo mikið hefur verið rætt um að undanförnu.
Hvers vegna fer "arabíska vorið" alveg fram hjá Sádi-Arabíu? Hvers vegna er ekki bullandi ólga í landinu?
Af því að það eru til nógir peningar til að kaupa hvað sem þarf til að hafa alla góða í anda rómversku keisaranna sem héldu völdum með því að útvega tvennt; brauð og leiki.
Svarið er sem sé sígilt og einfalt: Sádi-Arabía er og hefur verið langríkasta olíuríki heims, svo ríkt, að í lymskulegri samvinnu við Bandaríkjamenn tókst Sádunum að leggja stærsta skerfinn að því að fella Sovétríkin á sínum tíma og knýja þau til taps í Kalda stríðinu, einfaldlega með því að auka framboð á olíu og verðfella hana, en slíkt þoldi olíuframleiðslulandið Sovétríkin alls ekki.
Þegar krónprinsinn í Sadi-Arabíu fer á skíði í Klettafjöllum, tekur hann heilt hótel á leigu, þyrlur, limmósínur og herskara aðstoðarfólks, og hverfið þar sem hann býr er umgirt öryggisgirðingu.
Ofurjeppaelskendurnir Bandaríkjamenn hneykslast en láta gott heita því að þeir verða að hafa Sádana góða.
Við lifum á síðustu árum gróðæris olíualdar og allir beygja sig fyrir olíuguði þeim sem eru heimstrúarbrögðin núna í raun.
Kínverjar láta í raun gott heita að Bandaríkjamenn hafi tekið að sér að standa straum af því að vera alheimslögregla olíuvaldsins og ráðast inn í hvert það ríki, sem ógnað geti jafnvæginu sem tryggir jafnan straum svarta gullsins um allan heim.
Sádarnir eru "hinir ósnertanlegu" okkar tíma.
![]() |
Kaupa rauðar rósir í laumi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.2.2014 | 12:26
"Dagur elskendanna", með sínu lagi.
Sumum þótti það óþarfi fyrir rúmum aldarfjórðungi þegar Valdís heitin Gunnarsdóttir fór að fjalla um Valentínusardaginn og halda honum á lofti á Bylgjunni, fannst ekki við hæfi að taka upp "bandarískan hátiðisdag".
Fyrirbærið er þó alþjóðlegt og flestir íslenskir hátíðisdagar eru komnir til okkar frá útlöndum.
Hann hefur fyrir tilviljun verið markverður í mínu lífi vegna þess að ég hitti lífsförunaut minn 14. febrúar 1961 og við höfum haldið upp á hann æ síðan, þó lengst af án þess að vita af því að þetta væri Valentínusardagurinn.
Á hálfrar aldar afmæli fyrstu kynna okkar gerði ég lag og ljóð undir heitinu Dagur elskendanna og fékk Edgar Smára Atlason og Vilhjálm Guðjónsson til að renna því inn á disk. Syng það reyndar sjálfur æði oft á skemmtunum og stefni að því að gera það í kvöld.
Sendi öllum elskendum árnaðaróskir með því.
DAGUR ELSKENDANNA.
Með sínu lagi.
Þetta er dagurinn okkar sem eigum við nú
þegar örlögin réðust og ást, von og trú
urðu vegvísar okkar á ævinnar braut
gegnum unað og mótbyr, í gleði og þraut.
Þú varst hamingjusólin og heilladís mín
og ég hefði aldrei orðið að neinu án þín.
Ég í fögnuði þakka þegar faðmarðu mig
að hafa fengið að lifa og elska þig.
Og til síðasta dags, ár og síð hverja stund
þá mun sindra björt minning um elskenda fund.
Ég við ferðalok þakka, - straumur fer þá um mig, -
að hafa fengið að lifa og elska þig, -
að hafa fengið að lifa og elska þig.
![]() |
Krúttdagur þar sem allir eru góðir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.2.2014 | 22:06
"Eitthvað annað" kemur ekki til greina.
Eina áþreifanlega einróma stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar er að reisa álver í Helguvík. Það virðist eina framtíðarsýnin, að stunda mesta mögulega orkubruðl með yfirgengilegum náttúruspjöllum á hálfu landinu og eyða fé í langdýrustu störf sem hugsast getur, því að sköpun hvers starfs í álveri kostar mörg hundruð milljónir króna.
Einn maður, Baltasar Kormákur, segist geta komið með milljarð inn í landið með sér í tengslum við gerð einnar kvikmyndar. Tveir menn sköpuðu með hugviti sínu CCP sem skapar meiri gjaldeyristekjur en nemur launum allra starfsmanna í álverum Íslands.
Munurinn á íslenskum fyrirtækjum í skapandi greinum, sem færa arðinn inn í landið er sláandi miðað við álverin, þar sem arðurinn rennur til erlendra fyrirtækja.
En svona lagað hefur verið skipulega talað niður og kallað í fyrirlitngartóni "eitthvað annað" af því að það að einn eða örfáir menn geti skapað svona mikinn auð ógnar stóriðjustefnunni sem ekkert lát virðist á.
Þar að auki örlar ekki á því að landið verði leyst úr gjaldeyrishöftum vegna þess að krónan þolir ekki að bátnum sé ruggað. Gott dæmi um það að fyrirtæki, reist á hugviti, verði að fara úr landi, var síðast í fréttunum í gær.
Enn virðist það svo að sé það eitthvað annað en stóriðja sé það að engu hafandi. Trúin á "orkufrekan iðnað" sem það eina, "sem geti bjargað landinu" hefur verið gerð að þjóðartrúarbrögðum síðan 1965.
Baltasar Kormákur, Benedikt Erlingsson og Friðrik Þór Friðriksson gagnrýna íslensk stjórnvöld harðlega fyrir þröngsýni sína undanfarinn áratug varðandi möguleika kvikmyndagerðarinnnar, en það er eins og að skvetta vatni á gæs.
![]() |
Íslensk kvikmyndagerð á krossgötum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
13.2.2014 | 16:14
Allt hefur sín takmörk.
Þorp, bæir og borgir verða ekki til bara hvar sem er heldur liggja til þess nokkrar ástæður. Nefna má þrjár:
1. Samgöngur. Grunnforsenda þéttrar byggðar, til dæmis þar sem eru góð hafnarskilyrði og krossgötur. Dæmin eru hafnarplássin á Íslandi hvað varðar siglingar og sem dæmi um krossgöturnar má nefna raðirar Reykjavík-Hveragerði-Selfoss-Hella-Hvolsvöllur, og Blönduós-Varmahlið, Akureyri, Reykjahlíð-Egilsstaðir. Á sumum stöðum eru flugvellir partur af krossgötunum. .
Stundum er þetta blanda af höfnum, landsamgöngum og samgöngum í lofti, krossgötum, eins og Akureyri, Stykkishólmur, Sauðárkrókur, Stokkhólmur, Osló, Kaupmannahöfn, Þrándheimur, New York, eða hreinar krossgötur á landi eins og Óðinsvé, Berlín, París eða Brussel.
2. Ríkisstýrð þjónusta og menning. Höfuðborgir landa njóta margar góðs af þessu. Frjáls verslun og þjónusta dregst víðast að krossgötum, en ríkisstýrð starfsemi hefur meira svigrúm.
3. Nýting og framleiðsla hráefnis. Fiskiafnirnar á Íslandi eru gott dæmi um slíkt.
Nú er uppi mikil hreyfing til þess nauðsynjamáls að þétta byggð til að spara kostnað við samgöngur og var síðast í gær verið að sýna dæmi um 900 íbúðir, sem hægt er að koma upp víðs vegar um Reykjavík í því skyni.
Í því efni gildir þó það að allt á sín takmörk og þar getur gilt gamla dæmisagan um þráðinn að ofan hjá köngulónni, sem kom eftir honum og spann vef sinn út frá honum.
Í framhaldi af kvikmyndinni um Walter Mitty er rétt að árétta það að í fiskibæjum á Íslandi felast ekki aðeins menningarverðmæti heldur nú orðið beinir peningahagsmunir af ferðamennsku.
Þegar útlendingar hafa verið á ráðstefnum í Reykjavík yfir helgi og ekki haft tíma til að fara Gullna hringinn hef ég nokkrum sinnum boðið upp á "Silfurhringinn", Reykjavík-Kaldársel-Krýsuvík-Grindavík-Bláa lónið-Eldvörp-Keflavíkurflugvöllur, en meðal þess sem útlendingum finnst merkilegt í þessum hring er höfnin í Grindavík, Eldvörp og Árnastigur, sem ekki er að finna í Gullna hringnum.
Töfrar hafnarinnar í Grindavík og annarra hafna á Íslandi felast í því að allt, bæði smátt og stórt við þessar hafnir, hefur þjónað sama tilgangi frá upphafi, að vera samgöngumannvirki fyrir siglingar sem færa landsmönnum björg í bú. Þær eru sem sagt merki um lífsbaráttu þjóðarinnar úti við ysta haf, sem útlendingum finnst afar heillandi að fræðast um. .
Þess vegna verður að fara gætilega í það að fara að bera þessa mynd ofurliði við hafnir með annars konar mannvirkjum, ef þau trufla grunnstarfsemi hafnanna.
Þetta er að sjálfsögðu matsatriði en þegar huganum er rennt yfir hafnir á Íslandi minnist ég þess ekki að hafa neins staðar séð íbúðablokkir alveg niðri við sjó í þeim miðjum, hvað þá að þegar eru upp áform um stærðar hótel á sama svæði.
Gamla Reykjavíkurhöfnin hefur töfra, sem Sundahöfn er gersneydd. Það verður að tryggja að þeim töfrum sé ekki raskað.
![]() |
Íbúðir og fiskur fara ekki saman |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)