Heillandi áhættusport eins og margt annað.

Bjargsig er heillandi sport og áhættan á ekki að vera meiri en í mörgum íþróttagreinum. En engin keðja er sterkari en veikasti hlekkkurinn, sem í þessu tilfelli var það hluti vaðsins, sem sigmaður var í utan í fjallinu Rit.

Í flugvél eru margir hlutir sem eru smáir en allt flugið hangir samt á. Á fyrstu flugvélinni sem ég átti, var bolti sem hélt vængstoð.  Ef boltinn gaf sig losnaði stoðin og vængstoðin þar með.

Ef vængstoðin losnaði rifnaði vængurinn af flugvélinni. Þetta gerðist í Bandaríkjunum og í ljós kom, að skoða þurfti sérstaklega alla svona bolta á flugvélum af þessari gerð til þess að koma í veg fyrir að þetta gerðist aftur.

Á Vestfjörðum eru þrjú stærstu fuglabjörg Evrópu auk annarra smærri. Fjallið Ritur milli Aðalvíkur og Ísafjarðardjúpgs er stórt um sig og skiptist í nokkra hluta. Einn þeirra er Darri, nokkurn veginn á miðju fjallinu.

Uppi á Darra eru leifar af ratstjárstöð Breta frá stríðsárunum. Þegar ég kom þangað upp 1990 stóðu þar tvær loftvarnarbyssur.  Önnur þeirra var það ryðguð að aðeins neðri helmingurinn var heillegur, en hin stóð enn í heilu lagi og miðaði út á Grænlandssund, rétt eins og aftur væri von á Bismark og Prinz Euegen í hinni frægu ferð "Rheinubung" sem endaði með því að Bismarck sökkti Hood, flaggskipi breska flotans, en en varð síðan sjálfur að lúta í vota gröf út af Biskayaflóa eftir eftirför breska flotans.

Í myndinni "Brúarjökull og innrásirnar í Ísland" sem ég hef verið með í smiðum í rólegheitum, veldur tilvist Sauðárflugvallar og yfirráða Þjóðverja yfir honum því að þessi sjóorrusta færist til bæði í tíma og rúmi og verður mun dramatískari.

En nóg um það í bili. Hornstrandafriðland býr yfir ómældum töfrum. Ég læt mig dreyma um það að endurnýjaðar verði loftvarnabyssurnar á Darra til þess að heilla ferðamenn, sem ganga þangað upp.

Því miður hefur stríðsárasagan verið vanrækt hér á landi en það er vonandi að breytast.


mbl.is Hrapaði þegar bandið slitnaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég var á togara fyrir nokkrum árum, og við toguðum mikið milli Íslands og Grænlands.

HMS Hood var merktur inn á tölvukortið, og óæskilegt að fara of nærri honum. Allt fullt af skotfærum og svo járnarusli þar í kring.

Seinna var ég á öðrum togara fyrir sunnan land, og spurði í gáska skipstjórann hvort hann hefði fengið sprengju í trollið einhvern tímann.

 Hann svaraði já, - 500 punda stykki, sem rúllaði það lengi á undan vörpunni að hún var orðin slípuð og glansandi, og slysaðist með fiskinum ofan í móttöku.

Það þurfti að stíma í land, og áhöfnin fór frá borði á meðan stykkið var gert óvirkt og fjarlægt.

Margar eru stríðsminjarnar á hafsbotni, og svo víða um hálendið.

Ef þú lest þetta Ómar, settu inn svar, - ég er með áhugaverða spurningu um afdrif á flugvél.....alvöru spæjaragáta.

Jón Logi (IP-tala skráð) 21.5.2012 kl. 16:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband