Dæmalaust klúður og furðulegt að telja ráðherra lögbrjót.

Saga United Silicon og ferill síðan í haust er algert einsdæmi í sögu stóriðju á Íslandi. 

Ekki er nóg með að klúður og vandræði tengist bunka að reglum um starfsemi, framleiðslu og umhverfismál, heldur er fyrirtækið á hraðferð inni í umfangsmikil málaferli vegna samskipta við starfmenn og stéttarfélög þar sem um brot fyrirtækisins á samningum og lögum og reglugerðum er um að ræða.  

Greinilegt er að Umhverfisstofnun fer í einu og öllu að lögum í viðleitni sinni til að fá fyrirtækið til að haga sér sómasamlega. 

Engu síður er nú bloggað á þá leið hjá Birni Bjarnasyni að umhverfisráðherra hafi orðið lögbrjótur með því að segja skoðun sína á málinu.  Sagði ráðherrann Björt Ólafsdóttir þó í viðtalinu að málið heyrði undir Umhverfissstofnum og að hún treysti þeirri stofnun til að annast það. 


mbl.is Frestur United Silicon framlengdur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sífellt ný tegund ógnar.

Eitt það athyglsiverðasta varðandi hryðjuverkin 11. september 2001 voru viðbrögð flugliða og annarra við flugránununm fjórum. Þessi viðbrögð höfðu þróast áratugina á undan í ljósi reynslunnar og byggðust á þeirri meginforsendu, að vinna þyrfti tíma með flugræningjum á meðan flogið væri inn til lendingarstaðar þar sem farið yrði i samningaviðræður og þref við flugræningjana. 

Mismunandi snemma þennan örlagaríka septemberdag rann síðan upp fyrir flugliðum og farþegum, að við sjálfsmorðssveitir væri að etja, sem gera myndu í framtíðinni hverja einustu farþegaflugvél heims að skæðu mögulegu morðvopni í nýrri tegund voðaverka.

Dæmi um afbrigði við þetta var þegar aðstoðarflugmaður þotu á flugi yfir Frakklandi læsti sig inni í stjórnklefa vélarinnar, svo að ekki var hægt að komast að honum, og hann fyrirfór síðan sér og öllum farþegum þotu í Frakklandi með því að steypa þotunni á fjall. 

Eftir flutngingabílsárásina í Nice í Frakklandi í fyrra varð ljóst, að ný ógn væri komin til skjalanna, - sú, að fólk sem væri tílbúið til sjálfsmorðsárása, gæti gert flutningabíla að skæðum morðvopnum.

Neyðarástandi í Frakklandi og Belgíu vegna hryðjuverka síðustu ára hefur fylgt, að æ fleiri lögreglumenn eru á ferli og almenningur hefur sætt sig við það, vegna þess að því fleiri lögreglumenn, sem væru sjáanlegir, því meira öryggi væri tryggt.

En nú hefur komið í ljós ákveðin tegund afbrotafólks, sem er tilbúið til sjálfsmorðsárása, - fólks með þá þráhyggju að drepa lögreglumenn.

Það þýðir, að því fleiri lögreglumenn, sem þetta fólk sér á ferð, því heppilegri aðstæður eru fyrir vorðaverk í samræmi við hina hættulegu þráhyggju þess.

Árásarmaðurinn í París í gærkvöldi hafði sannanlega verið haldinn þessari þráhyggju áratugum saman og því er ekki einu sinni víst að ISIS hafi átt frumkvæði eða staðið að árás gærkvöldsins úr því að þau samtök voru ekki til árið 2001 þegar hinn morðóði maður reyndi þrívegis að drepa lögreglumenn.

En áratuga reynsla sýnir að oft myndast ákveðnar tilhneigingar hjá þeim sem eru haldnir hættulegri drápsfíkn sem byggjast á nýjum fordæmum, eins konar morðtíska.

Í Bandaríkjunum hefur slíkt hegðunarmynstur verið þekkt áratugum saman varðandi árásir í skólum og á opinberum samkomustöðum.

Í fróðlegum þætti 60 mínútna var rakið hvernig bandarískar víkingasveitir eru þjálfaðar til að takaast á við slíka menn, sem nær undantekningalaust eru karlmenn.

Eitt atriðið í þjálfum á viðbrögðum er fólgið í því, að lögregla leggi áherslu á tafarlausar og árangursríkar, beinskeyttar aðgerðir, vegna þess að hinir morðóðu högnuðust nær alltaf á hikandi viðbrögðum lögreglu.

Svipað verður líklega æft varðandi hinar nýju ógnir vegna beinna árása á lögreglu og árása með flutningabílum á gangandi fólk, sem nú hafa litið dagsins ljós.   


mbl.is Hafði áður reynt að myrða lögreglu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Firring átrúnaðarins á kjarnavopnin. "Hinn viti borni maður"?

Fagnaðarlæti í Norður-Kóreu við að sjá í sjónvarpi sýnt hvernig skotmörk í Bandaríkjunum, til dæmis borgir þar, leysast upp í vítislogum eftir kjarnorkuárás, sýnir firringuna sem kjarnavopnin hafa leitt yfir heimsbyggðina. 

Gildir þá einu hvort þetta brjálæði eigi að hafa fælingarmátt eða vera raunveruleg fyrirætlan um "fyrirbyggjandi árás", -  þessi myndbirting geggjunar er jafn viti firrt, hvernig sem á hana er litið.  

Donald Trump lýsti því yfir í upphafi þessa árs, að hann teldi að Bandaríkjamenn þyrftu að stækka kjarnorkuvopnabúr sitt og eiga stærra vopnabúr en Rússar, en samkvæmt samningum um þessi vopnabúr, eiga Bandaríkjamenn og Rússar lang, lang stærstu kjarnorkuvopnabúr heimsins, og hefur verið giskað á að hvor aðilinn um sig geti gereytt hinum nokkrum sinnum með því að beita þeim. 

Í því hefur verið talin felast fælingarmáttur í samræmi við grundvallarkenninguna MAD (Mutual Assured Destruction) eða GAGA á íslensku, (Gagnkvæm Altryggð Gereyðing Allra.)

Núna eru kjarnavopnabúr Kana og Rússa álíka stór, en Trump vill eiga afgerandi fleiri vopn en Putin. 

Setjum sem svo að núna geti hvor aðili um sig eytt hinum fjórum sinnum. Krafa Trumps gæti þá þýtt það að Kanar gætu eytt Rússum fimm sinnum á sama tíma og Rússar gætu bara eytt Könum fjórum sinnum! 

Hvernig er hægt að tala um homo sapiens, hinn vitiborna mann, sem hefur eytt trilljónum dala og orku og getu þúsunda afburða vísindamanna til þess að búa til kjarnorkuvopnabúrin, sem eru undirstaða kenningarinnar MAD?


mbl.is Árás á Bandaríkin hluti af hátíðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reynsla af því að borða enga fitu í 3 mánuði: Við getum ekki lifað án fitu.

Eg hef reynslu af því að borða enga fitu í þrjá mánuði samfleytt og hún var ekki góð, en lærdómsrík í meira lagi.

Vegna lifrarbrests af völdum ofnmæmis fyrir sýklalyfinu Augmentin sem lýsti sér stíflugulu með afleiddan ofsakláða og stanslausu svefnleysi í þrjá mánuði vorið 2008, neyddist ég til að borða enga fitu ef ég ætlaði að eiga von um að ná bata. 

Lifrarbresturinn hafði það meðal annars í för með sér, að lifrin gat ekki unnið úr fitu og óhreinindi frá henni barst í blóðið, gerði það drullugult og það leiddi síðan til ofsakláða. 

Augun urðu meira að segja drullugul. 

Ég léttist um 16 kíló á þessum þremur mánuðum og missti þrek, auk þess sem frekari veikindi og viðvarandi svefnleysi hefðu kostað það að lenda á geðdeild. Að ræna fanga svefnleysi er viðurkennd pyntingaaðferð, stundum kenndi við Guantanamo. 

Á þessum píslatíma lærði ég heilmikið um lifrina, sem er stærsta líffæri líkama okkar og það upprunalegasta. 

Það eina jákvæða við þetta ástand var, að hægt var að nota mig sem gagn í verklegu prófi í læknadeild Háskóla Íslands. Lá þar sem sjúklingur dagstund og gott ef ég felldi ekki einn eða tvo læknanema, sem lentu á villigötum við að sjúkdómsgreina mig rétt. 

Eitt af því sem ég lærði á þessu tímabili var, að það er lífsnauðsynlegt fyrir okkur að borða nóga fitu til að viðhalda eðlilegri líkamsstarfsemi. 

Algerlega fitusnautt mataræði olli því að þrek og úthald hrundu niður. 

Vitað er að vísu að sumar tegundir fitu eru ekki hollar, en það breytir því ekki að venjuleg fita er nauðsynleg í hófi.

Það er fyrst og fremst óhófleg neysla hvítasykurs og kolvetna, sem er mest fitandi og er að skapa einhvern mesta heilsufarsvanda mannkynsins.   

 


mbl.is Algengustu mistökin í fæðuvali hjá þeim sem vilja léttast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kappakstur á stuttum vegalengdum hentar rafbílum vel.

Þótt þyngd rafbíla sé helsti vandinn við hönnun þeirra er það ekki rafhreyfillinn eða driflína hans sem er vandamálið, heldur þyngdin á rafhlöðunum, sem geyma raforkuna. 

Rafhreyfill hefur yfirburði í einfaldleika, nýtingu og jöfnu afli fram yfir hreyfla knúna jarðefnaeldsneyti. 

Að sama skapi hafa geymar fyrir jarðefnaeldsneyti allt að tífalda yfirburði yfir rafgeyma með sömu orku. 

Rafhlöðurnar í þeim rafbílum sem hafa lengsta drægni vega frá 440 upp í 600 kíló. 

Sem dæmi um getu kappakstursbíla knúna rafmagni má nefna, að í hinum heimskunna kappakstri upp á fjallið Pikes Peak í Klettafjöllunum, bar rafknúinn bíll sigur úr býtum fyrir nokkrum árum. 


mbl.is Kappakstursbíllinn gerir víðreist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maraþonleikir taka kraft úr mönnum og valda spennufalli.

Útsending frá maraþonleik Fram og Hauka stóð í 2 og hálfa klukkstund. Úrslit fengust eftir tvær framlengingar og vítakeppni. 

Kornungt lið, sem skrapað var saman síðasliðið haust eftir missi ellefu leikmanna og þjálfarans í fyrra, gaf allt sem það mögulega gat kreist úr sér til að fella sjálfa Íslandsneistarana og afleiðingarnar og eftirköstin gátu verið fyrirsjáanleg.

Spurningin er hve lengi þetta Öskubuskulið verður að jafna sig og komast aftur á þann stall sem það var í í sigurleiknum sæta.  

Ofþjálfun og ofþreyta eru þekkt fyrirbrigði í íþróttum og einnig það að "toppa" of snemma. 

Það góða við leikinn við Hauka var þó að minnsta kosti það, að þar kom í ljós hvað í þessu liði býr þegar það nær sér á strik. 


mbl.is Enn þá fjórar lotur eftir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Horft framhjá breyttri samsetningu þjóðarinnar.

Nokkur atriði virðast fara framhjá ráðamönnum þjóðarinnar, sem hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir efnahaginn. 

1. Lægsta frjósemi allra tíma. Hefur ekki bein áhrif alveg strax en þýðir, að við siglum inn í ástand þar sem fæðingartíðni innan lands nægir ekki til að viðhalda fólksfjöldanum og því síður til að viðhalda þeim aldurshópum sem er á besta vinnualdri og skila mestu í þjóðarbúið. 

2. Samtímis þessu fjölgar gamla fólkinu jafnt og þétt þannig að allar tölur um framlög í heilbrigðis- og velferðarkerfið, sem eiga að sýna að haldið sé í horfinu, eru gersamlega óraunhæfar. 

3. Breyttir atvinnuhættir vegna tækniframfara og sjálfvirkni kalla á að fólk á miðjum aldri geti endurmenntað sig. En einmitt í því efni hafa seglin verið dregin saman. 

4. Á sama tíma er vaxandi andstaða við að leyfa erlendu fólki landvist, en það eykur enn á fólksfjöldahallann, þegar þeim innfæddu, sem eiga að halda uppi hagkerfinu, fækkar.  

Brandari er að sjá nokkra af þeim nafnlausu, sem vafra um á netinu og bera fram þrjár mótsagnir: 

1. Telja óhjákvæmilegt að viðhalda stanslausum hagvexti.

2. Vilja draga stórlega úr barneignum og aðstoð við barnafólk, og jafnvel refsa fjárhagslega fyrir barneignir.

3. Krefjast þess að stöðvaður verði innflutningur erlends fólks til landsins. 

 


mbl.is Alvarleg aðför að velferðarkerfinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Leiðtoginn mikli" friðmæltist við Bandaríkin.

Í öllu uppnáminu, sem stigvaxandi spenna á Kóreuskaga hefur vakið, en virðist nú vonandi vera að hjaðna, hafa Norður-Kóreumenn aldrei minnst á það, að "leiðtoginn mikli", Kim Il-sung, lét á sínum tíma undan kröfum alþjóðasamfélagsins um að hætta við þá áætlun að smíða kjarnorkusprengjur í lok valdatíma síns.

Eftir fund með Jimmy Carter var þetta eitt síðasta verk leiðtogans árið sem hann dó.  

Að vísu var efnahagsástand í Norður-Kóreu eitthvað skárra þá en síðar varð, en engu að síður ákvað hinn mikli leiðtogi að fresta frekara framhaldi uppbyggingar á kjarnorkuherafla. 

Þegar firrtir afkomendur hans tóku við völdum, versnaði efnahagsleg staða landsins sífellt og leiddi af sér hungursneyð. 

Ef til vill var það ótti við að missa völd, sem varð til þess að hinir nýju valdsherrar ákváðu að slá tvær flugur í einu höggi, finna ytri óvin til að þjappa þjóðinni gegn, og skapa yfirráð yfir fælingarmætti gegn umheiminum. 

Hvað, sem því líður, virðist mesta stríðshættan vera liðin hjá, þrátt fyrir stóryrtar yfirlýsingar leiðtoga Norður-Kóreu. 


mbl.is Bandaríkjafloti fer ekki að Kóreuskaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einn af tíu merkilegustu viðburðum í 82 ára sögu Þristsins er íslenskur.

Á þessu ári eru liðin 82 ár síðan Douglas DC-3, "þrísturinn" flaug fyrst. Þessi flugvél hefur svipaðan sess og Ford T, hvað varðar það að gera flugið að almenningseign á svipaðan hátt og "Tin Lizzy" gerði bílinn að almenningseign. 

Um þristinn gildir svipað og um vinsælustu einkaflugvél allra tíma, Cessna Skyhawk, að ef safnað er saman helstu atriðum hvað varðar getu þessara flugvéla, þá skara þær ekki fram úr í neinu einu atriði, fljúga ekki hraðast, klifra ekki hraðast, bera ekki mest, eru ekki sparneytnastar, ekki langfleygastar o. f. frv., en þegar á heildina er litið eru vinsældirnar engin tilviljun. 

Eisenhower nefndi þristinn, jeppann, kjarnorkusprengjuna og T-34 skriðdreka Rússa meðal lykilvopnanna að sigri Bandamanna í Seinni heimsstyrjöldinni. 

Þristurinn og jeppinnn ollu byltingu í samgöngum á landi og í lofti hér á landi eftir stríðið. 

Þegar Þristurinn var að víkja fyrir nýrri og fullkomnari vélum um 1960, tók tímaritið Readers Digest til tíu merkilegustu viðburðina í sögu Þristsins. 

Nefna má það þegar 72 flóttamenn í Kyrrahafsstríðinu tróður sér inn í Þrist og hann flaug með þá alla. 

Annar Þristur stöðvaðist vegna skorts á olíu, og í neyð sinni tók flugmennirnir kókoshnetur og settu kókosolíuna á hann og flugu honum. 

Annar vængurinn á einum Þristi skemmdist svo mikið, að vélin varð óflughæf. 

En það fannst vængur af Douglas DC-2 og var settur á, og vélin flaug svona á sig komin, og hlaut heitið Douglas DC-2 og hálfur. 

Af þessum tíu atriðum var eitt alíslenskt. Þristur á skíðum frá Keflavíkurflugvelli lenti við flakið af Geysi á Vatnajökli í september 1950, en flugmennirnir gerðu sennilega þau mistök að stöðva vélina strax í stað þess að keyra hana í marga hringi og troða nógu langa og þétta braut.

Í meira en sex þúsund feta hæð var afl hreyflanna mun minna í þunna loftinu en við sjávarmál, svo að skakkaði allt að fimmtungi, auk þess sem hún þurfti meiri flugtakshraða sem þessu nam.  

Vélin komst ekki á loft og var skilin eftir. 

Árið eftir fóru Loftleiðamenn í frækinn leiðangur á jökulinn, fundu vélina, grófu hana upp úr tíu metra djúpu nýsnævi, drógu hana ofan af jöklinum og fundu sandflæmi þar sem hægt var að hefja hana til flugs.

Þeir fengu hana nánast gefins, - einhvern tíma heyrði ég að þeir hefðu borgað einn dollar fyrir hana, - og með því að selja hana björguðu þeir félaginu úr fjárhagslegum hremmingum. 


mbl.is Þristur sækir landið heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er að styttast í sjálfvirka heimsækjandann?

"Vélar unnu störfin og enginn gerði neitt." Textinn með þessari forspá um framtíðina var gerður fyrir nærri hálfri öld og hófst á orðunum:  "Mig dreymdi´að ég væri uppi árið 2012."

Þessi framtíðarsýn virðist stundum vera að nálgast þegar fréttist af nýjum og nýjum sjálfvirkum tækjum og tólum eins og sjálfkeyrandi bílum. 

Eitt fyndnasta og beittasta atriðið í þáttunum Heilsubælinu á upphafsárum Stöðvar 2 var þegar Laddi brá sér í gerfi róbóta, sjálfvirks vélmennis, sem tók að sér að heimsækja sjúklinga á spítalanum. 

Það var ekki aðeins snilldarleikur Ladda sem gerði þetta atriði að heimsklassaatriði, heldur ekki síður ádeilan á það þjóðfélag, þar sem hinir kristnu í orði eru búnir að gleyma orðum Krists: "Sjúkur var ég og þér vitjuðuð mín." 

Frétt af vélmenni sem afgreiðir mat vekur upp spurningu um það hvort það fari að styttast í sjálfvirka heimsækjandann. 

Nú sýna tölur að minni frjósemi hefur ekki verið hjá Íslendingum í nær 170 ár. 

Eitt af þeim ráðum, sem hugsanlega mætti grípa til, myndi verða óborganlegt hjá Ladda: Sjálfvirki elskhuginn. 


mbl.is Vélmenni afhendir mat
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband