Bara á Íslandi og á mars? Æ, helst ekki !

Nefnd um skipulag miðhálendisins komst einróma að þeirri niðurstöðu að svæðið Krafla-Leirhnúkur-Gjástykki skyldi vera iðnaðarsvæði, vikjanasvæði. 

Þó er hvergi annars staðar  í heiminum hægt að sjá ósnortin ummerki um "sköpun jarðarinnar" með samtíma vitnisburðum og myndum, þ. e. hvernig Ameríka fer til annarrar handarinnar og Evrópa til hinnar en hið sjóðheita Ísland kemur upp um sprunguna sem myndast á milli meginlandsflekanna.

Og í Gjástykki er svæði sem nefnd alþjóðasamtaka um ferðir til mars valdi fyrir tíu árum sem æfingasvæði fyrir marsfara framtíðarinnar.

Hvorugt af fyrrnefndu hefur þótt nokkurs virði, heldur aðeins það að þekja þetta svæði með mannvirkjum á borð við þau sem blasa við á Hellisheiði.

Menn hafa gert góðlátlegt gys að hugmyndum mínum um friðun svæðisins Leirhnjúkur-Gjástykki til jafns við friðun Öskju, sem þó er enn á borðum virkjunarfíkla og áltrúarmanna.

Og skrifað þriggja greina ritröð í Morgunblaðið um nauðsyn þess að fara þarna inn með borana og leggja vegi, gufuleiðslur og háspennulínur og reisa stöðvarhús og skiljuhús.  

Ef einhver hefði sagt árið 1957 að tunglfarar ættu eftir að koma í Öskju til æfinga eftir tíu ár, hefði það verið hlegið í hel. Og ef virkjanafíklar nútímans hefðu þá verið uppi með svipaða möguleika til umturnunar náttúruverðmætum, hefði Askja að sjálfsögðu einróma verið negld niður sem iðnaðarsvæði, virkjunarsvæði.

Þegar ég flaug með Bob Zubrin, forsvarsmanni marsáhugamanna, norður um Kverkfjöll til Mývatnssveitar og fór síðar með nefnd marsferðasamtakanna inn í Gjástykki, var litið á fréttir um þetta sem broslegar fréttir af bulli í sérvitringum.

Skipti engu þótt tímaritið Time hefði verið með margra blaðsíðna umfjöllun og forsíðumynd um mars og marsferðir og meðal annars rætt við Bob Zubrin.  

Nú sýna tæki bandarísku geimferðarstofnunarinnar fyrirbæri á mars, sem hvergi er að finna í öllu sólkerfinu nema á Íslandi og á mars. Rímar ekki alveg við sérvitringabullið eða hugmyndir um gildi svæðisins ósnortins. 

Æ, þetta má helst ekki vitnast!  Fyrir alla muni að fara nú ekki að skemma fyrir því að gera sem flest, helst öll háhitasvæði Íslands að virkjanasvæðum!    


mbl.is Magnaðar myndir frá Mars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ekki viljum á því græða,
á ýmsu hægt að tapa,
almáttugur, en sú mæða,
Ómar enn að skapa.

Þorsteinn Briem, 24.3.2013 kl. 23:50

2 identicon

Aðeins fundist á Mars og Íslandi, ætli það finnist þá Íslendingar á Mars?

Stebbi (IP-tala skráð) 29.3.2013 kl. 09:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband