500 megavatta vindorkuver ömurlega vanreifuð.

Byrjunin á fyrirætlunum um 40 risa vindorkuver hér á lanndi, sem geta hvert um sig slagað upp í heila Kárahnjúkavirkjun, er ekki gæfuleg, ef marka má umfjöllun Gunnars Heiðarssonar og fleiri á blogginu og í blöðum.  

Ef marka má stærstu atriði þessa áhlaups í nýju virkjanaæði, gætu samanlagðar lokatölur um vindorkuver á landi náð því að tífalda núverandi uppsetts afls á landi og endað í álíka stórri tölu vindorkuvera á sjó. 

Þessi tryllta eftirsókn er sannarlega áhyggjuefni. 

Eitt af nýjustu útspilunum í þessu æði er skoðanakönnun, sem er augljóslega rangt orðuð, því að spurt er hvort viðkomandi þáttakendur vilji virkja meira í vatnsafli og jarðvarma, en því sleppt að spyrja, hve miklu meira sé rétt að virkja. 

Þetta er líkt því að spurt sé hvort viðkomandi vilji að settar séu upp fleiri hraðhleðslustöðvar fyrir rafbíla. 

Auðvitað eru fáir á móti því þegar spurt er svona loðið. 


mbl.is Fresta kynningarfundi um vindorkuver
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjö áratuga samfelld vandræði af einfaldri ástæðu: Stækkandi árgangar.

Stríðsárin færðu Íslendingum stærstu efnahagsuppsveiflu í sögu þjóðarinnar. Nútíminn gekk í garð á byltingarkenndan hátt. 

Stærsta byltingin var kannski fólgin í stórstækkandi árgöngum fæddra Íslendinga, nokkuð sem blasti í raun við í tölum en virtist þá og æ síðan hafa alveg farið fram hjá ráðamönnum þjóðarinnar. 

Þessi saga hefur áður verið rakin hér á síðunni, yfirfullir barnaskólarnir á sjötta áratugnum, framhaldsskólarnir á sjötta og sjöunda áratugnum, háskólarnir á áratugunum þar á eftir, og síðast en ekki síst, heilbrigðiskerfið allt til nútímans. 

Og það fyndna en jafnframt grátbroslegasta við þetta er að þetta er ein og sama kynslóðin, svonefnd stríðsárakynslóð og eftirstríðskynslóð, sem hefur alveg óvart verið til þessara stanslausu vandræða, þótt jafnfram sé þetta sama fólkið, sem lagði grunn að vexti þjóðarinnar og viðgangi. 

Um þessar mundir eru það að sjálfsögðu öll svið velferðarþjónustunnar fyrir þennan aldraða aldursflokk, hjúkrunarheimilin og allt heila kerfið, sem líða fyrir sjötíu ára meinloku ráðamanna, sem átta sig ekki á þeim áskorunum, sem stórbætt og dýrara meðferðarkerfi á öllum stigum læknavísinda hafa í för með sér auk sívaxandi stórfjölgunar aldraðra sem hluti af þjóðinni.  


mbl.is Segir rugl að spítalinn sé ekki vanfjármagnaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hluti mengunarinnar er frá "hreinni og endurnýjanlegri orkunýtingu."

Gott er ef birtar eru upplýsingar um loftmengun í Reykjavík, sem á tyllidögum er stundum nefnd hreinasta borg í heimi.  

Umhverfisráðherra hefur nú nefnt þrjár aðal tegundirnar, níturdíóxíð, sem kemur úr útblæstri bila, svifryk vegna notkunar nagladekkja við vissar aðstæður, og síðan brennisteinsvetni, þar sem uppsprettan er ekki nefnd. 

En þar hefur aðalvaldurinn um árabil verið brennisteinsvetni frá jarðvarmaorkuverum á Nesjavöllum og Heillisheiði, sem hafa alla tíð verið dyggilega auglýstar sem tákn nýtingar "hreinnar og endurnýjanlegrar orku." 

Hvorugt er þó fyrir hendi, og loftmengunin þaðan berst með algengustu vindáttinni í Reykjavík, sem er austsuðaustanátt.  

Þótt heimsklassa aðgerðir til að binda kolefni með niðurdælingu ofan í jarðlög, er þar enn ekki um að ræða nema hluta af menguninni.

 


mbl.is Mengunin í vetrarstillum tengist ekki nagladekkjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lélegt fyrsta viðbragð: Búið spil "á klakanum."

Stórhríðin 16. desember kom á versta hugsanlegum tíma, þegar frí og skyldudjamm helgarinnar brustu á. 

Fyrsti lærdómur: Veðrið tekur ekkert tillit til óska og venja hjá mönnunum, heldur fer sínu fram.  

Fyrstu klukkustundirnar ráða mestu eða nær öllu um framhaldið, því að við það að bílar og fólk troði snjoinn niður, harðnar hann og verður þetta líka fína efni í klakann á síðari stigum, sem bæði er miklu erfiðari að fjarlægja, heldur en ef lausamjöllinni er mokað burtu jafnóðum. 

Í Helsinki í desember 1966 var hægt að sjá hvernig menn hafa haldið á spilum þar alla tíð; að verða ekki á eftir snjónum.   

Næstum sextíu árum síðar á landi sem heitir Ísland standa ráðamenn á gati varðandi þetta einfalda lögmál. 

Þremur vikum eftir upphaf snjókomunnar er enn ómokað hvar sem litið er.   

Orðavalið "heima á klakanum" hefur stundum verið gagnrýnt, en hvað snjómoksturinn snertir er það svo sannarlega sannmæli. 


mbl.is Viðbragð í mokstri of seint fyrsta daginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Nú köttum við allt niður!" "Nú köttum við allt niður!" "Nú köttum við allt niður!"

Svona hljóðar ein af nýjustu enskuskotnu auglýsingunni í sjónvarpinu, þar sem manni skilst að verið sé með ofangreindri upphrópun að lækka verð á vörum auglýsandans, sem virðist standa í sí þeirri trú, að eina leiðin til að koma skilaboðum til hugsanlegra kaupenda sé að forðast að nota jafn lítilfjörlegt tungumál og íslenskuna. 

Hann er að reyna að "fókusera á að kópa við tjallendsið" svo að notað sé orðalag, sem var notað fyrr í vetur. 

Það orðalag var að vísu notað í beinni útsendingu, svo að RÚV, sem hefur þá höfuðskyldu að lðgum að vernda og hlúa að íslenskri tungu og menningu, kom engum vörnum við. 

Öðru máli gegnir um auglýsingar í "auglýsingaslottinu" eins og það heitir víst nú orðið, þar sem lesinn texti fer um margar hendur á leið til útsendingar. 

Að ekki sé nú talað um að upphrópunin um "köttið" er þulin dag eftir dag. 

Í fréttum í kvöld var minnst á niðurskurð á fjárveitingu til vegar yfir Öxi, en næst verður kannski talað um "kött" á því "slotti" í fjárlögum, sem eyrnamerkt er þeirri vegagerð.

P.S. Nánari athugun leiðir í ljós, að notkun ensku sagnarinnar "to cut" er aðeins lítill hluti af því sem er og hefur verið í gangi á þessu sviði málsins. 

Í stað þess að nefna aðeins hugsanlega notkun varðandi Öxarveg, má nefnilega benda á þá enskunotkun sem þegar er búið að festa í orðfæri kaupahéðna og gæti hljóðað svo í auglýsingu:

Við köttum allt niður í taxfrée í outlettinu. Fullnaðarsigur enskunnar virðist í nánd.    


"Í hvaða borg er ég?"

Fyrir skemmstu skaut sérkennilegri hugsun upp á göngu upp Laugaveg að kvðldlegi:

"Halló, í hvaða borg er ég?"

Sem Bo hefði líklega orðað svona: "Þetta er rosalega mikið erlendis."? 

En í ðllum asanum við að rífa niður og umturna öllu, allt frá Bernhöftstorfunni og Austurbæjarbíó, og gömlu húsunum neðst á Laugaveginum, gleymist gildi gamalla og vel hirtra húsa sem menningarlegra lífsgæða í formi sameiginlegra minninga kynslóðanna. 

Sem dæmi má nefna gamlar skemmtisögur afa og brandara í Sumargleðinni, sem snerust um verslunina Brynju.  

 

 


mbl.is Gömlu húsin ofarlega á Laugavegi að víkja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimsmet í pöntunum. Gamla metið átti Citroen DS.

Ýmis met hafa verið skráð í bílaframleiðslu heimsins. Ford Mustang seldist í um sjö hundruð þúsund eintðkum árið 1964, og kom þó ekki fram fyrr en í apríl. Engin ein afmörkuð gerð bíla hefur slegið það stóra hraðamet. 

Þegar Citroen DS var sýndur fyrst á bílasýningunni í París 1955 voru 58 þúsund bílar seldir með pöntunum fyrsta sýningardaginn. 

Bílablaðamenn heimsins völdu fimm merkilegustu bíla 20. aldarinnar um síðustu aldamót, og settust Ford T. og Austin Mini á toppinn, báðir mjðg ódýrir. 

En í fimmta sætinu var miklu stærri bíll, Citroen DS, sem var með svo margt mörgum áratugum á undan samtíð sinni, að sá listi er ótrúlega langur, meðal annars lága loftmótstöðu, gas/vökva fjöðrun, sem líka skóp fyrsta ódýra vökvastýriskerfið, tannstangarstýri o.fl.

Á okkar tíð hefur ein bílgerð, Tesla 3, loks slegið þetta pöntunarmet. 

Citroen DS var með ýmsa galla, en kostirnir gerðu meira en að yfirstíga þá. Til dæmis varð byltingarkennt kerfi fjöðrunar og stýrisbúnaðar eitt af þeim atriðum, sem gekk úr skaftinu áður en öldin var öll en í heildina var þetta einhver mesti framúrstefnubíll allra tíma.

Svipað virðist vera að gerast með Tesla 3. Ýmsir "barnasjúkdómar" hafa herjað á bílinn og framleiðslu hans, en kostirnir eru svo miklir, að þeir virðast ætla að standa það af sér hvað varðar sðlu og álit. 


mbl.is Tesla sektuð um 317 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýir tímar aftur og tekin ný áhætta varðandi vítahring?

Í viðtengdri frétt á mbl.is eru gefnar upp ýmsar tölur, varðandi þau tímamót að Fréttablaðið hætti að vera ókeypis prentmiðill með allsherjar dreifingu í hús, en það voru tímamót um síðustu aldamót þegar sú útgáfa með tilheyrandi dreifingu hófst. 

Tvær tölurnar eru sláandi: 75 þúsund prentuð eintök á dag til þessa, en 6 þúsund eintök frá og með deginum í dag. 

Þetta er rosalegur munur, tólffaldur.  

Sparnaðurinn vegna prentunar og dreifingar er að vísu gríðarmikill, en á móti kemur hætta á ákveðnum vítahring; að minna framboð og útbreiðsla á blaðinu minnki auglýsingartekjur mjög, jafnvel þótt auglýsendur noti netmiðlana til þess í vaxandi mæli. 

Við lifum greinilega á tímum hraðra þjóðfélagsbreytinga. 


mbl.is Hætta útburði vegna taps Fréttablaðsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öðruvísi okkur áður brá. Gulrótin fyrir hálfri öld og gulrótin nú.

Síðuhafi man þá tíð er hann óx úr grasi, að hverfið, sem hann bjó í, var nýtt en þó ekki nýtískulegra en það að hver íbúð hafði eigin kolakyndingu. 

Hún var í kjallaranum með tilheyrandi kolageymslu og aðstöðu til þess að taka á móti þessari lífsnauðsynlegu vöru.  

Niðri við hðfnina var stór kolakrani með tilheyandi kolaporti í þess orðs fyllstu merkingu. 

Tíu árum síðar hélt síðan hitaveitan innreið sína í hverfið og næstu hverfi, og meðfram námi var unnið við að leggja hana í jörðu í húsin. 

Það var að vísu rándýr framkvæmd að reisa hitaveituna og lenda þannig í því að hafa tvenns konar veitur á meðan þessi mikla bylting var að ganga yfir. 

Gulrótin í þessu máli var ekki aðeins losna við óhreinindin og kolareykinn, heldur ekki síður að hætta að eyða dýrmætum gjaldeyri í jarðefnaeldsneyti og taka upp notkun innlends og hreins orkugjafa. 

Þegar olían snarhækkaði á árunum kringum 1970, var hrundið af annarri kostnaðarsamri byltingu til þess að losa okkur við sem mest af olíukostnaðinum, sem varð sífellt meiri og mergsaug til sín milljarða í erlendum gjaldeyri.

Þetta voru orkuskipti, sem um munaði.  

Með ofangreindum aðgerðum allar götur frá miðri síðustu öld sparast hundruða milljarðar króna í dýrmætum erlendum gjaldreyi. 

Eitthvað kosta milljón tonn af olíu á ári hverju. 

En enda þótt ávinningurinn við það að gera nú lokaátakið í orkuskiptunum sé gríðarlegur og gulrótin aldrei stærri, bregður svo við að dregnar eru lappirnar í því að drífa þetta áfram og alls konar úrtöluraddir heyrast. 

Húshitunarávinningurinn kostaði mikil útgjöld ríkis og sveitarfélaga, en enginn taldi eftir sér þann kostnað, sem fór í að gera öllum almenningi kleyft.

Meðal þess, sem nú er sífrað yfir, er að orkuskipti í bílaflotanum séu aðeins á færi ríkasta fólksins, og niðurfelling skatta á rafbílum gagnist aðeins þeim. 

Þetta er skrýtið, að verðlækkun á rafbílum bitni á þeim kaupendum, sem minnst hafa á milli handanna. 

Þvert á móti hefur of fátt verið gert til að auðvelda þeim kaupin, þó ekki væri nema að skoða betur það sem er í boði. 

Ódýrustu nýju bensínbilarnir í boði kosta um 2,5 milljónir, en hægt væri að flytja inn og selja hér fjögurra sæta rafbíla, sem kostuðu um 3,5 milljónir.

Tveir tveggja sæta nýir rafbílar voru fluttir inn og uppsett verð 2,0 milljónir. 

Síðuhafi ákvað að prófa annan þeirra og hefur ekið honum í fimm ár. Drægnin við íslenskar aðstæður hefur reynst 90 kílómetrar, drægnin sömuleiðis um 90 kílómetrar og hámarkshraðinn yfir 90 km/klst. 

Farangursrými er álíka og á minnstu bensínbílunum. 

Lága verðið og sparnaðurinn fæst með því að hafa engin aftursæti, en við það verður bíllinn um 400 kílóum léttari en ella. 

Auk þessa er sparnaður í þvi að sleppa hraðhleðslubúnaði, en nota aðeins heimilisrafmagn, sem gefur fulla hleðslu á um 9 klst. 

Svona bíll ætti skilið að fá auka eftirgjöf á gjöldum vegna þess hve mikið rými hann sparar á malbikinu, aðeins 2,88 m langur, metra styttri en ódýrustu bensínbílarnir. 

Fjöldi nýrra tegunda eru að birtast á mörkuðum í nágrannalöndunum, svo sem Elaris Dyo og Pio og XEF YoYo. Elaris Dyo er með hraðhleðslubúnað og 31,5 kwst rafhlöðu upp á allt að 255 km drægni. Hann er af svipaðri stærð og Smart Fourtwo, en næstum tvöfalt meiri drægni. 

Hjá BL hafa tveir litlir rafbílar af gerðinni Invicta Ds2 verið fluttir inn og ásett verð þeirra 2,5 milljónir. 

Byrjað er að selja rafbílinn Dacia Spring erlendis, ódýrasta fjögurra sæta rafbílinn. 

Niðurfelling á gjöldum nú stingur í stúf við þá framsýni sem sýnd hefur verið við orkuskiptin í húshitun hér á landi.    

 

 

 


mbl.is „Á góðri leið með að úthýsa rafbílum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekki jákvætt ef spáð óveður verður ekki eins illskeytt og spáð var?

Svarið við þessu var nei hjá viðmælendum úr hópi ferðaþjónustumanna í útvarpi í hádeginu. 

Þeir voru grautfúlir yfir því að veðrið náði ekki alveg viðmiðum gulrar viðvörunar, sem var tekin úr gildi klukkan fjögur og töldu að veðurstofan hefði ekki átt að gefa slíka viðvörun út. 

Sem sagt; það var hið versta mál að veðrið varð skárra en búast mátti við. 

Engin veðurfræðileg rök færðu þeir fyrir þessari gagnrýni, heldur skautuðu fram hjá því, að á fáum stöðum á hnettinum eru meiri átök og sviptingar í veðrinu og hér á landi í janúar, raunar er þá að meðaltali mesti munur á jörðinni á loftþrýstingi; lægsti loftþrýstingur jarðar suðvestan við landið á móti næst hæsta háþrýstingi jarðar yfir Grænlandsjökli. 

Þessu fá veðurfræðingar ekki breytt, heldur verða lifa með því að aðeins nokkurra tuga kílómetra skekkja á för lægðar yfir eða við landið, getur haft miklar og ófyrirsjáanlegar breytingar í för með sér. 

Raunar hefur verið undravert bæði núna og þó einkum fyrir hálfum mánuði, hve vel spáin rættist þó. 

Það byrjaði að snjóa aðeins ðrfáum klukkustundum síðar en spáð var í gær, og niður féll snjór, sem þó fjandakornið um 7 sentimetrar á þykkt. 

Þegar við bættist að frostið var í kringum tíu stig, þurfti sáralítið að herða vind til þess að skafrenningur myndaðist. 

Skekkjan í gær nam aðeins nokkrum prósentum og krafan um 100 prósent veðurspá er óframkvæmanleg.  

Enn síður er ráðlegt að krefjast þess að hætt verði við að gefa út gular, appelsínugular og rauðar viðvaranir og að við það að fara út í slika afturför aftur til fyrri tíma í veðurspám. 

Óveður koma jafnt um helgar sem virka daga hér á landi í skammdeginu sem óhjákvæmileg afleiðing af því hvar Ísland er; við mót mestu veðurofsaátaka á jörðinni. 


mbl.is Meira um vatnsleka en flugeldaslys
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband