Aukin gæði og samkeppni geta bitið í skottið á sér.

Vöxtur og minnkun á sölu ákveðinna vörutegunda geta átt afar mismunandi ástæður. 

Í kringum 1960 jókst bílasala stórlega í heiminum, ekki síst í Ameríku. Þar í landi leiddi aukin samkeppni um hylli nýs markhóps, vel stæðra ungmenna til verðlækkunar á bílum, sem að stórum hluta var byggð á því að gera framleiðsluna hraðari og gæðakröfurnar minni. 

Settir voru í framleiðslu aðeins minni bílar en hinir ört vaxandi "bread and butter" bílar, Chevrolet, Ford og Chrysler til þess hamla á móti vaxandi gengi smærri evrópskra bíla á bandaríska markaðnum. 

Eftir á kom í ljós að markaðssérfræðingar Ford höfðu skapað Ford Falcon forystu í þessum nýja stærðarflokki bandarískra bíla með því að gera ráð fyrir því að eigendur hans myndu skipta honum út á allt niður í tveggja ára fresti. 

Margir bílar á þessum tíma, svo sem Chrysler bílarnir frá 1957, sem slógu í gegn, voru hræðilega ryðsæknir, og hinn franski fallegi og smái Renault Dauphine, hrundi niður í ryði.

Síðan má nefna önnur tímabil í bílaframleiðslu, þar sem hluti samkeppninnar byggist á auknum gæðum, og má nefna loforð um sjö ára ábyrgð sem dæmi um slíkt. 

Svipað getur gilt um það og dæmið hér á undan um verðstríð á kostnað gæða, að samkeppni um gæði og framfarir geti bitið í skottið á sér á þann hátt að salan minnki. 

Ástæðurnar geta bæði verið þær, að aukin ending stuðli að minni endurnýjun; fólk leyfi gæðabílunum að njóta sín áfram; en einnig geta örar framfarir og breytingar á borð við rafvæðingu orðið til þess, að kaupendur óttist að nýr bíll kunni að verða úreltur, svipað og gerst hefur með margar rafeindavörur á borð við snjallsíma og tölvur, og því sé betra að hinkra aðeins við og bíða eftir næstu kynslóð af bílum og öðrum tækjum. 


mbl.is Mesti samdráttur í bílasölu á heimsvísu frá hruni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband