Hver er munurinn á Smáralind og Lækjartorgi?

Sóknin gegn móðurmáli Íslendinga þyngist sífellt.

Þótt gott framtak einstaklings, Eiríks Rögnvaldssonar, hafi haft einhver áhrif á einum stað og skilti verið fjarlægt þaðan, er þetta svipað og þegar reynt var að höggva haus af marghöfða þursum í gömlu ævintýrunum, - það spruttu tvö eða fleiri höfuð í stað þess sem hoggið var af. 

Og skiltið rís bara í staðinn í Smáralind.  Hver er munurinn á Smárlind og Lækjartorgi?

Outlet, tax free, black Friday, Air Iceland - connect, þetta er samræmd stórsókn á hendur íslenskunni hvert sem litið er. 

Í einstaka erlendum stjórnarskrám má sjá greinar um hver sé eða hverjar séu þjóðtungur viðkomandi lands. 

Við vorum kannski of bláeyg í stjórnlagaráði að setja ekki eina slíka grein inn í frumvarp okkar. 

Við héldum að ákvæði í öðrum lögum myndu duga, en þannig virðist það ekki vera, enskan veður yfir allt og alla. 

Stundum reyna enskusjúklingarnir að klína orðum eins og afdalamennsku á þá sem vilja standa vörð um íslenska tungu. 

Samkvæmt því hefði Eiður heitinn Guðnason átt að vera einstakur afdalamaður. 

Var hann þó löggiltur dómtúlkur í ensku og starfaði árum saman með glæsibrag í utanríkisþjónustunni. 

Hann og Vigdís Finnbogadóttir verða í minnum höfð sem glæsilegir fulltrúar einstaks tungumáls og menningar sem voru andstæðan við afdalamennsku enskufíklanna sem halda að það tungumál sé svo fínt og yfir allt hafið, að ekki megi einu sinni bera fram staðarnöfn annarra landa en Englands eins og það gert af hverri heimaþjóð.  


mbl.is „Íslensk tunga aldrei í forgangi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trump kemur enn á óvart, en þetta er ekkert nýtt.

Öll heimsbyggðin hafði gott tækifæri til að fylgjast nákvæmlega og ítarlega með ummælum og tísti Donalds Trumps Bandaríkjaforseta í kjölfar óeirðanna og manndrápsárásarinnar í Charlottesville í Virginíu. 

Það lá því fyrir og liggur raunar fyrir enn hvað forsetinn sagði og hvenær og hvað hann sagði ekki. 

Nú, rúmum tveimur vikum síðar. kemur Trump hins vegar fram og segir fjölmiðlar hafi búið til falsfréttir og verið með rangfærslur og lygar í málinu. Logið upp á sig.  

Verður að teljast afrek hjá þessum fjölmiðlum að hafa logið upp á hann næstum tveggja daga þögn forsetans varðandi fyrstu ummælin.  

Hinn gegnumgangandi þráður í ferli Trumps, að snúa ævinlega öllu því sem aflaga hefur farið hjá honum upp í sigur sinn og ósigur andstæðinga hans og sjá öll axarsköft sín í öðru ljósi en flestir aðrir, virðist vera enn á ferðinni og þessi þráður og endurskrift sögunnar munu líklega fylgja honum áfram.

Í ræðunni í Phoenix hótaði hann hvorki meira né minna að stöðva allt stjórnkerfið í Bandaríkjunum nema að hann kæmi fram vilja sínum varðandi múrinn mikla á landmærum Mexíkó.

Líkast til hefur hann leitað með logandi ljósi að einhverju atriði sem færði honum slíkt alræðisvald, ef hann beitti því til fulls.

Það sýnist vera full ástæða til þess að stjórnarfars- og lögspekingar vestra leiti að þessu atriði, hvort það gæti til dæmis falist í því að gera ríkissjóð gjaldþrota á þann hátt að allt ríkiskerfið vestra stöðvaðist. 

Atriði, sem hann gæti kannski beitt í fleiri málum, hver veit?

Ef í ljós kemur að hann hafi fundið slíka leið, er einræðisvald hans einfaldlega næsta skref. Aldrei fyrr hefur nokkur Bandaríkjaforseti látið sér svona lagað um munn fara. 

Maðurinn er augljóslega haldinn hættulegri firringu, sem fer síst dalandi.

Og væri kannski frekar líðandi ef um væri að ræða eitthvert lítið embætti en ekki það valdamesta í heimi.   


mbl.is Bandaríkin formlega vöruð við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skaðleg óreiða ríkir, þótt það finnist ljós í myrkrinu.

Þegar skoðað er það kort af Suðvesturlandi, sem er nákvæmast, vekur athygli að merktir eru inn göngustígar og hestastígar, en engir hjólastígar svo heitið geti. Hjólför á gangstíg

Þó er vitað, að um allan heim er í gangi nánast sprenging í fjallahjólreiðum og að Ísland er þegar auglýst sem paradís fyrir fjallahjólreiðar, sem allt of margir túlka sem algert frelsi og ekkert eftirlit. 

Andrés Arnalds hjá Landgræðslunni hefur tjáð mér, að í mikið óefni stefni ef áfram verður í gangi það sinnuleysi um þessi mál, sem ríkt hefur. 

Hjólastígur skógræktarinnar er ljós í myrkrinu og lofsvert framtak.Hjólför á gangstíg, nær.

En fjallahjólreiðamenn og torfæruvélhjólamenn sækjast eftir fleiru en að hjóla um skóglendi, og erlendir hjólreiðamenn eiga nóg af slíkum stigum.

Þeir fara til Íslands eins og langflestir erlendir ferðamenn til að upplifa éinstæða íslenska náttúru, að fara um og upplifa óvenjulegustu svæðin og þau sérstæðustu og merkustu, sem eru oftast afar viðkvæm hverasvæði og svæði með jarðminjum, sem þola ekki átroðning. 

Má sem dæmi nefna Ölkelduháls og fleiri slík svæði. 

Í gönguferð, sem ég fór í gær, vakti athygli, að enda þótt ekkert rask af mannavöldum væri utan hins merkta göngustígs, lágu för eftir reiðhjól eða jafnvel torfærurvélhjól alla leiðina. Hjólför á gangstíg, sörguð klöpp

Á stórum köflum kom það ekki að sök útlitslega séð, en annars staðar sást, að hjólin valda meira raski en fætur göngufólks. 

Fyrir nokkrum árum vorum við Andrés á fundi með Slóðavinum, þar sem margir fundarmanna héldu því fram að þeir teldu að menn á torfæruhjólum ættu rétt á að spóla eða fara um alla gönguslóða, hestaslóða, jeppaslóða og kindaslóða á landinu. 

Jeppaslóðar landsins eru einir meira en 20 þúsund kílómetrar og má því nærri geta hvílík býsn allir fyrrnendir slóðar eru samtals, kannski 100-200 þúsund kílómetrar. 

Þessi talsmenn hins algera frelsis héldu því fram að hjólin sporuðu ekki í harðar klappir. 

En á slóðanum, sem ég gekk í gær, var hið gagnstæða uppi á teningnum eins og sést á meðfylgjandi myndum. 

Mynsturförin eftir hjólin mörkuðu slóðina og sums staðar höfðu hjólin sargað klappir niður, svo að mörg ár eða áratugi mun taka fyrir þessar viðkvæmu móbergsklappir að jafna sig. 

Ég hef lengi verið talsmaður þess að koma reglu á þessi mál á þann veg að allir hópar séu teknir með í reikninginn, göngufólk, hestamenn, jeppamenn, fjallahjólamenn og vélhjólamenn. 

Allir fái stíga út af fyrir sig eða slóðir, þar sem ákveðnir hópar fá að fara saman, svo sem fjallahjólamenn og göngumenn. 

Núverandi ástand, með sinni allt of miklu ringulreið og stjórnleysi, verður fljótlega enn meiri ógn varðandi náttúruvernd en hún er orðin nú þegar. 

Því verður að linna. 


mbl.is Sérmerkja 8 km langan hjólastíg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamalt ráð: "Þjóðin á að éta sig út úr vandanum."

Kjötfjallið svonefnda, birgðir af óseldu lambakjöti, var þegar komið til sögunnar fyrir um 40 árum. 

Ég minnist þess að þegar ég sneri að nýju til starfa hjá RÚV 1995 fór ég um allt land, þar á meðal á fundi sem bændasamtökin stóðu fyrir vegna nýs búvörusamnings, sem gera þurfti þá. 

Á þeim tímum voru nokkrir menn áberandi á þessum fundum, svo sem Ari Teitsson og Gunnar Sæmundsson úr röðum bændaforystunnar og andmælandi þeirra utan bændasamtakanna, Markús Möller. 

Um þetta gerði ég sjónvarpsþáttin "Ærnar þagna", nafnið svolítið glannalega líkt nafni kvikmyndarinnar um morðingjann Hannibal Lecter, "Lömbin þagna."  

Þess þáttur hefur týnst en síðan sá ég hann fyrir tilviljun á Youtube fyrir nokkrum dögum.

Alla þá áratugi, sem þessi mál hafa verið ofarlega á baugi, sýnast meginatriðin vera svipuð, rótin vera of margt sauðfé í landinu miðað við fjölda sauðfáreigenda. 

Að því leyti til hefur þjóðin áratugum saman í meginatriðum verið að gera það sem núverandi landbúnaðarráðherra kallar, að "upplifa endurtekið efni."

Eitt ráðið var að flytja kjötið út og niðurgreiða það jafnvel ofan í útlendinga.

Steingrímur Hermannsson segir frá því í ævisögu sinni, að þegar hann varð fyrst landbúnaðarráðherra hafi honum komið í hug að hægt yrði að fækka sauðfé að miklu eða öllu leyti á þeim afréttum, sem eru á hinum eldvirka hluta landsins þar sem eru ofbeit og uppblástur. En jafnframt einna mestir möguleikar til að stunda ferðaþjónustu og fjölbreytt störf vegna nálægðar við hinn þéttbýlli hluta landsins. 

Aðstoða mætti bændur á þessu svæði til að finna sér annan starfsvettvang og viðurværi en styðja frekar sauðfjárbændur á þeim svæðum, þar sem beit væri hófleg og sauðfjárrækt einn helsti atvinnuvegurinn.   

En "bændaforystan og landsbyggðarþingmenn urðu æf" segir Steingrímur og þorði aldrei að minnast á þetta aftur.

Hjálmar Jónsson varð formaður landbúnaðarnefnda Alþingis um síðustu aldamót og minntist í einu viðtali á svipað.

Og aftur gerðir nákvæmlega það sama og 20 árum fyrr.

Ein ummæli stjórnmálamanns urðu minnisstæðari en öðrum fyrir rúmum aldarfjórðungi og koma ávallt í hugann síðan:  Lúðvík Jósepsson sagði:  "Lausnin er einföld; þjóðin á að éta sig út úr vandanum."  

"Vandinn" á raunar senn 60 ára afmæli, því að mikil tæknibylting í landbúnaðinum upp úr miðri síðustu öld benti til þess að langtímavandamál væri að skapast og að bændur væru að verða allt of margir. 

Enn er í minni þegar Gunnar Bjarnason skrifaði skelegglega orðaða blaðagrein um nauðsyn þess að fækka bændum um helming, hafa stjórn á því og ráða atburðarásinni. 

Það ætlaði allt vitlaust að verða og Gunnar var úthrópaður sem óvinur bænda og óvinur landsbyggðarinnar. 

Haldinn var æsingafullur fjöldafundur í Reykjavík um þetta mál. 

En það liðu samt undra fá ár þar til bændum hafði samt fækkað stjornlaust um helming! 

 


mbl.is „Gömlu leiðirnar“ gangi ekki upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin hliðin á því fyrirbæri, sem myndar Hverfanda.

"Vatnsmesti foss Evrópu" er nú sagt um fossinn Hverfanda, sem myndast þegar Hálslón er fullt og vatn fellur á yfirfalli niður í Hafrahvammagljúfur. Leirfok, Kárahnjúkar

Aldrei er hins vegar sagt frá "stærsta manngerða leirfoki Evrópu" þegar það fyrirbæri myndast við það að ís hefuur leyst af vatninu snemmsumars. 

Þá er vatnið, eða réttara sagt leirblandan það lág í lóninu, að meirihluti lónstæðisins, allt að 35 ferkílómetrar, eru þurrar leirur, þaktar fíngerðu leirlagi, milljónum tonna af jökulleir, sem árnar Kringilsá og Jökla bera í það á hverju ári og setjast þar til. 

Loftmyndin hér á síðunni er tekin úr um þúsund metra hæð yfir lóninu á heitum og björtum degi í júnílok, þegar sunnanþeyr kemur ofan af Vatnajökli til að verma þetta svæði og búa til yndislegan sumardag ef allt væri með felldu.

En þannig er það ekki. Leirinn er svo mikill, þurr og rokgjarn, að þarna myndast mesta manngerða leirfok Evrópu og því ástandi linnir ekki til fulls fyrr en í ágúst.

Á myndinni grillir varla í Kárahnjúka, sem standa á milli risastíflnanna Kárahnjúkastíflu og Desjarárdalsstíflu, hvað þá að stíflurnar sjáist sjálfar í gegnum leirfokið.

Svona ástand getur myndast hvenær sem er á góðviðrisdögum á meðan lónið er að fyllast og þá daga er enginn þarna á ferð ótilneyddur.  


mbl.is Hverfandi myndast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jerry Lewis hafði áhrif víða, líka hér á landi.

Ég er af þeirri kynslóð sem hafði mikla ánægju af gamanleikaranum Jerry Lewis, sem lést í gær, 91.árs að aldri.

Hann brá sér í ýmissa kvikinda líki á ferlinum, en einna best lét honum að leika klaufabárða og hrakfallabálka á þann veg að það var oft óborganlegt.

Lewis notaði stundum ýmis einföld brögð til að gefa persónum sínum skoplegt yfirbragð, og má nefna tanngarð, sem hann notaði til að sýnast sem einfeldningslegastur. 

Þessar tennur Lewis og látbragð þessara persóna, sem hann skapaði, minntu talsvert á karakterinn Eirík Fjalar, sem snillingurinn Laddi bjó til og gæddi lífi. 

Það má giska á að Laddi hafi, eins og fleiri, orðið fyrir áhrifum frá Jerry Lewis, og andlegur skyldleiki kunni að vera á milli einfeldninganna, sem Lewis bjó til, og Eiríks Fjalars. 

 


mbl.is Stjörnurnar minnast Jerry Lewis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var einfaldlega of seinn að taka tæki úr eyranu á sér.

Í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva hafa flytjendur í öðru eyra sínu apparat, þar sem heyra má sönginn og flutninginn til þess að flytjendurnir geti sungið hreint. 

Til þess að geta notað þessa tækni í stað þess að hlusta á hátalara, sem beinir tónlistinni að þeim upp á gamla mátann, þarf talsverða æfingu, svo mikla æfingu, að undirbúningstíminn í aðdraganda lokaflutningsins keppniskvöldið er nýttur til hins ítrasta til þess að ná valdi á þessu. 

Þeir, sem til þessa þekkja, sáu og heyrðu strax á tónleikunum á Menningarnótt, að Friðrik Dór virtist alls ekki nógu æfður fyrir þessa aðferð, og því var reynt að koma til hans skilaboðum um hvers kyns væri með eindregnum ráðleggingum um að hann tæki apparatið úr eyranum. 

Það tókst ekki strax að koma þessu yfir til Friðriks Dórs, en þegar hann tók loks tækið úr eyranum, snarlagaðist söngurinn og varð kraftmikill og góður á endasprettinum. 


mbl.is Friðrik Dór hefur átt betri daga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var einhver að tala um að "moka í göngin"?

Það þarf að leita með logandi ljósi ef það á að finna einhver opinber ummæli málsmetandi fólks um það að hætta beri við Vaðlaheiðargöng og "moka aftur í þau" eins og bæjarstjóri Húsavíkur orðar það. 

Raunar er þetta sennilega í fyrsta sinn sem þetta heyrist, því að öllum er það ljóst, að tjónið af því að hætta við göngin á allra síðasta hluta gerðar þeirra yrði miklu meira en ef haldið er áfram. 

Þegar hefur kostnaðurinn orðið miklu meiri en upphaflega var áætlað og sá viðbótarkostnaður verður augljóslega ekki kallaður til baka, heldur stæðu menn frammi fyrir mesta mögulega fjártjóni með því að hætta við göngin nú. 

Eini tilgangurinn sem hægt er að sjá með því að gefa í skyn að einhver vilji "moka í göngin" er sá að setja þá, sem efuðust um upphaflegu áætlunina, í eins slæmt ljós og unnt er.  

 


mbl.is Ekki mokað aftur í göngin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er ekki þolandi?

"Kvenmannslaus í kulda og trekki kúri ég volandi, - 

þetta´er ekki, ekki, ekki, ekki þolandi...

þetta´er ekki, ekki, ekki ekki þolandi. 

Þetta er ekki, ekki ekki, ekki þolandi...o.s.frv..."

 

Þessi gamli grallarasöngur kemur í hugann þegar sagt er frá raunum farþeganna, sem var búið að vera innlyksa á flugvelli á Tenerife hátt í sólarhring, en þetta virðist ekki vera gamanefni. 

Furðulegt er, ef satt er, að skrifstofa flugfélags, sem er með ferðir alla daga, er lokuð um helgar.  Af hverju hættir félagið ekki líka að láta vélar sínar fljúga um helgar?

Sömuleiðís er stórundarlegt að fólkið, sem sagt er frá, sefur enn á gólfum flugstöðvarinnar og kvartar yfir kulda og slæmum aðstæðum. 

 


mbl.is „Fólk sefur bara hérna á gólfunum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hriktir í frá Hafnarfirði til Borgarfjarðar eystri.

Sjávarútvegurinn er ekki eina atvinnugreinin sem hefur gengið í gegnum endurteknar byltingar á Íslandi. Verslunin hefur líka gert það og gerir enn. 

Á sínum tíma var Samvinnuhreyfingin með víðtæka verslun um land allt og gegndi víða hlutverki kaupmannsins á horninu í þéttbýlinu. 

Síðan komu Kringlan og á eftir því byltingin, sem Hagkaup og Bónus ollu um allt land. 

Nú er enn ein byltingin að skekja verslunina, Costco í Hafnarfirði. 

Og öldurnar berast um allt land. 

Ég er nýkominn úr ferð um Norðausturhornið og kom bæði á Kópasker og Borgarfjörð eystri. 

Á báðum stöðunum hafa verið litlar verslanir, sem hafa barist í bökkum. 

Í stuttu samtali við kaupmanninn á Kópaskeri sagðist hann ekki vita hve lengi hann gæti haldið áfram rekstrinum. 

Og nú berast þessar fréttir frá Borgarfirði eystri. 

Bullandi uppgangur og uppbygging hefur verið í ferðaþjónustu á þessu svæði eins og víðar, en það virðist varla duga til ef marka má dökkar fréttir af þeirri þjónustu sem verslun á staðnum getur veitt. 


mbl.is „Þetta er leiðinlegt og grautfúlt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband