15.1.2023 | 12:39
Viðbrögð við ósigrum mikilvægari en viðbrögð við sigrum.
Muhammad Ali, sem margir telja mesta íþróttamann allra tíma, sigraði að vísu í 56 bardögum á ferli sínum, en hann tapaði samt fimm bardögum.
Það þýðir að sigurbardagarnir mörgu skáru ekki úr um mikilleik Alis, heldur var það fyrst og fremst úrvinnsla hans úr ósigurum.
Hvað eftir annað stóð Ali frammifyrir beiskum ósigrum og var talinn búinn að vera.
Í tveimur ósigrum í lok ferils ofmat Ali stöðu sina, en í öðrum ósigrum vann Ali þannig úr þeim að hann barðist aftur við viðkomandi hnefaleikara, Joe Frazier, Ken Nortun og Leon Spinks og vann þá alla.
Ali barðist aðeins einu sinni við George Foreman og var jafnvel fyrir bardagann af aðstoðarmönnum sínum talinn eiga svo litla sigurmöguleika, að hafður var sérstaklega tiltækur sjúkrabíll þegar og ef Ali hefði verið barinn í klessu af hinum höggþunga Foreman.
En Ali fann upp á sitt eindæmi leið til að vinna Foreman með aðferðinni "Rope-a-dope" og sinnti i engu margítrekuðum hrópum þjálfara síns um að færa sig út úr köðlunum.
Í öllum íþróttum mega menn eiga von á ósigrum og því verkefni að vinna úr þeim og því hefur oft verið sagt að viðbrögð við ósigrum skeri úr um það hvort menn séu sannir meistarar eða ekki.
Í bloggpistli fyrir nokkrum dögum var varað við því að íslenska liðið "færi Krýsuvíkurleiðina" að verðlaunum, en nú hefur þetta samt orðið niðurstaðan.
![]() |
Óhressir með viðbrögð íslensku leikmannanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.1.2023 | 18:17
Musk tekur Henry Ford á þetta.
Uppgangur Elons Musk minnir um margt á uppgang Henry Ford einni öld fyrr. Báðir urðu meðal ríkustu manna heims á undraskömmum tíma í kjölfar byltingar á sviði bílaframleiðslu.
Bíll Fords hét Ford T og var hvort tveggja í senn svo sterkbyggður miðað við þyngd og einfaldur og ódýr í framleiðslu að hægt var samhliða færibandabyltingu við smíðina, að Ford lækkaði söluverðið jafnt og þétt þrátt fyrir stanslausar hrakspár nær allra annarra.
Aðferð Fords miðaðist við það, að með því að lækka söluverð Ford T svo mikið að margfalt fleiri hefðu efni á að eignast svona bíl en áður, myndi hin ævintýralega mikla söluaukning á bílnum skila vaxandi gróða.
Þetta tókst í fjórtán ár með þeim árangri að helmingur allra bíla heims var af gerðinni Ford T.
En velmegunin, sem fylgdi "the roaring twenties" orsakaði hrun á sölu Ford T þegar keppinautarnir fór að bjóða miklu fullkomnari dýra fyrir mun lægra verð en áður.
Úm síðustu aldamót útnefndu Ford T sem bíl aldarinnar engu að síður.
Ævintýri Elon Musk byggðist á tæknilegum framförum sem buðu upp á framleiðslu á byltingarkenndum rafbíl einmitt þegar stórbreyting á gildi rafbíla var að ganga í garð.
Musk varð fljótur til að sjá möguleika sem nægðu til að skjóta honum fram til forystu í rafbílaframleiðslu heims og upp í hóp áhrifamestu og ríkustu manna heims.
Segja má að Musk hafi náð þessum undraverða árangri með því "að taka Henry Ford á þetta."
Nú bregður hann á það ráð í ljósi aukinnar samkeppni að stórlækka verð bílanna svipað og Ford hafði gert rúmri öld áður.
Hins vegar allt óvíst um það hvort Musk reikni dæmið rétt.
Hrunið á sölu Ford T. 1924-1927 kom Ford óviðbúnum svo í opna skjöldu, að framundan var erfið barátta hjá honum til æviloka, og voru verksmiðjurnar nærri gjaldþrota.
Eins og er, virðist slíkt síður líklegt hjá Musk en Ford, en spennandi timar eru framundan í ljósi þessarar djörfu aðgerðar hans.
![]() |
Tesla lækkar verð á bílum um 20% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.1.2023 | 17:17
Snjómoksturinn er vandaverk.
Það hefur verið fjallað svolítið um mismunandi vinnubrögð við snjómoksturinn í Reykjavík hér á bloggsíðunni að undanförnu og einnig í febrúar í fyrra, og sýndar myndir af mismunandi vinnubrögðum sem sýna vel hve þau geta verið misjöfn, allt frá mislukkuðum mokstri til snilldarvinnubragða.
Dæmið frá Hólmsheiðarvegi er sláandi um eitt mikilsverðasta atriði svona moksturs, og það er að hugsað dæmið fram í tímann, allt til enda.
Borin hafa verið saman vinnubrögðin í Helsinki í desember 1966, þar sem herskari af snjómoksturmönnum var sendur til moksturs strax í upphafi snjókomunnar til þess að koma í veg fyrir að snjórinn fengi tækifæri til að troðast niður af fótum og hjólum og verða þannig að uppleggi fyrir klaka síðar meir.
Að vísu eru hvergi nærri eins miklir umhleypingar í Helsinki og í Reýkjavík, en hér "heima á klakanum" sýnir reynslan núna og í febrúar í fyrra, að það ætti að vera liðin tíð að treysta alltaf á að klakinn og hálkan eyðist fljótlega í næsta hlákukafla. li
Finnar lifðu enn við kröpp kjör 1966 og voru stríðsskaðabætur við Sovétmenn þungur baggi. Þeir urðu að beita frumstæðu handafli mestan part, og munurinn mikill á því ástandi og öllum tækjakostinum sem við eigum núna sextíu árum síðar.
Ævinlega er sú hætta fyrir hendi, að hálkutímabilið verði miklu lengra en ella af því að klakabunkum er gefinn tími til að verða mun illskeyttari og langlífari heldur en ef reynt er að koma í veg fyrir það með forvarnaraðgerðum að þeir fái næði til að koma á svipuðu ástandi og í til dæmis hinum stórfelldau slysaköflum hér um árið sem kostuðu ekki aðeins þjáningar beinbrotinna og lemstraðra, heldur einnig bein fjárútlát.
![]() |
Gremst snjólosun borgarinnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 15.1.2023 kl. 14:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.1.2023 | 16:34
Hver er þessi Hnúta og hver er þessi Norðlingaalda sem á að virkja?
Af nöfnum virkjanakosta með vatnsafli sem nefndir voru í dagblöðum í gær voru Nnúta og Norðlingaalda.
Hvernig er hægt að virkja Hnútu? Heitir áin eða fossinn það?
Nei, aldeilis ekki, það er vatnsafl Hverfisfljóts sem virkja skal, en það fljót er annað af tveimur höfuðfljótum í umbrotasvæði hinna stórbrotnu Skaftárelda 1783, sem er með óviðjafnanlegustu náttúrugersemum jarðar bæði jarðfræðilega og zxsögulega.
Hnúta er hæð, sem stendur nálægt virkjunarstaðnum, og í stað þess að nefna Hverfisfljót þykir henta að nota nafn þessarar hæðar eða fells.
Svipað er að segja um Norðlingaöldu, sem stendur nálægt hugsanlegum virkjunarstað í efri hluta Þjórsár. Þetta heiti, Norðlingaölduveita, er reyndar komið úr notkun núna, því að vegna smá breytingar á virkjunarstað heitir hún núna i skýrslum Kjalölduveita, sem er afsprengi sams konar fyrirbæris og Norðlingaalda.
Hvorugt þessara nafna gefur þó minnstu hugmynd um eðli virkjunarinnar, því að með henni er efri hluti Þjórsár í raun virkjaður, með því að taka vatn af þremur fossum í Efri-Þjórsá, sem eru meðal af fimmtán stórfossa Íslands.
Þessir Þjórsárfossar heita Hvanngilja/Kjálkaversfoss, Dynkur og Gljúfurleitarfoss, og eru tveir þeir neðstu á stærð við Gullfoss.
Þess vegna ætti veitan, sem er í raun virkjun, að heita Þjórsárfossavirkjun.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.1.2023 | 22:34
Ekki "Krýsuvíkurleiðin" í þetta sinn?
Það hefur stundum verið sagt þegar Íslendingar taka þátt í stórmótum með miklar væntingar að þegar landsliðið hefur síðan lent í erfiðleikum í byrjun og jafnvel tapað strax, hafi þeir sýnt tilhneigingu til að "fara Krýsuvíkurleiðina" að því að komast upp úr riðlinum.
Ef liðið fylgir eftir hinni góðu byrjun í framhaldi leiksins í kvöld, gæti það verið afar mikilvægt til þess að forðast það á auka álagið sem töpum fylgir, en það hefur áður komið niður á úthaldinu í mótslok.
P.S.
Áhorfendurnir íslensku áttu frábæran þátt í þeim eftirminnilega viðburði, sem þátttaka Íslendinga í mótinu átti. Ungverjar á staðnum hrifust af flutningi ungverska lagsins, sem íslenskum þulum hættir til að kalla ranglega "Ferðalok."
Síðuhafi var viðstaddur frumflutning Óðins Valdimarssonar á laginu 1959 og þá strax og síðar á plötunni upp frá því hét lagið frá hendi Jóns Sigurðssonar í bankanum "Ég er kominn heim."
Afkomendur Jóns vilja halda sig við það heiti og hinir stórgóðu lýsendur á því þegar lagið er flutt verða að fara rétt með þetta, þótt það sé ekki á sérsviði þeirra.
Ljóðið Ferðalok er eftir Jónas Hallgrímsson og sömuleiðis þau lög sem hafa verið samið við þetta þekktasta ástarljóð í sögu landsins.
![]() |
Þetta er algjörlega toppurinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.1.2023 | 12:46
Forn frægð að fá nýja vængi?
Í upphafi Seinni heimsstyrjaldarinnar kom hið gríðarlega mikilvægi járnnámanna ænsku, sem kenndar voru við Kiruna og Gellivara svo snemma í ljós, að Hitler ákvað að leggja undir sig Danmörku og Noreg á undan megin herferðinni inn í Niðurlönd og Frakkland.
Ástæðan var sú, að eina flutningaleiðin með járnið, sem var opin allt árið, lá um Narvik í Noregi, því að Kirjálabotn var lokaður vegna ísa að vetrarlagi.
Bretar voru líka vel meðvitaðir um þetta og voru með áætlun um að senda herlið til að leggja þessa flutningsleið undir sig í hröðum leiðangri og láta Norðmenn og Svía standa frammi fyrir gerðum hlut.
En Svíar og Norðmenn héldu fast við fullt hlutleysi, sem hafði haldið Norðurlöndunum utan við Fyrri heimsstyrjðldina.
Þótt Bretar hæfu að leggja tundurdufl í siglingaleiðinni aðfararnótt 9. apríl 1940, reyndust Þjóðverjar fyrri til með allsherjar innrás í Danmörku og Noreg þann dag í stíl við Leifturstríðið Í Póllandi haustið 1939 þar sem meðal annars var beitt alls þúsund flugvélum til að ná valdi í lofti yfir Danmörku og Noregi frá upphafi.
Svo mikilvæg voru yfirráð Þjóðverja fyrir þá, að þeir voru með 330 þúsund hermenn í Noregi til loka Heimsstyrjaldarinnar.
Nú er Kiruna á ný í sviðsljósinu vegna hins funds málma, sem hafa gríðarlegt gildi í orkubúskap nútímans.
Í þetta skiptið eru yfirráðin á hreinu þegar Svíþjóð hefur lagt hlutleysisstefnuna af.
![]() |
Risastór fundur sjaldgæfra jarðmálma í Svíþjóð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.1.2023 | 22:25
Snjóflóð falla þegar þeim sýnist.
Stórhríðin, sem hratt núverandi vetrarhörkum af stað fyrir þremur vikum, hefði getað hafist á skárri tíma en að berja að dyrum morguninn eftir fyrsta kvöld skyldudjammsins í upphafi helgarinnar.
En hríðin skeytti engu um þetta, heldur skall á þegar henni sýndist.
Snjóflóð gera heldur ekki hlé á því að falla á meðan verið er að hanna snjóflóðavarnirnar gegn þeim, heldur falla þau þegar þeim sýnist.
"Ég er alveg hissa á því að þessi aurskriða skyldi láta sér detta í hug að falla þarna alveg niður við bæinn" sagði Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur hér um árið, þegar hann var beðinn um útskýringu á furðulegri skriðu heim við bæjarhúsin að Lundi í Lundareykjardal.
![]() |
Enn unnið að hönnun þó þrjú ár séu frá snjóflóði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Úkraínustríðið hefur leitt í ljós breytingar í ljósi nýrrar tækni á ýmsum sviðum, svo sem í notkun dróna í hvers kyns hernaði.
Þó er almennt viðurkennt að drónabyltingin ein kemur ekki í staðinn fyrir gildi meginvopnanna, orrustuskriðdreka og orrustu- og sprengjuflugvéla.
Fréttir af því að Úkraínuher sé að fá nýjustu gerðir af orrustuskriðdrekum NATO og að kanadíski herinn að fá F-35 orrustuþotur, "tækni 21. aldar" eru því eðlilegar þegar um flestar tegundir af hernaði er að ræða.
Það breytir ekki hinu, að sagan frá Vietnam og Afganistan sýnir, að við sérstakar aðstæður kunni önnur atriði en hernaðarmáttur nýjustu vígtóla að hafa meiri áhrif en stærð og geta öflugustu hernaðartólanna út af fyrir sig.
![]() |
Orrustuþotur fyrir 2.000 milljarða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.1.2023 | 22:40
Háþróuð dönsk iðngrein á sínum tíma.
Síðuhafi fékk strax á unga aldri smjörþefinn af þeirri þróuðu baksturslist sem barst til landsins frá Danmörku fyrir rúmri öld eins og fleiri greinar iðnbyltingarinnar.
Afi var bakarameistari og iðnin gekk frá honum í arf. Það var unun að fylgjast með handverki þeirra við starfið, þar sem margir smámunir ásamt nákvæmni og færni skiptu miklu máli.
Hráefnið varð að vera fyrsta flokks, hveitið til dæmis, en einnig mátti ekkert til spara í notkun smjörs, eggja og sykurs.
Á réttu augnabliki þurfti að "lyfta" vínarbrauðslengjunum með því að opna á þeim mörg loftgöt með því að slá á þær raufar með eins konar hnífum.
Það hefur löngum loðað við Dani, hve betri þeir séu í bakstri og matargerð en til dæmis Svíar.
Ungum bakarasyni þótti eftirsóknarvert að dvelja í bakaríinu hjá afa og pabba um miðja síðustu öld og háma í sig eins marga vínarbrauðsenda, afganga, sem voru sjúklega góðir á bragðið eins og hægt var í sig að láta.
Má orða það þannig, að börn bakara hafi mörg hver verið alin upp á vínabrauðsendum á þessum árum.
Þegar iðnbyltingin þróaðist frekar á síðustu öld, leiddi það til aukinnar framleiðni og fjðldaframleiðslu sem að vísu hafði í för með sér verðlækkanir, en urðu gömlu handverksbökurunum erfiðar.
Dæmið fyrir austan í viðtengdri frétt á mbl.is er eitt af dæmunum um þetta.
![]() |
Tími svona bakaría er liðinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.1.2023 | 23:55
Best væri að hafa eiginnöfnin á búningum landsliðsmanna.
Sérkennileg notkun eiginnafna og eftirnafna hjá okkur Íslendingum er sérstakt íslenskt fyrirbrigði og hluti af þjóðarvitund okkar.
Það ætti að hafa það sem baráttumál að komast út út því ástandi að hafa aðeins eftirnafnið, merkt á landsliðstreyjur okkar, þótt aðrar þjóðir verði að hlíta almennum reglum íþróttasambandanna um það.
Það er alveg ómaksins vert að leita lausnar á því bæði nöfnin séu í merkingjum treyjanna.
Áfram Ísland! Koma svo!
![]() |
Nýtt nafn framan á landsliðstreyjunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)