Færsluflokkur: Bloggar
29.12.2013 | 02:02
Afrek svipaðs eðlis og hjá berklalækningunum forðum.
Eitt helsta afrek læknavísindanna í síðustu öld var fólgið í því að ráða niðurlögum "hvíta dauðans," berklanna. Þessi hræðilegi sjúkdómur var einna verst hvað varðaði það að hann réðist á fólk á öllum aldri.
Ég er orðinn nógu gamall til að muna þá tíð þegar böl áfengissýkinnar réðist á unga sem gamla án þess að neinum skipulegum vörnum yrði við komið.
Áfengisbölið var miklu víðar en flesta óraði fyrir enda þöggunin og meðvirknin miklu meiri en nú.
Sjúkdómurinn réðst eins og berklarnir á fólk á öllum aldri.
Allt í kringum mann var fólk, sem áfengið lék grátt, skapaði því miklar þjáningar og færði það í gröfina um aldur fram enda engin nútíma úrræði fyrir hendi né þekking á því hvernig hægt væri að ráða við þennan mikla vanda.
Engin veit hve margar þúsundir Íslendinga hefðu hlotið lækningu og verið hægt að bjarga ef stofnun eins og Vogur samtök með sama afl og SÁÁ hefðu verið á þeim tíma.
Á tímamótum í starfi samtakanna er hollt að íhuga það gagn sem þau hafa unnið fyrir land og þjóð.
![]() |
Litið yfir farinn veg hjá SÁÁ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.12.2013 | 14:30
Græðgisæðið, stærsta atriði málsins.
Í öllum umræðum um sæstreng frá Íslandi til Evrópu hefur ríkt þöggun eða gleymska um aðalatriði málsins og mesta áhyggjuefnið sem er það fyrirsjáanlega virkjanaæði, sem renna mun á Íslendinga ef af stórfeldri raforkusölu til Evrópu verður.
Nú þegar stefna valdhafar að því að innan fárra ára verði búið að þurrka upp helminginn af stórfossum Íslands án þess að fara í lagningu sæstrengs.
Má nærri geta hvað muni gerast ef af lagningu strengsins verður.
Við Íslendingar virðumst svo blindir á verðmæti náttúruundra landsins, sem er það langstærsta sem okkur sem þjóð hefur verið falið að varðveita fyrir okkur, afkomendur okkar og mankyn allt, að forðast hefur verið hingað til að ýja einu orði að því hvort við ætlum að fórna þeim öllum eins og þau leggja sig á altari sams konar græðgisæðis og olli hér efnahagshruni fyrir fimm árum.
Það er ömurlegt að forstjóri Alcoa á Íslandi skuli hafa rofið þessa þögn valdaaflanna en ekki íslenskir ráðamenn. Sæstrengur myndi rjúfa þá gíslingu íslenskrar orku, sem íslenskir ráðamenn hafa fært stóriðjunni með þeim afglapahætti að eyðileggja fyrirfram alla samningsaðstöðu sína varðandi orkuverð með yfirlýsingum sínum um áframhaldandi stóriðjustefnu á fullu.
![]() |
Arður af sæstreng óviss |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
27.12.2013 | 23:38
Snjallúrin mest spennandi ?
Snjallúrin svonefndu eru nýjung sem vekja spenning hjá mér. Ástæðan er sú að ekkert tæki er eins aðgengilegt og það sem er beint fyrir framan nefið á manni á úlnlið.
Ég hef fengið af þessu reynslu undanfarinn mánuð. Hann hefur verið fyrsti tíminn í lífi mínu sem ekkert úr hefur verið á úlnlið mínum, en áratugum saman gekk ég með þrjú úr. (Tvö eru ekki nóg, - ef þeim ber ekki saman veit maður ekki hvort er rétt).
Þegar maður var kominn með tvo farsíma með klukku féll úrafjöldinn niður í eitt. Síðan slitnaði festin og ég hef verið úrlaus þennan mánuð, ekki tímt að kaupa mér festi.
Ég var líka forvitinn um hve vel það gengi að fara eftir klukkunum í farsímunum.
Það gekk alveg bölvanlega. Það er svo miklu óhentugra að teygja sig eftir síma og gá á hann heldur en að horfa beint á úrskífuna fyrir framan sig.
Hér áður fyrr gengu menn með vasaúr í keðjum. Þau hurfu smátt og smátt og viku fyrir úrunum.
Svipað gæti gerst að hluta eða jafnvel alveg varðandi snjallsímana þannig að eftir sitji aðeins snjallúr og snjallar litlar spjaldtölvur.
Eina áhyggjuefnið gæti verið notkun snjallúranna við akstur. En það hafa verið vandamál varðandi farsínana við akstur svo að það ætti að vera hægt að finna á þessu lausn.
Þekkt er að á sumum bílum hefur hluti af stjórntækjum bílanna verið færður í hnappa í stýrunum. Eitthvað hliðstætt gæti gerst varðandi færslu á ákveðnum viðfangsefnum snjallasímanna yfir í snjallúr.
Þetta eru spennandi tæknitímar. Það virðist ekkert lát á hröðum tækniframförum á þessu sviði.
![]() |
2014 verður ár snjalltækjanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
27.12.2013 | 11:18
Þegar hernaðartækni gagnast friðsamlega.
Það er þekkt fyrirbæri og nöturlegt hve oft það hefur gerst að tækniframfarir í hernaði hafa flýtt fyrir framförum í friðsamlegum tilgangi.
Í báðum heimsstyrjöldunum urðu mjög hraðar framfarir í smíði flugvéla sem flýttu fyrir framförum í friðsamlegu farþegaflugi. Hugsanlega hefði sú bylting, sem farþegaþotur ollu, orðið áratug síðar ef nauðsyn stríðsþjóða til að verða ekki eftirbátar óvinnanna hefði ekki knúið framfarirnar áfram.
Hugsunin á bak við framleiðslu kjarnorkusprengjunnar var sú sama og þegar menn eru vopnaðir byssum og telja sig tilneydda til að verða fyrri til að beita þeim gagnvart andstæðingnum, því að annars verði þeir skotnir sjálfir.
"Annað hvort að drepa eða verða drepinn."
Réttlæting árásanna á Hiroshima og Nagasaki var að mun fleiri mannslífum yrði þyrmt með því að sleppa við innrás í Japan með gamla laginu en var fórnað í þessum árásum.
Margt bendir þó til þess að þessi réttlæting hafi verið hæpin í meira lagi en beislun kjarnorkunnar varð áreiðanlega 10-20 árum fyrr en ella og þar með notkun kjarorkunnar til orkuframleiðslu.
Mörg gögn benda til þess að notkun þóríums til kjarnorkuframleiðslu í stað úraníums sé margfalt umhverfisvænni og sú spurning hefur vaknað, hvers vegna þetta sé ekki gert.
Líklegasta svarið og jafnframt það dapurlegasta er að notkun þóríums gefur enga möguleika á því að búa til kjarnorkuvopn. Það er hart ef hrein hernaðarhyggja stendur í vegi fyrir framförum.
Orðið flygildi hefur hingað til þýtt hvers kyns loftför, stór eða smá, en er kannski ágæt lausn á deilum um heppilegt heiti fyrir fyrirbærið "drone".
Mér leist vel á orðið mannleysa, en það orð þýðir upphaflega slæman mann, og er því með sama gallann um tvíræðni og orðið flygildi.
Eins manns fis mitt, "Skaftið", hef ég oft kallað flygildi, en ef það orð verður tekið til brúks fyrir orðið "drone" má vel vera að sættast verði á þá lausn og þrengja merkingu orðsins flygildi.
Hvað um það, - úr því að hægt er að nota flygildi til að finna skotmörk og gera loftárásir á mannvirki, hernaðartæki og óvini, er auðvitað hægt að nota þau við leit og björgun.
2010 tók ég myndir af Dana nokkrum sem notaði mannleysu, mannlausa smáþyrlu, við myndatökur hjá hótel Rangá og hreifst af.
Reyndi að koma þessu á framfæri við fjölmiðil en fékk ekki hljómgrunn. Áttaði mig reyndar ekki þá á því gildi sem þetta gæti haft við ákveðin skilyrði við leit og björgun, en það er augljós munur á því að nota mannaða flugvél eða dýra þyrlu, langt að komna, heldur en lítið handhægt flygildi.
Skipti svo sem ekki máli hvað snerti notkun tækisins sem leikfangs eða kvikmyndatökutækis, því að það hlaut að koma að því hvort eð var að augu manna lykjust upp fyrir því gagni sem af þessari tækni má hafa.
Verra er ef seinkun í þessu efni kostar mannslíf.
![]() |
Flygildin leita að týndu fólki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
27.12.2013 | 01:18
Steingrímur Hermannsson var 25 árum á undan!
Steingrímur Hermannsson var yndislegur persónuleiki í þeirri viðkynningu sem ég fékk af honum og mér er minning hans afar kær.
Hann hafði einstaka hæfileika í mannlegum samskiptum sem nýttust honum vel í stjórnmálum og gerðu honum til dæmis kleift að halda saman stjórninni 1988-1991 á þann hátt að telja verður stjórnmálalegt afrek.
Við náðum vel saman af því að við áttum margt sameiginlegt, sýn í náttúruverndarmálum til dæmis, og báðir "tækjafrík".
Meðal tækjanna voru bæði bílar og myndavélar og á ég nokkrar óborganlegar sögur af því.
Hvað það síðarnefnda snerti, myndavélarnar, var Steingrímur einstakur.
Samskipti okkar vegna ferðar hans á fund með Yassir Arafat urðu að fréttaefni, vegna þess það spurðist út að ég hefði að hans ósk lánað honum litla kvikmyndatökuvél, sem hann gæti laumað á sér inn á fundinn með Arafat og tekið sjálfur myndir þar.
Þótti sumum hneykslanlegt að með þessu hefði ég gert Steingrím að starfsmanni og kvikmyndatökumanni Stöðvar 2!
Í opinberri heimsókn til Kína var hann líka með sér myndavél og var svo ákafur í myndatökunni að Kínverjarnir rugluðust á honum og ljósmyndara og gerðu "honnör" fyrir ljósmyndaranum í stað Steingríms !
Þessar "selfies" Steingríms voru 25 árum á undan þeirri bylgju sem farsímarnir hafa nú skapað í þeim efnum.
Steingrímur var fyrsti íslenski stjórnmálamaðurinn, sem fyrirfram spurði hve mikinn tíma hann myndi fá til svara í sjónvarpsviðtali og hélt sig innan við uppgefin mörk svo að ekki þurfti að stytta neitt.
Já, hann var einstakur maður, sem kunni að tala við alla eins og jafningja og var aldrei "merkilegur með sig" eins og henda vill marga.
![]() |
Ár sérkennilegra tískustrauma |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
26.12.2013 | 21:25
"Monumental Valley" Evrópu?
Á Kóloradóhásléttunni, sunnarlega í Utah í Bandaríkjunum, nokkru fyrir sunnan Koloradófljótið, er dalur einn með mögnuðum bergmyndunum sem ber nafnið Monumental Valley.
Á blómatíma kúrekamyndanna var dalurinn svo vinsælt tökusvæði fyrir þær myndir að hann hlaut frægð beinlínis fyrir það.
Sú var að minnsta kosti ástæðan fyrir því að við Helga fórum um þennan dal á kvikmyndaferðalagi okkar um suðvesturríki Bandaríkjanna.
Á Íslandi er úrval stórbrotinna sögusviða kvikmynda margfalt á við Monumental Valley.
Það er bæði kostur og galli, kostur vegna þess að þessi svæði gætu hlotið frægð vegna hins sama og Monumental Valley, en galli varðandi það að vegna þess hvað staðirnir eru margir, kynnu þeir að renna saman í eina stórt safn slíkra staða.
Ég hef skrifað drög að kvikmyndahandriti sem ég byrjaður að skrifa bók upp úr varðandi þann möguleika, að Þjóðverjar hefðu tekið Ísland af Bretum 6. október 1940, en það gátu þeir leikandi eftir því sem gögn sýna.
Í þessu verki leikur íslenskt landslag afar stór hlutverk og er þó allur hernaðurinn í seinni heimsstyrjöldinni undir varðandi vettvang atburða.
Það hefur bæði kosti og galla í för með sér. Kostirnir liggja í augum uppi en gallarnir í því að kvikmynd eftir þessu handriti yrði óhemju dýr. En Ísland fengi magnaða kynningu ef svona mynd yrði gerð.
![]() |
Ísland fær loks að vera Ísland |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.12.2013 | 14:04
Hver dagur er ígildi fæðingardags.
Hver einasti dagur í lífi okkar er merkisdagur og mikilvægur dagur.
Hver dagur sem okkur er gefinn til þess að vakna og lifa til kvölds á það sameiginlegt með fæðingardegi okkar, að hann er fyrsti dagurinn í því jarðneska lífi sem við eigum ólifað.
Þó er hver dagur eftir að við vöxum úr grasi í raun mikilvægari fyrir okkur en fæðingardagurinn að því leyti til að á hverjum ævidegi eftir uppvöxt erum við meðvituð um gildi hans, en þegar við fæddumst vorum við ómeðvituð um lífið og tilveruna.
Þess vegna er það mikils virði að byrja hvern dag eins vel og hægt er og njóta hans og nýta hann eins vel og kostur er. Því að fyrirfram vitum við ekki hvort hann verður ekki aðeins fyrsti dagur þeirrar ævi,sem við eigum eftir ólifaða, heldur einnig sá síðasti.
Og þess vegna er líka ástæða til þess að þakka að kvöldi fyrir hvern þann dag sem við fáum að vera ofar moldu.
Ég held líka, að miðað við rannsóknir á þeirri vinnslu á "gögnum" liðins dags, sem fer fram í svefni, sé nytsamlegt að skrá það helsta niður að kvöldi, vegna þess að stundum vilja mikilvæg atriði hafa gleymst daginn eftir.
Mín reynsla er líka sú að það síðasta, sem gert er fyrir svefninn, sé að að lesa eitthvað, skoða eða íhuga, sem manni finnst notalegt, áhugavert og skemmtilegt.
![]() |
Fimm leiðir til að vakna betur á morgnana |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.12.2013 | 02:34
Arabiska vorið kom, en sumarið ekki. Vetur í aðsigi?
"Arabíska vorið" kom að vísu í Líbíu, Egyptalandi og Sýrlandi, en í Egyptalandi var lýðræðislega kjörnum forseta steypt af stóli með hervaldi og nú er erfitt að sjá að neitt hafi í raun breyst síðan Mubarak stjórnaði þar með hervaldi.
"Arabíska sumarið" kom því aldrei, heldur kom strax haust og hugsanlega stefnir í vetur.
Í Sýrlandi ríkir skelfing hræðilegrar borgarastyrjaldar með tilheyrandi neyð og flóttamannaastraumi úr landi.
Líbía liggur vestast af þeim Arabalöndum þar sem "arabiska vorið" kom en um ástandið í því landi gildir kannski svipað og óráðið ástand og lýst var í sögunni Ttíðindalaust á vesturvígstöðvunum."
![]() |
Bræðralag Múslima lýst hryðjuverkasemtök |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.12.2013 | 16:28
"Gangi allt í hag þér hjá..."
Milli mín og séra Hjálmars Jónssonar hefur ríkt gróin vinátta í áratugi. Í veikindum hans sendum við Helga honum og hans nánustu hlýjar árnaðaróskir og jóla- og nýjárskveðjur og vonum að hann komi tvíefldur til leiks í marsbyrjun.
Það má ekki minna vera en að senda honum glaðlegar og léttar stökur, svohljóðandi, í tilefni af því að til stendur að lagfæra á honum vinstri fótinn:
Gangi allt í hag þér hjá,
svo heilsan verði´í lagi,
blóðtappanum bægt sé frá
og bífurnar í lagi !
Þótt hátt þú fljúgir yfir andans lendur
og orðgnótt þín, hún sé oft gulli slegin
þá hefur lengi staðið til og stendur
að styrkja þig, minn kæri, vinstra megin.
![]() |
Messar ekki í ár |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.12.2013 | 02:22
Ég hugsa, þess vegna er ég.
Ofangreind vísdómsorð vefjast oft fyrir mörgum. "Bókvitið verður ekki í askana látið" sögðu þeir sem áttu erfitt með að meta nein verðmæti nema út frá efnislegum mælikvörðum eins og þyngd.
Þessi lífsskoðun og þetta gildismat lifir enn furðu góðu lífi hjá okkur nútímamönnum vegna þess að enda þótt nú sé það svo sár skortur á efnislegum gæðum og örbirgð hjá lang flestum, sem verður til þess að mammon og gull hans verður að höfuðatriði og leiðtoga lífsins, skiptir raunverulegurskortur ekki lengur máli, heldur verður eftirsóknin í auð og völd slík að hún kann sér engin takmörk og finnst alltaf skorta eitthvað.
Höfuðatriðið er þessum hugsunarhætti er að "hugarórar", "tilbúningur", "skáldskapur" og "listir" séu ekki mælanleg með efnislegum mælikvörðum og því að engu hafandi.
Tonnin og megavöttin séu hins vegar áþreifanleg og af því að skáld og aðrir listamenn "framleiddu" ekki neitt mætti skilgreina þá sem afætur og ónytjunga og bagga á þjóðinni.
Ef einhver hefði sagt þeim, sem sögðu á sínum tíma að bókvitið yrði ekki í askana látið, að til væri ósýnilegt og óáþreifanlegt fyrirbæri sem gæti flutt hljóð,myndir og orku á ljóshraða um heim allan ef það væri beislað, hefði sá, sem hefði sagt þetta, hafa verið talinn fullkomlega geggjaður.
Þetta gerði rafmagnið þó síðar en þá var sá hluti þess sem býr til orku og efnisleg gæði tekinn inn í átrúnaðinn á tonnin og megavöttin sem hjálpa til við að búa tonnin til.
Mótív Kjarvals, andlit og álfabyggðir, sem hann sá í grjóti, mosa og grasi, og voru hluti af list hans, sem varð til í Gálgahrauni, eru gerð að athlægi eftir því sem unnt er eins og nýjasta umfjöllun í erlendum og innlendum fjölmiðlum ber vitni um.
Sagan aldanna sem hraunið angar af, göngustígarnir og mannvistarleifarnar, eru líka lítils metin hjá efnistrúarmönnum.
Ástæðan er sú, að gildi þeirra hughrifa sem hraunið veitir, stendur í vegi fyrir og stangast á við hagsmuni valdaafla sem sjá ekkert huglægt gildi í hrauninu, heldur aðeins viðfangsefni fyrir jarðýtur og mannvirkjagerð.
Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur, frumkvöðull þeirrar náttúruverndarhugsunar, sem hafði legið í láginni síðan á dögum Sigríðar í Brattholti og friðlýsingar Þingvalla, velti upp samanburði á verðgildi unaðsstunda og megavattsstunda, en í augum dýrkenda efnisgæða er hægt að meta megavattsstundina í krónum, eftir því hve mikilli framleiðslu í tonnum hún getur áorkað, en unaðsstundin er hins vegar verðlaus, af því að enga þyngdar- magneiningu er hægt að nota á hana.
Sigurður taldi að enda þótt unaðsstundin, hrifningarstundin, væri hugarástand og því óáþreifanlegt, væri fráleitt annað en að viðurkenna gildi hennar.
Hugarástand fólks er nefnilega dýrmætt fyrir hamingju mannsins og lífsnautn. Ef við hugsum ekkert og njótum einskis unaðar hrifningar eða hugarástands, erum við einskis virði.
Við njótum unaðar hugarástandsins, sem fylgir jólunum, en þó er hvergi hægt að þreifa á jólunum eins og málmstykki, sagan af Jesúbarninu og öll tónlistin og ljóðin, sem gerð hafa verið um hana, vega ekki gramm á vigt efnisgæða.
Þjóðsagan um Tungustapa í Hvammssveit er mögnuð og dramatísk saga, sem hrífur huga þess sem heyrir hana eða les. Lagið og ljóðið um Kirkjuhvol gera það sömuleiðis.
Þó hefur enginn þreifað á álfi, álfakóngi eða álfadrottningu þar um slóðir. Hugarástand þess, sem stendur og virðir fyrir sér stapann og sér fyrir sér opnar dyr álfakirkjunnar, er raunverulegt og gefandi, þótt hvergi sé hægt að þreifa á því með berum höndum.
Þeir, sem hæða og spotta slíkt, myndu að sjálfsögðu fagna því ef hægt væri að finna tilefni til þess að bjóða út það verk að ryðja stapanum um koll með jarðýtum, ef einhver gæti grætt á því peninga.
Eftir að Arnaldur Indriðason skrifaði glæpasöguna "Mýrin" kom fjöldi erlendra ferðamanna til Íslands og fór um Norðurmýrarhverfið til þess að lifa sig inn í vettvang sögunnar.
Var hún þó óumdeilanlega skáldsaga og persónur hennar höfðu aldrei verið til, heldur aðeins hugarfóstur frábærs listamanns.
Um Gálgahraun liggja alls sjö göngustígar með nöfnum, sem gera fólki kleift að ímynda sér og lifa sig inn í aðstæður fólksins, sem gekk um þessa stíga fyrr á öldum. Það var lifandi fólk á sínum tíma en ekki hugarfóstur skálds.
Að því leyti eru þessar slóðir með raunverulegra fóður fyrir hrífandi hugarástand en Norðurmýrin.
Það er alveg sama hve gott líkamlegt ástand okkar er, - ef andleg líðan okkar er slæm, drepin í dróma eða dauð og köld án snefils af ímyndunarafli, er líkamlegt og efnislegt ástand okkar einskis virði.
Við hugsum. Þess vegna erum við.
![]() |
Þetta er jólaandinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)