Samræðustjórnmál forsetans.

Það voru tvær hliðar á viðtalinu við forseta Íslands í kvöld í Kastljósi Sjónvarpsins. Sú jákvæða var hvernig hann hefur, eins og hann upplýsti í viðtalinu, farið víða um að undanförnu til að ræða við fólk af ýmsu tagi. Þetta er mjög gott framtak hjá forsetanum og nákvæmlega það besta sem hann getur gert sem eini embættismaður þjóðarinnar sem hún kýs beint.

Ólafur Ragnar hefur þarna verið að svara því kalli sem brennur á þjóðinni og brotist hefur fram á fundum og í margs kyns starfsemi sem sprottið hefur upp úr grasrót þjóðfélagsins.

Forsetinn skaut sér hins vegar á bak við trúnað þegar hann var inntur nánar eftir því hvað hann hefði sagt á sendierrafundinum fræga. Sagðist ekki hafa lesið bréf norska sendiherrans. Ég tel ekki að forsetinn þurfi að skýla sér á bak við trúnað þegar sá trúnaður hefur verið rofinn af öðrum sem á fundinum voru.

Þótt hann geri hreint fyrir sínum dyrum og fari yfir það opinberlega lið fyrir lið sem komið hefur fram í fjölmiðlum um ummæli hans, getur hann á næsta fundi útskýrt hvers vegna hann neyddist til þess og beðið menn um að halda trúnað framvegis í einu og öllu.

Forsetinn getur auðvitað ekkert að því gert þótt efni trúnaðarbréfs hafi verið lekið í fjölmiðla og ummæli hans, rétt eða rangt eftir höfð, þar með orðin að samræðu hans við almenning í nágrannalöndunum. Hægt er að hafa fulla samúð með forsetanum í því efni en á móti að biðja hann um í ljósi þess ástands sem upp er komið, að hreinsa þetta mál.

Í upplestri Gísla Kristjánssonar á köflum úr bréfi sendiherrans í Speglinum í kvöld kom ýmislegt fram sem vekur spurningar.

Þar er til dæmis haft eftir forsetanum að hann hafi verið andvígur Kárahnjúkavirkjun. Fyrir liggur að hann skaut því máli ekki til þjóðarinnar á sama hátt og hann gerði í fjölmiðlafrumvarpsmálinu og lét skoðun sína aldrei uppi við þjóðina.

Kárahnjúkavirkjun var í eðli sínu afsal á landi til afnota fyrir erlenda þjóð, óafturkræfur gerningur, gagnstætt því sem var um fjölmiðlafrumvarpið. Í stjórnarskrá stendur að afsal lands megi aldrei í lög leiða. Landi var fórnað og hinn erlendi aðili hagnast vel en bæði í bráð og þó einkum í lengd munu Íslendingar fá lítið í sinn hlut en tapa mun meiru.

Eyðilegging náttúruverðmæta með mestu óafturkræfu neikvæðum umhverfisáhrifum sem möguleg eru hér á landi, eins og það er sett fram hjá rammaáætlunarnefnd, varðar komandi kynslóðir meðan landið er byggt.

Vigdís Finnbogadóttir staðfestii í bókinni "Kárahnjúkar - með og á móti" að hún hefði beitt neitunarvaldi forsetans ef Kárahnjúkavirkjun hefði komið inn á hennar borð.

Sigmar spurði forsetann ekki um þetta mál í Kastljósinu og því fékkst ekki svar við því hvort forsetinn hafi sagt á fundinum og jafnvel í fleiri samtölum við útlendinga að hann hefði verið á móti Kárahnjúkavirkjun.

Þeirri spurningu og fleirum er því ósvarað sem og þeirri, af hverju hann segir þetta útlendingum en ekki okkur.

En svo öllu sé til skila haldið þá hef ég oft verið stoltur á erlendri grund af forsetanum og dáðst að því hve glæsilegur og hrífandi fulltrúi hann hefur verið fyrir þjóðina. Ég hef ekki getað séð fyrir mér neinn annan Íslending standa sig jafn vel við þessi tækifæri.

Framganga hans hefur líka sannað fyrir mér mikilvægi embættisins sem byggist meðal annars á því, að þjóðhöfðingjum opnast margar dyr erlendis sem annars væru lokaðar, ekki síst glæsilegum hæfileikamönnum eins og Ólafi Ragnari sem hefur auk þess mjög dýrmæt sambönd erlendis.

En enginn er alfullkominn og ég tel að Ólafur Ragnar verði að fylgja eigin orðum eftir úr Kastljósinu um það að stunda hreinskilnar og opinskáar umræður, líka um fundinn fræga. Umræðan um málflutning hans á sendiherrafundinum er komin út um öll Norðurlönd og að mínum dómi verður hann að opna hana af sinni hálfu í stað þess að skjóta sér á bak við trúnað sem hvort eð er var rofinnn af öðrum en honum.


mbl.is Mikið fjallað um ummæli forsetans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

sammála þér varðandi forsetann.

Óskar Þorkelsson, 12.11.2008 kl. 20:47

2 identicon

Sammála, ég held að Ólafur hafi þegar lært sína lexíu og ég held að við getum ekki misst hann núna meðan ástandið er eins og það er. Hann verður frábær fulltrúi þjóðarinnar.

Þakka þér fyrir Ómar

Björg (IP-tala skráð) 12.11.2008 kl. 22:25

3 identicon

Það sem vakti athygli mína við það sem forsetinn sagði í Kastljósi, var að eftir að hafa mært sjálfan sig og fært rök fyrir því að hann væri í tengslum við grasrótina, fólkið í landinu, þá svaraði hann eins og hver annar pólitíkus, skaut sér á bak við trúnað þrátt fyrir alvarleikann í fréttum erlendis, og af orðum hans mátti ráða að flest af því sem birtist í norskum blöðum væri í raun og veru satt og rétt "þó hann orðaði það ekki beinlínis þannig". Mér fannst hann fara út fyrir hlutverk sitt og finnst hann ekki vera sameiningartákn þjóðarinnar ásamt þeirri virðingu sem við viljum að einkenni forsetaembættið út á við.

Nína S (IP-tala skráð) 12.11.2008 kl. 23:20

4 Smámynd: Óskar Þorkelsson

eini fréttamiðillinn sem segir frá þessu er Klassekampen.. nrk tekur þetta upp eftir þeim.  

http://www.nrk.no/nyheter/utenriks/1.6305202 

Óskar Þorkelsson, 12.11.2008 kl. 23:28

5 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Kárahnjúkavirkjun var því miður samþykkt með atkvæðum 80 % viðstaddra þingmanna, nánast alveg eftir flokkslínum 8. apríl 2002.  Ekki veit ég hvort einhverjir hafi reynt að ná til forsetans áður en hann skrifaði undir þau lög.  Hins vegar veit ég að það var reynt tæpu ári síðar þegar lögin um verksmiðjuna voru samþykkt.  Það gekk brösuglega.

Pétur Þorleifsson , 12.11.2008 kl. 23:40

6 Smámynd: ÞJÓÐARSÁLIN

Glæsilegur og hrífandi. Ómar þú ert engum líkur, þegar grín er annars vegar

ÞJÓÐARSÁLIN, 13.11.2008 kl. 00:16

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þorlákur minn Helgi. Ég hef verið viðstaddur erlendis þar sem forsetinn hefur komið fram og viðstaddir útlendingar hafa hrifist af framkomu hans og dugnaði og sagt það í mín eyru.

Ég hef heyrt hann flytja blaðalaust frábærar ræður eins og hann hefði skrifað þær fyrst og lært þær og æft flutninginn dögum saman. Hann er hugsanlega betri á enskunni en íslenskunni !

Þessi viðbrögð erlendis fékk Vigdís líka á sinni forsetatíð þegar hún seiddi alla upp úr skónum. Þess skal getið sem gott er án þess að það sé talið grín.

Ómar Ragnarsson, 13.11.2008 kl. 00:33

8 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Góður pistill hjá þér Ómar, sammála honum í öllum meginatriðum.  Ekki síst því að nú þarf forseti vor að taka af öll tvímæli um það hvað hann sagði á þessum fundi -orðrétt.

Jafn stálminnugum ræðumanni og ÓRG verður nú ekki skotaskuld úr því. 

Hildur Helga Sigurðardóttir, 13.11.2008 kl. 01:39

9 identicon

Blessaður nafni.

Ólafur var traustur og það var tími til kominn að einhver ráðamaður segði það sem fólk er að hugsa.  Það er sárt að tilheyra þjóð sem kaus yfir sig Ragnarrökin í síðustu kosningum, þegar öllum átti að vera orðið ljóst að eitthvað mikið var að í Íslensku samfélagi.  En frjálshyggjuvitleysan hér er svipuð og flestir aðrir flokkar boða í hinum vestræna heimi enda riðar heimur Frjálshyggjugræðgiskapítalismans til falls.  Okkar vittleysa var extra mikil og því vorum við fyrst en fleiri þjóðir munu koma á eftir.  En Íslensk alþýða var ekki ábyrg og ef einhver lög útí hinum stóra heimi segja svo og ef þau lög eru með undirskrift Jón Baldvins, þá eru þetta ÓLÖG.  Enginn stjórnmálamaður, hjá engri þjóð hefur lagalegan rétt til að skrifa uppá óútfylltan tékka fyrir hönd þjóðar sinnar.  Og hver þjóð hefur neyðarrétt til að hafna slíkum gjörningum.  Reyni stórþjóðir að knýja fram uppgjöf slíkrar þjóðar, hvort sem það er með hervaldi eða fjármagnsvaldi, þá er það brot gegn neyðarrétti og sjálfstæði allra smáþjóða sem byggja þessa jörð.  Það eru níðingar sem gera slíkt og það eru þjóðníðingar sem bakka upp slíkan gjörning.  Það er alltílagi hjá Ólafi að segja það.  Jafnvel þó að það kosti hann reiði Sigmars í Kastljósinu.  Einnig eru það ekki vinaþjóðir sem bakka upp slíkan níðingsskap, hvort sem það er gjört með gjörðum eða þegjandi samþykki.  Svíar, Danir og Finnar eru ekki vinir Íslenskrar alþýðu.  Ólafur má alveg segja það og hann átti að stíga skrefið til fulls og endurtaka það í Kastljósi.

Og eitt að lokum.  Fólkið sem hnýtir í Ólaf er að uppistöðu sama fólk og hnýtti í þig útaf Kárahnjúkum.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson (IP-tala skráð) 13.11.2008 kl. 01:46

10 Smámynd: Brynjar Jóhannsson

Svo ég svari þessu varðandi Kárahnúkavirkjun Ómar .. þá skapaðist ekki sama bil á milli þings og þjóðar eins og gerðist varðandi fjölmiðlalöginn (meira en 70% þjóðarinnar var gegn fjölmiðlafrumvarpinu). Í það minnsta Stóriðjuríkisstjórnin hélt ítrekað velli og í síðustu kostningum og hefði hún tæknilega getað haldið áfram ef hún vildi.  Verr og miður hafa ekki nátturuverndarsjónarmið fengið sama hljómgrunn hjá íslensku þjóðinni og fjölmiðlalöginn fengu á sínum tíma.  Það væri því með öllu óheimilt að Forseti okkar beiti neitunarvaldinu við það tilefni, enda óæskilegt að hann spegli annað en vilja íslensku þjóðarinnar en láti sínar persónulegu skoðanir liggja á milli hluta.

Persónulega fanst mér Ólafur koma vel út úr þessu viðtali og mér fanst eins og það væri verið að búa til úlfvalda úr mýflugu. Það var rétt hjá honum að mínu mati að ljóstra ekki upp trúnað og halda því í starfshefðir og sjá aðra um að brjóta þær í staðin.  

Annars er ég engin sérlegu aðdándi Ólafs Ragnars.  

Brynjar Jóhannsson, 13.11.2008 kl. 02:03

11 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Auðvitað er óafturkræfni Kárahnjúkavirkjunar margfalt stærri en einhver fjölmiðlalög.  Stærð þess fyrrnefnda tókst að þagga þegar þess þurfti með.

Það var talað um  þjóðaratkvæðagreiðslu í þinginu þrisvar.  Það svæfðist.  Kárahnjúkavirkjun komst ekki til tals fyrir kosningarnar 1999.  Og varð ekki að meginmáli kosninganna 2003 þótt álverksmiðjan hafi verið samþykkt tveimur mánuðum fyrr.  Það varð heldur ekki að meginmáli að Ísland var sett á stuðningslista innrásarinnar í Írak á þessum sama tíma.

Pétur Þorleifsson , 13.11.2008 kl. 05:16

12 Smámynd: Landfari

Það er gríðarlega mikil munur á lögunum um Kárahnjúka og fjölmiðlalögunum og eiginlega ekki hægt að bera þessi mál saman.

Fjölmiðlalögin vor þess eðlis að það hefði aldrei fengist nein alvöru niðurstaða í þjóðaratkvæagreislu um þau. Fjölmiöðlarnir voru á móti þeim og það er óumdeilt að fjölmiðlar eru mjög skoðanamyndandi hér. Einhliða áróður þeirra, margendurteknar og misvíandi og rangar fullyrðingar til stuðnings þeirra sjónarhorni geta ekki annað en haft umtalsverð áhrif. Þar var því blákalt haldið fram að þeir færu allir á hausinn ef lögin yrðu samþykkt.

Fjölmiðlalögin voru bara lög sem hægt var að afnema eftir næstu kosningar ef þau voru svona ómöguleg. Þau voru afturkræf. Forsetinn var persónulega invinklaður í málið, átti stóra skuld að gjalda hagsmunaaðilum og alls ekki hlutlaus.

Í Kárahnjúkamálin var aftur um óafturkræfa framkvæmd að ræða sem snertir alla Íslendinga, ekki bara í nútíð heldur um alla framtíð. Þar var umdeildur gjörningur á ferð og hægt hefði verið að fá vitræna umræðu meðal þjóðarinnar þar sem fjölmiðlarnir (skoðanamyndandi fjórða valdið) áttu ekki beinna hagsmuna að gæta og líkur á faglegri vinnubrögðum blaðamanna en viðhöfð voru í fjölmiðlafárinu. (Bjarni Harðar er ekki eini maðurinn sem sent hefur tölvupóst sem ratar óvart í fjölmiðlana. Vonandi eru menn ekki blunir að gleyma póstinum hans Róberts, núverandi aðstoðarmanns ráðherra. Var hann ekki formaður Blaðamannafélagsins þá?)

Eitt er það samt sem ég skil ekki alveg í allri þessari umræðu. Það er stöðugt verið að kalla eftir að almenningi séu veittar meiri upplýsingar. Þegar Davíð kemur í Kastljósið skýrir á mannamáli hvað verið er að gera er krafsit afsagnar hans af almenningi hér vegna þess að hugsanlega hafi Bretarnir misskilið hann.

Hvers vegan er ekki krafist afsagnar Fjármáleftrlitsins. Hvers vegna stoppaði það ekki sístækkandi ábyrðir Íslendinga á erlendum bankainnistæðum. Ef þeim var ókunnugt um þær var eftirlitið ekki starfi sínu vaxið. Ef þeir vissu ekki, eins og ég, að íslendingar væru ábyrgir fyrir þessum innistæðum, hafa þeir ekki þá þekkingu sem þarf í verkið.

Sama hvort er, þeir voru ekki að vinna vinnuna sína þegar á þurfti að halda.

Þó það meigi túlka sem stílbrot hjá mér að fara að bera blak af Dabba þá hefur komið fram að hann var búinn að vaa við þessum skudasöfnunum erlendis og ég man ekki eftir öðrum þekktum einstaklingi eða þeim sem nú koma fram sem "besservisserar"sem hefur mótmælt ofurlaunum og kaupréttarsamningum bankastjóranna með eins afgerandi hætti og hann gerði.

Landfari, 13.11.2008 kl. 10:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband