Það er ekki hægt að opna hurðir, bara dyr.

Í tengdri frétt er það margsagt, að það er "bannað að opna hurðina." Það gefur tilefni til smá athugunar á þessu orðalagi, því að það er ekki alveg rökvíst. 

Í hverju húsi eru margar dyr, og minnst tvennar dyr eru á bílum. Þær eru nauðsynleg fyrirbæri, gerðar til þess að hægt sé að ganga inn og út úr húsum eða farartækjum eða á milli rýma þar sem þarf að vera innangengt. 

En til þess að hægt sé að loka húsum eða farartækjum eða opna leiðir inn og út eða innan í þeim, eru hafðar hurðir í dyrunum. 

Það er svolítið broslegt að vera að lýsa jafn algengu fyrirbrigði og dyrum og hurðum, sem allir þekkja, en ástæðan er sú, að þessu tvennu, er oft ruglað saman. 

Hurðirnar eru hafðar á hjörum í dyrunum til þess að hægt sé að loka gönguleiðinni í gegnum dyrnar, eða að opna hana. Hurðir eru hlutir með því lagi, að þær sjálfar eru aldrei opnaðar, því að til þess þyrfti að saga þær í sundur. 

Það eru hins vegar dyrnar, sem eru opnaðar eða þeim lokað. 

Ef menn beita einfaldri rökvísi er því út í hött að tala um það að loka hurðum og opna þær eins og svo algengt er. 

Kannski eru hér erlend áhrif að verki, því að í málum nágrannaþjóða er heitið "door" eða "dör" notað jafnt um opið sjálft eins og hurðina. 


mbl.is Bannað að opna hurðina. Hér eru kommar!
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar.

Um þetta verður ekki deilt!

"Þjónustupíkurnar gjörðu so sem þeim var boðið og létu aftur aldingarðinn og gengu út um nokkrar leynidyr að sækja það sem hún vildi hafa."
Daníelsbók 1. kafli.

"Vakta þú dyr þíns munns fyrir þeim sem sefur í þínu fangi."
Míka 7. kafli.

"Ari lögmann stóð fyrst í kirkjudyrunum með steytta byssu, og tók helzt vara á Daða." Biskupasögur 1878, aldur 1617.

"Gakk þú fyrir hvörs manns dyr, seg engum nema satt, og þó verðr þú hvumleiðr." Safn af íslenzkum orðskviðum.

Húsari. (IP-tala skráð) 17.4.2020 kl. 14:12

2 identicon

Samkv. málfræðireglum, sem ég lærði einhvern tímann, mun það ekki vera rangt að segja: "lokaðu hurðinni", þar mun "hurðinni" vera svokallað verkfærisþágufall.

Líklega þróast tungumál sjaldnast eftir skynsemi. Orð og setningar breytast oftast þegar menn íhuga ekki merkingu þeirra.

Það er áhugavert að koma til skosku eyjanna þar sem gömul norræn nöfn hafa afbakast eftir að norræn tunga lagðist þar af. Sem dæmi má nefna Kirkwall á Orkneyjum, sem áður hét Kirkjuvogur.

Einnig mun Stornoway, á Isle of Lewis, áður hafa heitið norræna nafninu, Stjórnavogur á Ljóðhúsum (Ljóðhús gætu hafa verið afbökun úr Keltnesku).

En þaðan er, vel að merkja, hann Donald "okkar" Trump ættaður í móðurætt.

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 17.4.2020 kl. 20:57

3 identicon

Hörður! Joe Biden hefur vonandi ekki orðið 
á vegi þínum því verkfærisþágufall hefur ekkert
með þetta að gera í sjálfu sér annað en það sem
augljóst má telja að um verknað er að ræða og
ætti þá við um hvort heldur sem er að loka hurð eða
loka dyrum.

Eitt af dæmum Orðabókar Menningarsjóðs
er einmitt að l. dyrum þar sem l stendur fyrir sagnorðið
loka.

En eins og kemur svo prýðilega fram í pistli Ómars
þá varðar þetta málfar; rökvísi í því sem skrifað er.
Það skiptir öllu máli.

Húsari. (IP-tala skráð) 17.4.2020 kl. 22:00

4 identicon

Húsari! Ef ég man rétt, þá kenndi Halldór Halldórsson okkur menntskælingum, í gamla daga, að það að "loka hurðinni" væri verkfærisþágufall og stæði fyrir að "loka með hurðinni".

Hins vegar er ekki rétt að segja: "bannað að opna hurðina" eða "opnaðu hurðina", enda hef ég aldrei haldið því fram. En við verðum bara að sætta okkur við að það er ekki alltaf "réttlætið" sem ræður þróun tungumálsins.

Joe Biden hefur nú reyndar ekki verið á vegi mínum, enda erum við báðir gamlingjar og lítt á faralds fæti. Kannski þvælist hann eitthvað fyrir "Dónaldi frænda", en þó þykir mér það harla ólíklegt.

Ps. Ég ætla að bæta því við fyrri athugasemd, að samkv. sumum heimildum mun Stornoway hafa heitið Stjörnuvogur á norrænu máli.

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 17.4.2020 kl. 23:52

5 identicon

HÖrður! Þig misminnir um þetta.

Húsari. (IP-tala skráð) 18.4.2020 kl. 08:37

6 identicon

Ég vil nú gera athugasemd
við þennan pistil þinn Ómar.

Veit ekki betur en talað sé um að
læsa hurð og læsa dyrum, ha?!

Kemur þar ekki að orðum Harðar
um verkfærisþágufall því það á einmitt
jafnt við í hvoru tilfelli fyrir sig?

Það er ekki við öðru að búast en að
þeim sem skrifar 10 pistla á dag geti skotist
þó skýr sé.

Eins er það dæmalaust að geta skrifað svo langt mál
um það sem ekkert er og uppskeran sú ein að
Hörður hefur haft rétt fyrir sér allan tímann
meðan þú og Húsari stritist við að sitja við
fornaldarskýringar þar sem verkfærisþágufall
dugir eitt og sér til útskýringar í eitt skipti
fyrir öll.

Ég minnist þess eins og það hefði gerst í gær
þegar Halldór útskýrði þetta fyrir okkur nemendum
sínum, augun snör og leiftrandi, svörin hnitmiðuð, mögnuð og skýr.

Ég kýs frekar að trúa honum en þér og þessu viðhengi þínu!

Breki Eyjólfsson, Svertingsgerði. (IP-tala skráð) 18.4.2020 kl. 10:36

7 identicon

Sæll Ómar.

Ég þakka Breka fyrir athugasemd sína
því mér sýnist hún skýra út þann misskilning
sem virðist hafa orðið þegar Halldór Halldórsson
sá mikli fræðajöfur hefur væntanlega talað um
og þá réttilega að hægt væri að læsa dyrum jafnt sem hurðum
enda lás settur fyrir í báðum tilvikum.

Þágufall kemur þessu ekkert við
því um er að ræða málfar og þá rökvísi sem
liggur að baki því að það teljist rétt.

Þetta sést best ef athuguð eru þau orð
sem um ræðir og hver merking þeirra er:

Orðið dyr merkir op eða inngangur, t.d. inn í hús, herbergi eða bíl.
Hurð er hins vegar einhvers konar fleki sem nota má til að loka opi
eða inngangi.

Húsari. (IP-tala skráð) 18.4.2020 kl. 12:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband