Góð lausn.

Lausn deilumáls þeirra Matthíasar Johannessen og Guðjóns Friðrikssonar sýnist mér yfirveguð og skynsamleg. Að mínum dómi gerði Matthías rétt sem blaðamaður í því að hafna því að stroka upphaflegu færslu sína út. Það hefði verið breyting á gögnum málsins og sýnir að hann hefur kjark til að gangast við mistökum sínum og leiðrétta þau í stað þess að fara með þau í felur. 

Birting dagbókanna hefur haft bæði kosti og galla. Einhver sagði að dagbók lygi ekki en þetta mál afsannar það. Hins vegar lýgur dagbók síður um ástand höfundarins dag frá degi og er að því leyti til verðmætt gagn. 

Dagbókarfærslan um Davíð og veikindi forsetafrúarinnar heitinnar orkar tvímælis að mínum dómi. Hún sýnir að vísu hugarástand þeirra sem koma við sögu og getur því orðið hluti af sögu af þjóðfélagasástandi, sem síðar verður skráð af sagnfræðingum.

Spurning er hins vegar hvort opinbera eigi svo snemma sögur af þessum toga, sem skapa viðkvæmni og umrót þegar þær birtast.

Um þessar mundir, þegar ég vegna aldurs þarf að huga að því hvort og þá hverju ég eigi að segja frá, sem á dagana hefur drifið, eru allmörg atriði þess eðlis, að réttast væri að geyma þau óbirt í a.m.k. 50 ár. Sögurnar eru gull en meiru varðar þó að meiða ekki eða ergja fólk að óþörfu.  

Fara þarf sérstaklega varlega í að upplýsa um efni trúnaðarsamtala blaðamanna. Stundum er það illmögulegt en þá getur millileiðin verið fólgin í því að segja ekki hver viðmælandinn var, heldur "dreifa" uppruna sögunnar eða ummælanna.

Ég tel mig þurfa um þessar mundir í rökræðum dagsins að vitna í tvö einkaviðtöl, sem viðmælendur mínir tóku þó ekki fram að væru trúnaðarsamtöl. Í báðum tilfellum segi ég að viðmælendurnir hafi verið ráðherrar á síðasta áratug liðinnar aldar.

Annar sagði setninguna: "Reynslan sýnir að það verður að halda stanslaust áfram stóriðju- og virkjanaframkvæmdum, annars kemur kreppa og atvinnuleysi." Þegar ég spurði hann á móti: "En hvað á að gera þegar allt hefur verið virkjað?", - svaraði hann: "Það verður viðfangsefni þeirrar kynslóðar sem þá verður uppi." 

Hinn sagði nýlega við mig í viðtali: "Ég vann á námsárum mínum á sumrin við mælingar á hálendinu og get sem dæmi um það, hve mikil áhrif það hafði á mig, nefnt, að ef breyta ætti Þórisvatni í dag úr ægifögru himinbláu fjallavatni í stærra og gulbrúnt, aurugt miðlunarlón eins og gert var, yrði það ekki verjandi."

Fyrri viðmælandinn lýsti vel hvernig við veltum viðfangsefnum yfir á afkomendur okkar og hinn síðari því, hvernig kynni hans af eðli mála gerbreytti viðhorfum hans.

Ég tel báðar þessar tilvitnanir nauðsynleg innlegg í virkjanaumræðuna nú og ráðherrarnir á árunum 1990 - 2000 voru nógu margir til þess að enginn sérstakur þarf að taka þetta til sín og ekki á að vera hægt að reykja þetta til neins þeirra. 

Hefðu þessir menn beðið mig sérstaklega í trúnaði um að greina ekki frá þessum ummælum sínum og engin leið til að upplýsa um þau nema að böndin bærust að þeim, hefði sú nauðsyn að viðmælendur blaðamanna geti treyst þagmælsku þeirral, orðið til þess að sá trúnaður hefði ekki verið rofinn. 

Blaðamaður sem uppvís verður að því að rjúfa trúnað verður ekki langlífur í starfi og getur rýrt traust fólks til annarra blaðamanna.  

 


mbl.is Matthías Johannessen: Málið er úr sögunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grændalur og Skjálfandafljót, aftur og nýbúin?

Var að lenda í Reykjavík hefur reisu um Norðausturland, allt frá Kelduá í austri til Kvíslaveitu 6 í vestri. Svaf tvær nætur í jeppagarmi og eina í Frúnni, í öll skiptin tvo kílómetra frá hóteli, en heyrði útundan mér að þingmenn orkuðu ekki 3-5 kílómetra á malbiki heim til sín af hóteli í Reykjavík. Veit ekki hvort ég hefði átt erindi á þetta blessað þing, - fyrir bragðið hefur gefist meiri tími en ella að stússa í Gjástykki, Leirhnjúk, Þeystareykjum, Bjarnarflagi, Hraunaveitu og Skjálfandafljóti. t.d. í þessari ferð.

Heyri síðan þegar ég lendi syðra að virkjun í Grændal ofan við Hveragerði er aftur komin á dagskrá. Hélt að Samfylkingin hefði lofað að hann yrði ekki snertur í Fagra Íslandi. En það er sennilega ekkert að marka frekar en fleira á þeim bæ.

 Fólk spyr mig, hvað ég sé að vesenast heilan dag í lónstæði fyrirhugaðrar Hrafnabjargarvirkjunar og eigi marga fleiri daga eftir, - það standi ekki til að virkja Skjálfandafljót.

Er það nú víst? Stofnuðu Orkuveita Reykjavíkur, Orkuveita Húsavíkur o.fl. sérstakt fyrirtæki um virkjun fljótsins bara upp á grín? Svona eins og að spila Matador á borðstofuborði, engin alvara á bakvið? Því miður held ég að myndirnar sem ég var að taka í dag af lónstæði þessarar virkjunar megi varla taka mikið seinna.

Man að ég var of seinn þegar ráðist var á Sogin og fleiri svæði, - allt of seinn.  

 


Íhugunarefni.

Tjaldað til einnar nætur. Kannski lýsa þessi fjögur orð best grunnatriðum atvinnustefnu Íslendinga allt til þessa dags. Ég man þá tíð þegar Bretavinnan, störf á Keflavíkurflugvelli og síðar við virkjanur voru einu "bjargráðin" sem íslenskum ráðamönnum datt í hug.

Stefnan snerist mestu um að útvega fjölmennri verkamannastétt atvinnu. Enn láta menn eins og ekkert hafi breyst í þessum efnum í hálfa öld, allt standi og falli með því að útvega nógu mörg verkamannastörf. 

Afleiðingin blasir við: Hvergi í okkar heimshluta er brottfall unglinga jafn hátt úr námi, meðal annars vegna þess að ekki er nógur hvati til þess að örva æskufólk til framhaldsnáms. Þetta er bagalegt vegna þess að á okkar tímum hefur veruleikinn breyst og samkeppnishæfni þjóða og þar með möguleikar á góðum lífskjörum og lífsfyllingu byggist fyrst og fremst á sem bestri, fjölbreyttastri og almennastri menntun.

Einkum á þetta við á landsbyggðinni eins og margoft hefur komið fram á alþjóðlegum ráðstefnum um vandamál dreifbýlisins.  

Svo mjög eru menn bundnir við 50 ára gamla og úrelta sýn, að það þótti einn helsti kostur við Kárahnjúkavirkjun að 80 prósent vinnuaflsins yrði innlent en aðeins 20 prósent erlent. Þetta varð alveg öfugt, - 80 prósent vinnuaflsins varð erlent.

Á Húsavík, þar sem hin gamla stefna er enn efst á baugi hjá fylgismönnum álversframkvæmda, hafa unnið 136 útlendingar þrátt fyrir allt talið um atvinnuleysi.

Vikulegar heilsíðuauglýsingar álversins í Reyðarfirði á tímabili í sumar þar sem auglýst var eftir starfsfólki og sérstaklega tekið fram að ENGRAR sérstakrar menntunar væri krafist, segja sína sögu. 

Nú hópast útlendingarnir heim til sín, enda komu þeir hingað í algerlega afbrigðilegu efnahagsástandi, þar sem kveikt hafði verið þenslubál við Kárahnjúka 2002 með hárri ofþensluöldu sem gat ekki endað öðruvísi en með öldudal á eftir, sem við súpum nú seyðið af. Timburmenn eftir fyllerí.

Tjaldað til einnar nætur og ekkert horft fram á við til hinna óhjákvæmilegu endaloka, sem óbreytt virkjana- og stóriðjustefna mun færa þjóðinni: Í fyrirhuguðum álverum fá aðeins 2% vinnuafls landsmanna atvinnu í kjörfar auglýsinga þar sem lýst er eftir starfsfólki og ENGRAR sérstakrar menntunar krafist. 

P.S.

Heyri í útvarpsfréttum í viðtali nú í hádeginu við einn af skólastjórum framhaldsskóla á Austurlandi að skólamenn þar séu alveg undrandi á því að nemendum fjölgi ekki heldur fækki jafnvel á þessum þenslutímum hér fyrir austan, þar sem ég er staddur nú.

Í verkmenntaskólanum hefur nemendum fækkað um fimmtíu og reyndist algerlega misheppnað að bjóða upp á sérstaka námsbraut í álfræðum. Er það furða úr því að erfiðlega virðist ganga að manna störf í álverinu þar sem engrar sérstakrar menntunar er krafist? 

 


mbl.is Hópast heim til Póllands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lærum af Norðmönnum.

Hulda Gunnlaugsdóttir kemur frá hárréttum stað til að fást við skipulagsvandamál Landspítalans. Á sínum tíma fór ég og skoðaði nýja sjúkrahúsið í Oslo og síðan til samanburðar sjúkrahúsið í Þrándheimi. Og hvílíkur munur!

Oslóbúar fóru þá leið að finna nógu góða, auða og stóra lóð sem næst miðju samgöngukerfis Oslóborgar og byrja með autt blað, reisa þar sjúkrahús frá grunni sem hrein upplifun var að skoða.

Í Þrándheimi var íslenska leiðin farin, að reyna með bútasaumi viðbygginga, jarðganga og tengibygginga að búa til spítala. Flestum, sem ég ræddi við, bæði þar og í Osló, kom saman um að þetta væru mikil mistök og víti til að varast.

Hins vegar gat ég ekki betur heyrt en að spítalinn í Osló fengi einróma lof.


mbl.is Hulda forstjóri Landspítala
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinni nýi og endurvakti veruleiki.

Nýr veruleiki er að renna upp fyrir þjóðum Vesturlanda. Rússar eru að rísa úr öskustó og sætta sig ekki lengur við að vera hornreka, heldur láta nágrannaþjóðir sínar finna fyrir afli og veldi rússnekska bjarnarins. Olíu- og gasveldið vegur þar þyngst en ekki má heldur gleyma því að þeir eiga enn nógu mikið af kjarnorkuvopnum til að gamla skammstöfunin MAD, mutual assure destruction, sé enn í fullu gildi.

Að því leyti til hefur veruleiki Kalda stríðsins aldrei horfið, - veruleiki sem er ekki sæmandi dýrategund, sem telur sig skapaða í mynd Guðs almáttugs og verðskulda heitið homo sapiens. Vísa til bloggpistils á undan þessum.


mbl.is Þjóðverjar vilja ekki verða of háðir Rússum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

G E G T - Gulltryggð Eyðing, Gagnkvæm Tortíming.

Ég hrökk upp með andfælum í fyrrinótt eftir óhugnanlegan draum sem mig dreymdi. Ég titraði, draumurinn var svo raunverulegur og sannfærandi að ég var nokkra stund að átta mig á því að hann væri ekki veruleikinn.

Mig dreymdi að oboðsleg birta lýsti skyndilega upp íbúðina sem ég bý í og þegar ég fór út að stofuglugganum sá ég svepplaga ský stíga til himins handan við Lönguhlíðina. Um mig læstist ólýsanleg skelfingartilfinning: Kjarnorkustríð var brostið á.

Eldflaugarskotið með sprengjuna hafði að vísu greinilega geigað út þrí að hún kom niður suður af Selvogi, en hver vissi hvar næsta sprengja myndi springa?

Allan tíman sem Kalda stríðið stóð dreymdi mig aldrei svona draum vitandi af kjarnorkuógninni sem vofði yfir öllu mannkyni. Af hverju dreymir mig þá svona draum nú? Líklegast vegna þess að nýjustu árekstrar Rússa og Bandaríkjamanna eru á milli þjóða sem ráða enn yfir kjarnorkuvopnum sem nægja til að eyða öllu lífi á jörðinni.

Mig dreymir þetta af því að með hegðun sinni við austanvert Svartahaf hafa þessi stórveldið komið í bakið á mér og öllum íbúum jarðar þegar við vorum farin að halda að gereyðingarógnin heyrði fortíðinni til.

Ekki er langt síðan upplýst var að upp úr 1980 munaði minna að kjarnorkustríð brytist út en í Kúbudeilunni 1962. Kannski dreymdi mig þennan draum nú vegna þess að nýlega sá ég fyrir tilviljun í sjónvarpi 45 ára gamla mynd Kubriks um doktor Strangelove og sat enn sem límdur við skjáinn, dáleiddur af þessu meistarverki kaldhæðni, hrollvekju og ádeilu. Ætti að vera skylda allra jarðarbúa að sjá þessa mynd.

Kjarnorkuógnin er í raun enn meiri þá en nú ef miðað er við eldflaugafjölda og sprengimagn. Mér finnst ekki boðlegt fyrir mannkynið að líta fram hjá lögmáli Murphys sem segir að ef eitthvað geti farið úrskeiðis, muni það óhjákvæmilega gerast fyrr eða síðar.

Þessi ógn blasir enn við en við lítum undan, -nema ef undirmeðvitundin tekur völdin eins og í martröð draums míns í nótt, - martröð sem þvi miður getur enn orðið að veruleika í vöku.

Ef hún verður að veruleika veit ég nú hver tilfinningin verður þegar sprengjurnar fara að springa og verð að reyna að sætta mig við það að lifa það ekki að þessari ógn verði bægt frá okkur eða afkomendum okkar. Það finnst mér dapurlegt því forsendan fyrir kjarnorkuvopnaeign stórveldanna er sú að báðir aðilar trúi því að mótherjinn beiti þeim, telji hann sig knúinn til þess. Annars er "fælingarmátturinn" marklaus.

Skammstöfunin yfir þetta er MAD, "mutual assured destruction". Útleggst á íslensku sms-máli "GEGT", "Gulltryggð Eyðing, Gagnkvæm Tortíming." ("Gegt" er sms-skammstöfun fyrir "geðveikt")


Afrek sem ekki mega gleymast, 1950 og 2009.

Glæsileg og eftirminnileg þjóðhátíð sem náði hámarki í gærkvöldi með orðuveitingu í gærkvöldi mun lifa í sögu þjóðarinnar. Silfurverðlaun smáþjóðar í flokkaíþrótt á Ólympíuleikum er heimsviðburður í íþróttum. Einu sinni áður hefur þjóðin þó átt álíka stóran hóp íþróttamanna sem vann afrek sem varla verður endurtekið af nokkurri smáþjóð. Það var árið 1950.

Frjálsar íþróttir eru samkvæmt hefð aðalgrein ÓL og einhver fjölmennasta íþróttagrein heims. Aldrei hefur smáþjóð náð svipuðum árangri á Evrópumeistaramóti í þeirri grein og 1950. Íslendingar áttu hóp frjálsíþróttamanna þetta sumar sem var með kandídata fyrir tólf verðlaunapeninga á þessu móti, þar af sjö gullverðlaun. 

Þetta var í þremur af fimm spretthlaupagreinum, þremur af fjórum stökkgreinum og einni kastgrein. 

Heim kom hópurinn með þrjá gullpeninga, tvö gull og eitt silfur. Þrír peningar náðust ekki vegna þess að viðkomandi keppendurnir gátu aðeins keppt í einni grein. Einn keppandinn fékk ekki að keppa í grein sem hann náði í besta tímanum í Evrópu þetta sumar.

Keppni í langstökki og stangarstökki fór fram á sama tíma og Torfi Bryngeirsson valdi aukagrein sína, langstökk og vann gull í henni en varð að sleppa aðalgrein sinni, stangarstökkinu.

Örn Clausen valdi aðalgrein sína, tugþrautina og vann silfur, en varð að sleppa að keppa í langstökki og 110 metra grindahlaupi þar sem hann átti möguleika á verðlaunum. Örn var í hópi þriggja bestu tugþrautarmanna í heimi í þrjú ár í röð. Hann varð að keppa á óhentugum lánsskóm vegna þess að skór hans urðu eftir á Reykjavíkurflugvelli.

Haukur Clausen varð fimmti í aukagrein sinni, 100 metra hlaupi, hársbreidd frá bronsinu, en fékk ekki að keppa í aðalgrein sinni, 200 metra hlaupi., í hverri hann náði besta tíma í Evrópu það árið og setti Norðurlandamet sem stóð í sjö ár.

Hörður Haraldsson hafði unnið Hauk hér heima en tognaði og komst ekki á mótið.  

Ásmundur Bjarnason átti möguleika á bronsi í 200 metra hlaupi en varð fimmti.  

Skúli Guðmundsson hefði átt góða möguleika á gulli í hástökki en komst ekki á mótið, líklegast af fjárhagslegum ástæðum.

Hársbreidd munaði að Guðmundur Lárusson hreppti brons í 400 metra hlaupi.

Boðhlaupssveitin í 4x100 komst í úrslit og átti ágæta möguleika á bronsi.  

Gunnar Huseby sigraði í kúluvarpi og kastaði 1,5 metrum lengra en næsti maður!  

Árið eftir vann þessi hópur Dani og Norðmenn í einni og sömu landskeppninni.

Sjá menn fyrir sér að hægt verði að endurtaka þetta? Sú skýring stenst ekki að Íslendingar hafi notið aðstöðumunar vegna afleiðinga heimsstyrjaldarinnar. Á Íslandi var aðstaða til æfinga sú lélegasta í Evrópu, sumarið styst og kaldast og æft inni á veturna í húsum á borð við hið agnarsmáa ÍR-hús.

Örn Clausen hafði aðeins aðstöðu til að keppa einu sinni á hverju sumri í tugþraut. Miðað við nýja stigatöflu, sem skilaði Erni í þriðja sæti á heimslistanum 1950, hefði Örn unnið gullið í Brussel, en þar var keppt eftir gömlu töflunni. 

Innflutningshöft og fjárskortur ríktu. Torfi var svo heppinn að vinna í hlutkesti par af nýjustu gerð af hlaupaskóm, sem KR-ingum fengu innflutningsleyfi fyrir. Örn keppti í kastgreinum í skóm Jóels Sigurðssonar sem voru þremur númerum of stórir.  


mbl.is Orðuveiting á Bessastöðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Djúp tilfinning í Íslandsferð.

Fór síðasta sunnudagskvöld til að horfa á Íslandsmynd Stefans Erdmanns í Austurbæ, en hún er sýnd hér í tengslum við kvikmyndahátíðina Shorts&docs. Stefan er ekkert að skafa utan af hlutunum í þessari mynd heldur talar hann í myndum, máli og tónlist beint frá hjartanu til áhorfandans þegar hann lýsir djúpri upplifun í Íslandsferð sinni.

Myndin er sem sagt einn samfelldur dýrðaróður til landsins og lýsir vel þeim tilfinningum sem margir útlendingar fá í Íslandsferðum. Myndatakan er í mörgum myndskeiðum mjög listræn, grípandi og tæknilega góð og stemningin mögnuð.

Áhorfandinn verður að setja sig í sérstakar stellingar, svona svipað og þegar Íslendingur ekur um þveran og endilangan Noreg og það tekur nokkra daga að ná niður hraðanum og sætta sig við það hve hægt verður að aka. Manni verður ljóst að óhjákvæmilegt er að slappa af og hægja á sér og finnur að maður hefur gott af því.

Stefan leitast við að fá áhorfandann til að upplifa landið okkar á svipaðan hátt og hann, slappa af og leyfa tímanum að líða hægt áfram eða næstum því að standa kyrr. Fyrir borgarbúa og þá sérstaklega íbúa í hinum þéttbýlu löndum Evrópu er þessi djúpa, hæga og kyrra upplifun það dýrmætasta sem Íslandsferð getur gefið.

Að þessu gefnu er það hrein nautn á stórum köflum að horfa á þessa Íslandsmynd. Hún virkar dálítið langdregin á köflum og myndatakan kannski í full einhæfum stíl, sömu hægu hreyfingarnar og mixin út alla myndina, en tilgangurinn er að lokka áhorfandann inn í sömu djúpu upplifunina og myndatökumannsins þar sem fegurðin ríkir ein, ofar hverri kröfu og klukkan hefur stöðvast.

Fyrir stressaðan og tímakrepptan nútímamann getur verið holl tilbreyting fólgin í slíku og þess vegna mæli ég með því að fólk sjái þessa kraftmiklu, hjartnæmu og um leið upplýsandi mynd, ekki síst þeir sem þekkja lítið til föðurlands síns. Myndin verður sýnd klukkan 15:00 á morgun, fimmtudag, í Austurbæ.


Langt út fyrir handboltann.

Þessir dagar hafa verið afar dýrmætir fyrir þjóðina á þeim tíma sem okkur er þörf á að geta notið þess að vera samhent, glöð og bjartsýn þjóð þrátt fyrir óveðursský á himni í kjörum margra. Það eitt að hafa fyrstir smáþjóða silfurverðlaun fyrir flokkaíþrótt í meira en aldarsögu Ólympíuleikanna er svo mikils virði fyrir þjóðina og aðrar smáþjóðir heims að það nær langt út fyrir íþróttina handbolta.

Við höfum áður eignast einstaklinga sem hafa náð í fremstu röð á heimsvísu en þetta er alveg nýtt og ekki víst að það gerist nema einu sinni á öld. Þess vegna var það svo dýrmætt hve margir tóku þátt í hátíðarhöldunum í kvöld og sköpuðu fjöldastemningu sem lifir.


mbl.is Með stöðugan kökk í hálsinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðeigandi að heiðra Hafnarfjörð.

Ég legg til að silfurmennirnir frá Peking aki eftir herlegheitin í Reykjavík til Hafnarfjarðar og heiðri þessa Mekku handboltans á Íslandi með því að fara fram hjá borðunum sem þar átti að setja upp í góðri trú.

Að öðru leyti er ég áfram þeirrar skoðunar sem ég set fram í pistli hér á undan með upptalningu á nokkrum þeirra sem komu til landsins í Reykjavík: Friðrik 8, Kristján 10, Halldór Laxness, Nelson, Lindberg, Balbo, fyrsta millilandaflugvélin, Friðrik 9, Vilhhjálmur Einarsson, fyrsta íslenska þotan, íslensku handritin, Bobby Fisher.


mbl.is Svið reist á Lækjartorgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband