Nú hefði verið gott að...

Nú hefði verið gott ef búið hefði verið að vinna þá vinnu sem Sjálfstæðismenn eiga eftir að vinna varðandi aðildarumsókn að ESB og það, hvaða samningsmarkmið Íslendingar eigi að setja ef kemur til slíkra . Þetta lagði Íslandshreyfingin til fyrir síðustu kosningar svo að tryggt væri að sem minnstur tími tapaðist í slíku ferli ef það kæmi upp.

Þótt aðstæður hafi gerbreyst síðustu mánuði hygg ég að það hefði breytt litlu um samningsmarkmiðin auk þess að fyrir lægi ítarleg niðurstaða af fyrri vinnu. Hvað um það, loksins tók risaeðlan við sér löngu eftir að búið var að stíga ofan á tærnar á henni og þá er meiri von en áður um það að vel ígrunduð niðurstaða liggi loks fyrir hjá þeim flokki sem á mestan þingstyrk þótt fylgið vanti í skoðanakönnunum.


mbl.is Skipuð verði Evrópunefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Obama til hjálpar?

Þegar menn velta nú fyrir sér í fullri alvöru að við segjum okkur úr lögum við nágrannaríki okkar og fáum hjálp frá Obama þegar hann tekur við væri hollt að skoða þennan möguleika rækilega í stað þess að tala bara um hann út í loftið.

Obama hefur sagt að hann ætli sér að bæta samskiptin við Evrópuríkin og hafa við þau sem mest samráð.
Er líklegt að hann muni taka okkur upp á arma sína ef við ætlum að verða nokkurs konar Norður-Kórea Evrópu í augum nágrannaþjóða okkar og ganga gegn hagsmunum og vilja Evrópuþjóða?

Það er ekki nóg að kalla upp: Nú viljum við plan B. Það verður að skoða hvað plan B felur í sér. Æskilegt væri að menn reifuðu nánar hugmyndirnar um bandalög við Bandaríkjamenn, Rússa eða Kínverja og hvað gæti komið út úr þeim í raun. Ég bíð spenntur eftir að sjá hvernig menn útfæra það.


mbl.is Evrópumálin í brennidepli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tengd "utanaðkomandi mál"?

Smám saman birtist hinn bitri sannleikur og fer að grilla í heildarmynd vandræða Íslands í gegnum þá þoku ósannra yfirlýsinga, sem við höfum búið við í allt haust og raunar síðan í mars. Óskhyggja og afneitun hafa ráðið för og valdið því að ráðamenn þjóðarinnar hafa ekki haft neina yfirsýn yfir raunverulega stöðu okkar.

Bendi á næsta bloggpistil minn á undan þessum varðandi veruleikaflóttann sem hefur alið af sér rangar upplýsingar til þjóðarinnar svo dögum og vikum skiptir.


mbl.is Utanaðkomandi mál tefja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrakningar og veruleikaflótti Geirs.

Þegar krónan féll um 30% á skömmum tíma í mars og íslenska kauphöllin nötraði sagði forsætisráðherrann okkar að allt væri í lagi. Síðsumars tók hann undir það í hálfkæringi þegar sagt var að aðgerðaleysi hans hefði borið árangur. Í september var sagt að allt væri í lagi og IMF ekki inni í myndinni.

Í bankahrunsvikunni var því bandað frá sér að IMF kæmi til greina því að alls kyns aðrir kostir væru í stöðunni. Hvað eftir annað komu yfirlýsingar frá Geir sem reyndust ósannar eins og rakið hefur verið skilmerkilega í fjölmiðlum.

Þegar loksins var drattast til að sækja um aðstoð IMF var dag frá degi sagt að gengið yrði frá láninu "á næstu dögum".Þannig hefur það gengið í meira en mánuð.

Þegar upp kom að kröfur Breta og Frakka gætu átt þátt í drættinum hafnaði Geir því og sagði að engin tenging væri þarna á milli. Hékk lengi á því eins og hundur á roði.

Hann og aðrir létu í veðri vaka að við ættum ýmissa kosta völ um aðstoð. Loksins í gær kemur síðan upp að við erum einir í þessu máli og verðum að semja um það, Eftir stanslausan afneitunarflótta frá því í vor með tilheyrandi röngum upplýsingum til þjóðarinnar, jafnvel daglega, er málið nú komið á þennan reit.

í viðtalinu við Björgólf Guðmundsson í Kastljósi í gærkvöldi kom fram hvernig þetta hefur orðið til þess að í stað þess að góð von væri til þess að við ættum fyrir því að borga Icesafe-innlánin með eignum Landsbankans hefur hverju tækifærinu af fætur öðru verið klúðrað vegna afneitunar og veruleikaflótta.

Hann er orðinn langur listi þjóðanna sem allan þennan tíma hefur verið sagt að myndi koma okkur til hjálpar, Rússar, Norðurlandaþjóðirnar, Pólverjar og jafnvel Kínverjar.

Eftir að sá blákaldi veruleiki blasir við að aðeins Færeyingar hafa hjálpað okkur halda sumir enn í von um Rússana og Kínverjana og jafnvel að Bandaríkjamenn, upphafsmenn heimskreppunnar með "lame duck" forseta og allt á hælunum, muni koma til hjálpar svo að við getum bara gefið skít í Evrópuþjóðir og IMF.

Ég er farinn að halda að það sé eitthvað til í því sem bandaríski prófessorinn sagði að fólk, valið af handahófi úr þjóðskrá til að stjórna ferðinni, hefði ekki getað klúðrað þessu svona.


mbl.is Viðræður á viðkvæmu stigi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sært þjóðarstolt.

Í meira en hálfa öld hefur það virkað eins og hrósyrði á erlendri grund að segjast vera Íslendingur. Á nánast einum degi í haust snerist þetta harkalega upp í andhverfu sína. Niðurlægjandi Íslendingabrandarar virðast vera að taka sess Pólverjabrandaranna, jafnt á alþjóðlegu þingi geðhjúkrunarfræðinga sem á bandarísku bókasafni.

Landar mínir erlendis segja mér frá því hvernig þeir í fyrsta sinn þurfa að ósekju að þola lítilsvirðingu, háð og vantraust.

Þegar ég sýndi íslenska fánann í vængjuðu skjaldarmerki á húfunni minni á bókasafni í Ameríku fékk ég það óþvegið og var látinn vita af því að ég þyrfti að skammast mín fyrir þjóðernið. Ég hætti þó ekki að bera húfuna og mun gera það og útskýra þetta merki hér eftir sem einn af þeim tugþúsundum Íslendinga, sem geta verið stoltir af því að hafa ekki tekið þátt í himinskautabruðlinu og jafnvel reynt að hamla gegn því.

En þjóðarstoltið er sært og mun taka langan tíma að græða þau sár sem því eru nú veitt. Á níu laga diski, sem ber nafnið "Birta - styðjum hvert annað", þar sem tuttugu manna hópur tónlistarfólks undir nafninu Birta gefur allt framlag sitt á tonlist.is svo að söluandvirðið gangi óskipt á táknrænan hátt til mæðrastyrksnefndar, ber lag nr. 2 nafnið "Landið mitt - byggðin mín.

Þar er reynt að túlka það stolt, heiður og gildi sem land og þjóð geta búið yfir ef við leggjum okkur öll fram, - drauminn um Nýtt Ísland, nýja og öflugri þjóð í framtíðarlandinu, því besta á jörðinni:

LANDIÐ MITT - BYGGÐIN MÍN.

Langt í norðri laugað bárum rís
landið þar sem ég á mínar rætur.
Miklar öfgar magna eld og ís,
myrka daga, bjartar sumarnætur.
Ástarorð mín hljóma um heiði og fjörð, -
heitorð mín í gljúfrum fossinn syngur:
Stöðugt skal ég standa um þig vörð,
stoltur af að vera Íslendingur.

Landið mitt er hvítt og kalt að sjá,
krapahríðar lemja, stormar belja.
Mörgum finnst það muni vera á
mörkum þess sem byggilegt má telja.
Þegar heimsborgirnar laða ljúft
lokka menn og trylla, má ei gleyma
að þó að landið okkar þyki hrjúft
þá er hvergi betra að eiga heima.

Vafin geislum vakir byggðin mín
vinaleg í faðmi brattra fjalla.
Unaðsleg hún ól upp börnin sín
er þau hlupu um strönd og græna hjalla.
Meðan jökultind við blámann ber, -
björgin kljúfa hvíta öldufalda, -
ævinlega er efst í huga mér
æskuslóðin fagra, landið kalda.


Myndin skýrist ofurhægt.

Hve miklir peningar fást fyrir eignar Landsbankans þegar upp verður staðið? Svarið liggur ekki fyrir en þetta hefur mikla þýðingu þegar menn eru að bera tapið af Icesafe-innstæðunum saman við stríðsskaðabætur Þjóðverja.

Mér sýnist sífellt vera að koma betur í ljós að meginorsök ófaranna liggur hjá íslenskum ráðamönnum, seðlabanka, fjármálaeftirliti og þeim sem ábyrgð bera á þessum stofnunum. Mistök þeirra og gáleysi urðu okkur dýrkeypt. Seðlabanki og stjórnvöld buðu landsmönnum upp að kaupa í skjóli rangt skráðrar krónu vegna of hárra vaxta keypt hvers kyns gæði með 30% afslætti miðað við eðlilegt gengi krónunnar.

Þegar allar aðvörunarbjöllur hringdu í vor fullyrtu ráðamenn að allt væri í stakasta lagi og forsætisráðherra sagði síðsumars að það væri ekki svo vitlaust sem sagt hefði verið að aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar hefði borið árangur!

Ljósmyndin af Davíð við stýrið, Geir sem farþega og Árna Matt í barnasætinu aftur í er fréttamynd ársins, ef ekki áratugarins. Þá voru þeir á leiðinni að þjóðnýta Glitni þvert ofan í aðvaranir um að það myndi fella alla bankana.

Þessa afdrifaríku daga hefðu þeir átt að vera á stífum fundum við að sameina tvo eða fleiri banka og reyna allt sem hægt var til að styrkja bankakerfið í stað þess að fella þá alla eins og domínúkubba.


mbl.is Skuldir lenda ekki á þjóðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Felst framtíðin í því að bindast Bandaríkjunum?

Svarið við þessari spurningu sem sumir gæla við er líklegast neikvætt. Það er að koma fram sem margir spáðu að endir yrði á uppgangi Bandaríkjanna sem að miklu leyti byggðist á skuldasöfnun og var því innistæðulaus. Fjármálakreppan sem nú fer um heiminn og er ævinlega kölluð lánakreppan í Bandaríkjunum kom að vestan og hví skyldum við þá veðja á hestinn sem hrasaði og felldi okkur um koll?
mbl.is Útlitið dökkt í Bandaríkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skoda-leiðin fyrir Íslendinga ?

Ég hef að undanförnu verið að reyna að túlka þá upplifun sem ég varð fyrir í Bandaríkjunum daginn eftir viðtalið fræga við Davíð Oddsson, þar sem setningarnar um að við borguðum ekki voru spilaðar aftur og aftur á sjónvarpsstöðvum í heilan dag. Því miður var það það eina sem fólk mundi eftir þar vestra um okkur og okkar mál.

Daginn eftir þegar fólk spurði mig hvaða merki ég væri með á húfunni minni og ég sagði að það væri hið gamla merki Flugmálastjórnar Íslands með vængjum, íslenska fánanum og landvættunum fékk ég framan í mig: "Já, þú ert einn af þrjótunum sem borgar ekki."

Ég hefði aldrei getað ímyndað mér að sú stund rynni upp að ég þyrfti að skammast mín á erlendri grund fyrir að vera íslendingur.

Í sambandi mínu við Íslendinga erlendis greina þeir mér frá því að í augum þarlendra séu við fjármálafyllibyttur og óreiðufólk sem ofan á allt séum í afneitun eftir að hafa ekki aðeins rústað öllu á eigin heimili heldur líka í nærliggjandi húsum. Og enginn Íslendingur ætli að axla ábyrgð, sömu mennirnir og klúðruðu öllu heimtuðu að fá peninga til að halda fylleríinu áfram.

Ofan á allt ætlum við að mismuna innistæðueigedum eftir þjóðerni. Þessi mynd, sem dregin er upp af okkur erlendis er nöturleg og framkoma Breta er að sönnu níðingsleg hvað snertir notkun hryðjuverkalaganna.

En jafnvel þótt Bretar hefðu ekki beitt þeim erum við með rústað mannorð erlendis. Í Frakklandi sagði mér Íslendingur, sem þar býr, að þar hefði verið áberandi fréttaflutningur síðastliðið vor um það hvert stefndi hjá Íslendingum en ekki væri að sjá að fjallað hefði verið um slíkt heima.

Hvað þýðir þetta? Jú, svo er að heyra á mörgum að hugsanlega ættum við að leita á náðir Rússa, Kínverja eða Indverja og gefa skít í vestrænar þjóðir og heiður okkar, sóma og viðskiptavild í hinum vestræna heimi.

Með svona tali virkum við á nágrannaþjóðirnar eins og alþjóðlegur róni sem treystir á það að einhver gefi honum fyrir næstu bokku.

Okkur kann að finnast ýmislegt ósanngjarnt varðandi þessa ímynd okkar erlendis en þetta er blákaldur veruleikinn.

Ég vil benda fólki á að lesa merkilega grein Þorvaldar Gylfasonar um stærð Icesafe-málsins í Fréttablaðinu um daginn þar sem hann greinir stærð Icesafe skuldanna miðað við hliðstæðar byrða annarra þjóða á okkar tímum, en ekki við hliðstæðu fyrir 90 árum við allt aðrar aðstæður.

Á árunum 1960-95 voru Skoda-verksmiðjurnar "international joke" eins og það er orðað í einni af bílabókum mínum. Kommúnistar höfðu gereyðilegt gamlan orðstír þessa fyrrum þjóðarstolts Tékka.

Þá gerðist það sama og þegar alkinn fer í meðferð. Erlendum aðilum var falið að hjálpa verksmiðjunum til endurreisnar á áratug. Nýir menn tóku við og í nokkur ár var reynt að bæta framleiðsluna (538 breytingar á Skoda Feliciia) meðan reistar voru alveg nýjar verksmiðjur með nýjum kröfum.

Tíu árum siðar var Skodinn kominnn fram úr móðurverksmiðjunnni Volkswagen að gæðum og heiður og sómi Tékklands endurreistur.

Ég bið fólk um að skoða Skoda-leiðina. Hún krefst algers endurmats og brottkasti þess sem olli skaðanum, utanaðkomandi hjálpar og samstillts átaks. Það var erfitt fyrir Tékka en það var eina raunhæfa lausnin og slík lausn þarf ekki að taka nema nokkur ár..


mbl.is Samningar um Icesave eina leiðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samræðustjórnmál forsetans.

Það voru tvær hliðar á viðtalinu við forseta Íslands í kvöld í Kastljósi Sjónvarpsins. Sú jákvæða var hvernig hann hefur, eins og hann upplýsti í viðtalinu, farið víða um að undanförnu til að ræða við fólk af ýmsu tagi. Þetta er mjög gott framtak hjá forsetanum og nákvæmlega það besta sem hann getur gert sem eini embættismaður þjóðarinnar sem hún kýs beint.

Ólafur Ragnar hefur þarna verið að svara því kalli sem brennur á þjóðinni og brotist hefur fram á fundum og í margs kyns starfsemi sem sprottið hefur upp úr grasrót þjóðfélagsins.

Forsetinn skaut sér hins vegar á bak við trúnað þegar hann var inntur nánar eftir því hvað hann hefði sagt á sendierrafundinum fræga. Sagðist ekki hafa lesið bréf norska sendiherrans. Ég tel ekki að forsetinn þurfi að skýla sér á bak við trúnað þegar sá trúnaður hefur verið rofinn af öðrum sem á fundinum voru.

Þótt hann geri hreint fyrir sínum dyrum og fari yfir það opinberlega lið fyrir lið sem komið hefur fram í fjölmiðlum um ummæli hans, getur hann á næsta fundi útskýrt hvers vegna hann neyddist til þess og beðið menn um að halda trúnað framvegis í einu og öllu.

Forsetinn getur auðvitað ekkert að því gert þótt efni trúnaðarbréfs hafi verið lekið í fjölmiðla og ummæli hans, rétt eða rangt eftir höfð, þar með orðin að samræðu hans við almenning í nágrannalöndunum. Hægt er að hafa fulla samúð með forsetanum í því efni en á móti að biðja hann um í ljósi þess ástands sem upp er komið, að hreinsa þetta mál.

Í upplestri Gísla Kristjánssonar á köflum úr bréfi sendiherrans í Speglinum í kvöld kom ýmislegt fram sem vekur spurningar.

Þar er til dæmis haft eftir forsetanum að hann hafi verið andvígur Kárahnjúkavirkjun. Fyrir liggur að hann skaut því máli ekki til þjóðarinnar á sama hátt og hann gerði í fjölmiðlafrumvarpsmálinu og lét skoðun sína aldrei uppi við þjóðina.

Kárahnjúkavirkjun var í eðli sínu afsal á landi til afnota fyrir erlenda þjóð, óafturkræfur gerningur, gagnstætt því sem var um fjölmiðlafrumvarpið. Í stjórnarskrá stendur að afsal lands megi aldrei í lög leiða. Landi var fórnað og hinn erlendi aðili hagnast vel en bæði í bráð og þó einkum í lengd munu Íslendingar fá lítið í sinn hlut en tapa mun meiru.

Eyðilegging náttúruverðmæta með mestu óafturkræfu neikvæðum umhverfisáhrifum sem möguleg eru hér á landi, eins og það er sett fram hjá rammaáætlunarnefnd, varðar komandi kynslóðir meðan landið er byggt.

Vigdís Finnbogadóttir staðfestii í bókinni "Kárahnjúkar - með og á móti" að hún hefði beitt neitunarvaldi forsetans ef Kárahnjúkavirkjun hefði komið inn á hennar borð.

Sigmar spurði forsetann ekki um þetta mál í Kastljósinu og því fékkst ekki svar við því hvort forsetinn hafi sagt á fundinum og jafnvel í fleiri samtölum við útlendinga að hann hefði verið á móti Kárahnjúkavirkjun.

Þeirri spurningu og fleirum er því ósvarað sem og þeirri, af hverju hann segir þetta útlendingum en ekki okkur.

En svo öllu sé til skila haldið þá hef ég oft verið stoltur á erlendri grund af forsetanum og dáðst að því hve glæsilegur og hrífandi fulltrúi hann hefur verið fyrir þjóðina. Ég hef ekki getað séð fyrir mér neinn annan Íslending standa sig jafn vel við þessi tækifæri.

Framganga hans hefur líka sannað fyrir mér mikilvægi embættisins sem byggist meðal annars á því, að þjóðhöfðingjum opnast margar dyr erlendis sem annars væru lokaðar, ekki síst glæsilegum hæfileikamönnum eins og Ólafi Ragnari sem hefur auk þess mjög dýrmæt sambönd erlendis.

En enginn er alfullkominn og ég tel að Ólafur Ragnar verði að fylgja eigin orðum eftir úr Kastljósinu um það að stunda hreinskilnar og opinskáar umræður, líka um fundinn fræga. Umræðan um málflutning hans á sendiherrafundinum er komin út um öll Norðurlönd og að mínum dómi verður hann að opna hana af sinni hálfu í stað þess að skjóta sér á bak við trúnað sem hvort eð er var rofinnn af öðrum en honum.


mbl.is Mikið fjallað um ummæli forsetans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tap af mismunandi tagi.

Þegar meta á tjón fólks vegna taps á innistæðum í bönkum getur verið talsverður munur á eðli tapsins. Ef á bak við innistæðuna liggur mikil og áralöng, jafnvel áratuga löng vinna líkt og er hjá þýsku fjölskyldunni sem tapaði sparnaði sínum, er full ástæða til að hafa samúð með því. Þetta er hægt að segja um tugþúsundir Íslendinga og útlendinga.

Síðan eru hinir sem tóku áhættu og fóru að því leyti í fjárhættuspil með stórar fjárhæðir og töpuðu þeim síðan. Í sumum tilfellum lá lítil vinna að baki og þess vegna segja upphæðirnar ekki alla söguna um tapið. Ég nefni eitt einfalt dæmi.

Íslendingur einn hefur barmað sér mjög undanfarið yfir því að vera kominn á vonarvöl eftir að hafa tapað tuttugu milljónum króna á einum degi. Þegar dæmi hans er skoðað nánar sést að hann átti átta milljónir árið 2000 og ákvað þá að setja þær í áhættufjárfestingu sem skilaði svo góðum arði að í haust var heildarsparnaður hans kominn í 30 milljónir.

Af þessum 30 milljónum tapaði hann 20 milljónum og á því eftir 10 milljónir, sem er svipuð upphæð og hann lagði upp með. Hann hefur því í raun ekki tapað neinu, heldur aðeins áhættufénu.

Þegar rætt er um milljarða tap manna sem notuðu bókhaldskúnstir, uppblásna viðskiptavild, millifærslur og eignatilfærslur til að spóla upp tugum milljarða, má í mörgum tilfellum líta svo á að í raun hafi aldrei verið um svo háar upphæðir að ræða, heldur huglæg verðmæti sem nánast gufuðu upp þegar blásið var á þau.

Það er mikill munur á slíku tapi og tapi alþýðufólksins sem lagði áratuga vinnu í að eignast öruggan bakhjarl til framtíðar.


mbl.is Reiðir þýskum stjórnvöldum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband