Færsluflokkur: Bloggar
23.1.2013 | 22:52
Nýr handhafi titilsins "umhverfismildasti bíll heims?"
Nýlega var gerð úttekt á því hver væri umhverfismildasti bíll heims, þegar tillit væri ekki aðeins tekið til beinnar eldsneytiseyðslu bílsins sjálfs, heldur einnig til þeirra umhverfisáhrifa sem allt smíða- og förgunarferli bílsins hefði í för með sér svo kerfið sem þyrfti í kringum hann.
Kom í ljós að hreinn rafbíll, sem ekið væri jafnt innan bæjar sem utan væri ekki umhverfismildastur, heldur tvinnbíll.
Ég hef beðið spenntur í mörg ár eftir því að þrýstiloftsbíll liti dagsins ljós, ekki bara síðustu árin síðan fréttist af Frakka einum, sem væri að þróa slíkan bíl, heldur allar götur frá því að hugvitsmaður á Suðurnesjum setti fram hugmynd um loftbíl.
Nú virðist slíkur franskur bíll vera í burðarllið, sjá tengda frétt á mbl.is
Kosturinn við þrýstilofts-tvinnbíl hlýtur að vera sá að þrýstiloftsbúnaðurinn skilur ekki eftir sig þann vanda sem þarf að leysa varðandi förgun rafgeyma og flókins búnaðar þeim tengdan. Hreint andrúmsloft sýnist vera miklu umhverfismildara en lithium eða blý á rafgeymum.
Síðan sér maður fyrir sér þróun í átt að því að hægt yrði að nota rafmagn til að setja þrýstiloftshleðslu á bílinn í "heimahöfn" eða á sérstökum stöðvum með slíkan búnað.
![]() |
Citroen kynnir bíl knúinn þrýstilofti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.1.2013 | 19:32
Ógleymanlegasta myndin í minni mínu.
"Íslensk náttúra er undirstaða lífs í landinu og því ber öllum að virða hana og vernda."
Þannig hljómar fyrsta setningin um íslensk náttúruöfl og sambúð þjóðarinnar við þau í frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.
Slæmt veður, sem sífellt er verið að spá, það nýjasta fyrir næstu helgi, hafði valdið því að allur Vestmannaeyjaflotinn var í höfn að kvöldi 23. janúar 1973.
Þess vegna gekk svo vel að flytja alla íbúana burt.
Ég var vakinn rétt fyrir klukkan eitt og varð því með þeim fyrstu sem komst til eyja og hinn eini sem flaug þangað neðar skýjum á þáverandi TF-FRÚ.
Þess vegna varð ég líka einn um það að þrykkja inn í minni mitt einstæðri sjón sem enginn annar sá, að koma lágt á móti lýsandi ljósakeðju bátanna sem streymdu frá eyjum og sjá flóttafólkið standa á þilförum bátanna.
Í baksýn var Heimaey með ljósunum í bænum og tveggja kílómetra eldveggurinn á bak þvið þau.
Ég var að vísu bæði með ljósmyndavél og kvikmyndatökuvél en birtuskilyrðin á þessu augnabliki voru ekki nógu góð til að ná almennilegri mynd.
Ég hef verið á vettvangi og upplifað allar helstu hamfarir og stórslys hér á landi í hálfa öld, marga tugi þeirra, en þessi mynd sem ég þarf ekki annað en að loka augunum til að sjá fyrir hugskotssjónum, er sú lang magnaðasta og einstæðasta.
Kannski verður með nútíma tækni hægt að búa hana til eftir þessari lýsingu og væri þá flottast að ljósmyndarinn væri aðeins fyrir aftan og ofan FRÚna þar sem hana ber við fremsta bátinn í flóttanum.
![]() |
Spá stormi og snjókomu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
23.1.2013 | 11:45
"...Björn á Skjónu geysti´um gil..."
"..voru Hljómarnir á toppnum, Björn á Skjónu geysti´um gill
og gullöld var á landi hér, ja, svona hér um bil..."
Þessar línur úr laginu "Í þá gömlu góðu daga" eru dæmi um það að líklegast hefur verið deilt um eignarhald á hestum allt frá landnámi, og eru deilur Björns Pálssonar um eignarhald á hryssunni Skjónu gott dæmi um það. Þau mál stóðu árum saman og fóru bæði fyrir sýslumanninn á Blönduósi og hæstarétt.
Björn var eitt sinn heiðursgestur á Kútmagakvöldi hjá Lionsklúbbnum Ægi og fór á kostum. Ég man stóran hluta af því þegar hann svaraði spurningum gesta, meðal annars um Skjónumálið og fer það hér fyrir neðan. Spurningarnar eru skáletraðar.
"Af hverju ertu að eyða tíma og peningum í það að standea í öllum þessum málaferlum fyrir dómstólunum?
Af því ég vinn þau öll.
Af hverju vinnurðu þau öll?
Af því að ég er með besta lögfræðing á Íslandi, Jón E. Ragnarsson.
Af hverju segirðu að hann sé besti lögfræðingur á Íslandi?
Af því að hann gerir allt sem ég skipa honum að gera.
Ein samviskuspurning: Þið Framsóknarmenn lendið oft í erfiðum málaferlum. Hermann Jónasson var sakaður um að hafa skotið æðarkollu ólöglega þegar hann var lögreglustjóri en slapp frá því, og þú ert sakaður um að eiga ekki Skjónu þótt þú eignir þér hana. Segðu okkur nú í trúnaði hver er sannleikurinn í þessu.
Það skal ég gera. Ég á Skjónu en Hermann skaut helvítis kolluna."
![]() |
Deilt um Mánastein fyrir dómi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.1.2013 | 20:03
"Séríslenskar aðstæður"?
Hve oft notum við ekki ofangreind orð um ýmis fyrirbæri hér á landi. Oft eiga þau rétt á sér, vegna þeirrar sérstöðu landsins að vera eyland, langt norður í hafi, byggða mjög lítilli þjóð.
En allt of oft eiga þessi orð ekki við. Þau voru notuð í andófi gegn lögleiðingu bílbelta af því að hér á landi væru "séríslenskar aðstæður" í þeim efnum og meira segja í upphafi, þegar ekki var lengur hægt að gera okkur að athlægi í augum umheimsins, voru sett inn undantekningarákvæði þar sem ekki þyrfti að nota bílbelti, eins og til dæmis þar sem vegir lægju um mikinnn halla lands.
Það var gaman að sjá í morgun að í fyrstu virtist sem "séríslenskar aðstæður" í veðurfari væru okkur efst í huga varðandi blæðingar veganna.
Sem betur fer beinist athyglin núna að efninu í vegunum, enda eru aðstæður í veðurfari undanfarinna daga alls ekki "séríslenskar" heldur algengar um öll lönd á norðurhjaranum.
![]() |
Svakalegt að lenda í svona |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.1.2013 | 18:50
"Ef" og "hefði" dugar ekki.
Lið, sem margir fróðir menn um handknattlei telja nú er vera eitt af fjórum bestu handknattleikslið heims, getur ekkert sagt við því þótt það komist ekki í undanúrslit.
Liðið tapaði fyrir liði sem "hefði" ekki átt skilið að vera í hópi átta bestu liða heims að mati sérfræðinganna, og í heimsmeistarakeppni dugar engin afsökun fyrir því fyrir "betra liðið" að tapa illa fyrir "lélegra liði".
Kynslóðaskiptin í liðinu, sem ollu því að það tók það nokkra leiki á stórmótinu til að laða það besta fram í landsliðshópnum, voru einfaldlega staðreynd sem blasti við fyrirfram og því hluti af stöðu liðsins og getu þess.
Að þessu sögðu ítreka ég hins vegar ánægjum mína með það form, sem liðið var komið í í leiknum við Frakka og nú gildir bara kjörorðið góða: "Það gengur betur næst!".
![]() |
Ísland hefði farið í undanúrslit |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.1.2013 | 12:46
Hvernig getur svona gerst ?
Blæðandi þjóðvegir svo hundruðum kílómetra skiptir í heilu landshlutunum hlýtur að vera einsdæmi í heiminum og spurningarnar hrannast upp.
Um lönd heims liggja milljónir kílómetra af bundnu slitlagi og stór hluti þeirra vega liggur um lönd, sem eru á norðurhveli og með veðurskilyrði sem eru oft lík því sem hér er, til dæmis á Norðurlöndunum.
Af hverju gerist þetta allt í einu út um allt og það bara í einu landi? Og söngurinn hans Bubba byrjar strax að hljóma: Ekki benda á mig.
Í lögfræði er hugtakið bona fide viðurkennt, að menn séu í góðri trú, - grandalausir. Þeir ökumenn, sem hafa orðið fyrir tjóni gátu ekki annað en verið í góðri trú þegar þeir fóru út á vegi, sem eiga að standast sömu kröfur og vegir í öðrum löndum.
En myndin, sem fylgir fréttinni á mbl.is segir mikla sögu. Hvernig í ósköpunum gat ökumann bílsins, sem tættist í sundur, átt von á öðru eins?
Raunar er "þetta reddast" hugsunin víða í gerð samgöngumannvirkja hér á landi. Til dæmis er notað lélegt grágrýti í bundna slitlagið á götum Reykjavíkur margfalt endingarminna en er í nágrannalöndunum og myndi líklegast ekki staðist kröfur í þeim löndum.
Þess vegna slitna göturnar í Reykjavík svo hratt að djúpar og varasamar vatnsfylltar rásir myndast á götunum og svifryk er miklu meira af völdum slits sem negldir hjólbarðar valda en vera þyrfti.
![]() |
Blæðandi þjóðvegur stórhættulegur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
21.1.2013 | 20:22
Aðferðin: Þóf af öllu tagi í fjögur ár.
Allt frá upphafi stjórnarskrármálsins á útmánuðum 2009 hefur aðferð andstæðinga breytinga á stjórnarskránni aftur og aftur blasað við: Þóf og tafir, að drepa málum á dreif.
2009 voru heil fjögur ár til stefnu fram að næstu kosningum til að gera nýja stjórnarskrá en Sjálfstæðismenn á Alþingi gáfu tóninn af sinni hálfu til þess að tefja fyrir með því að beita strax málþófi.
Eftir kosningarnar 2009 var að vísu samþykkt með 63 atkvæðum allra þingmanna að halda í þá vegferð, sem síðan hefur staðið en á þessa staðreynd er aldrei bent í umræðunni nú.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins áttu hugmyndina um þjóðfundinn, en hallmæla nú hver af öðrum þessari hugmynd sinni sem algeru rugli.
Þjóðfundurinn var að mínu mati nauðsynlegur en tafði auðvitað fyrir ferlinu.
Síðan kom önnur töf, hinn fáránlegi hæstaréttardómur sem átti sér enga hliðstæðu á Vesturlöndum.
Nú er liðið eitt og hálft ár síðan frumvarp að nýrri stjórnarskrá lá fyrir og "efnisleg umræða og umfjöllun " gat hafist, en andstæðingar þess hafa notað öllu möguleg ráð í þessa 18 mánuði, bæði í málþófi í umræðum á þingi og í nefndarstörfum til þess að tefja fyrir henni og drepa umræðunni á dreif og tala eins og að fyrst nú séu þessi umræða og umfjöllun að hefjast.
Yfirgnæfandi meirihluti í þjóðaratkvæðagreiðslunni; þau úrslit eru töluð niður sem markleysa, en nú heyrum við í fréttum að í þjóðaratkvæðagreiðslu í Austurríki hafi meirihlutinn samþykkt herskyldu og var þó þáttakan þar minni en í þjóðaratkvæðagreiðslunni hér um stjórnarskrána og mjótt á mununum hjá þeim sem kusu.
Hvergi sést því haldið fram að þjóðaratkvæðagreiðslan þar hafi verið marklaus né heldur að kosning Obama í embættið, sem hann var svarinn inn í dag, hafi verið marklaus af því að aðeins jum helmingur Bandaríkjamanna tók þátt í forsetakosningunum.
Yfirforinginn í Hádegismóum hefur gefið línuna: Eftir kosningar verði mynduð stjórnarskrárnefnd með gamla laginu með fulltrúum allra flokka til að uppfylla loforðið frá 1944 um nýja stjórnarskrá, eins og gert var æ ofan í æ án árangurs í 70 ár vegna þess að allir í nefndinni höfðu neitunarvald og beittu því alltaf.
Ef dagskipan ritstjórans verður fylgt er góð von til þess fyrir andstæðinga nýrrar stjórnarskrár að geta hafið nýtt 70 ára þóf í framhaldi þess fyrra.
![]() |
Stjórnlagafrumvarp fallið á tíma |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
21.1.2013 | 02:05
Gamall "Dreamliner" - Lego-draumur gamlingjans.
Það eru ekki aðeins ungmenni sem eiga sér draum um að láta til sín taka varðandi Legokubba.
Ég á mér 45 ára gamlan draum um að búa til stóra eftirlíkingu af þotu eingöngu úr venjulegum Legókubbum, en til þess þyrfti ég að nota mikið magn af þeim.
Ástæða þessa er sú að þegar elstu börnin mín voru komin á þann aldur að hafa gaman af því að leika sér með Legokubba gáfum við Helga þeim þá í jólagjöf.
Eins og stundum vill verða bættist pabbinn þó fljótlega í hóp þeirra í fjölskyldunni sem hafði gaman af kubbunum.
Börnin þrjú, sem þá voru á aldrinum 3ja til 6 ára vildu meðal annars búa til flugvélar og þá fann ég það út, að þeir sem bjuggu þær til, settu þær saman í 90 gráðu skökku plani, þ. e. að setja vélina saman þar sem hún stæði lárétt.
Ég fann það út að bæði skrokk og vængi væri betra að búa til með skrokkinn standandi upp í loft eins og turn og vængina sem veggi út frá turninum.
Síðan væri "flugvélinni" velt fram fyrir sig yfir í lárétta stöðu.
Þegar ég tók nær alla kubbana og gerði stóra tvær svona vélar urðu systkinin ungu afar ánægð og fóru að fljúga þeim af kappi.
En kappið var oft meira en forsjáin og vélarnar skemmdust eða brotlentu hvað eftir annað, sem kostaði ekki bara sorg barnanna heldur líka kröfur um tímafrekar flugvélaviðgerðir mínar.
Svo fór að þetta flugvirkjastarf varð mér ofviða og lagðist af.
En æ síðan hef ég átt þann draum að fá í hendur nógu marga venjulega Legókubba til þess að búa til mína "Dreamliner"-þotu sem ekki þyrfti að kyrrsetja vegna smíðagalla og skemmdist aldrei.
Churchill sagði við Roosevelt: "Give me the tools and I will finish the job" og stundum hugsa ég um það hvað það væri gaman að fá nóg af Legokubbum í hendur og klára smíði draumaþotunnar.
En líklega þyrfti ég að bæta við: "Give me the time and I will finish the job" og það yrði kannski erfitt að uppfylla þá ósk.
![]() |
Naustaskóli vann LEGO-keppnina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.1.2013 | 01:51
Flóð af þrjótaskilaboðum.
Iðni skálka, sem reyna að hafa fé af fólki, er með ólikindum og ekki svo fáir tölvupóstar sem maður hefur fengið síðustu árin með tilkynningum um lottóvinninga, happdrættisvinninga,verðlaun og viðurkenningar sem maður verði að nálgast með því að senda til baka persónuupplýsingar.
En þrjótarnir vita, að því fleiri sem þeir ráðast á, því meiri líkur eru á að einhver láti gabbast og festi sig í neti þessarar tegundar af þjófum, sem verða æ stórtækari með hverju árinu.
Netið og fjarskiptavæðingin hefur falið í sér nýja veröld og marga kosti en líka aukið á ýmsar hættur og óhroða.
Sem betur fer eru kostirnr enn sem komið er, miklu fleir og meiri en gallarnir, en magnið af hvoru tveggja skapar nýjan vanda við að lífa lífinu í sæmilegu jafnvægi í þessum nýja heimi.
![]() |
Lögreglan varar við smáskilaboðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.1.2013 | 21:00
Íslenska landsliðið til sóma!
Það er svolítið skrýtið að segja það að sjaldan hafi maður verið jafn ánægður með landslið Íslands og í tapleik þess nú rétt áðan.
En það gerist ekki á hverjum degi, að sjá heims- og Ólympíumeistara þurfa að leggja sig alla fram og geta prísað sig sæla fyrir að vinna nauman tveggja marka sigur á strákunum okkar í leik sem þar sem ekkert er í boði nema að sigra.
Hvað eftir annað var hægt að gleðjast yfir frábærum tilþrifum okkar manna í besta leiknum, sem þeir léku á þessu heimsmeistaramóti. Einkum var ánægjulegt að sjá hvernig nýliðarnir fjórir, Kári Kristjánsson, Ólafur Gústavsson, Arnór Gunnarsson og vítaskyttan Þórir Ólafsson, sem voru látnir axla ábyrgð í þessum leik, stóðu sig vel, sýndu yfirvegun og oft frábær tilþrif.
Þórir var sallarólegur og öruggur í vítaköstunum og skorað úr þeim öllum sjö.
Eins og við mátti búast var það tapið gegn Rússum í fyrsta leik okkar, sem varð afdrifaríkt. Ef íslenska liðið hefði leikið eins vel gegn þeim og Frökkum hefði sá leikur ekki tapast.
Rússar rétt mörðu Brasilíu í kvöld.
En þess ber að geta að í þessum fyrsta leik okkar á mótinu við Rússa voru Aron Kristjánsson og liðið sjálft í nokkurri óvissu um það hvernig nýliðarnir myndu standa sig og falla inn í leik liðsins.
Ekki var hægt að krefjast þess að liðið spryngi út fullskapað þá og það lægi fyrir í fyrsta leik, en í nú sjáum við í síðasta leik liðsins á þessu heimsmeistaramóti hvað í því og landsliðsþjálfaranum býr.
Frammstaðan nú er jafnvel glæsilegri nú en eins marks sigur á Frökkum á Ólympíuleikunum, því að útsláttarleikur eins og núna, segir meira en leikur í milliriðli eins og leikurinn á OL var.
Við getum hrópað tvö kjörorð: "Jú, við getum það!" - og - "Það gengur betur næst!"
![]() |
Ísland úr leik eftir hörkuleik |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)