Enn er órætt um hlutverk varaflugvallar.

Enn er eftir að ræða um mörg atriði varðandi Reykjavíkurflugvöll. Til dæmis hefur ekkert verið minnst á hlutverk vallarins sem varaflugvallar.

Mismunurinn á Íslandi og öðrum löndum er sá að Ísland er lítil eyja langt frá öðrum löndum, en í öðrum löndum er völ á tugum eða jafnvel hundruðum varaflugvalla án þess að það þurfi að fljúga meira en 1300 hundruð kílómetra til að lenda á þeim.

Á Íslandi er Reykjavíkurflugvöllur varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll ásamt Egilsstöðum og Akureyri.

Höfuðkostur Rvíkurflugvallar er sá hvað hann er stutt frá Keflavík og að þar eru veðurskilyrði betri að meðaltali en í Keflavík. Keflavíkurflugvöllur er berskjaldaður fyrir þeim röku loftmössum, sem helst loka flugvöllum á sunnaverðu landinu og koma úr sunnanáttum.

En Reykjavíkurflugvöllur nýtur þess að Reykjanesfjallgarðurinn tekur oftast mestan rakann úr þessum loftmössum og því eru skilyrði þar betri hvað heildina varðar á hverju ári.

Á Akureyri eru aðflugsskilyrði erfið vegna fjalllendis og Egilsstaðaflugvöllur með betra aðflug.

En ef Reykjavíkurflugvöllur er lagður niður, kostar það 340 kílómetrum lengra flug frá Keflavík að fljúga þangað en til Reykjavíkur. Það þýðir aukið eldsneyti sem því nemur í hverju flugi og það veldur ekki aðeins auknum kostnaði, heldur verður þá í mörgum tilfellum  að henda út farþegum eða farangri og fragt.

En mestu varðar það, að það er hið mesta óráð að fækka nothæfum millilandaflugvöllum á landi sem hefur jafn fáa slíka og er svo fjarri varaflugvöllum og Ísland er.  


mbl.is Yfir 60.000 undirskriftir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Ómar. Flugvöllurinn getur varla verið til gagnrýnnar umræðu, án þess að allar hliðar málsins séu teknar í umræðutímunum, og af reynslumiklu, traustu og hæfu fólki á öllum sviðum?

Þú ert nú óumdeilanlega reynsluríkur kunnáttu-flugmaður. En málið á sér margar hliðar, eins og öll önnur mál.

Það vantar umræðuþætti með heiðarlegu, hlutlausu, reynslu/kunnátturíku fólki, um allar hliðar málsins, til staðar samtímis. Hvers vegna er ekki hægt að koma slíkum umræðuþáttum í útsendingu hjá fjölmiðlum?

Þeir vita það víst mjög vel, sem eitthvað vita um flug, að Hólmsheiðin er ísingarstaðsetning, sem ekki nýtist nema stuttan tíma á ári. Og þeir sömu kunnáttumenn vita víst mjög vel, að þyrlusjúkraflug gengur ekki yfir vissa hæð. Og eitthvað fleira í sambandi við þyrluflug gengur kannski ekki alltaf, sem ég kann ekki að útskýra, en hef heyrt talað um.

Það væri fínt ef þú fengir að skipuleggja og stýra þáttum í fjölmiðlum, þar sem allar hliðar eru til umræðu í sömu umræðutímunum, af hlutlausu og hæfu fólki.

Það eru ekki til endalausir bankabulls-loftpeningar til að leika sér með. Eða hvað?

Það kom fram í Spegli Ríkisútvarpsins í kvöld, að spyrill/stjórnandi þess þáttar virðist ekki ennþá vita að Hólmsheiði er ísingarsvæði, sem ekki kemur til greina sem flugvöllur yfirleitt!

Til hvers er Ríkisútvarpið eiginlega?

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 29.8.2013 kl. 20:10

2 identicon

Man eftir viðtali sem Ómar tók við Koefod á sínum tíma

gott að hann er búinn að skipta um skoðun

Grímur (IP-tala skráð) 29.8.2013 kl. 20:28

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Enginn hefur ákveðið að færa Reykjavíkurflugvöll til Keflavíkur.

Hins vegar var ákveðið að færa Reykjavíkurflugvöll samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024, sem var samþykkt af borgarstjórn Reykjavíkur 18. apríl 2002.

Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024


Og vegna til að mynda fjölmargra flugslysa við Reykjavíkurflugvöll er mun betra að flugvöllurinn sé á dreifbýlu svæði eða landfyllingu á höfuðborgarsvæðinu, þar sem flugsvið Landhelgisgæslunnar yrði að sjálfsögðu einnig, og flogið þaðan með sjúklinga í þyrlu Gæslunnar á þyrlupall við Landspítalann, þegar á þyrfti að halda.

Þær undirskriftir sem komnar eru samkvæmt ofangreindri frétt eru um 25% af þeim sem voru á kjörskrá í síðustu alþingiskosningum.

Þar að auki eru þessar undirskriftir langt frá því að vera eingöngu undirskriftir Reykvíkinga og undirskriftasafnanir eru ekki kosningar, sem hafa nú þegar farið fram varðandi Reykjavíkurflugvöll.

"78. gr. Sveitarfélög skulu sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða.

Tekjustofnar sveitarfélaga skulu ákveðnir með lögum, svo og réttur þeirra til að ákveða hvort og hvernig þeir eru nýttir."

Stjórnarskrá Íslands

Ákveðið hefur verið að Landspítalinn verði áfram við Hringbraut, samkvæmt deiliskipulagi sem var samþykkt af borgarstjórn Reykjavíkur 13. desember síðastliðinn, Reykvíkingar starfa flestir vestan Kringlumýrarbrautar og þar er nú verið að þétta byggðina.

Deiliskipulag fyrir Landspítala við Hringbraut samþykkt


Og þeir sem starfa bæði og búa vestan Kringlumýrarbrautar, til að mynda á Vatnsmýrarsvæðinu, geta gengið eða hjólað í vinnuna í stað þess að fara þangað akandi, sem veldur fleiri árekstrum og slysum.

Þorsteinn Briem, 29.8.2013 kl. 20:46

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Þegar veður er slæmt eða aðstæður erfiðar er leitað til þyrluþjónustu Landhelgisgæslunnar en hún þjónar auk þess Suður- og Vesturlandi."

Svar þáverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um sjúkraflug


"Fastur kostnaður flugsviðs [Landhelgisgæslunnar] er 80-85% af árlegum rekstrarkostnaði sviðsins og að mestu óháður því hversu margar flugstundir loftfaranna eru.

Þetta þýðir meðal annars að fækkun eða fjölgun flugtímanna fer ekki að hafa áhrif fyrr en hún er orðin veruleg."

Ársskýrsla Landhelgisgæslunnar 2003, bls. 9-10

Þorsteinn Briem, 29.8.2013 kl. 21:01

5 identicon

Umræðan um Hólmsheiði er eitt alsherjar BULL,og þeir sem stungu upp á henni hafa greinilega ekkert vit á flugmálum.

Lausnin á þessu er að lengja austur-vestur brautina 300-400 metra út í Skerjafjörð, flytja flugskýlin á kostnað Reykjavíkurborgar á landfyllingu meðfram Ægissíðunni 200 metra frá flugbrautinni,á þetta væri hægt að sættast ef suðvestur norðaustur brautin fær að vera í friði, því bara hún eikur flugöryggið mikið yfir há veturinn, í brjáluðum suðvestan stórhríðum, þó hún sé ekki notuð nema 10-12 daga yfir háveturinn.Síðan þarf náttúrlega göng í Suðurgötuna undir flugbrautina, þessi lausn myndi geta minkað mikið flug yfir miðbæinn,

en allar einkaþotur til Keflavíkur.

Jón Ólafur (IP-tala skráð) 29.8.2013 kl. 21:18

6 identicon

Sæll Ómar. Nýr stuðningsaðili aflagningu Reykjavíkurflugvallar hefur nú gefið sig fram. Sá heitir Fréttastofa Ríkisútvarpsins. Glöggt mátti heyra þetta í fréttum kl 18:00 í dag. Þar var ítrekað talað um að "færa" Reykjavíkurflugvöll. Þetta er algjörlega ný merking á þessari ágætu sögn en hljómar vel í eyrum þeirra sem eru á móti vellinum. Völlurinn verður aldrei "færður", hann verður aflagður sem er rétt lýsing og rétt orð. Mikil starfsemi og fleiri hundruð störf leggjast af snögglega. Ég hef sagt það áður að ef borgin hefur svona mikla þörf fyrir fleiri blokkir, eins og svo sannarlega má reisa á flugbrautunum, þá væri þjóðhagslega hagkvæmast að reisa þær á uppfyllingum í sjó nv við borgina og jafnvel út í Akurey. Þá er hægt að byggja það svæði upp eftir því sem eftirspurn kallar á í stað þess að loka vellinum á einum degi með stórfengilegum afleiðingum og svo taki það 20-30 ár að fylla hann af blokkum.

Örn Johnson (IP-tala skráð) 29.8.2013 kl. 21:21

7 identicon

Svo var viðtal við borgarstjóra Reykjavíkur um málefni flugvallarins. Sá taldi nú ekki mikla ástæðu til þess að hlusta á skoðanir annarra en sín í þessu máli. Það að staðsetning vallarins í nágrenni við sjúkrahús, samkvæmt þeim sem stunduðu sjúkraflug, hefði bjargað mannslífum væri ekki áhlustunnarvert. Ég bendi öllum að fara inn á vef RUV og heyra þetta stórkostlega viðtal. Þar talar sko maður sem veit betur en allir aðrir. Annars var umræddur borgarstjóri rosalega óheppinn fyrr í þessari viku. Hann var spurður um þessa skoðannakönnun um flugvöllinn. Efnislega svaraði þessi maður því að hann ætlaði að sjá hvert hlutfall svaranda væri, borgarbúar/landsbyggðin. Gaf í skyn að ekki væri hans hlutverk að hlusta á skoðanir landsbyggðarinnar. Fram kom svo í sömu fréttum að meirihlutinn væri Reykvíkingar. Aumingja borgarstjórinn þinn, Ómar, en ég bý í Mos.

Örn Johnson (IP-tala skráð) 29.8.2013 kl. 21:48

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Um 54% undirskriftanna varðandi Reykjavíkurflugvöll eru frá íbúum höfuðborgarsvæðisins en ekki Reykjavíkur.

Og 64% landsmanna búa á höfuðborgarsvæðinu, frá Kjalarnesi til Hafnarfjarðar, þannig að engan veginn ætti að koma á óvart að meirihluti undirskriftanna komi frá því svæði.

Ekki ætti
heldur að koma á óvart að margir íbúar á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur vilji hafa flugvöll á höfuðborgarsvæðinu.

Einnig til að mynda margir Breiðhyltingar, Árbæingar og Grafarvogsbúar og þeir höfðu rétt á að taka þátt í kosningum um Reykjavíkurflugvöll.

Og ekki er kosið um nákvæmlega sama mál þar til einhverjir verða ánægðir með niðurstöðuna.

Þorsteinn Briem, 29.8.2013 kl. 22:41

9 identicon

Ómar, ekki má gleyma því að Reykjavíkurflugvöllur er oft eini nothæfi varavöllurinn á Íslandi fyrir millilandaflugið, og ef hann er ekki inn í myndinni þarf að nota t.d. Glaskow sem varavöll. Þyngdin á því aukaeldsneyti sem t.d B757 þarf að bera vegur um 6000 kg sé Glaskow varavöllur en ekki Reykjavík. Það kostar sitt að burðast með þann auka sopa.

Þór (IP-tala skráð) 30.8.2013 kl. 00:40

10 identicon

Hvað eru mörg ár síðan Reykjavíkurflugvöllur nýttist sem varaflugvöllur án þess að aðrir flugvellir hefðu verið jafn góðir eða betri?

Svar: frá upphafi hefur Reykjavíkurflugvöllur aldrei verið notaður sem varaflugvöllur í neyð í millilandaflugi, enda ekki nothæfur sem slíkur.  Bull flugvallarsinna á sér engin takmörk.


Bjarni (IP-tala skráð) 30.8.2013 kl. 00:48

11 identicon

Það er vitaskuld ekki rétt að Reykjavíkurflugvöllur hafi ekki nýst sem varaflugvöllur á undanförnum árum.  Þess eru mörg dæmi, þótt ég hafi ekki dagsetningar á takteinum, að vélar hafi lent þar vegna þess að ekki var lendandi í Keflavík.  Hefur þá jafnan heyrst ramakvein vegna þess að menn misstu af fríhöfninni.  Hitt er svo mála sannast að það að geta skráð Reykjavík til vara í einsýnu veðri sparar verulegar fjárhæðir vegna þess að þá er aukaeldsneyti sem flytja þarf sáralítið.  Þyrfti hins vegar að nota Egilsstaði skiptir aukaeldsneytið hundruðum kílóa  og ef Glascow væri notuð, eins og hæglega getur gerst ef fúl norðanátt ríkir með björtu veðri á sunnanverðu landinu, þarf að bæta mörgum tonnum við.  Þessi kíló, eða tonn, eru dregin beint frá arðfarmi vélarinnar og verður því að skilja eftir fragt sem því nemur.  Það er dýrt.  Mjög dýrt.

Og að Reykjavíkurflugvöllur sé ekki nothæfur sem varaflugvöllur er bull.  Þar geta allar vélar sem í almennri notkun eru hér á landi lent.  Þarf ekki annað en minna á það þegar silfurliðið kom heim frá Ólympísku leikunum á  stærstu flugvél sem Flugleiðir brúka.  Og lenti heilu og höldnu í Reykjavík.

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 30.8.2013 kl. 09:38

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég var um borð í Boeing 757 sem hóf sig á loft að morngi dags frá Reykjavíkurflugvelli með 177 farþega, og það ekki aðeins einu sinni heldur þrisvar og lenti síðan jafnoft með sama fólkið.

Það er fjórum sinnum dýrara að fljúga á þyrlum en jafnstórum flugvélum, þær fljúga helmingi hægar, hafa ekki jafnþrýstiklefa, komast ekki upp fyrir veðrin, þola ísingu verr og geta ekki flogið á sama hátt í blindflugsskilyrðum og flugvélar og síðan kemur talsmaður þess að flugvöllurinn sé fluttur, staðhæfir í útvarpi að þyrlur henti betur í öllu sjúkraflugi en flugvélar og að eðlilegast sé að allt sjúkraflug sé framkvæmd með þyrlum og kórónar svo vitleysuna með því að segja, að þetta viti allir sem eitthvað viti um flugvélar og flugmál!

Hann og þáttarstjórnandinn hefðu getað gefið sér 10 mínútur til að fara inn á Wikipedia  og flett upp hraðagetu og háflugsgetu Super Puma og sömu tölum fyrir Beechcraft Super King Air áður en svona fullyrðing var send í loftið án andsvars.

Ómar Ragnarsson, 30.8.2013 kl. 17:08

13 identicon

Eins og þú veist, eru að koma nýjar gerðir flugvéla, sem kosta mun minna í rekstri en Super Puma og geta lent og tekið á loft eins og þyrlur. Fyrst kom hernaðarútgáfan, Ospray og nú er að koma 9 manna civilian útgáfa AW609. Rekstrarkostnaður er miklu lægri en á þyrlu. Flughraði 500 km. Hæð 25.000 fet og dregur allt að 1.690 km.

Kaupverð á svona græju er um 12-16 milj. USD, en ný skrúfuþota sem ég var að skoða á netinu kostar 8,5.

Bendi á nýlega skýrslu Ríkisendurskoðunar um raunverulegan flugtíma í akúd flugi. Meðaltími um 2 tímar á Vestmannaeyjar og tæpir 3 á Ísafjörð. Örugglega skemmri á Egilsstaði. Miklu lengri á aðra flugvelli (vantar lýsingu o.fl.)

Það er hægt að gúgla þetta eða kíkja hér: http://www.agustawestland.com/product/aw609

Guðmudnur R Guðmundsson (IP-tala skráð) 6.9.2013 kl. 15:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband